Sunnudagur 1. september 2024
Síða 2207

Misskilningur um niðurgreiðslu raforku

Í tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða segir að misskilnings gæti um hækkanir gjaldskrár Orkubús Vestfjarða. Gjaldskrár Orkubús Vestfjarða hækkuðu 1. janúar síðastliðinn, fyrir dreifingu raforku hækkaði gjaldskráin um 7% og fyrir sölu um 4%. Niðurgreiðslur vegna húshitunar hækkuðu einnig þann 1. janúar og eiga þannig að draga þannig úr kostnaðaraukningu heimila.

Pétur G. Markan, sveitarstjóri í Súðavík, sagði í fréttum í gær að gjaldskrárhækkanir Orkubúsins ynnu gegn niðurgreiðslu ríkisins vegna húshitunarkostnaðar. „Auðvitað er það sárt þegar að niðurgreiðsla vegna húshitunarkostnaðar hækkar þurfi OV að hækka sína gjaldskrá á móti, sem er auðvitað ekkert annað en bein aðgerð til að taka hluta af ívilnun sem á að skila sér til íbúa svæðisins til sín. Á götumálinu myndi þetta heita að taka vont „cut“ af greiðslu ríkisins til íbúa svæðisns.“

Í tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða segir hins vegar að niðurgreiðslur ríkisins taki mið af verði dreifiveitna raforku og hækka því sem afleiðing af hækkun dreifiveitunnar. „Eftir að dreifiveitan hefur kynnt tillögur um hækkun fyrir Orkustofnun gerir stofnunin tillögur til iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í samræmi við gjaldskrárhækkanirnar, en ráðherra ákveður niðurgreiðslurnar í samræmi við lögin.“

Þar segir að þar sem lög geri ráð fyrir að flutningur og dreifing raforku til húshitunar séu niðurgreidd að fullu þá hafi niðurgreiðslur vegna raforku til hitunar um sömu 66 aura og að ef „taxtar OV vegna dreifingar hefðu ekki verið hækkaðir þá hefðu niðurgreiðslur til notenda á Vestfjörðum ekkert hækkað, hvorki í dreifbýli né þéttbýli.“

brynja@bb.is

Kertasníkir á Bókasafni Ísafjarðar

Þrettándinn, síðasti dagur jóla, rennur upp á föstudaginn kemur. Þann dag mun Kertasníkir halda heim til fjalla, síðastur þeirra bræðra. Fyrst ætlar hann að koma við í salnum í Safnahúsinu klukkan 17 og heilsa upp á börn og foreldra þeirra.

brynja@bb.is

Aflaverðmæti í september dróst saman milli ára

Í september 2016 var aflaverðmæti íslenskra skipa tæplega 12,2 milljarðar króna sem er samdráttur um 1,9% samanborið við september 2015. Verðmæti botnfiskafla nam tæpum 6,9 milljörðum og dróst saman um tæp 20% frá fyrra ári. Uppistaðan í verðmæti botnfiskaflans var þorskur en verðmæti hans nam tæpum 4,5 milljörðum í september sem er tæpum 1,1 milljarði minna en í september 2015. Verðmæti uppsjávarafla jókst hins vegar á milli ára, nam tæpum 4,5 milljörðum sem er 52,6% meira en í september 2015, munar þar mestu um aukinn makrílafla. Einnig varð tæplega 22% aukning í verðmæti flatfiskafla sem nam 621 milljónum króna í september. Aflaverðmæti skelfisks dróst saman um 45% og nam 215 milljónum samanborið við 394 milljónir í september 2015.

Á 12 mánaða tímabili frá október 2015 til september 2016 var aflaverðmæti 137,6 milljarðar króna sem er 10% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr. Munar þar mestu um 29% samdrátt í aflaverðmæti uppsjávartegunda. Frá þessu var greint á vef Hagstofunnar.

annska@bb.is

Styrkir til meistaranema

Samband íslenskra sveitarfélaga veitir nú í annað sinn allt að þremur meistaranemum styrki til að vinna lokaverkefni á sviði sveitarstjórnarmála sem tengjast stefnumörkun sambandsins 2014-2018. Til úthlutunar er að þessu sinni allt að 750.000 kr. og stefnt er að því að veita þrjá styrki.

Rafrænt umsóknarform, verklagsreglur vegna úthlutunar, Stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014-2018, áhersluþættir við styrkveitingar til meistaranema 2017 og Starfsáætlun sambandsins árið 2017 er að finna á vef sambandsins, www.samband.is.

brynja@bb.is

Nýir búvörusamningar taka gildi

Um áramót taka gildi nýir búvörusamningar og rammasamningur milli bænda og stjórnvalda. Um er að ræða samninga um starfskilyrði í nautgriparækt, sauðfjárrækt og garðyrkju og rammasamning um almennan stuðning við landbúnað milli ríkis og bænda.

Búnaðarstofa Matvælastofnunar hefur unnið að innleiðingu búvörusamninganna og rammasamningsins og tók samhliða þátt í reglugerðarvinnu sem fór fram á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um nánari útfærslu samninganna. Sú vinna hefur staðið yfir frá því breytingar á búvörulögum og búnaðarlögum voru samþykktar á Alþingi í september síðast liðnum. Reglugerðir í nautgriparækt hafa verið sameinaðar í eina, en voru áður þrjár talsins. Auk þess hafa allir viðaukar verið settir inn í reglugerðirnar sjálfar með kaflaskiptingu.

brynja@bb.is

Verkfall hefur áhrif á markaði

Erlendir fiskkaupendur eru þegar farnir að leita annað eftir fiski eftir að íslenskur fiskur hætti að berast vegna sjómennaverkfallsins. Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.

Í Frakklandi er mikilvægur markaður fyrir íslenskan fisk og segir Guðmundur Stefánsson hjá Novo Foods í Frakklandi að fyrirtæki séu farin að leita annað: „Já það er farið að hafa áhrif. Það er náttúrulega miklu minna framboð af fiski á markaðnum og þess vegna erfiðara um vik og fyrirtækin farin að leita annað.“

Áhrifa verkfalls sjómanna er farið að gæta víða, tekjur fiskvinnslufólks í landi hafa dregist saman, sumar fiskvinnslur hafa gripið til þess að taka fólk af launaskrá, ekki verður veitt undanþága vegna loðnuleitar á fimm skipum og verkbann á vélstjóra er yfirvofandi.

Guðmundur segir, í samtali við Ríkisútvarpið, hættu vera á framtíðarskaða fyrir Íslendinga: „Það er veruleg hætta á því, allavega í einhvern tíma og sérstaklega ef þetta dregst á langinn. Ef viðskiptavinir okkar og þeir sem eru vanir að fá íslenska fiskinn leita annað þá er ekki þar með sagt að þeir komi strax til baka þegar við getum afhent aftur.“

brynja@bb.is

Lestrarátak Ævars vísindamanns snýr aftur

Hafið er á ný lestrarátak Ævars vísindamanns, en því var hleypt af stokkunum fyrsta dag þessa nýja árs. Átakið hefur verið haldið tvisvar sinnum áður með þeim árangri að yfir 114 þúsund bækur voru lesnar. Því þótti Ævari Þór, leikara og rithöfundi, ærin ástæða til að halda áfram. Átakið stendur til 1. mars 2017 og er fyrir alla krakka í 1.-7. bekk.

Lestrarátakið virkar þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem nemendur í 1. – 7. bekk lesa fylla þau út miða sem þau sækja í gegnum www.visindamadur.is. Foreldri eða kennari kvitta á hvern miða og svo verður miðinn settur í lestrarkassa sem er staðsettur á skólasafninu í hverjum skóla. Því fleiri bækur sem börnin lesa því fleiri miða eiga þau í pottinum. Þá er það nýlunda í ár að hljóðbækur, eða ef einhver les fyrir barnið, teljast með sem lesin bók. Það skiptir engu máli hvort bókin sem er lesin sé löng eða stutt, teiknimyndasaga, Myndasögusyrpa eða skáldsaga – bara svo lengi sem börnin lesa. Sömuleiðis skiptir tungumálið sem bókin er á ekki máli. Bækurnar mega vera á íslensku, dönsku, frönsku, pólsku, japönsku, ensku o.s.frv. – bara svo lengi sem börnin lesa.

Í lok átaksins verða dregin út nöfn fimm barna og fá þau í verðlaun að verða persónur í stórhættulegri ævintýrabók eftir Ævar, sem ber heitið Bernskubrek Ævars vísindamanns 3: Gestir utan úr geimnum og kemur út með vorinu hjá Forlaginu – svo það er til mikils að vinna. Í frétta tilkynningu segir að þetta sé lestrarátak gert af bókaormi, til að búa til nýja bókaorma – dýrategund sem má alls ekki deyja út.

Lestrarátakið er unnið í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, RÚV, Málefli, Póstinn, Brandenburg auglýsingastofu, IBBY á Íslandi, 123skoli.is, Forlagið, Heimili og skóla og Barnavinafélagið Sumargjöf.

annska@bb.is

Kosning um orð ársins

Orð ársins eru gjarnan nýyrði og því ekki í orðabók.

Landsmönnum gefst nú kostur á að velja orð ársins 2016. Kosningin stendur á vef Ríkisútvarpsins til 4. janúar.
Orðin hafa einkennt þjóðfélagsumræðuna á árinu eða verið áberandi með öðrum hætti. Þau falla að rithætti, beygingu og framburði málsins. Áhugaverð orðmyndun getur líka komið orði á lista. Ekki er verið að leita að fegursta orðinu og það getur haft jafnt neikvæða sem jákvæða merkingu og verið viðkunnanlegt eða óviðkunnanlegt.

Árið 2015 var orðið „fössari“ orð ársins. Orðið er nýyrði, og er afbökun á orðinu föstudagur. Í daglegri notkun merkir orðið föstudagskvöld eða byrjun helgarfrís.

brynja@bb.is

Helstu verkefni lögreglu í liðinni viku

Skemmtanahald í umdæmi Lögreglunnar á Vestfjörðum yfir jól og áramót fór vel fram, er fram kemur í helstu verkefnum hennar í síðustu viku. Komust lögreglumenn að því er þeir gerðu athugasemdir við ökumann sem notaði stefnuljós ekki með viðeigandi hætti að ökutækið reyndist ótryggt og voru númer þess tekin af og það tekið úr umferð. Í vikunni hafði lögreglan afskipti af ökumanni sem var að flytja farm á vörubílspalli og hafði ekki fest farminn nægjanlega vel. Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í Arnkötludal, annar ók á 112 km hraða en hinn á 105 km hraða, en hámarkshraði þar er 90 km.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í vikunni, þann 30. desember þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku og nýföllnum snjó á Súgandafjarðarvegi, skammt fyrir utan gangamunnann í botni fjarðarins og rann bíllinn út af veginum og valt. Ökumaður, sem var einsamall í bílnum, var í bílbelti og hlaut ekki alvarleg meiðsl. Hann var þó fluttur til skoðunar á sjúkrahúsið á Ísafirði.

Um miðjan dag gamlársdags óskaði lögreglan á Vestfjörðum eftir aðstoð björgunarsveita á Ísafirði og nágrenni við leit að manni sem hafði farið í göngutúr heiman frá sér fyrr sama dag og óttast var um. Maðurinn fannst látinn skömmu eftir að leit hófst.

annska@bb.is

Litlihjalli vakinn til lífs á ný

Fyrir rétt um ári síðan ákvað Jón Guðbjörn Guðjónsson, veðurathugunarmaður og ritstjóri í Litlu-Ávík í Árneshreppi á Ströndum að hætta með fréttavefinn Litlahjalla.is sem hann hafði starfrækt allt frá árinu 2003, fyrst í formi bloggsíðu en seinna sem fréttasíða Árneshrepps. Jón segir að sér hafi bókstaflega liðið illa síðasta ár yfir því að vera ekki lengur með vefinn:

„Mig kitlar allaf í fingurna að djöflast á lyklaborðinu og reyna að segja einhverjar fréttir frá Árneshreppi, þótt ég hafi gert það á RÚV og á MBL, að einhverju leyti á liðnu ári, eftir að ég hætti með Litlahjalla, en það eru þá bara yfirleitt stórfréttir eða sérstakar fréttir úr hreppnum. Mér finnst einhvern vegin ekki nóg að skrifa bara á Fésbókina okkar, sem er ágætur samkjaftamiðill og svona vinamiðill. Ég mun því reyna að halda áfram með fréttir frá og úr Árneshreppi og honum tengdum og sitthvað fleira sem fellur til.“

Jón segist viss um að eitthvað týnist til fréttnæmt úr sveitinni, í það minnsta sé alltaf hægt að gera veðrinu skil og segist hann þakklátur fyrir að þeir sem áður auglýstu hjá honum velji að gera það áfram. Ekki er hægt að halda síðunni úti undir gamla léninu þar sem það var keypt af erlendum aðila í millitíðinni. Síðan er hin sama en nú undir slóðinni http://litlihjalli.it.is/

annska@bb.is

Nýjustu fréttir