Föstudagur 17. janúar 2025
Síða 2212

Forritunarnámskeið fyrir krakka á Ísafirði

Minecraft leikurinn hefur notið mikilla vinsælda.

Krökkum á Ísafirði og nágrenni gefst síðar í mánuðinum kostur á því að sækja forritunarnámskeið, þar sem þau yngri geta lært grunninn í Scratch forritun og hin eldri grunnaðgerðir í Python. Námskeiðin verða haldin í FabLab smiðjunni dagana 19.-21.maí. Scratch námskeiðið er fyrir krakka í 1.-4.bekk og verður þar kennt hvernig fá má fígúrur til að labba, hoppa, snúa sér í hringi og dansa. Hannaðir verða bakgrunnar sem breytast eftir aðstæðum, framkölluð hljóð og útbúinn einfaldur tölvuleikur. Scratch byggir á sömu aðferðum og flest forritunarmál sem notast er við í dag en í einfaldari mynd þar sem notandinn þarf ekki að skrifa texta heldur púslar hann saman aðgerðum til að ná fram þeirri virkni sem hann óskar eftir. Þeir sem hafa lært að nota Scratch hafa því ákveðið forskot þegar kemur að því að læra hefðbundna forritun. Námskeið er tvö skipti þrjá tíma í senn.

Python námskeiðið er fyrir krakka í 5.-7.bekk og munu þau þar meðal annars læra að hakkast í Minecraft með því að nota eigin kóða og tengja einfalda rafrás og skrifa kóða fyrir Minecraft sem kveikir á ljósdíóðu. Námskeiðið er þrjú skipti, þrjá tíma í senn.

Kóder.is eru hugsjónasamtök sem vilja með starfi sínu gera forritun aðgengilega fyrir börn og unglinga úr öllum þjóðfélagsstigum og með því að kynna fyrir þeim forritun opna þeim nýjar dyr innan tölvuheimsins. Í stað þess að vera einungis neytendur á afþreyingarefni og tölvuleikjum efla þau eigin rökvísi, sköpunargáfu og læra vandamálagreiningu frá unga aldri.

Hægt er að skrá þátttakendur og fá frekari upplýsingar inn á www.koder.is

annska@bb.is

Hver er framtíð litlu sjávarþorpanna?

Fróðlegt málþing á Flateyri um helgina.

Á föstudaginn hefst málþingið Vestfirska vorið á Flateyri. Á málþinginu verður staða lítilla sjávarbyggða til umræðu. Ein þeirra sem hafa komið að undirbúningi málþingsins er Jóhanna Kristjánsdóttir kennari og mun hún einnig flytja erindi á málþinginu. „Það vita allir hver þróunin hefur verið í litlum sjávarbyggðum og vonandi fást einhver svör við þessum málefnum sem brenna á fólki eins og  hvernig fólk sér fyrir sér framtíð litlu byggðarlaganna við sjávarsíðuna,“ segir Jóhanna.

Málþingið hefst kl. 13 á föstudag og stendur fram eftir degi og hefst svo aftur kl. 10 á laugardag og ráðgert að slíta því seinnipartinn. Það verður haldið á Hafnarbakka 8, kaffistofu gamla hraðfrystihússins sem nú hýsir Ísfell hf. Fyrirlesararnir eru blanda af fræðimönnum og reynsluboltum frá Flateyri.

Þrátt fyrir að málþingið sé haldið á Flateyri og með önfirskan fókus þá segir Jóhanna að staða Flateyrar sé ekkert frábrugðin stöðu fjölda annarra þorpa hringinn í kringum landið. „Það hefur verið langur aðdragandi að þessari byggðaþróun í nafni hagræðingar og maður spyr sig hvort það sé ekki hagstæðast að allir verði búsettir á suðvesturhorninu,“ segir hún.

Aðspurð hvernig hún sér fyrir sér framtíð litlu sjávarþorpanna og Flateyrar segir hún erfitt að gera sér mynd af því. „Þess vegna erum við að halda þetta málþing með fræðimönnum í félagsfræði, hagfræði og sagnfræði ásamt því að heyra sjónarmið heimamanna. Hvað Flateyri varðar er róðurinn erfiður þegar það er búið að taka alla innviði í burtu og ekkert nema skólinn eftir sem þó er verið að krafsa í í nafni hagræðingar.“

Jóhanna tekur fram að allir eru velkomnir á málþingið til að hlýða á erindin endurgjaldslaust en sveitarfélögum, stærri stofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum býðst að styrkja málþingið með 25 þúsund króna þátttökugjaldi.

Fyrirlesarar verða Dr. Þóroddur Bjarnason, félagsfræðingur, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, Dr.Guðmundur Hálfdánarson, sagnfræðingur, Jóns Sigurðssonar prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, Dr. Kristinn Hermannsson, hagfræðingur, lektor við Glasgow-háskóla, Skotlandi. Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur, Flateyri, Kristján Torfi Einarsson, útgerðarmaður og sjómaður, Flateyri og Jóhanna G. Kristjánsdóttir menntunarfræðingur Flateyri.

Nánar um málþingið

Nærri 200 bátar á strandveiðum

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar telur að vel á annað hundrað strandveiðibáta hafi verið á sjó í dag, á fyrsta degi strandveiðitímabilsins 2017. Heildarfjöldi skipa á Íslandsmiðum um hádegisbilið var um 340 en þegar erlend skip og ýmis línu- og togskip hafa verið verið dregin frá má gera ráð fyrir að hátt í 150 strandveiðibátar hafi verið á sjó. Þeir voru nærri tvö hundruð þegar mest lét í morgun.

Sóknin hefur verið einna mest við norðvestanvert landið, frá Vestfjörum og út af Ströndum, allt til Eyjafjarðar. Þá hafa allmargir bátar verið að veiðum út af sunnanverðum Austfjörðum og Hornafirði. Leiðindaveður suðvestanlands þýðir að færri bátar hafa verið þar að veiðum

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fylgist grannt með sókn strandveiðibáta næstu vikur og mánuði. Þá mun Landhelgisgæslan sinna virku eftirliti af sjó og úr lofti allt strandveiðitímabilið.

Tvær meistaraprófsvarnir í Háskólasetri Vestfjarða

Háskólasetrið er til húsa í Vestra.

Tvær meistaraprófsvarnir verða í Háskólasetri Vestfjarða í dag, er þær Iona Flett og Kirsten M. McCaffrey verja lokaritgerðir sínar í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun. Fyrri vörnin hefst klukkan 14 og Iona verja ritgerðina How aquaponics can improve aquaculture and help feed a hungry world sem fjallar um samræktun fiska og grænmetis. Aquaponics (samræktun) er aðferð við að sameina sjávareldi og vatnsrækt. Þessi aðferð bætir ekki aðeins vatnsgæði fiskeldis heldur hámarkar hún einnig nýtingu þeirra auðlinda sem notaðar eru í fiskeldi og grænmetisrækt.

Klukkan 17 fer vörn Kirsten fram á ritgerð hennar sem ber titilinn Conservation of Coastal Sand Dune Systems: Social Perceptions of Prince Edward Island National Park Sand Dune Restoration Efforts. Í ritgerðinni eru skoðuð áhrif aðgerða til verndar Cavendish ströndinni í þjóðgarðinum á Prince Edwards eyju í Kanada fyrir ágangi ferðafólks. Niðurstöðurnar geta nýst þjóðgarðinum við að endurmeta hvaða aðgerðir eru árangursríkar og hvort ástæða sé til að breyta framtíðarskipan verndunar sandaldanna. Í ritgerðinni eru einnig lagðar til tillögur um hvernig ná megi fram frekari verndun í gegnum fræðslu gesta með það að markmiði að varðveita sandöldurnar fyrir komandi kynslóðir.

Meira um verkefnin má lesa á vef Háskólaseturs Vestfjarða www.uw.is/

annska@bb.is

Vorþytur í Hömrum

Vortónleikaröð Tónlistarskóla Ísafjarðar hefst í kvöld með hinum árlega Vorþyt, er lúðrasveitir tónlistarskólans blása vorið í bæinn, reyndar er allt útlit fyrir að þær blási í kvöld fullbúnu sumri um Hamra þar sem veður er með eindæmum gott. Tónleikarnir verða að þessu sinni haldnir í Hömrum, sal tónlistarskólans, undir yfirskriftinni Lúðrapopp en á efnisskránni verða þekkt popplög í útsetningu Madisar Mäekalle og munu þekkt popplög hljóma, til að mynda eftir Sting, Queen, Alice Cooper, David Bowie, Elton John, Paul McCartney og Mike Oldfield. Sérstakur gestur á tónleikunum verður Gummi Hjalta. Dagskráin á tónleikunum er mjög fjölbreytt

Á tónleikunum koma fram tvær lúðrasveitir: Skólalúðrasveit T.Í. sem skipuð er nemendum skólans og Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar sem er skipuð blásurum á ýmsum aldri sem margir hafa mikla reynslu í farteskinu. Lúðrasveitirnar skipa mikilvægan sess í starfi Tónlistarskólans og taka þær virkan þátt í atburðum og uppákomum í Ísafjarðarbæ. Það er ómissandi að eiga Lúðrasveit til að leiða 1. maí gönguna, spila á 17. Júní,  við tendrun jólatrésins og marga aðra viðburði. Þess má einnig geta að Lúðrasveit TÍ hefur oft komið fram á tónleikum Aldrei fór ég suður og nú síðast var hún einmitt opnunaratriði tónlistarhátíðarinnar.

Tónleikarnir verða  sem áður sagði í Hömrum og hefjast þeir kl. 20. Aðgangseyrir að tónleikunum er 1.000 kr. en ókeypis fyrir börn á grunnskólaaldri.

annska@bb.is

Atvinnuleysi ekki minna í áratug

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 202.800 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í mars 2017, sem jafngildir 84,9% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 199.300 starfandi og 3.400 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 83,4% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 1,7%. Samanburður mælinga fyrir mars 2016 og 2017 sýnir að atvinnuþátttaka jókst um 3,1 prósentustig. Fjöldi starfandi jókst um 15.500 manns og hlutfall starfandi af mannfjölda um 4,7 stig. Atvinnulausum fækkaði um 3.800 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu lækkaði um 2,1 stig.
Þegar tölur um vinnuafl eru skoðaðar þá hefur atvinnuleysi ekki mælst jafn lágt í Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands síðan í nóvember 2007 þegar atvinnuleysi mældist 1,3%.

Ók undir áhrifum fíkniefna

Í síðustu viku var einn ökumaður var kærður fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Sá var stöðvaður í akstri á fjallveginum Hálfdán í Vesturbyggð að kveldi 27. apríl. Tólf ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni. Flestir þeirra voru í akstri í Strandasýslu og Ísafjarðardjúpi.

Aðfaranótt 30. apríl var svokallaðri neyðarsól skotið á loft yfir Holtahverfi í Skutulsfirði. Lögreglan hafði upp á þeim sem skaut þessu verkfæri á loft. Engin hætta var á ferðum og tilgangurinn ekki annar en sá að prófa. Um er að ræða neyðartæki sem eingöngu er ætlað að nota í neyð og misnotkun getur gert það að verkum að ekki verði brugðist við þegar neyð skapast.

Eitt slys var tilkynnt til lögreglunnar. Það var utan vegar um miðjan dag þann 1. maí er 12 ára gamall drengur féll af litlu fjórhjóli og meiddist á öxl. Hann var fluttur til læknisskoðunar á Hólmavík. Lögreglan er með atvikið til rannsóknar. Um virðist vera að ræða vélknúið fjórhjól af minnstu stærð.

Lögreglan vill koma á framfæri 1. maí varð árleg breyting á þeim tíma sem börn mega vera úti, skv. leyfi forráðamanna. Í þeim segir að frá 1. maí til 1. september megi 12 ára börn og yngri vera úti til kl.22:00 og 13 – 16 ára börn vera úti til kl.24:00. Miðað er við afmælisárið.

Hjóla í vinnuna næstu þrjár vikunnar

Vinnustaðaátakið „Hjólað í vinnuna“ hefst í næstu í dag. Þótt titill átaksins beinist einkum að hjólamáta er full ástæða til að minna á að megintilgangur átaksins er að landsmenn sleppi blikkbeljunni til og frá vinnu og noti eigið afl til að koma sér á milli.

Í reglum átaksins stendur: „Allir geta tekið þátt í Hjólað í vinnuna svo framarlega sem þeir nýta eigin orku til og frá vinnu þ.e. hjóla, ganga, hlaupa, nota línuskauta o.s.frv. Þeir sem nýta almenningssamgöngur geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin eða hjóluð er til og frá stoppistöð.“

Hér gefst því gott tækifæri til að hvíla einkabílinn. Fátt jafnast á við góða útivist og hreyfingu. Það er bæði umhverfisvænt og heilsusamlegt að ferðast fyrir eigin „vélarafli“ og fyrirtækjum gefst kostur á að halda til haga hve margir taka þátt og bera sig saman við aðra vinnustaði, búa til skemmtilega keppni.

Átakið hefst í dag maí og lýkur 23. sama mánaðar.

„Hrein aðför að ferðaþjónustu á Íslandi“

Ferðamenn á Látrabjargi.

Það er staðreynd að afkoma ferðaþjónustufyrirtækja versnaði töluvert milli áranna 2015 og 2016 þrátt fyrir fjölgun ferðamanna. Af hverju? „Jú tugprósenta högg í formi launahækkana og gengisstyrkingar vega afar þungt í vinnuaflsfrekri útflutningsatvinnugrein sem ferðaþjónustan er,“ segir í grein Daníels Jakobssonar, formanna Ferðamálasamtak Vestfjarða sem birtist á bb.is í gær.

Í greininni gagnrýnir Daníel boðaða hækkun á virðiskaukaskatti ferðaþjónustunnar. „Ef virðisaukaskattshækkun á ferðaþjónustuna verður að veruleika mun það hafa alvarleg áhrif á rekstrarmöguleika fjölmargra fyrirtækja í greininni og hafa sérstaklega slæm áhrif á landsbyggðinni þar sem svigrúm fyrirtækjanna er minnst,“ skrifar hann.

Daníel Jakobsson.

Hann segir það grafalvarlega handvömm hjá stjórnvöldum að leggja til meira en tíu prósentustiga skattahækkun á ferðaþjónustuna án þess að hafa neitt í höndunum sem sýnir hvaða áhrif það mun hafa og algerlega án samráðs við aðila í greininni, hvort sem er hagsmunasamtök eða aðra.

Daníel ber saman þessa auknu skattheimtu við umræður um veiðigjöld í sjávarútvegi. „Þar hefur mikil áhersla verið lögð á samráð við greinina sjálfa. Ná þurfi að ná sem víðtækastri sátt um umhverfi sjávarútvegsins og að passa þurfi sérstaklega upp á þau byggðaáhrif sem tekjuöflun ríkissjóðs af sjávarútvegsfyrirtækjum hafi í hinum dreifðu byggðum.

Allt eru þetta skynsamleg rök, enda er upphæð veiðigjalda sem þar er rætt um talin í nokkrum milljörðum króna. Það vekur því furðu að þegar rætt er um gjaldahækkun á ferðaþjónustu sem nemur fjórum sinnum hærri upphæð – fjórum sinnum veiðigjöld – skuli slík hækkun lögð á með einu pennastriki. Það er gert án samráðs við atvinnugreinina sjálfa og án greininga á raunáhrifum á ferðaþjónustufyrirtæki og byggðalög sem nú treysta á ferðaþjónustu sem undirstöðuatvinnugrein í héraði og það allan ársins hring í sífellt meiri mæli.

Slíkt verður ekki skilið nema sem hrein aðför að ferðaþjónustu á Íslandi og fullkomin óvirðing gagnvart fólki sem starfar í greininni sem hefur á undangengnum árum unnið mikilvægt starf við að rétta við þjóðarbúskapinn þegar mest lá við,“ skrifar Daníel.

Greinin í heild sinni

Lífeyrissjóðunum og verkalýðsforystunni sendur tónninn

Að vanda var gengið fylktu liði frá verkalýðshúsinu niður í Edinborgarhús.

Ræðumenn dagsins á Ísafirði sendu verkalýðsforystunni og stjórnum lífeyrissjóða brýningu á baráttufundi í tilefni af 1. maí hátíðarhöldum stéttarfélaganna á Ísafirði. Bergvin Eyþórsson sjómaður og trúnaðarmaður hjá Verk Vest var aðalræðumaður dagsins og gerði yfirskrift dagsins að umræðuefni. Þar hvatti hann stjórnir lífeyrissjóða til að byggja íbúðir á hagstæðum kjörum fyrir sjóðfélaga. Bergvin sat í samninganefnd sjómanna í kjaradeilu þeirra við útgerðarmenn í vetur sem lauk eftir lengsta sjómannaverkfall sögunnar. Í ræðu sinni setti Bergvin kröfur sjómanna í samhengi við hagnaðartölur úgerðarinnar.

„Í desember settumst við niður með útgerðarmönnum og settum fram kröfur sem í heild sinni, fyrir alla útgerðarmenn á landinu, voru metnar á 3.750 milljónir á ári. Útgerðarmenn, sem skiluðu 75 þúsund milljónum í hagnað árið áður, höfnuðu öllum okkar kröfum, sögðu það verða banabita útgerðanna að greiða þetta,“ sagði Bergvin.

 

Kolbrún Sverrisdóttir, verkakona og trúnaðarmaður hjá Verk Vest, sendi verkalýðsforystunni og lífeyrissjóðakerfinu tóninn í pistli dagsins. Sagði Kolbrún forystuna hafa fjarlægst verkafólk ásamt því vera komin í einkavæðingu ASÍ með atvinnurekndum. Þessu yrði að breyta og hún tryði því að nú væri tími verkakólks innan ASÍ kominn. „Lífeyrissjóðir landsins eru fremstir í flokki við að arðræna alþýðu þessa lands. Þar sitja saman verkalýðsrekendur og kollegar þeirra úr röðum atvinnurekenda. Þarna sameinast þeir við að gambla með lífeyri alþýðunnar sem ekkert hefur um þessa stóru sjóði sína að segja. Þeirra er að greiða, þegja og þiggja.

Það myndi gleðja mig mikið ef Verkalýðsfélag Vestfirðinga hefði forgöngu um að þeir sem eiga lífeyrissjóðina, það er launafólk, myndi kjósa og velja stjórnendur þeirra. Ég veit ekki hvað atvinnurekendur myndu segja ef verkalýðurinn mætti kjósa meirihluta stjórnar í fyrirtækjunum þeirra,“ sagði Kolbrún í ræðu sinni á 1. maí hátíðarhöldum á Ísafirði.

Nýjustu fréttir