Sunnudagur 20. október 2024
Síða 221

Landssamband veiðifélaga: lögreglustjórinn á Vestfjörðum vanhæfur – þorir ekki á móti fyrirtæki með pólitísk afl á bak við sig

Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri landssambands veiðifélaga.

Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri landssambands veiðifélaga sagði í viðtali við Stöð 2 þann 30. desember sl. að að vanhæfi lögreglustjórans á Vestfjörðum í máli Arctic Fish væri algjört.

Tilefnið var að lögreglustjórinn hafði tilkynnt að hætt hefði verið rannsókn á sleppingu eldislax úr kví fyrirtækisins í Patreksfirði. Matvælastofnun hafði kært málið til lögreglunnar.

undir hælnum á stórum fyrirtækjum

Gunnar Örn bar lögreglustjóranum á brýn að þekkingarleysi á lögunum og sagði hann auk þess sérstaklega vanhæfur vegna aðstæðna. Það útskýrði hann svona í fréttinni á Stöð 2 samkv. útskrift af henni sem birt er á visir.is:

„Gunnar segir ákvörðunina ekki hafa komið neitt sérstaklega að óvart vegna stöðunnar sem uppi er á Vestfjörðum. „Síðan hefur það sýnt sig líka erlendis að samfélög sem lenda undir hælnum á svona stórum fyrirtækjum verða að nokkru leyti lömuð þar sem embættismenn og íbúar samfélaganna þora ekki að stíga upp á móti fyrirtækjunum og stjórn þeirra. Í þessu tilfelli hafa stjórnendur líka mjög mikið pólitískt afl á bakvið sig og slíkt getur náttúrulega valdið vanhæfi,“ segir Gunnar jafnframt.“

Í öðru viðtali á Stöð 2 í síðustu viku þann 4. janúar endurtók Gunnar Örn þessar ásakanir og nú í spurnarformi og sagðist spyrja sig að því hvort lögreglustjórinn á Vestfjörðum treysti sér ekki til þess að fara með málið áfram gegn fyrirtækinu sem hefði svo mikil völd fyrir vestan

Lögreglustjóri: enginn beitt pólitísku afli

Bæjarins besta innti Gunnar Örn Petersen eftir rökstuðningi hans fyrir því að stjórnendur Arctic Fish hafi pólitísk afl á bak við sig sem valdi vanhæfi lögreglustjórans. Þá var hann einnig spurður að því hvort það væri bara á Vestfjörðum og bara varðandi laxeldisfyrirtæki sem hann sæi aðstæður sem geta haft áhrif á lögreglustjóra. Fyrirspurnirnar voru ítrekuðar í gær en engin svör hafa borist.

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, Helgi Jensson segir í svari sínu við fyrirspurn Bæjarins besta að hann væri ekki sammála þessu áliti Gunnars á vanhæfi sínu. Þá hafnaði Helgi því að hafa verið beittur pólitíski afli: „Arctic Fish hefur ekki reynt að beita mig eða aðra starfsmenn embættisins pólitísku afli, hvorki í þessu máli né öðrum.“

 

Verð á mjólkurvöru lítið breyst frá októberlokum

Í meirihluta af þeim 11 verslunum þar sem verðkönnunin ASÍ fór fram í breyttist verð á mjólkurvöru lítið frá októberlokum 2023 til ársbyrjunar 2024.

Í flestum verslunum voru verðbreytingar á mjólkurvöru innan við 1%, til hækkunar eða lækkunar. Mest hækkaði verð á mjólkurvöru í Iceland, eða um 4%. Verð lækkaði mest í Kjörbúðinni, eða um tæplega 5% og næst mest í Krambúðinni, 4%.
Fimm flokkar voru skoðaðir; skyr og jógúrt, rjómi, ostar og smjör, mjólk og jurtamjólk, og loks aðrar mjólkurvörur.

Í síðastnefnda flokknum eru til dæmis prótein- og kaffidrykkir. Sá flokkur stóð í stað eða lækkaði í níu af ellefu verslunum og lækkaði mest í Kjörbúðinni (16%) og Krambúðinni (12%). Í Kjörbúðinni lækkaði verð í öðrum vöruflokkum um 1,1-2,6% og í Krambúðinni um 1-3,3%.

Útnefning íþróttamanns Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur verður á laugardag

Bolvíkingurinn Einar Margeir Ágústsson var á dögunum valinn íþróttamaður Akkraness 2023

Útnefning íþróttamanns Ísafjarðarbæjar 2023 fer fram á veitingastaðnum Logni á Hótel Ísafirði þann 13. janúar 2024 kl. 13:00.

Einnig verður efnilegasti íþróttamaður ársins 2023 útnefndur, auk þess sem hvatningarverðlaun íþrótta- og tómstundanefndar verða veitt.

Útnefningu á íþróttamanni Bolungarvíkur fyrir árið 2023 ásamt veitingu viðurkenninga verður í Félagsheimili Bolungarvíkur laugadaginn 13. janúar nk. kl.14:00.

Fiskistofustjóri lætur af störfum

Ögmundur Knútsson Fiskistofustjóri hefur beðist lausnar frá störfum frá og með 15. janúar 2024 en hann hefur tekið að sér starf hjá Alþjóðabankanum sem „Senior Fisheries Specialist“ fyrir Vestur Afríku. 

Elín Björg Ragnarsdóttir, sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs og staðgengill Fiskistofustjóra mun sinna starfi Fiskistofustjóra þar til ráðinn verður nýr aðili í starfið sem verður auglýst á næstu dögum.

Vesturbyggð – Íbúum gefst kostur á lækkun sorphirðugjalda

Ráðhúsið í Vesturbyggð.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt breytingar á gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs sem miða að því að auka sveigjanleika og möguleika íbúa á að lækka kostnað vegna meðhöndlunar úrgangs.  

Við álagn­ingu gjalda vegna meðhöndl­unar úrgangs á árinu 2023 voru innleiddar ýmsar breyt­ingar á gjald­skrá Vest­ur­byggðar svo gjald­skráin tæki mið af breyt­ingum á lögum um meðhöndlun úrgangs. Sveit­ar­fé­lögum er nú óheimilt að greiða niður meðhöndlun úrgangs og ber að innheimta sem næst raunkostnaði.

Helstu breytingar sem samþykktar hafa verið eru: 

  • Íbúum gefst kostur á að sækja um minna ílát fyrir almennt sorp, 120l í stað 240l ílát. 
  • Íbúar í fjölbýlishúsum, parhúsum og eigendur að samliggjandi eignum gefst kostur á að sameinast um sorpílát.  
  • Íbúar með heimajarðgerð geta sótt um að fá felld niður gjöld á íláti fyrir lífrænan úrgang gegn því að sýna fram á aðstöðu til heimajarðgerðar.  

Gjaldská og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Vesturbyggar.

Ísafjarðarbær valinn í verkefni um úrgangsstjórnun

Samband íslenskra sveitarfélaga stendur fyrir kostnaðarmatsverkefni vegna úrgangsstjórnunar sveitarfélaga. Markmið verkefnisins er að ná betri yfirsýn yfir kostnað og tekjur sveitarfélaga í málaflokknum og hvernig þróun útgjalda og tekna hefur verið síðastliðin ár.

Tveir ráðgjafar ,annars vegar Pure North og hins vegar HLH ráðgjöf, munu vinna greiningarvinnuna og setja fram niðurstöður verkefnisins. Verkefnið er í tveimur áföngum og ráðgert er að hefja verkefnið í desember 2023. Niðurstöður úr fyrri hluta verkefnisins munu liggja fyrir í febrúar/mars 2024 og niðurstöður seinni hluta í júní 2024.

Undir lok nóvember auglýsti sambandið eftir áhugasömum sveitarfélögum til að taka þátt í verkefninu og bárust 22 umsóknir. Aðeins 5 sveitarfélögum er boðin þátttaka. Ísafjarðarbær er eitt þeirra. Hin sveitarfélögin 4 sem voru valin eru Garðabær, Rangárþing eystra, Skagafjörður og Suðurnesjabær.

Vilja færa mengunar- og heilbrigðiseftirlit til ríkisins frá sveitarfélögunum

Starfshópur á vegu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku og loftslagsráðherra leggur til að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga verði fært til ríkisins. Ábyrgð á eftirliti með hollustuháttum og
mengunarvörnum færist frá heilbrigðiseftirliti til Umhverfisstofnunar og eftirlit með matvælum færist frá heilbrigðiseftirliti til Matvælastofnunar.

Segir í skýrslu starfshópsin að það sé ljóst eftir mörg og ítarleg samtöl við aðila sem eftirlitið snertir frá ýmsum hliðum að ósamræmi í framkvæmd eftirlits er of mikið, stjórnsýsla er of flókin og yfirsýn skortir. Slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir almenning auk þeirra neikvæðu áhrifa sem það hefur á atvinnulíf og samkeppnishæfi Íslands.

andstaða við tillögurnar

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða bókaði í desember að það tæki undir bókun Samtaka Heilbrigðiseftirlitssvæða á ÍslandiÍ um skýrslu starfshóps.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi gera verulegar athugasemdir við skýrslu starfshóps á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum. Samtökin telja tillögurnar ekki nægilega vel unnar, rökstuðning vanta og niðurstöðu byggða á veikum grunni, auk þess sem samtökin telja að verulegur skortur hafi verið á samráði við hagaðila, eins og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og sveitarfélögin sjálf, við gerð skýrslunnar.

Þar segir einnig að í skýrslunni komi fram verulegur skortur á skilningi á hlutverki og starfsemi heilbrigðiseftirlita sveitarfélaga þar sem hún einblínir nær eingöngu á hlutverk þeirra við reglubundið eftirlit en tekur ekki til skoðunar margvísleg önnur verkefni þeirra við vöktun umhverfis, umsagnir, ráðgjöf við íbúa og nærþjónustu.

Líklegt er að færsla á öllu eftirliti til stofnanna ríkisins geti haft verulega áhrif á gæði umhverfis og öryggi og heilnæmi íbúa sveitarfélaga þar sem þjónusta færist fjær íbúum.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi benda á að flestar þær ábendingar sem bent er á skýrslunni snúa ekki að starfsemi heilbrigðiseftirlita á Íslandi, heldur beinast að þeim stofnunum ríkisins sem samkvæmt núgildandi lögum hafa með höndum samræmingu eftirlits.

Anton Helgason, heilbrigðisfulltrúi Vestfjarða segir að ekkert hafi heyrst frá sveitarfélögum varðandi þessar breytingar á stjórsýslunni. „Þó boðaðar breytingar séu enn bara í loftinu og ekki útséð hver endanleg niðurstaða verður þá eru þær þegar farnar að hafa áhrif, þar sem starfsfólk sumra svæða er þegar farið að ráða sig á öðrum starfsvettvangi.“

Lítill áhugi er hjá honum á að starfa hjá Matvælastofnun og því þurfi að gera ráð ráð fyrir kostnaði við starfslok starfsmanna hjá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða.

Í starfshópnum voru Ármann Kr. Ólafsson, formaður, Gunnar Alexander Ólafsson sérfræðingur og Sigríður Gísladóttir, dýralæknir.

Sterkar Strandir: 50 m.kr. í styrki

Frá íbúafundi á Hólmavík í sumar.

Byggðaþróunarverkefnið Sterkar Strandir hófst á árinu 2020 og var gert ráð fyrir því að verkefnið stæði yfir til loka árs 2023 þegar Byggðastofnun drægi sig í hlé úr verkefninu.

Sveitarstjórn Strandabyggðar óskaði eftir framlengingu á verkefninu og samþykkti stjórn Byggðastofnunar á fundi sínum 1. nóvember 2023 að framlengja verkefnið um eitt ár, til loka árs 2024.

Í sumar ákvað Snæfell, dótturfélag Samherja og eigandi rækjuvinnslunnar Hólmadrangs að hætta starfsemi sinni á Hólmavík og misstuum 20 manns vinnu sína.

Á þessum fjórum árum hefur verkefnið veitt 42 m.kr. í styrki til margvíslegra verkefna auk þess sem svonefndur Öndvegissjóður veitti 8,7 m.kr. styrk til verkefnis á Hólmavík. Samtals nema styrkveitingarnar liðlega 50 m.kr.

Hæsta fjárhæðin var fyrsta árið 2020, en þá voru styrkveitingar 13,6 m.kr. auk Öndvegissjóðsins 8,7 m.kr. eða samtals 22 m.kr. Næsta ár voru styrkir aðeins 7,3 m.kr. og tvö síðustu árin 10,9 m.kr. og 10,5 m.kr.

Hæstu styrkir síðasta árs voru til nýrrar framleiðslínu Galdurs Brugghús ehf 2,3 m.kr. og til Skíðafélags Strandamanna 1,5 m.kr. til útivistarparadísar á Ströndum.

Kirkjubólshlíð: stór björg féllu á veginn

Stór björg féllu í fyrrinótt úr Kirkjubólshlíð við Bása á þjóðveginn og öllu skemmdum á vegriði. Kalla þurfti út gröfu til að ryðja veginn. Haukur Árni Hermannsson hjá Vegagerðinni sagði í samtali við Bæjarins besta að farið yrði strax í það að gera við vegriðið og vonaðist hann til þess að viðgerð yrði lokið innan fárra daga.

Jónas Ólafur Skúlason, sveitarstjórnarmaður í Súðavík sagðist vera ósáttur við að Vegagerðin hefði ekkert greint frá þessu atviki. Þarna féllu stór björg á veginn og af þeim skapaðist mikil hætta. Bæði Kirkjubólshliðin og Súðavíkurhlíðin væru varasamar og það væri full ástæða til þess að láta vegfarendur vita af atburðum sem þessum.

Grafan búin að ryðja bjarginu af veginum. Myndir: Jónas Ólafur Skúlason.

Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Ísafjarðarbæjar: 4 umsóknir

Starf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Ísafjarðarbæjar var auglýst í lok desember og var umsóknarfrestur til og með 4. janúar 2024. 

Umsækjendur um starfið voru fjórir, en þeir eru eftirfarandi:

Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir – Fyrrum deildarstjóri í félagsþjónustu

Atli Freyr Rúnarsson – Umsjónar- og íþróttakennari

Dagný Finnbjörnsdóttir – Framkvæmdastjóri HSV

Páll Janus Þórðarson – Lögregluvarðstjóri

Baldur Ingi Jónasson, mannauðsstjóri segir að fyrirhugað sé að ljúka fyrstu viðtölum við umsækjendur fyrir lok þessarar viku.

Nýjustu fréttir