Sunnudagur 1. september 2024
Síða 2211

34 börn komin í heiminn á HVEST

Á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði hafa fæðst 34 börn ár árinu sem senn líður í aldanna skaut. Það er aðeins færra en síðustu tvö ár er 40 börn komu í heiminn á fæðingardeildinni á síðasta ári og 39 árið á undan, árið 2013 fór talan reyndar nærri því sem nú er, er 37 börn fæddust þar. Von er á einu barni á næstu dögum svo líklegt er að talan endi í 35 fyrir árið 2016, en þó ekki fullkomlega á vísan að róa með slíkt.

Fæðingartölurnar gefa ekki fullkomna mynd af því hversu margir nýir Vestfirðingar bætast í hópinn á svæðinu á ári hverju, þar sem sumar konur fæða annarsstaðar á landinu, sér í lagi ef um áhættumeðgöngu að ræða en þá á fæðingin sér stað í Reykjavík og segir Erla Rún Sigurjónsdóttir ljósmóðir við HVEST að árlega séu um 20% barnshafandi kvenna á svæðinu sem fæði annarsstaðar.

annska@bb.is

Ríkisstjórnin setji fjármagn í heilbrigðisstofnanir

Flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli.

Sjúkraflugvél Mýflugs, sem flytja átti sjúkling frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur á sjöunda tímanum í gærkvöldi, var flogið til Akureyrar vegna veðurs. Frá þessu var greint í fréttum Ríkisútvarpins. Suðvestanstormur var á suðvesturhorni landsins og allt innanlandsflug lá niðri. Þorkell Ásgeir Jóhannsson, flugstjóri hjá Mýflugi, segir að aðstæður á Reykjavíkurflugvelli hafi verið alveg á mörkum þess sem sjúkraflugvélin þolir, ef aðeins var horft til meðalvindhraða.

Þorkell sagði í samtali við Ríkisútvarpið að við ríkjandi veðuraðstæður hefði ekki verið neinum vandkvæðum bundið að lenda á suðvestur-brautinni í Reykjavík, sem lokað var í sumar.

Ísfirðingurinn Guðrún Kristín Bjarnadóttir, móðir Birkis Snæs, sem hefur verið veikur undanfarið ár og þarf reglulega að komast undir læknishendur tekur sterkt til orða: „Þetta gerir mig ótrúlega reiða! Ég vona innilega að ég verði aldrei í þeim sporum að komast ekki suður þegar við þurfum. Birkir Snær verður ótrúlega fljótt alvarlega veikur og þarf að komast til lækna sem þekkja hann vel.“

„Ríkisstjórnin verður að fara girða sig í brók og henda almennilegu fjármagni í þær heilbrigðisstofnanir utá landi til þess að þær séu betur búnar til að takast á við alvarleg tilfelli,“ bætir Guðrún Kristín við í stöðuuppfærslu á Facebook.

„Stofnanirnar okkar eru svo sveltar að fjármagni að það er hrikalegt að verða vitni að þvi. Sjúkrahúsið okkar hér fyrir vestan hefur frà því að Birkir greindist gert allt sem þau geta fyrir okkur. Það eru hinsvegar ýmsir hlutir sem hann þarf sem ekki eru til hér. Það er ekki vegna viljaleysis starfsfólks heldur fjárskorts,“ segir Guðrún Kristín.

brynja@bb.is

Mokaði af bílnum mínum

Það er lífleg kosningin um Vestfirðing ársins 2016 og margir sem koma til greina. Rökstuðningur fyrir valinu er afar fjölbreyttur og það eru ungir og gamlir, konur og karlar, einstaklingar og félagasamtök sem komin eru á blað. Hér eru nokkur áhugaverð rök:

„tekur slaginn gegn markaðsráðandi öflum“

„hörkudugleg, ákveðin og traust“

„fyrir staðfestu og sterkan vilja til að ástunda vönduð vinnubrögð“

„hann mokaði af bílnum mínum í morgun“

„markmið þeirra virðist vera að efla samfélagið á Vestfjörðum“

„sveitarstjórnarmaður til margra ára “

„hann er sjálfur með stórt barnshjarta“

„einstaklega gott eintak af Vestfirðingi“

„ótrúlega sterk ung stúlka sem hefur sýnt framúrskarandi árangur í öllu því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur“

„fyrir heiðarleika í starfi stjórnar“

„kom upp um spillingu“

„fyrir þvílíka baráttu við lífið í erfiðum veikindum“

„hann stóð í lappirnar“

„ótrúlegur maður, fékk mig og fleiri til að vilja að lifa á ný“

„með seiglu og fallegum rökstuðningi tók honum að fá fólk til að staldra við og skoða málið“

„óeigingjörn störf í þá menningar og lista“

Það verður hægt að kjósa Vestfirðing ársins 2016 hér til miðnættis þann 31. desember.

bryndis@bb.is

Arnarlaxi ekki borist kæra

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir að fyrirtækinu hafi ekki borist stefna frá Málsóknarfélaginu Náttúruvernd 1. Sagt var frá því í fréttum í gær að Málsóknarfélagið hafi birt Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi hf. stefnu þar sem krafist var ógildingar rekstrar- og starfsleyfa vegna sjókvíaeldis á norskættuðum laxi í Arnarfirði. Víkingur segir í samtali við Ríkisútvarpið að fyrirtækinu hafi ekki borist nein stefna en vill ekki tjá sig um málið að öðru leyti.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Náttúruverndar 1, sagði í samtali við fréttastofu að hann viti ekki betur en að stefnan hafi verið birt á heimili stjórnarformanns Arnarlax í Kópavogi, líklegast á þriðjudag. Þá segir Jón Steinar hafa hringt í forsvarsmenn Arnarlax hér fyrir vestan fyrir jól og sagt þeim að stefnan og öll meðfylgjandi gögn væru á skrifstofu sinni í Reykjavík. Þeir hafi sagst ætla að sækja gögnin þangað, en ekki gert.

brynja@bb.is

50 manns á fiskvinnslunámskeiði

Rúmlega 50 manns hafa í síðustu viku og þessari setið fiskvinnslunámskeið í Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Námskeiðið er liður í viðbrögðum Hraðfrystihússins Gunnvarar við hráefnisskorti vegna verkfalls sjómanna.

Hraðfrystihúsið Gunnvör ætlar ekki að grípa til þess að taka fólk af launaskrá, en fram kom í fréttum í morgun að Oddi á Patreksfirði og Íslenskt sjávarfang á Þingeyri hefði gripið til þess vegna hráefnisskorts.

Á námskeiðinu hefur verið kennd námsskrá sem var sérstaklega skrifuð fyrir fiskvinnslufólk og gefur að lokinni starfsþjálfun starfsheitið sérhæfður fiskvinnslumaður. Allir þátttakendur í náminu hafa unnið það lengi í fiskvinnslu að þeir teljast hafa lokið starfsþjálfuninni.

Í náminu er farið í sjálfstyrkingu, samskipti, fjölmenningu, öryggismál, kjarasamninga, gefin yfirsýn yfir greina sem og markaðsmál og síðast en ekki síst er farið ítarlega í gæðamál og meðferð matvæla.

Meirihluti kennara eru heimamenn, en starfólk úr Fisktækniskóla Íslands kenndi 4 námsþætti. Vegna samgönguerfiðleika komu þau ekki vestur heldur kenndu úr Fisktækniskólanum í Grundavík í gegn um samskiptaforritið GoToMeeting. Stefna Fræðslumiðstöðvarinnar hefur verið að þjálfa heimafólk í að kenna þetta nám, en þó er mjög mikilvægt að halda tengslum við Fisktækniskólann, bæði vegna þeirra þekkingar sem þar er og ekki síður vegna samskipta við það ágæta fólk sem þar starfar.

Í fiskvinnslunáminu eru 50 manns frá Hraðfrystihúsinu Gunnvör, auk þriggja frá fyrirtækinu Vestfiski sem tóku hluta námsins sem þau áttu ólokið.

brynja@bb.is

100 manns teknir af launaskrá

Finnbogi Sveinbjörnsson

Verkalýðsfélagi Vestfirðinga hafa borist tvær tilkynningar um uppsagnir vegna hráefnisskorts sem hefur myndast vegna verkfalls sjómanna. Oddi á Patreksfirði og Íslenskst Sjávarfang á Þingeyri hafa gripið til þess að nýta sér þá heimild að taka starfsfólk af launaskrá vegna hráefnisskorts. Verkfall sjómanna hefur nú staðið síðan 14. desember og hefur hráefnisskortur gert vart við sig í fiskvinnslum víða um land.

Um er að ræða heimildarákvæði sem Vinnumálastofnun gaf tilkynningu um 19. desember að fyrirtæki gætu nýtt sér. Heimildin gefur fyrirtækjunum leyfi til að taka fólk af launaskrá og fólk sækir þá um atvinnuleysisbætur í framhaldi af því.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, segir þetta vera neyðarúrræði: „Þessi leið er mun harðari en halda fólki á launaskrá, en þetta er neyðarúrræði sem fyrirtækin hafa í þeirri stöðu sem er, það er ekkert hráefni og fyrirtæki sjá ekki fram á að halda fullri vinnslu. Þarna eru fyrirtækin að taka þá áhættu að starfsfólkið nýti sér þann rétt að það geti tilkynnt að það fari að vinna annars staðar ef stoppið verður lengra en 5 vikur.“

Um er að ræða um 35 manns á Þingeyri og tæplega 60 manns hjá Odda á Patreksfirði. Uppsagnirnar ná því til hátt í 100 manns „Þetta er gríðarlegur fjöldi fólks og mjög alvarleg staða sem komin er upp. Það er bæði mikil ábyrgð fyrir okkur í stéttarfélögunum og útgerðafélögin að klára samning við sjómenn og ná að afstýra frekari tjóni. Báðir aðilar verða að koma að samningaborðinu og finna lausn á þessari deilu,“ segir Finnbogi.

Í kjarasamingi starfsfólksins segir að þegar vinnslustöðvun vegna hráefnisskorts hafi staðið lengur en 5 vikur samfellt, sé starfsmanni heimilt að slíta ráðningasamingi við fyrirtækið og tilkynna með viku fyrirvara að hann ætli að leita að vinnu annars staðar. Finnbogi segir hins vegar ekki auðvelt fyrir fiskvinnslufólk að finna vinnu: „Það er ekki hlaupið að því að finna vinnu fyrir 100 manns á svæðinu. Þó svo að þjónustufyrirtæki og ríkisstofnanir séu fyrirferðamiklar þá byggjum við á sjávarútvegi fyrst og fremst.“

brynja@bb.is

Arna hækkar ekki verð á mjólk

Arna ehf mjólkurframleiðandi ætlar ekki að hækka verð á sínum vörum þrátt fyrir hækkanir á mjólkurmarkaði. Frá því var greint í gær að verðlagsnefnd búvara hafi tekið samhljóða ákvörðun um að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum hækki um 1,7% 1. janúar. Hækkunin þýðir að heildsöluverð á mjólk hækkar um tvær krónur og 75 aura.

Í svörum við fyrirspurnum blaðamanns sagði: „Arna hefur ekki hækkað verð síðan framleiðsla á laktósafríum mjólkurvörum hófst árið 2013 og stefna ekki á verðhækkun þrátt fyrir hækkun heildsöluverðs.“

Í júlí 2015 hækkaði Verðlagsnefnd mjólkurvörur en Arna hækkaði ekki verð til neytenda á sinni framleiðslu, Hálfdán Óskarsson sagði þá í samtali við bb: „Á sama tíma og við lýsum yfir efasemdum með þessa ákvörðun Verðlagsnefndar búvara höfum við hjá Örnu ákveðið að velta þessari hækkun ekki út í heildsöluverðið á okkar vörum. Okkar von er sú að hækkunin verði endurskoðuð og leiðrétt. Þangað til viljum við koma til móts við okkar neytendur og munum við því ekki hækka verð á okkar vörum.“

brynja@bb.is

Stefna Arnarlaxi, MAST og UST

Í frétt á mbl.is er greint frá því að Málsóknarfélagið Náttúruvernd 1 hafi birt Arnarlaxi hf., Matvælastofnun og Umhverfisstofnun stefnu þar sem krafist er ógildingar rekstrar- og starfsleyfa sem gefin voru út á þessu ári vegna sjókvíaeldis á norskættuðum laxi í Arnarfirði. Málsókn hefur verið í undirbúningi um hríð en fjallað var um hana í október.

Að Náttúruvernd 1 standa meðal annars eigendur veiðiréttinda í lax- og silungsveiðiám. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. janúar. Frekar um málsóknina má lesa hér.

Í dag kynnir Arctic Sea Farm hf, áður Dýrfiskur, tillögu sína að matsáætlun fyrir framleiðsluaukningu á laxi í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtækið hefur leyfi fyrir 4.000 tonna eldi á silungi en sækir nú um breytingu á því leyfi yfir í lax og bætir um betur með aukningu upp í um það bil 8.000 tonna laxeldi samtals.

Leiða má að því líkum að lyktir máls hvað varðar Málsóknarfélagið Náttúruvernd 1 gagnvart Arnarlaxi, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun muni vera fordæmisgefandi og annað hvort festa atvinnugreinina í sessi eða hindra framgang hennar.

bb@bb.is

Jólablak hjá Vestra

Íþróttafélagið Vestri ætlar að hafa svokallað jólablak í kvöld, fimmtudag 29. desember. Ef nægur fjöldi fæst verður spilað á þremur völlum og dregið í lið eftir hvern leik. Verðlaun verða fyrri stigahæstu einstaklingana.

Á Facebook-viðburði segir að þetta sé tilvalið tækifæri til að hrista af sér jólaspikið og koma í blak.
Spilað verður frá lukkan 19-22 og eru allir 12 ára og eldri velkomnir.

brynja@bb.is

Súðavíkurhreppur með lægsta útsvarið

Öll sveitarfélög á Vestfjörðum nema Súðavíkurhreppur leggja á hámarskútsvar á komandi skattári. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er þeim heimilt að ákveða útsvar á bilinu 12,44% til 14,52%. Í 8 af 9 sveitarfélögum er 14,52% útsvar lagt á, en í Súðavíkuhreppi er 14,48% útsvar lagt á íbúa hreppsins. Þetta kemur fram á vef Fjármálaráðuneytisins.

Af 74 sveitarfélögum á Íslandi leggja 55 á hámarksútsvar. Eitt þeirra, Reykjanesbær, nýtir að auki sérstakt álag og verður útsvarshlutfall þess 15,05%. Þrjú sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar, Ásahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur og Skorradalshreppur.

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir