Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2210

Ökumenn yfirfari ljósabúnað

Nú þegar farið er að skyggja á kvöldin vill lögreglan á Vestfjörðum minna ökumenn í umdæminu á að athuga stöðuna á ljósabúnaði ökutækja áður en lagt er af stað. Reiðhjólafólk er líka hvatt til þess að yfirfara sinn ljósa- og öryggisbúnað.

Þá er vert að minnast á að Margar nýjar bifreiðar eru búnar ljósum sem kvikna þegar bíllinn er ræstur og í fyrstu má halda að um sé að ræða ökuljós en sú er ekki raunin. Víða má sjá í umferðinni ökumenn nýrra bíla sem gera sér ekki grein fyrir þessu og aka um með takmörkuð ljós og eru jafnvel ljóslausir að aftan. Þessi ljós sem kvikna sjálfkrafa á nýjum og nýlegum bílum eru yfirleitt ófullnægjandi til aksturs þar sem ekki er um að ræða ökuljós og því verða ökumenn sjálfir að sjá til þess að öll „ökuljósin“ séu kveikt.

Þessi ljósabúnaður kallast dagljós og er leyfður á Evrópska efnahagssvæðinu og af þeim sökum er heimilt að flytja slíkar bifreiðar inn til Íslands. Það gegnir hinsvegar öðru máli um notkun þessa búnaðar hér á landi. Það er ljósaskylda hér á landi – allan sólarhringinn og allan ársins hring – og því þarf ökumaður að gæta þess að ökuljósin, ekki stöðuljósin, séu kveikt á meðan á akstri stendur. Ljósskynjari þessa dagljósabúnaðar kveikir annars ekki á ökuljósunum fyrr en það rökkvar en utan þess tíma er bara kveikt á ígildi stöðuljósa að framan og í einhverjum tilfellum eru engin ljós kveikt að aftan.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Óviturt að loka Djúpinu án frekari rannsókna

Eva Pandora Baldursdóttir

Það væri óviturt að loka Ísafjarðardjúpi fyrir laxeldi án þessa að stunda frekari rannsóknir og taka til greina allar mótvægisaðgerðir sem fyrirtæki í fiskeldi hafa boðað. Þetta segir Eva Pandóra Baldursdóttir, þingmaður Pírata í Norðvesturkjördæmi. „. Það er greinilegt að fiskeldi yrði mikil búbót fyrir íbúa á svæðinu. Ég tel að náttúran eigi samt að fá að njóta vafans en þær mótvægisaðgerðir sem ég hef kynnt mér líta vel út og virðast í fljótu bragði að minnsta kosti stemma stigu fyrir þeim náttúruspjöllum sem menn óttast,“ segir Eva Pandóra.

Á næstu daga verður skýrla stefnumótunarnefndar í fiskeldi gerð opinber en nefndinni var falið að marka stefnuna til langs tíma.

Það þarf að fara fram miklu upplýstari umræða um málið áður en hægt er að taka ákvörðun [um að loka Ísafjarðardjúpi. Innsk. blm.] og ég hlakka til að lesa skýrsluna sem kemur út bráðum,“ segir Eva Pandóra.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ég man þig sýnd á Hesteyri

Læknishúsið á Hesteyri.

Kvikmyndin Ég man þig, sem byggð er á samnefndri bók eftir Yrsu Sigurðardóttur, verður sýnd á söguslóðum í Læknishúsinu á Hesteyri í sumar. Skipuleggjandi segir viðburðinn ekki vera fyrir neina vesalinga.

Íslenska hrollvekjan Ég man þig, sem byggð er á vinsælli skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur, var frumsýnd í kvikmyndahúsum við miklar vinsældir í maí.

Á miðvikudag hefjast sýningar á ný en þær verða í sjálfu Læknishúsinu á Hesteyri sem er þungamiðja sögusviðsins.

Bíógestir verða fluttir að Hesteyri frá Bolungarvík, þar sem þeirra bíður kvöldverður og sýning. Haldin var prufusýning í gær við góðar undirtektir.

Frumsýningin verður á miðvikudaginn og verða sýningar næstu tíu daga þar á eftir. Hægt er að bóka á vefsíðu Læknishússins eða með því að slá á þráðinn norður á Hesteyri. Miðarnir kosta fjórtán þúsund krónur með bátsferð, kvöldverð og sýningu.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Styrkir úttektir á aðgengismálum fatlaðra

Velferðarráðuneytið  auglýsir  lausa  til umsóknar styrki til úttekta á aðgengismálum fatlaðs fólks. Styrkirnir eru veittir í samræmi við framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þar sem gert er ráð fyrir úttektum á aðgengi að opinberum byggingum, umferðarmannvirkjum og öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að.

Sveitarfélög bera ábyrgð á úttektum, en markmið þeirra er að leiða í ljós stöðu aðgengismála í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Í framhaldi af úttekt verði gerð áætlun um úrbætur, ef við á.

Velferðarráðuneytið mun veita styrki til þess að framkvæma umræddar úttektir. Auglýst er eftir styrkumsóknum frá sveitarfélögum sem ljúka slíkri úttekt á þessu ári. Þjónustusvæði sem samanstanda af fleiru en einu sveitarfélagi, sem og ferlinefndir, geta einnig sótt um styrk.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Merkilegir munir úr búi Friðriks Svendsen (1788–1856)

Í dag kl. 17:00 í Bryggjukaffi verður formleg afhending á fornum munum úr búi Friðriks Svendsen.

Friðrik Svendsen, sem kalla mætti fyrsta Flateyringinn, var sá sem byggði um 1820 fyrsta varanlega íbúðarhúsið á Flateyri og bjó í því á blómlegum athafnatíma sínum til dauðadags. Húsið, sem lengst af var kallað Torfahús eftir næsta eiganda þess, brann 1961 – þá mikið breytt frá því sem upprunalega hafði verið.

Af Friðriki Svendsen hafa verið sagðar áhugaverðar sögur. Má þar nefna þáttinn „Örlagsasaga úr Önundarfirði“ eftir Jón Helgason. Friðrik Svendsen hefur vafalaust verið afar sérstakur og merkilegur maður, stórhuga brautryðjandi þilskipaútgerðar á Vestfjörðum og  höfundur merkrar ritgerðar um verkun sjávarafla, sem birtist í Ámann á Alþingi árið 1831. Einnig var hann mikill áhugamaður um ræktunarstörf, meðal annars ræktun túna og ræktun kálmetis í görðum. Sjóðsstofnun sem hann beitti sér fyrir varð fyrsti vísir að því sem seinn hlaut nafnið Búnaðarfélags Íslands. Bú hans var næst stærst búanna í Önundarfirði á sínum tíma.

Börn Friðriks Svendsen af fyrra hjónabandi settust að í Danmörku með danskri móður sinni en af þremur börnum hans í seinna hjónabandi lifði aðeins dóttirin Fernandína Friðrika Málfríður. Hún settist líka að í Danmörku. Einn afkomenda hennar, Vögg Jacobsen, lést fyrir skömmu en nú hefur ekkja hans, Margrete Jacobsen, komið þremur munum úr búi Svendsen aftur til upprunalandsins Íslands. Um er að ræða útskorna rúmbrík með með höfðaletri, „logbog“ eða eins konar dagbók Friðriks Svendsen frá árunum um 1830 á Flateyri og loks mynd sem komin er úr búi hans.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Atvinnuveganefnd fundar um vanda sauðfjárbænda

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Atvinnuveganefnd Alþingis mun halda tvo fundi í næstu viku um þann vanda sem blasir við sauðfjárbændum, en afurðastöðvarnar hafa boðað mikla lækkun á afurðaverði. Á þriðjudaginn fundar atvinnuveganefnd með forystumönnum bænda og á föstudaginn kemur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til fundar við nefndina.

Á Morgunvakt Rásar 1 í dag kom fram í máli Steinþórs Skúlasonar, forstjóra Slátursfélags Suðurlands, að framleiðslan þurfi að dragast saman um 20 prósent. Gengisstyrkin og innlendar kostnaðarhækkanir hafa gert það að verkum að útflutningur sem fyrir nokkrum árum skilaði betri afkomu en innanlandsmarkaður, skilar nú miklu tapi. Rússlandsmarkaður hefur lokast og Spánverjar og Norðmenn kaupa ekki það kjöt sem þeir hafa gert. „„Ef við horfum kalt á þetta, þá held ég að flestir sú búnir að átta sig á því að komið er nýtt jafnvægi með gengið og stöðu íslensks efnahagslífs. Að mínu mati og margra annarra gengur ekki upp að flytja út. Það þarf að draga verulega úr framleiðslunni ef við eigum ekki að horfa upp á allsherjar hrun,“ sagði Steinþór í morgun.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Aðsóknarmet slegið á Act alone

Á Act alone er eitthvað í boði fyrir alla aldurshópa. Mynd: Ágúst Atlason.

Einleikjahátíðinni Act alone lauk á Suðureyri á laugardag. Elfar Logi Hannesson, stjórnandi Act alone, segir að hátíðin hafi tekist með eindæmum vel í ár. „Það sóttu yfir þrjú þúsund manns viðburðina 18 sem voru í boði. Það var fullt hús á fyrsta degi og svo hélt það bara áfram til síðasta dag,“ segir Elfar Logi.

Hann segir aðsóknina vera nýtt „lúxusvandamál“. „Ekki verður félagsheimilið stækkað og við færum okkur ekki í íþróttahúsið, hjarta og sál Act alone er í Félagsheimili Súgandafjarðar og við verðum þar áfram. Svo er ákveðinn sjarmi við það að húsið fyllist og fólk standi eða sitji á gólfinu.“

Hann telur upp þrjár ástæður fyrir því að aðsóknin í ár var svona góð. „Þetta var gott einleikjaár og við vorum með sterkar og þekktar sýningar eins og Maður sem heitir Ove og Hún pabbi. Sú gula var ekki að skemma fyrir okkur og þó að þetta sé innihátíð þá skapast meiri stemmning þegar veðrið er svona gott. Í sumar var heimildarmyndin um hátíðina sýnd á RÚV og hún hefur eflaust ýtt við mörgum. Heimamenn á Suðureyri og í nágrannabyggðarlögunum hafa alltaf verið duglegir að mæta á Act alone en núna tók ég eftir mörgum frá sunnanverðum Vestfjörðum svo við getum rétt ímyndað okkur hverju Dýrafjarðargöngin eiga eftir að breyta fyrir menningarlíf á Vestfjörðum.“

Þrátt fyrir að hafa verið potturinn og pannan í einleikjahátíðinni frá upphafi er Elfar Log hvergi nærri hættur eða farinn að lýjast. „Nú kemur nokkra daga pása og á föstudaginn hefst undirbúningur fyrir næsta ár. Fyrsta umsóknin barst á laugardaginn, en ætli ég bíði ekki fram á föstudag með að svara henni.“

Sigurði Sigurjónssonar, eða Ove, fagnað innilega í sýningarlok.
Elfar Logi gengur í öll störf á Act alone. Mynd: Ágúst Atlason.

 

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Vanda með fyrirlestra á Ísafirði

Framundan  eru fjórir fræðslufyrirlestrar fyrir iðkendur, þjálfara, foreldra og stjórnarmenn aðildarfélaga HSV. Það er Vanda Sigurgeirsdóttir sem heimsækir Ísafjörð og ræðir um ýmsa þætti sem styrkir börn og unglinga í þeirra íþróttastarfi og miðlar til aðila sem að því starfi koma.

Vanda er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði og leggur nú stund á doktorsnám þar sem viðfangsefnið er einelti. Hún starfar sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands og er fyrrum landsliðskona í knattspyrnu. Hún hefur áratuga reynslu af að vinna með börnum og foreldrum. Forvarnir eineltis eru henni hjartans mál og hefur hún haldið fræðsluerindi fyrir börn og foreldra víða um land. Sérsvið hennar við Háskólann er einelti og tómstunda- og leiðtogafræði. Þá hefur hún einnig starfað sem knattspyrnuþjálfari í um 30 ár.

Fyrirlestrarnir eru sérsniðnir fyrir hvern hóp, miðvikudaginn 16. ágúst kl. 17:00 hefst fyrirlestur fyrir þjálfara og stjórnarmenn og fyrir foreldra kl. 20:00 en fimmtudaginn eru nemendum fæddum 2005 og fyrr velkomnir kl. 16:00 og kl. 18:00 eru það knattspyrnuþjálfarar stúlkna.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Yngsti landvætturinn

Jakob Daníelsson, yngsti landvættur Íslands

Í gær hljóp Jakob Daníelsson Jökulsárhlaupið og varð þar með svokallaður landvættur. Til að fá að bera þann merkistitil þarf að ganga 50 km í Fossavatnsgöngunni, hjóla 58 km í Bláa lóns þrautinni, synda 1 km í Urriðavatnssundinu og hlaupa alla 38 km Jökulsárhlaupsins – og þarf að ljúka keppnunum á innan við 12 mánuðum. Jakob, sem er rétt orðinn 16 ára gamall er yngsti landvættur Íslands. Gönguskíði er sú íþróttagrein sem á hug Jakobs allan og í vor var hann yngsti keppandinn í 50 km göngu Fossavatnsgöngunnar.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Síðdegisskúrir

Það er bjartur og fallegur dagur hér á norðanverðum Vestfjörðum og líkur á því að það haldi út vikuna, það er þó reiknað með síðdegisskúrum svo það gengur ekki að mála þakið eða gluggana.

Á landinu öllu verður hæg breytileg átt næsta sólarhringinn. Skýjað með köflum og víða síðdegisskúrir, en fer að rigna SA-til seinni partinn. Austan 3-10 m/s og víða skúrir á morgun, en sums staðar rigning syðst og austast. Hiti 9 til 16 stig að deginum, hlýjast inn til landsins.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir