Föstudagur 17. janúar 2025
Síða 2211

Mótmæla flutningi verkefna til Reykjavíkur

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra er flutningsmaður frumvarpsins.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga víðsvegar á landinu gagnrýna harðlega lagabreytingar sem fela í sér að eftirlit og verkefni séu færð frá héruðum á landsbyggðinni til Reykjavíkur. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.

Í frumvarpinu eru lagðar fram tillögur um verkefnatilfærslu og breytingar á starfsemi og verksviði heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Útgáfa starfsleyfa færist frá heil­brigðis­eftirlitum um land allt til Umhverfisstofnunar. Þessu mótmæla eftirlitin sem telja þessa þjónustu eiga að vera í nærsamfélagi.

Í umsögn um lögin frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga kemur fram Umhverfisstofnun hafi heimildir til að framselja eftirlitsverkefni til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Þótt iðulega séu augljós tækifæri til þess að auka hagkvæmni og skilvirkni eftirlits með slíku framsali eru mjög fá dæmi um að stofnunin hafi nýtt þessar heimildir.
Þróunin hafi frekar verið á hinn veginn, að stofnunin leitist við að taka yfir eftirlitsverkefni frá sveitarfélögum.

Varar við vatnavöxtum um allt land

Byrjað er að vaxa í ám og lækjum vegna hlýinda. Næstu daga verður hlýtt á öllu landinu svo Veðurstofan telur í viðvörun að gera megi ráð fyrir leysingum um mestallt land. Á Vestfjörðum verður hægviðri í dag og bjart með köflum, en víða þokubakkar. Hiti 8 til 16 stig.

Á landinu er spáð fremur hægri norðlægri átt á morgun og þokulofti með norður- og austurströndinni og hiti verður 6 til 10 stig. Léttskýjað á Suður- og Vesturlandi, einkum í uppsveitum, með hita að 19 stigum.

Mjög mikið rennsli í flestum vöktuðum ám á landinu. Mynd: Veðurstofan.

Karlotta Blöndal sýnir í Gallerí Úthverfu

Á laugardag opnar Karlotta Blöndal sýninguna Sporbrautir í Gallerí Úthverfu. Þar gefur að líta ný verk sem Karlotta hefur unnið á undanförnum mánuðum fyrir sýningarsal Gallerís Úthverfu sem tengjast öll í gegnum teikningu. Karlotta Blöndal útskrifaðist frá Listaakademíunni í Malmö 2002 og býr nú og starfar í Reykjavík. Hún hefur sýnt víða, bæði hér á landi sem erlendis og hefur dvalið á ýmsum vinnustofum í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Hún ritstýrði og var meðútgefandi tímaritsins Sjónauka (tímarit um myndlist og fræði) auk þess að hafa komið að nokkrum listamannreknum rýmum. Hún hefur verið stundakennari við Listháskóla Íslands og er nú stundakennari við Myndlistarskólann í Reykjavík.
Um sýninguna í Úthverfu segir Heiðar Kári Rannversson listfræðingur: Þrír hnettir á sí-endurtekinni ferð um sporbraut í himingeimnum, einn er ljós, annar er dökkur. Við, sem erum áhorfendur á sýningu Karlottu Blöndal í Gallerí Úthverfu, erum stödd á þriðja hnettinum. Hann er hvorki hvítur né svartur heldur sýnist blár í mikilli fjarlægð. Skyndilega dimmir í galleríinu, það er eins og einhver sé að dempa ljósin. Við skynjum hvernig dregur úr birtu smám saman og áttum okkur á því að einn hnötturinn er byrjaður að skyggja á annan, sá dökki hefur lent í beinni sjónlínu milli okkar og ljósa hnattarins, hann byrgir okkur sýn. Það verður sífellt dimmara þangað til orðið er algert myrkur og við rétt greinum útlínur verkanna á veggjum gallerísins. Skuggamyndir. Í sama andartaki birtir og fljótlega er orðið jafn bjart og áður, verkin koma í ljós á ný. Atburðurinn sem við höfum orðið vitni að stendur ekki mjög lengi yfir, aðeins í örfáar mínútur. Gæti hugsast að tíminn sem hið mikla myrkur átti sér stað hafi verið svipað langur og tæki að teikna litla teikningu, kannski eins og þær sem settar hafa verið upp á sýningunni í galleríinu þar sem við erum stödd?
Karlotta leggur stund á teikningu, en athöfnin að teikna er fyrir listamanninum spunakennd iðkun. Hver teikning er atburður sem tekur ekki langan tíma, stundum örfáar mínútur. Í verkum sýningarinnar má greina feril blýantsins í teikningunni og fylgja þannig hendi listamannsins eins og hún væri á braut um spor í rými pappírsins. Eins og hnöttur á spori um himingeiminn. Hvort erum við á leið inn í myrkrið eða í átt að birtunni? Það kemur í ljós.
Sýningin verður opnuð kl. 16 á laugardaginn að viðstöddum listamanninum. Boðið verður upp á léttar veitingar og allir eru velkomnir.

annska@bb.is

Aron Ottó og Hilmar Adam kveðja TÍ með tónleikum

Bræðurnir Aron Ottó og Hilmar Adam Jóhannssynir halda tónleika í Hömrum á í kvöld, en þeir bræður hafa verið í tónlistarnámi við Tónlistarskóla Ísafjarðar síðan þeir voru 5 ára og má segja að Tónlistarskóli Ísafjarðar hafi verið þeirra annað heimili. Þeir kveðja nú Tónlistarskóla Ísafjarðar með þessum tónleikum. Efnisskrá tónleikanna sem hefjast klukkan 20 er fjölbreytt og skemmtileg og er óhætt að lofa góðri skemmtun. Allir eru velkomnir og aðgangseyrir enginn. Gestir þeirra á tónleikunum eru Pétur Ernir Svavarsson, systir þeirra Hanna Lára Jóhannsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir.
Aron Ottó hefur stundað nám á selló, trompet, trommur, gítar, píanó og söng og hefur náð góðum árangri á öllum sviðum. Hann er í framhaldsnámi á píanó og lýkur miðprófi í söng nú í vor. Aron hyggur á framhaldsnám í söng í Tónlistarakademíunni í Szeged á hausti komanda. Bróðir hans Hilmar Adam stundaði nám á fiðlu, trompet, gítar, píanó og söng með góðum árangri. Hann er einnig í framhaldsnámi á píanó og lýkur miðprófi í söng í vor.
Þeir bræður hafa alla tíð verið afar virkir í skólastarfi Tónlistarskólans. Spilað bæði í strengjasveit og lúðrasveit skólans og komið fram fyrir hans hönd víða, bæði hér á Ísafirði og í Reykjavík. Þeir voru í hópi nemenda Beötu Joó sem hlaut Ísmús verðlaunin á Lokahátíð Nótunnar 2013. Aron Ottó hlaut 1. verðlaun í sínum flokki í söngkeppninni Vox Domini sem haldinn var í Salnum í janúar. Hann var líka einn af 10 sem hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi atriði á Lokahátíð Nótunnar 2017.
annska@bb.is

Ráðherra tekur fyrstu skóflustungu að Dýrafjarðargöngum

Teikning af munna Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra tekur þann 13.maí fyrstu skóflustunguna að langþráðum Dýrafjarðargöngum. Af því tilefni verður boðað til málstofu um vegamál á Hrafnseyri við Arnarfjörð sama dag frá klukkan 13-15:30 og verður skóflustungan tekin í kjölfarið á honum við hátíðlega athöfn klukkan 16 við fyrirhugaðan gangamunna í landi Rauðsstaða skammt frá Mjólkárvirkjun. Til stóð til að skrifa undir samning við aðalverktaka um gerð Dýrafjarðarganga á Hrafnseyri á sumardaginn fyrsta, en þar sem engin voru göngin og komust hluteigandi aðilar, sem og gestir, ekki á staðinn vegna ófærðar á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðum. Samningurinn við aðalverktakann Metrostav A.S, frá Tékklandi og íslenska verktakann Suðurverk hf. var því undirritaður í Reykjavík.
Á málstofunni verða haldnir fyrirlestrar um vegamál á Vestfjörðum þar sem fjallað verður um væntanleg Dýrafjarðargöng, verkáætlun þeirra og hverjar helstu áskoranir kunna að verða, þá verður fjallað um stöðu mála á Dynjandisheiði, sem og fyrirhugaða veglagningu um Teigskóg. Þá verða pallborðsumræður, þar sem Hreinn Haraldsson vegamálstjóri, Jón Gunnarsson samgönguráðherra og fulltrúar Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar taka til máls og sitja fyrir svörum. Boðið verður upp á kaffiveitingar áður en haldið verður yfir í land Rauðsstaða og eru allir velkomnir.

Dýrafjarðargöng eru mikill áfangi á samgöngukerfi Vestfjarða og mikið fagnaðarefni fyrir íbúa svæðisins sem ef að vonum lætur geta keyrt um þau árið 2020.

annska@bb.is

Litli leikklúbburinn leitar krafta

Frá sögusýningu um LL sem sett var upp í safnahúsinu þegar leikklúbburinn fagnaði 50 ára afmæli.

Litli leikklúbburinn hefur sett svip sinn á listalífið á Ísafirði í háa herrans tíð en fyrsta verkið á vegum leikfélagsins, Lína langsokkur, var sett upp árið 1966, en Lína líkt og LL hafa allar götur síðan skemmt landanum með einum eða öðrum hætti. Fjölmargir sjálfboðaliðar hafa lagt LL lið í gegnum tíðina, hvort heldur sem er á leiksviðinu sjálfu eða í einhverjum þeirra fjölmörgu verka sem inna þarf af hendi til að halda áhugaleikfélagi gangandi. Nú leitar Litli leikklúbburinn að áhugasömu fólki til ábyrgðarstarfa fyrir klúbbinn, en fjórir stjórnarmenn yfirgefa brátt félagið og því rými fyrir áhugasama um öflugt áhugaleikfélag að stíga fram.

Aðalfundur félagsins verður haldinn í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins þann 15.maí, kl. 20 og þar fara fram stjórnarskipti hjá þeim sem fara og þeim nýju sem verma sætin næstu misserin. Áhugasömum um setur í stjórn LL er bent á að hafa samband við formanninn Jóhönnu Ásu Einarsdóttur í netfangið stebbij@snerpa.is eða mæta til fundarins og gefa kost á sér á staðnum. Áætlað er að setja upp leikrit á haustmánuðum og geta nýir stjórnarmenn haft sitt að segja um efnisval.

annska@bb.is

Fagna góðum vetri með uppskeruhátíð

Fyrsti bikarmeistaratitill hins nýstofnaða Vestra kom í hús hjá 9. flokki drengja í vetur. Mynd: Ólafur Þór Jónsson / karfan.is

Uppskeruhátíð yngri flokka körfuknattleiksdeildar Vestra verður haldin á Torfnesi í dag. Þar munu hinir yngri iðkendur deildarinnar gera sér glaðan dag með foreldrum og aðstandendum. Fagnað verður góðu vetrarverki og viðurkenningar veittar og slegið verður upp pylsuveislu. Yngri flokkarnir telja iðkendur á aldrinum 4-16 ára, en allir velunnarar körfunnar eru velkomnir á hátíðina, sem fer fram á milli klukkan 18 og 20.

Frammistaða Vestrakrakkanna í vetur hefur verið afar góð, fleiri hópar tóku þátt í Íslandsmótum en verið hefur um langt árabil og fyrsti bikarmeistaratitill hins nýstofnaða Vestra kom í hús hjá 9. flokki drengja í körfunni. Tvö elstu lið drengjanna luku keppni í vor í A-riðli og tvö elstu lið stúlknanna í B-riðli. Krakkarnir hafa því att kappi við öll bestu lið landsins í sínum aldurshópum í vetur og staðið sig með miklum ágætum. Minnibolti eldri drengja (10-11 ára) á lokamót vetrarins eftir og fer það fram í DHL-höllinni nú um helgina.

Formlegum vetraræfingum iðkenda í 4. bekk og yngri er nú lokið en eldri iðkendur æfa út maímánuð eða fram að hinum árlegu Körfuboltabúðum Vestra, sem fram fara í níunda sinn dagana 30. maí-4. júní. Að búðunum loknum taka við sumaræfingar í körfunni.

 

Einstök upplifun að fara til Hesteyrar

Spennumyndin Ég man þig verður frumsýnd á morgun. Myndin er gerð eftir samnefndri bók Yrsu Sigurðardóttur. Bókin kom út árið 2010 og seldist í hátt í 30 þúsund eintökum.

Lauslega fjallar myndin um ungt fólk sem er að gera upp hús á Hesteyri um miðjan vetur fer að gruna að þau séu ekki einu gestirnir í þessu eyðiþorpi. Á Ísafirði dregst nýi geðlæknirinn í bænum inn í rannsókn á sjálfsmorði eldri konu, en svo virðist sem hún hafi verið heltekin af syni hans, sem hvarf fyrir nokkrum árum og fannst aldrei.

Myndin var meðal annars tekin upp á Ísafirði og á Hesteyri. .„Að fara til Hesteyrar var eftirminnilegast við þetta ferli. Aðstæður þar eru frumstæðar, þar er ekki rafmagn og við vorum ekki í símasambandi. Þetta gerði hópinn samheldinn. Að vera þarna í viku í tveimur húsum, allir í kojum, ekkert rafmagn og frekar kalt, en við reyndum að hafa húsin notaleg, það var einstök upplifun,“ sagði Óskar Þór Axelsson, leikstjóri myndarinnar í Kastljósi RÚV í gær.

Ég man þig verður frumsýnd í Ísafjarðarbíó kl. 20 annaðkvöld og myndin verður sýnd sjö sinnum.

Bæjarins besta 17. tbl. 34. árgangur

17. tbl. 2017
17. tbl. 2017

Vestra spáð 2. sæti

Meistaraflokkur Vestra var við æfingar á Spáni snemma í vor.

Þjálfarar og fyrirliðar í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu spá Vestra öðru sæti í deildinni og að liðið komist þar af leiðandi upp um deild. Það er fréttasíðan Fótbolti.net sem stendur fyrir spánni.

Í umsögn kemur fram að styrkleikar liðsins, öfugt við í fyrra, er að leikmannahópurinn er mikið öflugri og góðir leikmenn hafa bæst við hópinn. Þá eru ungu heimastrákarnir árinu eldri og reynslunni ríkari.

Markaskorunin var ekki mikið vandamál hjá liðinu í fyrra og með reyndan sóknarmann eins og Gilles Mbang Ondo þá ætti sóknarleikurinn ekki að há liðinu. Ondo gekk til liðs við Vestra í vetur og hefur verið að komast í betra form undanfarnar vikur en hann var markakóngur í Pepsi-deildinni með Grindavík árið 2010.

Varnarleikurinn var mikill hausverkur hjá Vestra í fyrra en í umsögn Fótbolta.net segir að liðið virðist hins vegar hafa náð að bæta hann í vetur. Vestri náði ekki alltaf að stilla upp sínu sterkasta liði á undirbúningstímabilinu og leikmenn hafa verið að bætast inn í hópinn undanfarnar vikur. Það gæti því tekið smá tíma fyrir liðið að finna taktinn. Liðið tapaði óvænt gegn bæði Álftanesi og Vængi Júpíters á vordögum og þarf að sýna betri frammistöðu en þar í sumar.

Lykilmenn liðsins eru að mati spámanna Fótbolta.net þeir Aurelin Norest, Gilles Mbang Ondo og Viktor Júlíusson.

Fyrsti leikur Vestra er á laugardaginn á Torfnesvelli þegar liðið mætir Fjarðabyggð. Leikurinn hefst kl. 14.

Nýjustu fréttir