Föstudagur 17. janúar 2025
Síða 2209

Björgunarfélag Ísafjarðar byggir æfingaturn

Við byggingu æfingaturnsins í gærkvöldi. Mynd af Fésbókarsíðu Björgunarfélags Ísafjarðar.

Björgunarfélag Ísafjarðar hefur hafið byggingu á æfingaturni við Suðurtanga á Ísafirði. Turninn mun nýtast til æfinga á fjallabjörgun og fleiru slíku, en ísfirsku björgunarsveitarfólki hefur lengi dreymt um að koma á laggirnar slíkri aðstöðu.

Í æfingaturninum fá gamlir línustaurar, sem Orkubú Vestfjarða leggur til, nýtt líf og eru vanir línumenn, þaulvanir stauraklifri, meðlimir í Björgunarfélaginu sem kemur að góðum notum við verkið. Þá leggja einnig til vinnu og tækjabúnað verktakarnir Valþór Atli og Brynjar Örn og segir í frétt á vef Björgunarfélagsins það vera lykilatriði í störfum félagsins að njóta velvildar í samfélaginu og eiga þar hauk í horni.

annska@bb.is

 

 

Vel heppnað Íslandsmót í blaki

Lið Vestra á mótinu. Mynd: Ágúst Atlason

 

Íslandsmótið í blaki hjá 4.-6. flokki vorið 2017 var haldið á Ísafirði um helgina. Á mótinu voru tæplega 170 keppendur á aldrinum 7-14 ára ásamt þjálfurum og fararstjórum. 28 lið frá níu félögum kepptu í fimm deildum og alls voru leiknir 82 leikir.

Mótið fór mjög vel fram, frábær tilþrif sáust á vellinum og keppendur voru prúðir utan vallar sem innan.

Vestri átti frábært mót. Lið Vestra í 4. flokki drengja varð Íslandsmeistari eftir hörku baráttu í úrslitum við Þrótt Nes sem enduðu í öðru sæti. Lið Vestra í 5. flokki B-liða (sem spila krakkablak á 3. stigi) varð líka í fyrsta sæti – sem er mjög flottur árangur. Stefnir frá Suðureyri átti lið í 3. sæti A-liða í 5. flokki.

Efstu þrjú lið í hverri deild voru sem hér segir:

4. flokkur pilta

  1. Vestri
  2. Þróttur Nes Beasts
  3. Þróttur Nes Titans

 

4. flokkur stúlkna

  1. BF/KA
  2. Þróttur R A
  3. Þróttur Nes

 

5. flokkur A-lið (4. stigs krakkablak)

  1. Völsungur
  2. Þróttur R – A
  3. Stefnir

 

5. flokkur B-lið (3. stigs krakkablak)

  1. Vestri
  2. HK
  3. BF 1 (Siglufjörður)

Í 6. flokki eru ekki reiknuð út sæti heldur fá allir þátttökuverðlaun. Í 6. flokki kepptu Völsungur, BF, Stefnir og þrjú lið frá Vestra.

Foreldrar barna í íþróttum leggja mikið á sig þegar kemur að ferðalögum á mót en ekki síður þegar standa þarf í stórræðum eins og að halda hátt í 200 barna mót. Það þarf að koma öllum fyrir í gistingu, gefa öllum að borða, dæma og stjórna leikjum og svo taka til þegar allt er yfirstaðið. Gestaliðin gáfu gestgjöfum góða einkun fyrir skipulag og umgjörð þessa móts. Ágúst Atlason ljósmyndari og blakforeldri tók myndir á mótinu sem nálgast má á facebook síðu blakdeildarinnar.

 

Bolungarvík á Ströndum hreinsuð í ár

Árleg hreinsunarferð verður farin í Hornstrandafriðlandið dagana 26.-27.maí. Að þessu sinni verður siglt í Hrafnfjörð og þaðan gengið yfir í Bolungarvík á Ströndum þar sem verður gist eina nótt. Ferðir sem þessar hafa verið farnar frá árinu 2014 og er það Ísfirðingurinn Gauti Geirsson sem skipuleggur þær. Fjölmargir sjálfboðaliðar hafa lagt verkefninu lið ár hvert og hafa oftar en ekki komist færri að en vilja. Að meðaltali hefur hópurinn tínt saman 5 tonn af plasti á ári og hafa því í heildina verið hreinsuð 15 tonn af rusli af strandlengju friðlandsins.  

Gauti segir tilganginn með verkefninu er vera tvíþættan, annars vegar að hreinsa svæðin og koma í veg fyrir að plastið brotni niður og berist útí lífríkið og hins vegar að reyna að fá fólk til þess að vera meðvitað um eigin neyslu og umgengni þar sem rannsóknir sýni að mikill meirihluti af plastrusli sem berst í sjóinn í dag komi af landi.

Þó verkefnið sé göfugt er það er ekki framkvæmt nema fyrir tilstuðlan styrktaraðila og að þessu sinni hafa staðfest þátttöku í verkefninu: Landhelgisgæslan, Ísafjarðarbær, Umhverfisstofnun, Vesturferðir, Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar , Aurora Arktika, Skeljungur, Reimar Vilmundarson og Gámaþjónusta Vestfjarða. Ferð sem þessi er líka ýmsu háð, til að mynda að veður veri skaplegt og að varðskipið verði ekki upptekið við skyldustörf. Sem áður segir er hún áætluð síðustu helgi maímánaðar, farið verður föstudaginn 26.maí og laugardaginn 27.maí verður hreinsað í Bolungarvík og ruslið ferjað í varðskipið sem síðan ferjar hópinn heim um kvöldið að lokinni grillveislu. Tekið verður við skráningum í ferðina um miðjan mánuðinn.

Að meðaltali hafa verið hreinsuð 5 tonn af rusli árlega í hreinsunarferðum í Hornstrandafriðlandið

Á meðfylgjandi korti má sjá þau svæði sem hafa verið hreinsuð og hvað fyrirhugað er að hreinsa í ár, en ef tími gest til verður líka hreinsað í Barðsvík í ár.

annska@bb.is

 

 

 

Ók undir áhrifum fíkniefna

Einn ökumaður var kærður í liðinni viku fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Sá var stöðvaður við eftirlit lögreglu á Ísafirði að morgni 4. maí. Annar ökumaður var kærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Sá var stöðvaður í miðbæ Ísafjarðar aðfaranótt sunnudagsins 7. maí.

Að kveldi 3. maí lagði lögreglan hald á nokkur grömm af marihúana. Einn maður var handtekinn, grunaður um að vera eigandi efnanna og hefur hann viðurkennt brot sitt.

Snemma morguns laugardagsins 6. maí barst lögreglunni tilkynning um að heimilishundur á Ísafirði hafi drepið nokkrar hænur í eigu nágranna. Mál þetta er til rannsóknar hjá lögreglunni. Lögreglan minnir hundaeigendur á að hundar gangi ekki lausir í þéttbýlinu.

Alls voru 13 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni. Flestir þessara ökumanna voru stöðvaðir í Strandasýslu en einnig í Ísafjarðardjúpi og á Ísafirði.

Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar. Allir voru þessir ökumenn í akstri á Ísafirði.

Einn ökumaður var kærður fyrir að aka með útrunnin ökuréttindi.

Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp í vikunni. Það fyrra var síðdegis sunnudaginn 7. maí þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni, á vegi þar sem ekki er bundið slitlag, nánar tiltekið við Skershlíð í Patreksfirði. Bifreiðin hafnaði utan vegar og valt. Hvorki ökumann eða farþega sakaði. Bifreiðin var hins vegar óökufær eftir atvikið. Að morgni 4. maí varð annað óhapp þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í Reykhólasveit með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af veginum og valt. Ökumaður, sem var einsamall í bifreiðinni, meiddist ekki enda með öryggisbelti spennt.

Töluverð umskipti í veðrinu

Norðaustan stormur í fyrramálið.

Næsta sólarhringinn verða töluverð umskipti á veðrinu, því í nótt gengur í norðaustan hvassviðri eða storm með ofankomu um landið norðanvert með snjókomu til fjalla, en slyddu á láglendi, þótt sums staðar nái að hanga í rigningu næst ströndinni. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á Austfjörðum og við Breiðafjörð verður úrkoma í formi slyddu og rigningu á láglendi. Um landið sunnanvert eru litlar líkur á að úrkoman falli sem slydda, nema kannski á hæstu fjallvegum. Töluvert kólnar, einkum þó nyrðra. Fer að draga úr vindi og úrkomu þegar líður á morgundaginn en áfram allhvass eða hvass vindur á fimmtudag og fremur svalt. Síðan er að sjá að hlýni aftur um helgina með fremur vætusömu veðri þótt ekki sé von á neinum sérstökum hlýindum.
Á Vestfjörðum er spáð suðvestan 5-13 m/s í dag, bjart með köflum en sums staðar þokumóða. Gengur í norðaustan
Suðvestan 5-13 og bjart með köflum en sums staðar þokumóða. Gengur í norðaustan 10-15 með lítilsháttar vætu í kvöld. Hiti 5 til 10 stig að deginum, en kólnar með kvöldinu.

Einn nafntogaðasti kvennakór landsins

Einn nafntogaðasti kvennakór landsins, Vox Feminae, heldur tónleika í Ísafjarðarkirkju á sunnudaginn. Kórinn tekur þátt í landsmóti íslenskar kvennakóra á Ísafirði sem hefst á fimmtudaginn og af því tilefni heldur kórinn sérstaka tónleika í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 14. maí kl. 13.30. Tónleikarnir bera yfirskriftina Meyjar mögur sem sótt er í elsta varðveitta sálm Norðurlanda, Heyr, himna smiður, eftir Kolbein Tumason en sálmurinn verður fluttur á tónleikunum við lag Þorkels Sigurbjörnssonar.

Á tónleikunum í Ísafjarðarkirkju verða flutt trúarleg verk eftir íslensk samtímatónskáld s.s. Hildigunni Rúnarsdóttur, Báru Grímsdóttur og Tryggva M. Baldvinsson auk þess sem flutt verða verk eftir Ísfirðingana Jón Ásgeirsson og Hjálmar H. Ragnars. Þá verða einnig flutt erlend trúarleg verk, meðal annars verk eftir miðaldatónskáldin Orlande de Lassus og Tomás Luis de Victoria.

Vox feminae var stofnaður árið 1993 af stjórnanda kórsins, Margréti J. Pálmadóttur sem enn stendur við stjórnvölinn. Kórinn hefur ávallt lagt áherslu á flutning trúarlegrar tónlistar og íslenskra sönglaga og þjóðlaga, auk þess sem hann hefur lagt rækt við samtímatónlist.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir.

Gagnrýna aukin útgjöld bæjarins

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks í Ísafjarðarbæ segja afkomu bæjarins vera afar ánægjulega og hún gefi sveitarfélaginu tækifæri til að sækja fram. Ársreikningur Ísafjarðarbæjar var samþykktur af lokinni seinni umræðu fyrir helgi. Rekstur samstæðu Ísafjarðarbæjar skilaði 225 milljóna króna afgangi á síðasta ári en fjárhagsætlun gerði ráð fyrir 18 milljóna króna afgangi.

Í bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við samþykkt árseikningsins kemur fram að hafa verði í huga að vöxtur tekna hafi verið gífurlegur, fyrst og fremst vegna góðs ástands í þjóðarbúskapnum og mikilla launahækkana sem bæði leiða til hærri útsvarstekna og hærri framlaga úr Jöfnunarsjóði.

Bæjarfulltrúarnir segja í bókuninni að tekjur Ísafjarðarbæjar árið 2016 hafi verið 350 milljónir króna umfram fjárhagsáætlun sem samþykkt var í desember 2015.

Í bókuninni segir einnig:

„Þrátt fyrir það er niðurstaða ársreiknings aðeins um 200 m.kr. betri en ráð var fyrir gert sem sýnir að gjöld fóru verulega fram úr samþykktri áætlun.

Til framtíðar er mikilvægt að nýta þessar auknu tekjur til að greiða niður skuldir, sýna aðhald, lækka álögur á bæjarbúa og fjárfesta til framtíðar í skynsamlegum verkefnum sem gerir okkur kleift að bregðast við ef illa árar.“

Ársreikningur samþykktur – niðurstaða fram úr væntingum

Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði.

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir síðasta ár var tekinn til seinni umræðu og samþykktur á bæjarstjórnarfundi fyrir helgi. Afkoma sveitarfélagsins árið 2016 var mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstrarniðustaða A og B hluta var jákvæð um 225 milljónir króna, en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 18 milljóna króna afgangi. Rekstrarafkoma A hluta var jákvæð um 125 milljónir króna, en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 43 milljóna króna halla. B hluti skilaði 100 milljóna króna afgangi, en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 60 milljóna króna afgangi.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins (A og B) jukust um 465 milljónir króna frá árinu 2015 og útgjöld um 228 milljónir króna.

Heildarskuldir bæjarins, A og B hluta, voru 6.476 milljónir króna í árslok 2016 og hækkuðu úr 6.387 milljónum króna frá fyrra ári. Inn í þeim skuldum eru einnig lífeyrisskuldbingar.

Í sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 var lögð sú lína að hlutfall heildarskulda af tekjum sveitarfélaga mætti ekki fara yfir 150 prósent, en hlutfallið segir til um getu sveitarfélaga til að greiða af skuldum sínum. Skuldaviðmið Ísafjarðarbæjar vænkast talsvert milli ára, var 127 prósent í árslok 2015 og um síðustu áramót var það komið niður í 112 prósent.

Eigið fé Ísafjarðarbæjar var 1.209 milljónir króna í árslok 2016 og jókst um 260 milljónir króna milli ára.

smari@bb.is

 

Meirihlutinn andvígur vegtollum

Meirihluti landsmanna er andsnúinn innheimtu veggjalda til að straum af rekstri þjóðvega á Íslandi. Þetta sýnir nýleg könnun MMR sem var framkvæmd 11.-26. apríl 2017. Rúm 39% þátttakenda í könnuninni kváðust mjög andvíg innheimtu veggjalda. Aðeins tæp 7% kváðust mjög fylgjandi innheimtu veggjalda. Á heildina sögðust tæp 56% andvíg veggjöldum en rúm 25% fylgjandi.

Tæp nítján prósent þeirra sem svöruðu könnuninni voru hvorki með né á móti veggjöldum og 18,5% eru frekar fylgjandi veggjöldum.

Karlar (60%) reyndust líklegri en konur (50%) til að vera andvígir veggjöldum. Lítill munur var aftur á móti á kynjunum þegar hlutfall þeirra sem sögðust fylgjandi vegtollum er skoðað. Af körlum kváðust 25% vera fylgjandi og 26% kvenna.

Af þátttakendum á aldrinum 18-29 ára kváðust 32% vera hvorki andvíg né fylgjandi veggjöldum. Með auknum aldri jókst hlutfall þeirra sem voru fylgjandi veggjöldum en 29% þátttakenda 68 ára og eldri sögðust fylgjandi.

Íbúar á landsbyggðinni (63%) reyndust líklegri til að vera andvígir innheimtu veggjalda heldur en íbúar höfuðborgarsvæðisins (52%).

Stuðningsfólk Pírata (57%) og Samfylkingarinnar (50%) reyndust töluvert líklegri en stuðningsflokk annarra flokka til að vera mjög andvíg innheimtu veggjalda. Stuðningsfólk Viðreisnar reyndist aftur á móti mun líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að vera frekar eða mjög hlynnt veggjöldum eða 45%.

Vestfirðingar heilsufarsmældir í vikunni

Heilsufarsmælingar á norðanverðum Vestfjörðum frestast um óákveðinn tíma .

Hjartaheill og SÍBS í samstarfi við sveitarfélög og Heilbrigðisstofnanir Vestfjarða og Vesturlands bjóða Vestfirðingum ókeypis heilsufarsmælingu þessa vikuna. Mælingarnar ná til helstu áhættuþátta lífsstílssjúkdóma þar sem mældur er blóðþrýstingur, blóðsykur, blóðfita, súrefnismettun og styrkur auk þess sem boðið verður upp á öndunarmælingu fyrir þá sem mælast lágir í súrefnismettun. Jafnframt gefst þátttakendum kostur á að svara lýðheilsukönnun. Fræðsla um lífsstílstengda sjúkdóma verður í boði, hjúkrunarfræðingar frá heilsugæslunni verða á staðnum og veita ráðgjöf og eftirfylgd.

Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS mun að þessu tilefni halda erindið „Stóra myndin í heilbrigðismálum“ í Fræðslumiðstöð Vestfjarða á Ísafirði 11. maí kl. 12-13.  Fjarfundur verður á Patreksfirði.

Heilsufarsmælingarnar hefjast á morgun þar sem starfsmenn verkefnisins hefja leikinn í Búðardal á milli 11-13, á Reykhólum frá 12-14 og á Patreksfirði frá 18-20. Á öllum heimsóknarstöðum fara mælingar fram á heilsugæslunni. Á miðvikudag verða fjórir staðir heimsóttir, Tálknafjörður og Bíldudalur á milli 10 og 12. Þingeyri frá 16-18 og Flateyri á milli 17 og 19.

Á fimmtudag verða aftur fjórir viðkomustaðir á dagskrá: Ísafjörður á milli 10 og 14, Suðureyri og Bolungarvík frá 15-17 og í Álftaveri í Súðavík frá 18-20. Vestfjarðahring Hjartaheill og SÍBS lýkur á föstudag er mælingar verða í samkomuhúsinu á Drangsnesi frá 10 – 12 og á Hólmavík á milli 14 og 17.

Reglulega verður greint frá niðurstöðum mælinga á Facebook síðu SÍBS auk þess sem þátttakendum gefst kostur á að fá sínar niðurstöður sendar í tölvupósti ásamt heildarniðurstöðum. Oddvitar, bæjar- og sveitarstjórar munu opna mælingarnar í sinni heimabyggð.

annska@bb.is

 

Nýjustu fréttir