Laugardagur 18. janúar 2025
Síða 2208

Álfasalan hófst í dag

Páll Óskar keypti fyrsta Álfinn í dag.

Árleg Álfa­sala SÁÁ hófst í dag og stend­ur fram á sunnu­dag­inn 14. maí. Hún er nú hald­in í 28. skipti og er stærsta fjár­öfl­un­ar­verk­efni SÁÁ ár hvert.  All­ur ágóði af söl­unni renn­ur til að greiða fyr­ir þjón­ustu SÁÁ við ungt fólk, bæði afeitrun og meðferð, sál­fræðiþjón­ustu barna eða aðra þjón­ustu við fjöl­skyld­ur áfeng­is- og vímu­efna­sjúk­linga.

Fram kem­ur í til­kynn­ingu að slag­orð Álfa­söl­unn­ar sé það sama og und­an­far­in ár: ‚‚Álf­ur­inn fyr­ir unga fólkið‘‘.

„Með því er lögð áhersla á að afrakst­ur söl­unn­ar styður við meðferðarúr­ræði sam­tak­anna fyr­ir unga vímu­efna­sjúka og einnig fyr­ir aðstand­end­ur, þar á meðal börn alkó­hólista. Frá ár­inu 2000 hef­ur SÁÁ rekið ung­linga­deild á sjúkra­hús­inu Vogi en frá því að sjúkra­húsið var byggt hafa um 8.000 ein­stak­ling­ar yngri en 25 ára lagst þar inn.  Fjöl­skyldu­deild SÁÁ býður meðal ann­ars sál­fræðiþjón­ustu fyr­ir börn alkó­hólista. Yfir 1.100 börn hafa nýtt þá þjón­ustu sem er að nær öllu leyti kostuð með tekj­um af sölu álfs­ins og öðru söfn­un­ar­fé,“ seg­ir í til­kynn­ingu.

„Þjóðin hef­ur stutt við bakið á SÁÁ og tryggt að sam­tök­in geti veiti vímu­efna- og áfeng­is­sjúk­ling­um og fjöl­skyld­um þeirra eins góða þjón­ustu og kost­ur er. Ef ekki væri vegna stuðnings al­menn­ings þyrfti að draga um­tals­vert úr öllu starfi SÁÁ. Þjón­usta SÁÁ við börn og aðra aðstand­end­ur áfeng­is- og vímu­efna­sjúk­linga er til dæm­is öll kostuð tekj­um af sölu álfs­ins og öðrum styrkj­um. Kær­ar þakk­ir fyr­ir all­an stuðning­inn. Styðjum SÁÁ og kaup­um álf­inn,” seg­ir Arnþór Jóns­son, formaður SÁÁ í til­kynn­ingu.

 

 

Símasamband í Vestfjarðagöngum

Farsímasamband er nú komið á í Vestfjarðagöngum, eða göngunum undir Breiðadals- og Botnsheiði líkt og þau heita með réttu. Lítið hefur farið fyrir fréttum af því að slíkt væri í vændum og því vegfarendum sem fara reglulega um göngin nokkrum brugðið í brún er símtæki hafa tekið upp á því að láta í sér heyra. Guðmundur Rafn Kristjánsson hjá Vegagerðinni segir að þetta hafi komið til tals á síðasta ári og ráðist í framkvæmdir nú á vormánuðum er Vegagerðarmenn settu upp búnað til að undirbúa tengingu á sendum. Í síðustu viku settu starfsmenn Símans svo upp GSM-senda. Enn er verið að fínstilla búnaðinn en farsímasamband er í öllum leggjum ganganna. Í göngunum er fyrir Tetra-samband sem lögregla, sjúkralið og björgunarsveitir nýta og símtæki til almannanota í neyðartilfellum. Talsvert öryggi er fólgið í því að vera í stöðugu símasambandi og eflaust margir sem taka þessari viðbót fagnandi.

annska@bb.is

Vorið komið í grunnskólanema

Frá leikjadeginum í fyrra.

Þrátt fyrir að veðurguðirnir séu örlítið að stríða okkur í dag er vorið komið á Fróni. Gróður er tekinn að vakna eftir vetrardvalann og fiðraðir sumargestir mæta einn af öðrum með von um ljúfa daga í björtu sumrinu. Í grunnskólum landsins tekur dagskráin á sig annan blæ og víða leitast við að færa kennslustundirnar úr kennslustofunum út í náttúruna og nærumhverfið. Í Grunnskólanum á Ísafirði er nú vordagskráin frágengin og ljóst að nóg verður um að vera það sem eftir lifir skólaársins, þar sem nemendur fá enn frekari þjálfun í mörgum grunnþáttum menntunar líkt og læsi, sköpun, heilbrigði og velferð. Þar læra þau um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru, svo þau megi byggja sig upp andlega og líkamlega, bjarga sér í samfélaginu og læra að vinna með öðrum.

Meðal þess sem nemendurnir koma til með að gera næstu vikurnar er að fara í hinar ýmsu vettvangsferðir, til að mynda á slökkvistöðina. Þau fara í hjólaferðir, 1. bekkur heimsækir Íslandssögu á Suðureyri, 2. og 5.bekkur Náttúrugripasafnið í Bolungarvík, 3.bekkur fer í sveitaferð, 8.bekkur heimsækir Hrafnseyri og 10.bekkur fer á slóðir Gísla Súrssonar í Haukadal, svo einhver dæmi séu tekin. Þá munu 10.bekkingarnir einnig fara í starfskynningar í hin ýmsu fyrirtæki í bænum. Þá verður leikjadagur og vorverkadagur þar sem hver bekkur fær úthlutað ákveðnu verkefni, eins og að gróðursetja tré í Tungudal, setja niður kartöflur og grænmeti, mála grindverk á Skipagöturóló og tína rusl til að fegra bæinn.

Það styttist svo í að bresti á með sumarfríi nemenda en skólaslit Grunnskólans á Ísafirði þetta vorið verða 2.júní.

Eitt vorverkanna. Mynd úr safni.

annska@bb.is

Rausnarskapur Færeyinga gleymist aldrei

Annika Olsen, borgarstjóri í Þórshöfn, afhjúpaði listaverkið sem er eftir Jón Sigurpálsson.

Í gær var listaverkið Tveir vitar afhjúpar í Þórshöfn í Færeyjum. Verkið er eftir ísfirska listamanninn Jón Sigurpálsson og er gjöf Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar til færeysku þjóðarinnar til að sýna þakklæti íbúa sveitarfélaganna fyrir hlýhug og rausnarskap Færeyinga eftir snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri árið 1995.

„En Færeyingar gerðu meira en að gráta með Íslendingum. Færeyingar tóku saman höndum í bæði skiptin til hjálpar Íslendingum. Hér safnaðist mikið fé til að aðstoða fólkið í Súðavík og á Flateyri við að byggja upp aftur eftir flóðin. Fyrir gjafafé Færeyinga voru byggðir leikskólar í Súðavík og á Flateyri. Þeir hafa nýst okkur vel í tuttugu ár og nýtast okkur vel enn þann dag í dag.

Með rausnarlegum hætti réttu Færeyingar hjálparhönd – hjálparhönd sem markaði spor í hjörtu Íslendinga – og mun aldrei gleymast,“ sagði Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar við athöfn í Þórshöfn í gær.

 

 

Listaverkið Tveir vitar er skírskotun til margra þátta í lífi og sál þjóðanna. Vitarnir og ljósið í þeim er tákn um lífsbjörg, tákn um hjálpina, tákn um öruggt skjól. Leiðarljós vita hefur lýst þjóðunum leiðina um dimma daga og erfið veður. Vitar eru báðum þjóðunum mikilvægir í daglegum störfum til sjávar.

Kveikjan að listaverkinu er hinn órjúfanlegi skyldleiki beggja þjóða frá landnámi eyjanna, sem meðal annars má lesa um í Færeyinga sögu sem rituð var á Íslandi á söguöld. Nafn verksins undirstrikar þetta, en í ritmáli þjóðanna eru Tveir vitar skrifað eins á íslensku og færeysku.

Í efnisvali horfði listamaðurinn til jarðsögunnar. Blágrýti og stál eru harðneskjuleg efni en eru undurmjúk þegar þau hafa fengið meðhöndlun – verið pússuð og fægð. Litirnir í verkinu eru í alþjóðlegum litastaðli fyrir vita.

Ekkert ferðaveður í dag

Blint á fjallvegum í dag.

Veður verður með versta móti í dag. Stormur er allvíða á Vestfjörðum og farið að bæta í vind í öðrum landshlutum. Vegagerðin telur líklegt að þjóðvegi eitt verði lokað milli Hellu og Hafnar í Hornafirði eftir hádegi vegna óveðurs. Vegfarendur eru varaðir við því að ana út í óvissuna. Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að versta hríðarveðrið verði á Vestfjörðum, 20-25 m/ og mjög blint, einkum á Gemlufallsheiði, Steingrímsfjarðarheiði, á Klettshálsi og Þröskuldum. Dregur úr ofankomu seinnipartinn en lægir ekki að ráði fyrr en í nótt. Dálítið snjófjúk verður á öðrum fjallvegum og NA 13-18 m/s.  Í Öræfum hvessir með morgninum, þar verða vindhviður allt að 45 m/s frá hádegi og litla breytingu er að sjá þar allt til morguns. Eins er hætt við sandfoki á Skeiðárársandi.  Undir Eyjafjöllum verður líka hvasst í dag og hætt við hviðum 35-40 m/s, einkum frá því um miðjan dag.

Fjarvera Baldurs sýnir lítilsvirðingu í garð íbúa

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Sú ákvörðun að taka Baldur úr áætlun yfir Breiðafjörð og þar með setja ferðaþjónustu og þungaflutninga í uppnám er aðeins eitt lóð á vogarskálarnar í þeirri lítilsvirðingu sem íbúum og rekstraraðilum á sunnanverðum Vestfjörðum er sýnd þegar kemur að samgöngumálum. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs Vesturbyggðar þar sem ákvörðuninni er mótmælt harðlega.

Í bókun bæjarráðs er bent á að ferðir Baldurs yfir Breiðafjörð eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu á svæðinu svo og aðrar útflutningsgreinar.
Bæjarráð segir að Baldur sé afar mikilvæg fyrir svæðið því ekki er hægt að treysta á öruggar samgöngur á landi. Ferðaþjónustuaðilar á svæðinu finna glögglega fyrir þessu þar sem nokkuð hefur verið um afbókanir á gistihúsum og hótelum og eins hefur lítið verið um bókanir í maí samanborið við sama tíma á síðasta ári.
Þá bendir bæjárráð á ástand Vestfjarðavegar 60 sem að hluta til er löngu úreltur malarvegur sem oft og tíðum sætir þungatakmörkunum. Ef settar eru á þungatakmarkanir þýðir það að flutningabílar komast hvorki til né frá svæðinu og  veldur því að mikil verðmæti geta tapast.
„Það er fyrir löngu kominn tími til að samgöngumálum á þessu svæði sé komið í lag svo hægt sé að treysta á öruggar samgöngur til og frá svæðinu. Á meðan að ekki er hægt að tryggja samgöngur á landi er ferjan Baldur lífæð þessa svæðis og því óásættanlegt að henni sé kippt úr umferð,“ segir í bókuninni.

Landsmót harmonikkuunnenda á Ísafirði í sumar

Á fundi bæjarráðs þann 5. maí var lagt fram bréf Karitasar Pálsdóttur, formanns Harmonikufélags Vestfjarða, dagsett 24. apríl sl., þar sem óskað er eftir leyfi til að nota sjúkrahústún og tún við leikskólann Sólborg, sem aðstöðu fyrir húsbíla og hjólhýsi, þegar landsmót harmonikuunnenda verður haldið á Ísafirði dagana 29. júní – 2. júlí 2017.

Sama fyrirkomulag var haft þegar landsmót var haldið síðast á Ísafirði, árið 2002

Sviptingar á fjölmiðlamarkaði

Forstöðumaður Félagsheimilis Bolungarvíkur og athafnamaðurinn Benni Sig hefur keypt ráðandi hlut í bolvíska blaðinu „Málgagninu“ sem Einar Geir Jónasson hefur ritstýrt sl. 5-6 ár. Mikill hallarekstur hefur verið á blaðinu síðustu ár en áskrifendur voru fámennur en dyggur hópur. Með þessu telur Einar Geir að megi endurskipuleggja alla innri vinnu blaðsins svo það megi vaxa og dafna.

Kaupverð fæst ekki uppgefið en það er vikari.is sem fjallar um málið.

Meðfylgjandi mynd er af undirskrift Benna Sig og Einars Geirs í GÍ á dögunum.

Gestir fönguðu stuðið á AFÉS

„Fangaðu stuðið á AFÉS“ var yfirskrift ljósmyndakeppni sem einn af styrktaraðilum Aldrei fór ég suður, Orkusalan, stóð fyrir. Gestir hátíðarinnar gátu fengið með sér einnota myndavélar þar sem þeir smelltu myndum af því sem fyrir augu bar á hátíðinni og sá sem fangaði mestu stuðmyndina fékk svo að launum 66°norður úlpu. Filmurnar voru sendar í framköllun eftir páska og þá upphófst biðin eftir myndunum, gjörningur sem fyrir ekki svo mörgum árum þekktist vel, en er orðinn æ sjaldgæfari með tilkomu stafrænna myndavéla og snjalltækja. 

Nú liggja úrslitin fyrir og var það Svava Lóa Stefánsdóttir sem hreppti hnossið með sigurmynd af hressu þríeyki í rokkskemmunni. Á Fésbókarsíðu Orkusölunnar gefur nú að líta samansafn bestu myndanna og er stuðið í fyrirrúmi.

annska@bb.is

 

Íslendingar karla elstir

Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti

Íslendingar karla elstirÁrið 2016 var meðalævilengd karla á Íslandi 80,7 ár og meðalævilengd kvenna 83,7 ár og hafa íslenskir karlar frá árinu 1986 bætt við sig rúmlega sex árum í meðalævilengd og konur rúmlega fjórum árum er fram kemur í frétt á vef Hagstofu Íslands. Meðalævilengd sýnir hve mörg æviár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu, ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans. Aldursbundin dánartíðni hefur farið lækkandi á undanförnum áratugum og má því vænta þess að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um.

Sé horft á meðaltal tíu ára, 2006-2015, var meðalævi karla á Íslandi 80,4 ár og í Sviss 80,2 ár og skipuðu þeir fyrsta og annað sætið meðal Evrópulanda. Þeim var fylgt eftir af körlum í Liechtenstein (79,9 ár), Svíþjóð (79,7) og Ítalíu (79,6), á Spáni og í Noregi (79,2 ár). Styst er meðalævilengd evrópskra karla í Moldavíu (65,6), Úkraínu (64,3) og Rússlandi (62,5). Á sama tíu ára tímabili, 2006-2015, var meðalævi kvenna á Spáni og í Frakklandi 85,3 ár og skipuðu þær fyrsta sætið í Evrópu. Þeim er fylgt eftir af konum í Sviss (84,9), Ítalíu (84,7), Liechtenstein (84,1) og á Íslandi (83,8). Meðalævilengd kvenna er styst í Úkraínu (75), Rússlandi (74,6) og Moldavíu (73,6).

Dánartíðni á Íslandi árið 2016 var 6,9 látnir á hverja 1.000 íbúa og ungbarnadauði var 0,7 barn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2016 og hefur ungbarnadauði á Íslandi löngum verið hve lægstur í heimi, en á tíu ára tímabili, 2006-2015, var meðal ungbarnadauði á Íslandi 1,8 af 1.000 lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn lágur og hér. Meðal ungbarnadauði var 2,0 í San Marino og Andorra, 2,4 í Finnlandi, 2,5 í Slóveníu og Svíþjóð. Tíðastur var ungbarnadauði í Tyrklandi, 13,8 af hverjum 1.000 lifandi fæddum.

Ungbarnadauði er alþjóðleg stöðluð vísitala á dánartíðni barna á fyrsta aldursári. Hún er reiknuð með því að deila fjölda látinna á fyrsta aldursári með fjölda lifandi fæddra í árgangi og margfalda niðurstöðuna með 1.000. Við samanburð á tölum um ævilengd og ungbarnadauði í Evrópu er rétt að geta þess að tölur Hagstofunnar fyrir 2006-2015 byggja á útreikningum Eurostat.

annska@bb.is

 

 

Nýjustu fréttir