Föstudagur 17. janúar 2025
Síða 2210

Yngsti leikmaðurinn skoraði sigurmarkið

Frá leik Vestra fyrr í sumar.

Vestri lék sinn fyrsta leik í 2. deild Íslandsmótsins í gær. Leikurinn átti að vera á laugardag en vegna þoku komst lið Fjarðabyggðar ekki vestur og leiknum því frestað um sólarhring. Það var fjölmenni í blíðunni  á Torfnesvelli sem fylgdist með nokkuð spræku liði heimamanna klást við Austfirðingana. Vestramenn sýndu strax frá upphafi fína takta, en það vantaði upp á að liðið væri nógu ógnandi fram á við. Markalaust var í hálfleik þegar sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleik sýndu Vestramenn lipran samleik sem endaði með því að Þórður Gunnar Hafþórsson skoraði í mark Fjarðabyggðar og kom Vestra yfir. Vestramenn fengu nokkur færi til að gulltryggja sigurinn, en tókst ekki að koma boltanum í markið og endaði leikurinn með eins marks sigri heimamanna.

Þórður Gunnar Hafþórsson.

Þórður Gunnar er á sextánda ári og lýkur 10. bekk í vor. Hann kom inn á sem varamaður á 17. mínútu þegar Francis Adjei meiddist.  Danimir Milkanovic, þjálfari Vestra, verðlaunaði Þórð Gunnar með heiðursskiptingu í uppbótartíma leiksins og fékk leikmaðurinn ungi verskuldað klapp frá áhorfendum.

 

 

 

 

Vestra er spáð upp um deild í spá Fótbolta.net fyrir sumarið, en Fjarðabyggð, er spáð um miðja deild.

Þessi þrjú hafa mætt á völlinn og stutt Ísafjarðarliðin í áratugi.

 

Góð veiði fyrstu vikuna

Fyrstu viku strandveiða sumarið 2017 lauk á föstudag. Samkvæmt tölum frá Landssambandi smábátaeigenda voru 319 bátar á veiðum og samanlagður afli 433 tonn. Alls fóru bátarnir 651 sinnum á sjó sem gerir meðalafla upp á 665 kg.

Að venju eru flestir strandveiðibátanna skráðir á svæði A, eða 161 talsins sem er þremur fleiri en samanlagður fjöldi á öðrum svæðum. Svæði A nær frá Arnarstapa á Snæfellsnesi til Súðavíkur.

Kólnar aftur í vikunni

Ef veðurspá gengur eftir gæti snjóað á Vestfjörðum á fimmtudag.

Veðrið hefur sannarlega leikið við Vestfirðinga sem aðra landsmenn síðustu daga þó talsvert þokuloft hafi sett smá strik í reikning blíðunnar. Í dag gerir Veðurstofa Íslands ráð fyrir suðvestan 5-13 m/s og björtu með köflum á Vestfjörðum, en sums staðar verður þokumóða. Vindur gengur í norðaustan 10-15 m/s með lítilsháttar vætu annað kvöld. Hiti verður á bilinu 5 til 12 stig að deginum. Á miðvikudag kólnar í veðri og kveður veðurspá fyrir landið á um norðaustan 13-23 m/s, hvassast verður á Norðvesturlandi og með suðurströndinni. Þá verður rigning eða slydda, en snjókoma til fjalla á norðanverðu landinu. Hiti 0 til 7 stig. Á fimmtudag verður áfram svalt í veðri með austan- og norðaustan 13-23 m/s og rigningu eða slyddu.

annska@bb.is

Kvennakórar flykkjast til Ísafjarðar

Kvennakór Ísafjarðar.

Á fimmtudaginn verður landsmót Gígjunnar, Landssambands íslenskra kvennakóra, sett á Ísafirði. Landsmótið stendur fram á sunnudag og er þetta í tíunda sinn sem það er haldið.
Von er á um 300 þátttakendum úr kórum víðsvegar af landinu til Ísafjarðar á landsmótið, sem mun því teljast til stærri menningarviðburða á Vestfjörðum.

Ýmsir kórstjórar sem og tónlistarmenn munu koma við sögu og hefur verið lagt kapp á að gefa landsmótinu vestfirskt yfirbragð. Þátttakendur munu vinna í fimm „smiðjum“ sem hver hefur sitt þema. Sem dæmi verður er ein smiðja með BG-þema. Einnig munu allar þessar syngjandi konur mynda einn stóran kór.

Til að kynna afraksturinn verða tvennir tónleikar í boði. Báðir tónleikarnir fara fram í íþróttahúsinu á Torfnesi. Fyrri tónleikarnir eru á dagskrá föstudaginn 12. maí kl. 17:30 og þá flytur hver kór stutta efnisskrá. Á seinni tónleikunum sem hefjast kl. 15 laugardaginn 13. maí, kynnir hver smiðja sitt efni og að lokum kemur samkórinn fram og flytur nokkur lög saman. Þar ber helst að nefna landsmótslagið sem samið hefur verið sérstaklega fyrir þetta landsmót og verður frumflutt á tónleikunum. Kvennakór Ísafjarðar valdi fallegt ljóð eftir Harald Stígsson frá Horni og lagið er eftir ísfirska tónskálldið Halldór Smárason.

Landsmót íslenskra kvennakóra er einstakur menningarviðburður þar sem mjög fjölbreytt kóratónlist er í boði. Kvennakór Ísafjarðar vonast til að sjá sem flesta heimamenn á tónleikunum.

Fróðleg erindi og líflegar umræður

Dr. Kristinn Hermannsson fjallaði um staðbundin spor efnahagslífsins.

Flateyringar sýndu og sönnuðu um helgina að þar er ekki bara hægt að syngja um hafið og fjöllin og skemmta sér á Vagninum. Gríðargóð ráðstefna var haldin á föstudag og laugardag þar sem tilvera lítilla sjávarþorpa, menning þeirra, kostir og gallar voru ræddir í þaula. Jóhanna G. Kristjánsdóttir menntunarfræðingur reið á vaðið með erindi sem hún kallaði Byggðin á mölinni og í kjölfarið ræddi Þóroddur Bjarnason, félagsfræðingur og prófessor við HA, um áskoranir og framtíð sjávarbyggða. Síðasta erindi dagsins flutti heimamaðurinn Kristjáns Torfi Einarsson, sjómaður og útgerðarmaður. Kristján Torfi fór yfir sögu staðarins og hve mikilvægt það er að heimamenn hafi aðgang að auðlindum svæðisins, bæði til lands og sjávar.

Líflegar umræður voru á eftir hverju erindi og þessum fyrsta degi lauk svo með móttöku í samkomuhúsi bæjarins.

Árla morguns á laugardag fylltist salurinn aftur og Guðmundur Hálfdánarson, sagnfræðingur og prófessor við HÍ, fór í stórum dráttum yfir söguna í erindi sem hann kallaði Glæst fortíð – óviss framtíð. Sæbjörg Freyja Gísladóttir þjóðfræðingur velti fyrir sér af hverju fólk búi á Flateyri, en hún hefur rannsakað daglegt líf ólíkra hópa á Flateyri. Lokaerindið flutti Kristinn Hermannsson, lektor í hagfræði við Háskólann í Glasgow. Í erindinu fór Kristinn yfir staðbundin spor efnahagslífsins og áhrif þess á nærsamfélög.
Eins og fyrri daginn voru ráðstefnugestir áhugasamir um erindin og fjölmargar spurningar vöknuðu.

Að loknum pallborðsumræðum þar sem fyrirlesarar sátu fyrir svörum tíndust ráðstefnugestir til síns heima, með nýjar hugmyndir eða staðfestingu á réttmæti sinna hugmynda, allir ríkari eftir fantagóða ráðstefnu.

Það var tengdadóttir Önundarfjarðar, Friðbjörg Matthíasdóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar, sem stýrði málþinginu af mikill röggsemi.

 

Önfirðingar og nærsveitungar hópuðust á málþingið.

Að málþinginu stóðu Perlur fjarðarins ehf. Flateyri, félagið Hús og fólk Flateyri og ýmsir heimamenn á Flateyri í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða með styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Markmið málþingsins var vekja athygli á vestfirsku samfélagi og málefnum dreifðra byggða á Íslandi. Heimamenn, fræðimenn og gestir munu skiptast á skoðunum í von um að umræða er tæki mið af reynsluheimi íbúa dreifðra byggða, þekkingu og sýn fræðimanna muni efla skilning á stöðu mála, viðfangsefnum og hugsanlegum úrræðum.

bryndis@bb.is

Bærinn felli niður gatnagerðargjöld

Byggingageirinn ásamt ferðaþjónustu kallar á aukið vinnuafl.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur beint því til bæjastjórnar að gatnagerðargjöld af völdum íbúðarlóðum verði felld niður. Lóðirnar verða sérstaklega auglýstar í þessu skyni og skipulags- og mannvirkjanefnd verður falið að taka til umfjöllunar hvaða lóðir verði auglýstar með þessu ákvæði. Ákvæðið tekur gildi eftir samþykkt þess í bæjarstjórn og varir til 1. maí 2018 og er ekki afturvirkt. Miðað er við að framkvæmdir hefjist innan þessara tímamarka og ljúki fyrir 1. maí 2020. Niðurfellingin mun taka gildi við lokaúttekt og er gjaldfrestur veittur fram að henni. Ljúki framkvæmdum 1. maí 2020 fellur lækkunin niður.“

Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku var samþykkt að vísa tillögu Marzellíusar Sveinbjörnssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarflokks, um sama efni til frekari úrvinnslu í bæjarráði og tillagan sem nú er komin fram er niðurstaða bæjarráðs.

Ískönnunarvélar til sýnis á Ísafjarðarflugvelli

Twin Otter vélin sem verður til sýnis í dag.

Twin-Otter flugvélin bandaríska, sem flýgur í rannsóknarskyni frá Ísafirði þessa dagana hefur vakið athygli margra bæjarbúa. Bandarískt teymi rannsóknarmanna hefur gert vélina út frá Ísafjarðarflugvelli undanfarnar vikur og mun dvelja samtals í fjórar vikur. Mánudaginn 8. maí bætist svo flugvél Landhelgisgæslunnar við í sínu árlega ískönnunarflugi en Gæslan hefur verið rannsóknarteyminu innan handar frá komunni til landsins.

Í tilefni þess að flugvélarnar tvær verða staddar á Ísafirði er almenningi boðið að skoða þær í dag kl. 18:00 (eftir brottför áætlunarflugs) og fræðast um vélarnar og verkefni þeirra frá fyrstu hendi.

Flugvélarnar tvær eru ólíkar og hið sama má segja um verkefni þeirra þótt í báðum tilvikum sé verið að kanna stöðu hafíss. Twin Otter vélin tilheyrir Naval Postgraduate School í Bandaríkjunum og er búin margvíslegum mælitækjum sem mæla orkuskipti milli hafs og lofts við ísröndina. Flæði hreyfiorku, vindþrýstings á yfirborði, flæði hitaorku, rakaflæði og geislunarflæði sólskins og jarðskins eru mæld í leiðangrinum. Auk þess eru mældar agnir í lofti og áhrif þeirra á skyggni. Þá er flugvélin einnig búin myndavélum bæði venjulegum myndavélum sem og innrauðum myndavélum sem mynda yfirborð íssins á sekúndu fresti. Gögn af þessu tagi eru af skornum skammti og munu þau því án efa gagnast við gerð spálíkana og við fjölmargar rannsóknir sem snúa að loftslagsmálum og hafís. Til þess að safna slíkum gögnum þarf að fljúga mjög lágt. Twin Otter vélin flýgur því í um 30 m hæð yfir sjó/ís og að sögn rannsóknarteymisins hefur jafnvel mátt greina spor eftir hvítabirni í þessum lágflugum. Rannsóknarteymið bandaríska er með vinnuaðstöðu í Háskólasetri Vestfjarða og á Ísafjarðarflugvelli í samtals fjórar vikur.

 

Ísbjarnarspor á hafísnum úti fyrir Vestfjörðum

Dash flugvél Landhelgisgæslunnar er mun stærri og sinnir hún fjölbreyttum verkefnum á vegum Gæslunnar árið um kring. Eitt af þessum verkefnum er að mæla reglulega útbreiðslu hafíss í íslenskri efnahagslögsögu og þá sérstaklega á Grænlandssundi. Þetta er mikilvægt til að vara fiskiflotann við ísjökum á siglingaleiðum. Sambærilegar mælingar um langt árabil geta líka gefið upplýsingar sem gagnast í spálíkönum og mati á loftslagsbreytingum. Flugvél Landhelgisgæslunnar stoppar aðeins þennan eina dag á Ísafirði.

Áhafnir vélanna verða á Ísafjarðarflugvelli upp úr kl. 17:30. Eftir brottför áætlunarflugs kl. 18:00 verða flutt nokkur stutt kynningarávörp á meðan vélunum tveimur verður komið fyrir framan við flugstöðvarbygginguna. Að þessum stuttu ávörpum loknum gefst áhugasömum gestum tækifæri til að skoða vélarnar og fræðast nánar um þær og verkefnin hjá áhöfnunum. Allir eru velkomnir, ungir sem aldnir, upprennandi flugkappar og ekki síst fólk með tæknidellu enda eru vélarnar hlaðnar mælitækjum af ýmsum toga.

Sunna hrindir af stað söfnun fyrir ómtæki

Það eru margar góðar gjafir sem leynast í bögglahappdrættinu á Vorfagnaðinum og nú safnar Sunna fyrir stórum böggli fyrir samfélagið á Vestfjörðum.

Kvenfélagið Sunna hefur hrint af stað söfnun fyrir nýju ómtæki fyrir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Sárlega vantar nýtt tæki á stofnunina, en það nýtist til margra verka líkt og fósturskoðana, rannsókna og sjúkdómsgreininga. Tæki sem þetta er mikið notað af læknum stofnunarinnar, ljósmæðrum og sérfræðilæknum sem koma með reglulegu millibili á HVEST. Kostnaður við tækjakaupin er um 6 m.kr., að virðisaukaskatti ótöldum og því eru allir hvattir til að leggja söfnuninni lið og gefur Sunna 500.000 til söfnunarinnar auk þess sem félagið mun halda utan um hana. Búið er að stofna reikning sérstaklega ætlaðan til verksins sem er: 0556-14-402000, kt: 470510-2260. Frekari upplýsingar gefa Álfhildur formaður á thorh@snerpa.is eða Stella gjaldkeri á heydalur@heydalur.is

 

Það er ávallt mikið fjör á vorfagnaði Sunnu.

Ár hvert láta Sunnukonur verkin tala og færa gjafir til aðila í nærumhverfi sínu og á síðasta ári gáfu þær til að mynda hjartastuðtæki á Litlabæ og lyfjadælu á hjúkrunarheimilið Eyri. Ein helsta fjáröflun félagsins er hinn árlegi vorfagnaður Sunnu sem haldinn er í Heydal og fer hann fram laugardaginn 24. júní í ár. Gleðin hefst klukkan 20:30 og verður boðið upp á heimabakkelsi og kaffi. Þá verður einnig skemmtun með leynigesti og ball þar sem Stebbi Jóns sér um fjörið og ekki má gleyma hinu sívinsæla bögglahappdrætti þar sem marga glæsilega vinninga er að finna. Miðar verða seldir við innganginn og er miðaverð 3000 krónur. Hægt er að slá skemmtikvöldinu upp í örlítið dekur og bóka gistingu í Heydal sýnist gestum svo.

Kvenfélagið Sunnu skipa Djúpkonur og hefur konum í félaginu fjölgað mikið hin síðustu ár og eru þær nú 29, sem er skemmtilegt mótvægi við fólksfækkun sem verið hefur í Ísafjarðardjúpi. Það eru sumarhúsaeigendur, fyrrum íbúar og konur sem eiga ættir að rekja í Djúpið, sem hafa verið duglegar að skrá sig í félagið.

Stubbarnir vöktu bæjarbúa með lúðrablæstri

Eflaust hafa einhverjir bæjarbúar á Ísafirði vaknað fyrr í dag en þeir höfðu ætlað sér er árrisulir Stubbar fóru á stjá, undir lúðrablæstri, á fimmta tímanum í morgun. Þessi vorboði hefur sjaldan fallið betur eins og flís við rass og nú er þokan grúfði yfir bænum og má ímynda sér að blessaðir Stubbarnir hafi einvörðungu verið að gefa til kynna staðsetningu sína með þokulúðrum. Undir Stubbabúningunum leynast útskriftarnemendur Menntaskólans á Ísafirði sem dimmitera í dag og vöktu þeir starfsfólk skólans víða um bæinn í morgun áður en þeir héldu í morgunverð til skólameistarahjónanna. Að honum loknum tóku yngri nemendur MÍ á móti þeim með skólablaðinu Cloökunni og hinum ýmsu leikjum og þá var haldið á rúnt um bæinn á gámabíl og svo haldið áfram leikjum. Ekki er nú ólíklegt að einhverjir næli sér svo í smá kríu fyrir lokaballið sem verður haldið í Krúsinni í kvöld.

Útskriftarathöfn Menntaskólans á Ísafirði verður laugardaginn 27. maí kl. 13 í Ísafjarðarkirkju og munu um 50 nemendur útskrifast sem stúdentar, sjúkraliðar, stálsmiðir og vélstjórar. Að venju verður síðan útskriftarkvöldverður í íþróttahúsinu þar sem Lúlú og fjölskylda bjóða upp á veglegt hlaðborð og hljómsveitin Húsið á sléttunni leikur fyrir dansi. Lúlu hefur í árafjöld séð til þess að menntskælingar fái úrvalsfæði og einnig hafa gestir fengið að njóta matargerðarlistar hennar á viðburðum sem þessum, en þetta verður í síðasta skipti sem Lúlú sér um hátíðarkvöldverðinn því hún lætur af störfum við mötuneytið nú í vor.

Íslandsmót í blaki um helgina

Um helgina heldur blakdeild Vestra Íslandsmót í blaki fyrir 4.-6. flokk. Á mótið koma lið víðsvegar að af landinu, og verða þátttakendur um 170 talsins og eru þá ótaldir fararstjórar og þjálfarar. Leiknir verða rúmlega 80 blakleikir á fjórum völlum í íþróttahúsinu á Torfnesi og eru allir velkomnir að koma og styðja við bakið á sínu fólki, en bæði Vestri og Stefnir verða með nokkur lið á mótinu. Einnig eru væntanleg lið frá Aftureldingu, HK, Þrótti Reykjavík, Völsungi Húsavík, KA, BF Siglufirði og Þrótti Nes.

Vestfirskir blakarar hafa verið að gera góða hluti í íþróttinni undanfarin ár og um síðustu helgi tóku þeir þátt í öldungamóti Blaksambandsins sem fram fór í Mosfellsbæ. Á mótinu kepptu 167 lið – samtals nálægt 1500 keppendur. Vestri sendi þrjú lið sem kepptu undir gamla nafninu „Skellur.“ Skemmst er frá því að segja að öll lið komust á pall. Karlaliðið náði 3. sæti í 3. deild. A-lið kvenna náði 3. sæti í 5. deild og B-liðið náðu 2. sæti í 10. deild eftir naumt tap í úrslitaleik og fara þar með upp um deild.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir