Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga víðsvegar á landinu gagnrýna harðlega lagabreytingar sem fela í sér að eftirlit og verkefni séu færð frá héruðum á landsbyggðinni til Reykjavíkur. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.
Í frumvarpinu eru lagðar fram tillögur um verkefnatilfærslu og breytingar á starfsemi og verksviði heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Útgáfa starfsleyfa færist frá heilbrigðiseftirlitum um land allt til Umhverfisstofnunar. Þessu mótmæla eftirlitin sem telja þessa þjónustu eiga að vera í nærsamfélagi.
Í umsögn um lögin frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga kemur fram Umhverfisstofnun hafi heimildir til að framselja eftirlitsverkefni til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Þótt iðulega séu augljós tækifæri til þess að auka hagkvæmni og skilvirkni eftirlits með slíku framsali eru mjög fá dæmi um að stofnunin hafi nýtt þessar heimildir.
Þróunin hafi frekar verið á hinn veginn, að stofnunin leitist við að taka yfir eftirlitsverkefni frá sveitarfélögum.