Sunnudagur 1. september 2024
Síða 2212

Stútur við stýri

Aðfaranótt 22. desember var ökumaður á Hólmavík kærður vegna gruns um að vera undir áhrifum fíkniefna. Annar ökumaður sem var á ferð um Hnífsdal í síðastliðna nótt var kærður fyrir að vera undir áhrifum áfengis. Þetta kemur fram í helstu verkefnum Lögreglunnar á Vestfjörðum í liðinni viku. Höfð voru afskipti af ökumanni fólksbifreiðar í vikunni vegna blárra pera í aðalljósum, en slíkt er bannað lögum samkvæmt og ökumanninum gert að skipta um perur strax. Tveir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Báðir voru þeir í akstri á Djúpvegi. Þá var ökumaður á Patreksfirði í vikunni kærður fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar.

Meðal annarra verkefna lögreglunnar má nefna útkall að morgni 20. desember er lögregla og slökkvilið kallað að íbúð í fjölbýlishúsi á Patreksfirði vegna elds sem hafði brotist þar út. Slökkvilið var fljótt að slökkva eldinn, sem var í einu rými íbúðarinnar. Einn íbúi var fluttur á sjúkrahúsið á Patreksfirði til skoðunar vegna gruns um reykeitrun. Tjón var óverulegt og íbúinn fljótur að jafna sig. Tildrög þessa eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

annska@bb.is

Heimildarmynd um Fjallabræður

Fjallabræður syngja

Í kvöld verður sýnd heimildarmynd um Vestfirska kallakórinn Fjallabræður. Myndin verður sýnd í Háskólabíó klukkan 18:30. Fjallabræður fóru til London í haust og tóku upp nýjustu plötu sína í hinu fornfræga hljóðveri Abbey Road. Framleiðslufyrirtækið Republik var með í för og er heimildarmyndin, Þess vegna erum við hér í kvöld, um þessa frægðarför þessa einstaka hóps.

„Hugmyndin kviknaði þegar við hjá Republik heyrðum af því að til stæði að kórinn tæki upp í Abbey Road. Jón Þór, stóri bróðir Fjallabræðra, hefur unnið með okkur og komið inn í verkefni – hann sagði okkur frá hugmyndinni að fara í Abbey Road. Við bitum strax á agnið og hugmyndin of góð til að taka ekki þátt á einhvern hátt,“ segir Hannes Friðbjarnarson framleiðandi myndarinnar.

„ Við byrjuðum að fylgjast með þeim síðasta sumar, elta þá á æfingar og tónleika, taka viðtöl við meðlimi kórsins, mynda þá og fórum svo með þeim út í haust. Myndin er um Abbey Road ferðina sem slíka, inn í það blandast saga kórsins, hvaða týpur eru í kórnum og hvað það þýðir að vera Fjallabróðir,“ bætir Hannes við.

Myndin verður sem fyrr sagði sýnd í Háskólabíó í Reykjavík. Aðspurður hvort myndin verði sýnd á Vestfjörðum segir Hannes það vera stefnuna: „Okkur langar auðvitað mjög að sýna hana fyrir vestan. Bróðurparturinn af kórnum er frá Vestfjörðum og stefnan er að byrja að vinna í því strax eftir áramót að finna út úr sýningartíma og stað, væntanlega á Ísafirði.“

brynja@bb.is

Foráttuhvasst á fjallvegum

Djúp lægð gengur yfir landið í dag, með öflugum hitaskilum. Þeim fylgir ofsaveður á vestur og norðvesturlandi frá því um klukkan tíu til klukkan tvö í dag. Búist er við sunnanstormi eða -roki í dag með talsverðri rigningu og asahláku. Á Vestfjörðum verður í dag, þriðjudag, sunnan 20-28 metrar á sekúndu og talsverð rigning. Hiti 4 til 10 stig. Þegar líða tekur á daginn breytist áttin í suðvestan 15-23 metra á sekúndu og él undir kvöld þegar kólnar.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að foráttuhvasst verði á fjallvegum vestanlands, svo sem á Bröttubrekku, Holtavörðuheiði, Laxárdalsheiði, Steingrímsfjarðarheiði og á sunnanverðum Vestfjörðum.

Á Vestfjörðum er nú hálka á flestum leiðum þessa stundina en þæfingsfærð á Steingrímsfjarðarheiði og krapi á Mikladal og Hálfdán. Flughálka er á nokkrum köflum svo sem á Kollafirði á Barðaströnd, Ísafjarðardjúpi, í Steingrímsfirði og á Innstrandavegi.

Fólk er hvatt til að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón. Í og við fjalllendi er hætt við vatnsaga og krapa- og aurflóðum úr giljum og rásum.

brynja@bb.is

Atvinnutekjur drógust saman um 8,2%

Atvinnutekjur á Vestfjörðum námu 20 milljörðum krónum á árinu 2015 og höfðu lækkað um ríflega 440 milljónir frá árinu 2008. Þetta gerir samdrátt upp á 2,2%. Í Ísafjarðarbæ drógust atvinnutekjur saman um 8,2%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Byggðastofnun um atvinnutekjur á Íslandi á tímabilinu 2008-2015. Í skýrslunni kemur fram að atvinnutekjur hækkuðu mest á Suðurnesjum en drógust saman á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi.

Í Ísafjarðarbæ fækkaði íbúum um 8,9% og atvinnutekjur drógust saman um 8,2%. Utan Ísafjarðarbæjar fækkaði fólki lítillega á tímabilinu en atvinnutekjur jukust um 5,9%.

Atvinnutekjur á landinu í heild jukust um 1,2% á milli áranna 2008 og 2015, úr 968 milljörðum króna. í 979,6 milljarða króna. Á saman tíma fjölgaði íbúum á landinu um rúmlega 5,4%. Atvinnutekjur á hvern íbúa eru því enn nokkuð lægri en þær voru árið 2008, fyrir hrun.

Á Vestfjörðum varð samdráttur í Ísafjarðarbæ en aukning í heildina utan hans.

brynja@bb.is

Ekki reyktir vindlar né drukkið vín

Stefania Guðnadóttir

Í ljósi veðurhamsins sem nú geysar um íslenskar mannabyggðir er rétt að benda á frásögn Stefaníu Guðnadóttir sem birtist í ritröðinni Hornstrandir Jökulfirðir 3. bók og er um ferðalag ungs fólks á skemmtun árið 1920. Þá hafði verið ákveðið að hittast á því heimili er stærsta hafði stofuna til að dansa en á Ströndum, sem annars staðar á landinu, voru húsakynni almennt ekki mjög stór. En þegar upp rann dagurinn stóri voru veður vond og afar snjóþungt. Þurftu dansþyrstir unglingarnir að vaða snjóinn upp í mið læri og tók það Stefaníu og hennar fylgdarfólk þrjá tíma að komast á áfangastað, þá þreytt, köld og blaut.

En þegar búið var að skipta yfir í sparifötin og hlýja sér á kaffi og með‘í hjá húsmóðurinni á bænum var dansað við undirleik tvöfaldrar harmonikku fram undir morgun, eða alveg þar til húsbóndinn á heimilinu hóf húslestur sem allir hlýddu á.

Í lok frásagnar Stefaníu óskar hún ungum stúlkum nútímans þess að eiga frá sínum skemmtunum í raflýstum og glæstum sölum jafn góðar minningar og hún hefur frá þessari litlu æskuskemmtun.

Lesa má frásögn Stefaníu á Þingeyrarvefnum.

bryndis@bb.is

Þúsund fyrirtæki gjaldþrota síðasta árið

Gjaldþrot fyrirtækja voru 1.010 síðustu tólf mánuði, frá desember 2015 til nóvemberloka í ár og hafði fjölgað um 63% miðað við mánuðina tólf þar á undan þegar gjaldþrot voru 618 að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofunnar.

Gjaldþrotum fjölgaði hlutfallslega mest í fjármála- og vátryggingastarfsemi, þar sem þau nærri þrefölduðust úr 33 í 91.

Gjaldþrotum fjölgaði í öllum helstu atvinnugreinum en hvað hægast í flutningum og geymslu. 2.688 ný einkahlutafélög voru skráð síðustu 12 mánuði og hafði þeim fjölgað um 15% miðað við fyrra tímabil. Fjölgun nýskráninga var mest í leigustarfsemi og ýmissri sérhæfðri þjónustu úr 163 í 274.

Nýskráningum fækkaði í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum.

brynja@bb.is

Jólakarfa Vestra á aðfangadag

Hin árlega jólakarfa Vestra verður á sínum stað að venju á aðfangadag. Löng hefð er fyrir því að körfuboltakappar mæti á aðfangadagsmorgun á Torfnes og hiti þannig upp fyrir jólahátíðina. Yngri iðkendur (frá 1. bekk og upp úr) mæta klukkan 10 og skemmta sér til 11.00. Þá mæta rosknari og reynslumeiri leikmenn sem sprikla til klukkan 12. Allir eru velkomnir að koma og spila með.

brynja@bb.is

Jólahugleiðing

Finnbogi Hermannsson

Nú er fram undan að þruma af sér jólin. Fimmtánsorta konur hafa staðið sveittar bak við eldavélina í móðu og mistri eldhúsanna og ætla ekki að láta sitt eftir liggja. Búnar að setja upp jólagardínur og taka efriskápana.  Engin húsmóðir vönd að virðingu sinni sleppir því að taka efriskápana og vei þeirri konu sem  tekur ekki efriskápana fyrir jólin.

Stórættað fólk að norðan steikir laufabrauð og öll familían sameinast við að skera þetta út. Á mínu heimili var laufabrauðið jafnan keypt á söluborði tónlistarskólans á Silfurtorgi. Af einhverjum ástæðum lenti búnkinn einatt upp á efriskápunum. Svona gekk þetta áratugum saman og gott ef laufabrauðsleifar eru ekki enn þá uppi á efriskápunum í eldhúsinu frá þessari tíð.

Alténd var þó verið að styrkja gott málefni.

Lifandi jólatré hefur alltaf verið keypt hjá björgunarsveitinni á Ísafirði. Einkennilegt að tala um lifandi jólatré sem er orðið hálf dautt og verður steindautt á þrettándanum. Haldið er niður í slysavarnahús og trén litin haukfránum sjónum. Svo kemur maður auga á gám fyrir utan og þar eru auðvitað fallegustu trén. Þeir ætla að svæla fyrst út trjám með þremur toppum og boginni rót sem ekki er hægt að ná réttum! Liprir björgunardrengir fara með manni út og tosa í fleiri tré úr gáminum með ærnu erfiði strákagreyin. Þau reynast þá bara vera eins og hin og þetta var víst eini gámurinn. Svo er hringsólað um ískalt sýningarsvæðið í Guðmundarbúð og loks tekin ákvörðun. Og þá er tréð  orðið það langfallegasta. Sett í grisju, borgað og borið út í bíl.  Stoltur heimilisfaðir hengir tréð svo út í bílskúr þar sem er jökulkuldi.

Sérstök athöfn þegar jólatréð er tekið inn kvöldið fyrir Þorláksmessu. Sagað neðan af því úti á tröppum og ef það er of svert þarf að höggva utan af því.  Tekst oft ekki fyrr en í þriðju tilraun að saga tréð rétt svo það standi nú vel í fætinum. Komist tréð ekki ofan í fótinn þarf að höggva sem áður segir utan af því og til þess nota ég flugbeitta skaröxi.  Alls ekki bolöxi. Ég er jafnan búinn að brýna öxina vel áður en lagt er til atlögu við jólatréð. Nú er komið að konunni að sjóða vatn í stórum potti. Hann borinn fram í gang og tréð sett ofan í sjóðandi vatnið. Látið standa þar nokkra hríð og drekka í sig vökvann. Engin sjáanleg breyting verður á trénu en þetta var einhvern tímann ráðlagt af Ráðleggingarstofu Kvenfélagasambands Íslands. Þær vaða sko engan reyk þær kvinnur.

Jæja, kemur að því að trénu er stungið niður í fótinn. Þá byrjar fyrst ballið að ná því réttu. Ég hef leyft mér að setja lóðbretti á jólatré og það oftar en einu sinni þegar ekki varð samkomulag um að tréð stæði rétt. Þrjár skrúfur eða fjórar ganga inn í trjábolinn til að stífa baðminn af. Verður að gæta þess að skrúfa allar jafnt ef ekki á illa að fara.

Tréð á endanum borið til stofu og þá verður að meta hvaða hlið er fegurst. Hugsa mér þá að jólatré hafi fjórar hliðar. Eftir nokkra snúninga finnst rétta hliðin. Er þá jafnan minnst á jólatréð okkar á Núpi í Dýrafirði þegar hross komust í tréð úti við og átu helminginn af því. Bithaga hrossanna var stillt inn í horn á stofunni og varð engum meint af. Þetta var svokallað lifandi jólatré sem foreldrar mínir  sendu okkur að sunnan. Þarf varla að taka slíkt fram þar sem hross éta ekki allajafna plastjólatré.

Enn er lóðbrettið sett á tréð og það rétt endanlega af. Einhver verður svo að skríða undir tréð og hella vatni í fótinn og skal slíkt endurtekið eftir þörfum. Að skreyta jólatréð hefur verið í verkahring kvenleggs heimilisins, en húsbóndinn séð alfarið um meðferð bitvopna.

Hangiketið er sérstakur kafli í undirbúningi jóla. Mörg hin síðari ár hefur það komið norðan úr landi. Það er göfugt kjöt sem gengið hefur í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði sem lifandi fé. Bæði læri og frampartur. Heimareykt við mó og sauðatað og er óviðjafnanlegt. Ung kona annast reykinguna og finnur af jómfrúrlegum  næmleik sínum hvenær nóg er reykt.

Nú þarf að ákveða stærð bitanna sem eiga að fara í pottinn. Það er á valdi húsmóðurinnar. Lærið yfirleitt í þrennt og hækillinn af. Framparturinn í fernt. Skorið inn að beini allan hringinn. Kemur svo til Teits og Siggu að saga hvorttveggja og óútskýrt hvers vegna ævinlega er byrjað á lærinu. Sögin alltaf hvítþvegin áður en látið er til skarar skríða. Gott er að hjálpast að við að saga og heldur þá konan ketinu á bretti en vér sögum beinið hátíðlega með fumlausum handtökum. Þurrka verður af söginni á milli sagarfara svo ekki verði allt útklístrað.

Stóri hlandpotturinn á Hóli hefur þegar hér er komið sögu verið sóttur niður í kjallara. Hann er fylltur köldu vatni á eldavélinni samkvæmt  tilmælum Ráðleggingastofu húsmæðra. Þær vita hvað þær syngja. Líður nú og bíður og kemur suðan upp á ketinu eftir langa hríð. Þá er straumurinn minnkaður og soðið lengi lengi. Loks er slökkt undir og vatn og ket látið kólna í pottinum. Það er einnig aðferð Ráðleggingastofunnar.  Áður fyrr var allt fært upp sjóðheitt með steikargaffli eða spaða sem Steinólfur bóndi í Fagradal kallaði uppfærslujárn heitrar soðningar. Hangiketið bíður nú síns tíma á köldum stað og klútur breiddur yfir.

Á mínu heimili hefur tíðkast að húsfreyjan búi til það sem kallað er frómass. Matarlím þarf í frómass og eins gott að gleyma ekki matarlíminu í jólainnkaupunum. Einnig útheimtir frómassið eða frómassinn eins og sumar kalla þetta sérrí. Ég sem þetta rita er þá sendur í Ríkið að kaupa sérrí. Alltaf sama sérríið, Rich Bold. Eru það einu skiptin sem ég fer í Ríkið án samviskubits því ég er að kaupa þetta fyrir konuna. Sérríið er alltaf sett á gólfið í pottaskápnum þangað til þess er þörf í frómassinn. Og ég verð að segja fyrir mína persónu að betri frómass hef ég hvergi fengið en það sem hún blessunin býr til.

Þegar hér er komið ræðunni mega sjálf jólin ganga í garð klukkan 18:00 á aðfangadag. Verða þá allir mjög skyndilega voða góðir og kyssast og faðmast; gleðileg jól. Jafnvel verstu illmenni meyrna um sinn og verða með öllu afhuga illvirkjum sínum. Rámar jafnvel í  jólabarnið sem fæddist innan um rollur og asna í Betlehem og engum datt í hug að vísa þeim úr landi. Vitringar komu meira að segja með jólagjafir og voru það fyrstu jólagjafirnar, gull reykelsi og myrra. Langt í það að fótanuddtækið og sléttujárnið yrðu  fundin upp,  hvað þá segularmbandið.

Multum absurdum in capite vaccae er latína.

Sem þýðir á íslensku Margt er skrýtið í kýrhausnum.

Gleðileg jól

Finnbogi Hermannsson

Grýla, jólakötturinn og jólasveinarnir

Andrea Sigrún Harðardóttir

Jólin eru á næsta leiti með tilheyrandi umstangi. Jólasveinarnir koma hver á eftir öðrum til byggða og kannski koma Grýla, Leppalúði og jólakötturinn í kjölfarið. Grýla er víst orðinn gikkur þegar kemur að mat, eins og svo margir í okkar alsnægtarsamfélagi, vill helst ekki venjulegt fæði, eins og óþekk börn fyrir jólin, heldur innfluttar krónhjartasteikur eða akurhænur. Hún vill ekki frekar en aðrir vera heimóttarleg afdalamanneskja sem heldur í gamla siði og venjur. Það er svo lummó. Nú breytir hún þemanu um hver jól og hendir gamla skrautinu út um hellismunnann í lok hverrar hátíðar og útvegar nýtt fyrir næstu jól. Hvað ætli þemað sé hjá henni í ár? Kjarr eða mosi í skreytingunum eða fjalldrapi og fjallagrös?  Eða kannski einiber og mistilteinar?

Leppalúði hlýðir sinni spúsu eins og góðum nútímamanni sæmir og tileinkar sér nýjungarnar enda hættir hann ekki á neitt, vitandi það að hann er þriðji eiginmaður Grýlu. Já, hann er sko númer þrjú í röðinni. Boli dó ellidauða og skildi Grýlu eftir með fjölda barna og Gust át hún, svo að það er eins gott fyrir Leppalúða að halda sér á mottunni.

Hvað jólasveinana varðar finnst mér full ástæða til að tortryggja þá. Eitt sinn voru þeir óvættir sem rændu mat af fólki fyrir jólin og voru ekkert að fela ótuktarskapinn en nú eru þeir klæddir í útlend föt að hætti heilags Nikulásar og þykjast vera góðir, gefa krökkunum í skóinn og dansa við þá á jólaböllum. Reyna að sýnast dálítið einfaldir og barnalegir til að þeirra innri maður sjáist síður. Minna á útlend stórfyrirtæki sem hafa stofnað dótturfyrirtæki hér á landi og láta sem þau sýni samfélagsmeðvitund með því að styðja við hin og þessi málefni, vera góð og svona,  á meðan þau svíkja undan skatti og flytja ágóðann í burtu í skjóli nætur eða ræna samfélagið eins og jólasveinarnir gerðu í denn.

Þó svo að fjármálaráðherrann okkar hafi fullyrt að Íslendingar hefði sjaldan haft það eins gott og núna, þá grunar mig að sá hópur í samfélaginu sem lendir í jólakettinum í ár sé nokkuð fjölmennur. Jólakötturinn opinberar ekki iðju sína en smjattar hins vegar á fórnarlömbum sínum í skuggum og skotum. Hann veit líka að þeir sem ekki þurfa að óttast jólaköttinn eru ekkert að eyðileggja jólastemninguna fyrir sér og sínum með því að kíkja í skotin og skuggana og fylgjast með því sem hann fæst við. Kisi fær því frið til að sinna sínum illverkum og nýtur lífsins í íslenska góðærinu eins og aðrir í hans fjölskyldu.

Vera kann að einhverjum þyki illa farið með gamla, íslenska þjóðtrú, að snúa út úr sögunum og yfirfæra þær yfir á nútímaveruleika. Hvers vegna mega jólasveinarnir ekki vera góðu gæjarnir og gefa krökkum í skóinn, leika við þá og vera fyndnir og skemmtilegir? Jú, vissulega mega þeir það. Hins vegar er full ástæða til að benda á að þessar verur stóðu hér áður fyrr fyrir það sem almenningur óttaðist og kveið mest. Að geta ekki fætt og klætt sig og sína. Verurnar voru táknmynd þess að venjulegt fólk gat hugsanlega ekki fagnað jólahátíðinni vegna þess að matur og föt voru ekki til.

Við getum rifist fram og til baka um það hvort jólin séu kristin hátíð eða heiðin, hvort fara eigi með börn í kirkjuheimsóknir fyrir jólin eða ekki, hvort leggja beri áherslu á jólaguðspjallið og trúna eða þjóðtrúna og sprellið. Satt best að segja skiptir mig engu máli hver uppruninn er. Fyrir mér tákna jólin lífið og ljósið, náungakærleika og væntumþykju. Þau snúast um það að vera manneskja, að sýna náunganum samhygð og minnast þeirra sem farnir eru. Að láta ljósið skína á alla menn. Ljósið getur birst á svo marga vegu og það er auðvelt að beina því inn í sálir fólks, ef við einungis reynum og hugsum. Ljósið getur verið örlítið bros til þeirra sem líður illa, ljósið getur verið aðstoð við þann sem á lítið, ljósið getur verið að sýna auðmýkt og þakka fyrir það sem við eigum en ekki líta á það sem sjálfsagðan hlut. Við getum líka fagnað hækkandi sól og því að daginn sé farið að lengja. Það ljós hjálpar mörgum sem glíma við dimmu í sálinni. Þeir trúuðu fagna komu frelsarans, ljósi lífsins og gleðjast yfir fæðingu hans.

Er það ekki verðugt markmið að gera öllum kleift að halda upp á jólahátíðina, burt séð frá því hvaða merkingu þeir leggja í hana? Er það ekki það sem mestu máli skiptir? Að við gleymum okkur ekki í umbúðunum og átinu heldur minnum okkur sjálf á að við erum manneskjur og berum ábyrgð á öðrum manneskjum, ekki bara okkar sjálfum og okkar nánustu heldur öllum. Hvort sem við trúum á mátt okkar og megin, sólina, orkugjafa sólkerfisins eða ljós heimsins, Jesú Krist, þá hljótum við að geta sameinast um það sem mestu skiptir, náungakærleikann. Við eigum í sameiningu að geta séð til þess að enginn þurfi að óttast þjófótta jólasveina, jólaköttinn eða Grýlu, hvort sem við trúum á þau í raun og veru eða lítum á þau sem táknmyndir skorts og kvíða.

Andrea Sigrún Harðardóttir

Bókakvöld á Bryggjukaffi

Það er ekki ofsögum sagt að hér á landi búi bókaþjóð og ansi margt sem verpist um þá iðju að skrifa bækur og lesa þær og má nú segja að sé háannatími á hjá báðum hópum. Rithöfundar flengjast um allar koppagrundir til að kynna nýjasta sköpunarverkið og lestrarhestarnir margir hverjir geta ómögulega beðið fram að jólum með að byrja að lesa eitthvað af þeim fjölmörgu titlum sem finna má í hafsjó jólabókaflóðsins.

Flateyringar ætla að taka forskot á sæluna á föstudagskvöldið og bjóða gestum og gangandi að taka þátt í viðburði sem kallast „Jól um bækur.“ Þar verður gluggað í nokkrar af jólabókunum, skrafað og skeggrætt. Kristján Torfi Einarsson segir frá Verjandanum eftir Óskar Magnússon, Sigurður Hafberg fjallar um Passíusálma eftir Einar Kárason, Ágústa Guðmundsdóttir veltir fyrir sér Utan þjónustusvæðis eftir Ásdísi Thoroddsen, Fjölnir Ásbjörnsson deilir reynslu sinni af Drunga eftir Ragnar Jónasson og Jóhanna G. Kristjánsdóttir segir frá bók sinni Þorp verður til og einnig tekur hún til umfjöllunar nýjustu bók Vigdísar Grímsdóttur Elsku Drauma mín.

Bókakvöldið verður á Bryggjukaffi og hefst klukkan 20.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir