Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2212

Íslandsmeistaramót í hrútaþukli á Ströndum

Það verður sannkölluð stórhátíð í Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum sunnudaginn 20. ágúst. Þá verður í fimmtánda skipti haldið Íslandsmeistaramót í hrútadómum og hefst skemmtunin kl. 14. Þessi íþróttagrein sem í daglegu tali er kölluð hrútaþukl er uppfinning Strandamanna og hefur verið haldin árlega á Sauðfjársetrinu frá árinu 2003. Á síðasta ári mættu um 500 manns til að horfa á keppnina og yfir 70 tóku þátt.

Kaffihlaðborð og kjötsúpa verður í boði á Sauðfjársetrinu, en ókeypis verður inn á safnið og sýningar þess. Þar er m.a. hægt að skoða fastasýninguna Sauðfé í sögu þjóðar og tvær sérsýningar sem heita Álagablettir og Sumardvöl í sveit, en sú síðastnefnda var opnuð haustið 2016 eftir síðustu hrútadóma. Samhliða hrútadómunum er haldið stórhappdrætti í tilefni dagsins og í vinning eru úrvals líflömb af Ströndum og úr Reykhólasveit. Miðar í lambahappdrættinu eru seldir á staðnum, en fyrir þá sem komst ekki er líka hægt að kaupa miða með því að hringja í Ester framkvæmdastjóra í síma 693-3474.

Hrútadómarnir fara þannig fram að helstu sauðfjárspekúlantar landsins sem jafnframt eru í dómnefnd velja og meta fjóra íturvaxna Strandahrúta með öllum nútíma tækjum og tólum. Dómnefndin gefur þeim stig fyrir ýmsa eiginleika eftir stigakerfi sem bændur og vanir hrútaþuklarar kunna og raðar þeim í gæðaröð. Oftast eru valdir dálítið ólíkir hrútar, alls ekki þeir fjórir bestu. Síðan reyna keppendur sig við matið á hrútunum með hendurnar einar og hyggjuvitið að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir.

Keppt er í tveimur flokkum og allir geta verið með. Þeir sem kunna ekki á stigakerfið keppa í flokki sem kenndur er við óvana og þeir eiga að raða hrútunum í röð eftir því hversu miklir gæðagripir þeir eru og útskýra hvernig þeir fundu röðina út. Þeir sem keppa um Íslandsmeistaratitilinn þurfa hins vegar að dæma hrútana eftir stigakerfinu sem bændur gjörþekkja. Afar veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum.

Fyrir utan heiðurinn af því að standa uppi sem Íslandsmeistari í hrútadómum fær sigurvegarinn einnig til varðveislu í eitt ár verðlaunagripinn Horft til himins sem hagleiksmaðurinn Valgeir Benediktsson í Árnesi í Trékyllisvík hannaði og gefin var af búnaðarsambandi Strandamanna árið 2005 til minningar um Brynjólf Sæmundsson héraðsráðunaut Strandamanna í 40 ár.

Á síðasta ári sigraði kona í fyrsta skipti í hrútadómunum við mikinn fögnuð viðstaddra. Þá eru Strandamenn jafnan sérlega áhugasamir um að halda titlinum innan sýslumarkanna, en það hefur reyndar ekki alltaf gengið eftir. Ötulastir við það hafa verið bændurnir á Melum í Árneshreppi, en Kristján Albertsson hefur unnið keppnina fjórum sinnum og Björn Torfason tvisvar. Sumum aðkomumönnum finnst Strandamenn reyndar hafa dálítið forskot í keppninni, vegna þekkingar þeirra á ættum og uppruna hrútanna og líka vegna þess að handföngin (eða hornin) vanti sé miðað við slíka gripi í þeirra heimasveitum.

Þeir sem hafa unnið mótið og þar með Íslandsmeistaratitilinn til þessa eru:

2016: Hadda Borg Björnsdóttir, Þorpum í Strandabyggð
2015: Guðmundur Gunnarsson, Kjarlaksvöllum í Saurbæ
2014: Björn Þormóður Björnsson, Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslu
2013: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2012: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2011: Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum í Kaldrananeshreppi
2010: Elvar Stefánsson, Bolungarvík
2009: Guðbrandur Björnsson, Smáhömrum í Strandabyggð
2008: Björn Torfason, Melum í Árneshreppi
2007: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2006: Kristján Albertsson, Melum í Árneshreppi
2005: Björn Þormóður Björnsson, Ytra-Hóli í Austur-Húnavatnssýslu
2004: Eiríkur Helgason, Stykkishólmi, og Björn Sigurvaldason, Litlu-Ásgeirsá í Húnaþingi vestra
2003: Björn Torfason, Melum í Árneshreppi

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Litlar líkur á fipronil í íslenskum eggjum

Í síðustu viku bárust upplýsingar frá Evrópu um að sníklalyfið fiponil hafi greinst í eggjum í Hollandi. Dreifing eggja frá ákveðnum eggjaframleiðendum var stöðvuð í kjölfarið. Heil egg á markaði hérlendis eru af íslenskum uppruna. Unnar eggjaafurðir, t.d. gerilsneyddar eggjarauður, eggjahvítur og eggjaduft eru fluttar til landsins og samkvæmt athugun Matvælastofnunar eru þær upprunnar í Bretlandi, Danmörk, Hollandi og Þýskalandi. Ekki hafa borist tilkynningar frá Evrópska viðvörunarkerfinu (RASFF) um að menguðum eggjaafurðum hafi verið dreift til landsins.

Ein sending af eggjarauðudufti frá Hollandi var að berast til landsins og hefur framleiðandi vörunnar upplýst að hráefni í hana komi ekki frá þeim eggjaframleiðendum sem hafa notað sníklalyfið fipronil. Áður en til dreifingar kemur mun Matvælastofnun afla frekari upplýsinga um uppruna og gæði hráefna í þeim tilgangi að tryggja öryggi afurða.

Aðskotaefnaáætlun landbúnaðarafurða hjá Matvælastofnun tekur m.a. mið af sýnatökum og prófunum á afurðum með hliðsjón af magni innfluttra lyfja og því hefur greining á efninu fipronil ekki verið hluti af henni.

Einkenni eitrunar vegna fipronil  geta verið ógleði, magaverkir, svimi, uppköst og flogaköst. Til langs tíma getur efni valdið lifrar- og nýrnaskaða.

bryndís@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Óhapp við gangavinnuna

Vörubíll sem var að flytja steypusand frá Þingeyri valt á vinnusvæðinu við Dýrafjarðargöng. Sandurinn er sendur vestur með flutningaskipi og landað á Þingeyri, þaðan þarf að aka honum á framkvæmdastað. Að sögn Gísla Eiríkssonar hjá Vegagerðinni er eðli málsins samkvæmt undirlagið frekar ójafnt á svona vinnusvæðum og þetta gerist annað slagið að menn velta bílunum þegar verið er að sturta.

Auglýsing
Auglýsing

Sumarhús í Dagverðardal

Í sólinni í gær var unnið við að tyrfa þak á nýju sumarhúsi sem er í byggingu í Dagverðardal en telja má til tíðinda ef hús eru byggð hér á norðanverðum Vestfjörðum. Sumarhúsið er tæpir 90 fm og er í eigu ungra hjóna sem búsett eru í Reykjavík en eiga ættir sínar að rekja til Ísafjarðar. Í Dagverðardal eru skipulagðar lóðir fyrir sumarhús og þar er ekki snjóflóðahætta svo búast má við þar rísi skemmtileg byggð.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Litaskrúð á túnum

Það er fátt fallegra græni liturinn á nýslegnum túnum en nú hafa bændur bætt um betur og fyrir utan þessar hefðbundnu svörtu og hvítu heyrúllur má sjá bleikar og bláar. Það er reyndar talsvert síðan þessar bleiku fóru að birtast í náttúrunni og flestir vita að þeir bændur sem kaupa bleikt rúlluplast minna á árvekni um brjóstakrabbamein og styrkja málefnið á sama tíma.

Þessar fagurbláu eru hins vegar nýnæmi og þeim er ætlað að minna á árvekni um blöðruhálskrabbamein.

Þrjár evrur af sölu bleikra og blárra rúllu munu renna til vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins, annars vegar til rannsókna á brjóstakrabbameini og hinsvegar til rannsókna á blöðruhálskrabbameini.

Upprunalega hugmyndin er frá viðskiptavini framleiðanda heyrúlluplastsins, Trioplast, á Nýja Sjálandi sem bað um bleikt rúlluplast til að minna á árvekni vegna brjóstakrabbameins. Í framhaldinu voru gerðar tilraunir með bleika litinn og tryggt að hann stæðist ítrustu kröfur bænda. Nú þegar hafa bleikar heyrúllur hafið innreið sína í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Nýja-Sjálandi, Sviss, Bretlandi og Írlandi og fjölda annarra landa og vakið mikla athygli.

Myndasamkeppni 

Í tilefni af þessu skemmtilega frumkvæði bænda og dreifingaraðila verður haldin myndasamkeppni á Instagram um skemmtilegustu og frumlegustu myndirnar. Öllum er velkomið að taka þátt og vekja athygli á mikilvægu málefni.

Merktu þína mynd #bleikrulla eða #blarulla

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Byggingaframkvæmdir á Holtssandi

Hin árlega Sandkastalakeppni á Holtssandi var á sínum stað um Verslunarmannahelgina og var vel mætt. Allskonar fígúrur risu upp úr sandinum og börn á öllum aldri skemmtu sér hið besta. Metnaðurinn er gríðarlegur en eins gott að festa afrekin á filmu því náttúran kemur öllum listaverkunum fyrir kattarnef.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Fjölgun á norðanverðum Vestfjörðum

Svo virðist sem viðsnúningur sé að verða á mannfjöldaþróun á Vestfjörðum og tölur Hagstofunnar sýna að íbúum á norðanverðum Vestfjörðum hefur fjölgað um 1,16% frá 31. maí 2016 til 31. maí 2017 eða um 80 einstaklinga, á sama tíma í fyrra hafði verið fækkun um 0,32% eða um 30 einstaklinga.

Í prósentum talið fjölgar mest í Bolungarvík eða 3,3% eða um 30 manns en á Ísafirði fjölgar um 1,67% eða um 60 manns. Súðavíkurhreppur stendur í stað en í fyrra var fækkun um 2,63%,

Ef teknir eru saman Reykhólahreppur, Kaldrananeshreppur, Árneshreppur og Strandabyggð er fækkun um 20, á sama tíma í fyrra fækkaði líka um 20. Í Kaldrananeshreppi er fjölgun en fækkun í Árneshreppi og Strandabyggð.

bryndis@bb.is

 

Auglýsing
Auglýsing

Hinsegin dagar í Reykjavík

Mynd: hinsegindagar.is

Dagskrá Hinsegin daga í Reykjavík hófst formleg á þriðjudaginn og stendur yfir fram á sunnudag. Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt og inniheldur fundi, ráðstefnur, fyrirlestra og listviðburði. Hápunktur hennar er þó Gleðigangan sem fer fram á laugardaginn og hefst kl. 14:00.

Í ár verða breytingar gerðar á gönguleið gleðigöngunnar. Uppstilling göngunnar verður frá kl. 11 á Hverfisgötu, milli Ingólfsstrætis og Klapparstígs. Gangan leggur stundvíslega af stað frá gatnamótum Hverfisgötu og Ingólfsstrætis kl. 14:00. Gengið verður niður Hverfisgötuna, eftir Lækjargötu, Fríkirkjuvegi og endað á Sóleyjargötu þar sem glæsilegir útitónleikar taka við í Hljómskálagarðinum.

Á vef hinsegin daga er kemur fram að í Gleðigöngunni sameinis lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sina, sýnileika og gleði, ásamt því að minna á þau baráttumál sem skipta hvað mestu máli skipta hverju sinni.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Fé borið á Súgfirðinga

Mynd: Róbert Schmidt

Menn slá á létta strengi á facebook þar sem birtar eru myndir af blómgráðugum kindum í görðum á Suðureyri. Sumir telja þetta vera gesti á einleikjahátíðinni Act alone sem hefst einmitt í kvöld en aðrir að um sé að ræða heimsendingu á grillið, nú eða sjálfvirkar sláttuvélar og áburðardreifarar. Í einhverjum görðum eru öll blómin horfin í varginn og þar er mönnum ekki skemmt.

Kallað er eftir viðbrögðum „Sauðfjárvarna Ísafjarðarbæjar“.

Mynd: Róbert Schmidt
Mynd: Róbert Schmidt

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Takast á sveinar tveir

Halldór Jónsson.

Ísland er einstök náttúruperla. Það er skoðun flestra er landið byggja og flestra þeirra sífjölgandi gesta er það heimsækja. Þrátt fyrir mikla náttúrfegurð hafa íbúar frá fyrstu tíð skapað sér eins góða búsetukosti og þeim framast hefur verið unnt. Þannig hafa þeir best tryggt búsetuna sjálfa því þrátt fyrir allt er landið um margt harðbýlt.

Undanfarna áratugi hefur átt sér stað fordæmalaus uppbygging á suðvesturhorni landsins. Uppbyggingunni hefur ráðið sá vilji almennings og kjörinna fulltrúa þeirra að tryggja sem bestar aðstæður til byggðar. Hagsmunir íbúa hafa vegið þyngst. Maðurinn hefur notið vafans.

Að nýta og njóta

Mörg dæmi má nefna um þessa uppbyggingu. Nýir vegir hafa verið lagðir og eldri endurnýjaðir, sumir við og í gegnum náttúruperlur, til að flýta för íbúa og stytta leiðir. Hvar væri mannlíf á fegurstu kjarrivöxnum svæðum suðvesturhornins án vega? Gæti Hvalfjörður verið án vega og hvernig myndu menn njóta Þingvalla án vegasambands? Malbikaðir vegir og göngustígar hafa verið lagðir um Elliðaáardalinn. Hagsmunir íbúa í forgangi.

Verksmiðjur hafa risið til að tryggja atvinnu íbúa, sumar fjarri byggð í upphafi en síðar hafa aðstæður breyst þannig að dæmi eru um að íbúabyggð hafi verið skipulögð að og í kring. Ekki verður þó annað séð að íbúuar í Hafnarfirði séu sáttir við nábýlið í Straumsvík, nú sem áður. Virkjanir hafa risið til að tryggja rafmagn í  athafnasemi íbúa svæðisins, sumar þeirra í öðrum landshlutum, aðrar í túnfætinum. Tónninn var sleginn með virkjun Elliðaáa og síðar var heita vatnið virkjað til rafmagnsframleiðslu. Ráðist var í stórhuga framkvæmdir á Hellisheiði og þannig tryggð orka. Náttúra Hellisheiðar vék og Hvergerðingar súpa seyðið af framkvæmdunum, eða réttara sagt anda því að sér. Þarna réðu hagsmunir íbúa höfuðborgarsvæðisins ferðinni.

Lengra skal ganga

Náttúrperlan Þríhnjúkagígur er við bæjardyr höfðuðborgarbúa, einstök á heimsmælikvarða. Þar eru langt komnar áætlanir um að sprengja sig inn í gíginn til þess að tryggja meiri umferð ferðafólks, tekju- og atvinnuskapandi verk. Ekki hafa (enn) verið stofnuð samtökin Þyrmum Þríhnjúkagíg af þessu tilefni.  Á sama svæði hefur skíðasvæði íbúa verið byggt þrátt fyrir að það standi við og á svokölluðu vatnsverndarsvæði byggðarinnar. Hagsmunir íbúa ráða ferðinni.

Reykvíkingar hafa lengi reynt að endurheimta Vatnsmýrina úr klóm flugvallar úr seinni heimsstyrjöld. Ekki til að endurheimta þá náttúruperlu sem Vatnsmýrin í raun er, til að fara að ákvæðum Ramsar-sáttmálans um endurheimt votlendis. Nei, nærtækara er að nýta Vatnsmýrina undir íbúabyggð enda mikil þörf á fjölgun íbúða. Náttúran víkur, hagsmunir íbúa ráða.

Stórfelld uppbygging á suðvesturhorninu hefur verið tryggð með nánu samstarfi sveitarstjórna á svæðinu. Fulltrúar ólíkra stjórnmálaflokka hafa í gegnum tíðina flestir verði sammála um að tryggja heildarhagsmuni íbúa hverju sinni.

Leiðtogar skipta máli

Einn áhrifamesti og farsælasti kjörni fulltrúi undanfarinna áratuga á þessu svæði er efalítið Sveinn Kristinsson á Akranesi. Sem bæjarfulltrúi um áratugaskeið á Akranesi hefur hann ásamt félögum sínum á höfuðborgarsvæðinu lyft Grettistaki íbúum til heilla. Hann hefur stutt dyggilega uppbyggingu atvinnufyrirtækja á Grundartanga og sem stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur og síðar starfsmaður lagði hann sitt lóð á vogarskálar virkjana á Hellisheiði. Sem bæjarfulltrúi á Akranesi studdi hann hugmyndir um lagningu vegar við Grunnafjörð. Allt samviskusamlega gert með það að leiðarljósi að auðvelda byggð á sínu svæði. Íbúar treystu dómgreind hans í þessum málum. Hagsmunir íbúa hafa ráðið för.

Trjágróður í forgangi

Byggð á Vestfjörðum hefur átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum. Atvinnulíf hefur gengið í gegnum miklar breytingar og látið stórlega á sjá. Uppbygging innviða þar er langt á eftir öðrum landshlutum. Rafmagn er ótryggt og treyst á orku frá öðrum landshlutum um veikt dreifikerfi. Stóran hluta árs er stólað á framleiðslu rafmagns með olíu. Þrífasa rafmagn er ekki til staðar víða í dreifbýli og hamlar mjög uppbyggingu atvinnukosta. Fjarskipti eru veikburða og netsamband víða fjarri því sem aðrir landshlutar búa við. Þrátt fyrir framfarir í vegasamgöngum er staðan sú að sunnanverðir Vestfirðir eru 60 árum á eftir öðrum landshlutum. Ráðlegur hámarkshraði drjúgs hluta vegakerfisins þar er enn 20-30 km/klst. Skilningur hefur undanfarin ár verið fyrir endurbótum til að tryggja  heilsárs vegasamband milli svæðisins og annarra landshluta. Þær framkvæmdir hafa legið niðri í nokkur ár vegna deilna um vegagerð um svonefndanTeigsskóg. Þrátt fyrir augljósa hagsmuni íbúa hafa aðrir hagsmunir vegið þyngra. mestu ráða hagsmunir tveggja landeigenda í nefndum Teigsskógi. Ekki vegna búsetu þeirra þar þá fáu daga er þeir dvelja þar í sumarhúsum sínum árlega heldur vegna kjarrlendis. Ekki vegna þess að það sé ósnortið, enda fyrir löngu búið að ryðja þar í gegn vegslóða til nota fyrir landeigendur og gesti þeirra. Í öðrum landshlutum hafa almennir hagsmunir íbúa ráðið en á  sunnanverðum Vestfjörðum ráða hagsmunir tveggja landeiganda sem drepa þar niður fæti nokkra daga á ári. Þarna ráða ekki hagsmunir íbúa.

Uppbygging víkur

Atvinnulíf á Vestfjörðum hefur á síðustu  árum rétt úr kútnum, einkum vegna uppbyggingar laxeldis. Laxeldi á Vestfjörðum er byggt á ákvörðun sem tekin var 2004 um að loka stærstum hluta strandlengju Íslands fyrir laxeldi, en beina því í staðinn á þau svæði þar sem litlar sem engar laxveiðiár eru.  Íbúum er tekið að fjölga á sumum svæðum Vestfjarða, nokkuð sem fyrir örfáum árum var talið ómögulegt. Þegar laxeldið var að komast á legg kom fram félagsskapur veiðirétthafa sem kvaðst beita öllum tiltækum ráðum til þess að koma í veg fyrir þessa atvinnuuppbyggingu, þrátt fyrir að hverfandi laxveiði sé í ám á Vestfjörðum. Þeir hafa svo sannarlega staðið við þá hótun og eru nú með færustu lagatækna landsins í vinnu.

Á dögunum birti Hafrannsóknarstofnun svo áhættumat þar sem lögð var til stöðvun uppbyggingar laxeldis í Ísafjarðardjúpi vegna laxveiða í þremur ám.

Áætlað hefur verið að byggja upp í Djúpinu um 30 þúsund tonna laxeldi. Áætlað útflutningsverðmæti þess eldis er áætlað um 25 milljarðar á ári. Byggðastofnun telur að um 200 bein og afleidd störf skapist við hver tíu þúsund tonn laxeldis. Samtals gætu því 600 bein og óbein störf orðið til  í byggðum við Ísafjarðardjúp vegna laxeldis.  Því er um gríðarlega beina fjárhagslega og byggðalega hagsmuni að ræða. Ráði áhættumat Hafrannsóknarstofnunar munu þessir hagsmunir víkja.

Fyrir hverju?

Tekjur af umræddum þremur ám í Ísafjarðardjúpi, Hvannadalsá, Laugardalsá og Langadalsá eru í besta falli 20-25 milljónir á ári. Ekkert starf hefur skapast á Vestfjörðum vegna þessarar starfsemi,  svo vitað sé. Hver eru hin náttúrulegu verðmæti í þessum ám sem í hættu geta verið vegna hugsanlegra slysa við laxeldi? Engin þeirra státar af sínum upprunalega náttúrlega stofni heldur hefur um árabil verið stunduð þar skipuleg laxarækt með stofnum annars staðar frá. Ein þessara áa, Laugardalsá, er í grunninn ekki laxveiðiá. Hún varð það ekki fyrr en hún var sprengd upp og í hana byggður mikill laxastigi. Ekki er hér lagt til að slík á skuli flokkuð sem manngert leiktæki, en fráleitt er hún náttúruverðmæti. Veiði í þessum ám er hverfandi. Á síðasta ári voru dregnir úr ám laxar um þrjú hundruð sinnum, sumir oftar en aðrir.  Það eru hagsmunir um tylftar veiðirétthafa þessara laxa sem eiga að ganga framar hagsmunum þúsunda íbúa svæðisins. Þarna ráða ekki hagsmunir íbúanna.

Eigi skal virkja

Eva Sigurbjörnsdóttir hefur um árabil barist fyrir byggð í Strandasýslu, allt frá því að hún settist þar að og hóf rekstur í Djúpuvík. Hún hefur á undanförnum árum verið í fararbroddi sveitarstjórnarmanna á svæðinu líkt og áðurnefndur Sveinn syðra og hefur ásamt sveitungum sínum barist fyrir og trúað á möguleika á  blómlegri byggð og viljað láta hagsmuni íbúa ráða. Hún hefur viljað tryggja að íbúar njóti í einhverjum mæli nútíma þæginda sem sjálfsögð þykja í öðrum landshlutum.  Um margra ára skeið hefur verið unnið að virkjun Hvalár í Ófeigsfirði og hefur sá virkjanakostur ágreiningslaust verið   í nýtingarflokki. Hörðustu andstæðingar frekari virkjana hafa aldrei talið nauðsynlegt að hún fari í verndunarflokk enda er þar um að ræða afturkræfar framkvæmdir. Með virkjun Hvalár verða stigin löngu tímabær framfaraskref. Ekki bara í Strandasýslu heldur einnig á Vestfjörðum öllum. Af þeirri ástæðu hafa flestir sveitarstjórnarmenn í gegnum tíðina stutt virkjanir og Eva er þar engin undantekning.

Nýlega, þegar undirbúningur virkjunar Hvalár er á lokastigi, kom fram hópur fólks sem er andsnúinn henni. Hópurinn telur að með virkjuninni hverfi ósnortin víðerni á Vestfjörðum og hagsmunir þeirra eigi að hafa forgang, á kostnað íbúa. Einn forvígismanna þessa hóps er Sveinn Kristinsson á Dröngum, sem þar hefur búsetu hluta úr sumri. Í fjölmiðlum hefur Sveinn á Dröngum lýst þeirri skoðun sinni að með bættum búsetukostum í kjölfar virkjunarinnar sé verið að bera fé á íbúa á Ströndum. Það sé alþekkt leið sem orkufyrirtæki hafi oft nýtt sér! Hvað skyldu stjórn og starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur segja við því?

Sveinar kallast á

Í Sveini Kristinssyni á Dröngum og Sveini Kristinssyni á Akranesi kristallast mismunandi hagsmunamat fólks eftir búsetu. Sveinn á Dröngum, sem aðeins býr aðeins  lítinn hluta ársins á Dröngum, telur huglæga hagsmuni sína eiga að ganga framar hagsmunum þeirra er hafa trú á áframhaldandi mannlífi allt árið á Ströndum. Sveinn á Akranesi telur hins vegar að hagmunir íbúa á höfuðborgarsvæðinu eigi að ganga fyrir þar til að tryggja blómstrandi mannlíf. Sveinninn syðra vill nýta sér til hagsbóta og þæginda allt sem náttúran getur gefið. Sá á Dröngum vill að geta drepið niður fæti á Ströndum og þar eigi allt að vera eins og áður.

Ólíkar skoðanir þessara tveggja sveina vekja upp nokkrar spurningar:  Á ekki að ríkja jafnræði milli landshluta þegar innviðir þeirra eru byggðir upp? Er eðlilegt að örfáir íbúar suðvesturhornsins geti heft eðlilegar framfarir í byggð á Vestfjörðum? Eiga íbúar á Vestfjörðum að vera safnverðir horfinna lífshátta og samgangna svo örfáir aðrir íbúar landsins geti örstutt drepið þar niður fæti, hallað sér aftur í kvöldsólinni og angurværir rifjað upp liðna tíð?

Best væri að Sveinn á Akranesi myndi taka Svein á Dröngum tali og reyni að fá hann ofan af því að hlusta bara á íbúa á Tvískinnungi og Eiginhagsmunum. Þannig tryggjum við jöfn tækifæri og jafnræði allra landsmanna.

Halldór Jónsson

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir