Laugardagur 18. janúar 2025
Síða 2207

Vinnandi fólki fjölgaði um 8.000 í mars

Lítið atvinnuleysi og mikil fjölgun erlends vinnuafls.

Fólki á íslenskum vinnumarkaði fjölgaði um 8.000 milli mánaða í mars. Þetta er óvenju mikil fjölgun á einum mánuði, en á einu ári, frá mars í fyrra þar til í mars á þessu ári, fjölgaði um 15.500 manns á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans.

Atvinnuleysi hefur minnkað verulega og var einungis 1,7% í mars, samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða var 2,9% og hefur sú tala ekki mælst lægri frá því í árslok 2008.

Mikil eftirspurn eftir vinnuafli hefur fram að þessu ekki skilað sér í auknum verðbólguþrýstingi nema að litlu leyti. Það skýrist að hluta til af styrkingu krónunnar en að verulegu leyti af miklum innflutningi erlends vinnuafls sem hefur aukið framleiðslugetu þjóðarbúsins. Fyrr á árum leiddi mikil eftirspurn eftir vinnuafli jafnan til mikils launaskriðs og verðhækkana en svo virðist sem mikill innflutningur vinnuafls haldi aftur af þeirri þróun.

Landsmönnum fjölgaði um 5.800 milli 1. ársfjórðungs 2016 og 2017. Stór hluti af fjölguninni skýrist af miklum flutningi fólks til landsins. Þannig fjölgaði erlendum ríkisborgurum með búsetu hér á landi um 3.800 manns frá 1. ársfjórðungi 2016 til sama tíma 2017. Erlendir ríkisborgarar voru um 9,3% íbúa hér á landi á fyrsta ársfjórðungi 2017, en voru 8,3% á sama tíma í fyrra.

Mælir ekki með endurheimt votlendis í Selárdal

Selárdalur í Arnarfirði.

Bæjarráð Vesturbyggðar getur ekki mælt með áformum Landgræðslu ríkisins um að endurheimt votlendis í Selárdal í Arnarfirði.  Áformin tengjast sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og þar er meðal annars horfti til endurheimt votlendis. Bæjarráð vísar í bókun bæjarráðs frá 2013 þar sem ekki er mælt með framkvæmdunum, enda tún nýtt til slægju af bændum.

„Vesturbyggð lagði mikla áherslu á að landbúnaðarhagsmunir væru tryggir þegar núverandi deiliskipulag var unnið og getur því ekki sætt sig við að þessir hagsmunir séu teknir fram yfir hagsmuni þeirra örfáu bænda sem eftir eru í Arnarfirði og reyna að draga björg í bú á þessum afskekkta stað. Fyrirhugaðar aðgerðir munu draga úr getu íbúa til að stunda búskapog hagsmunir þeirra ganga augljóslega fyrir öllu þegar óskað er eftir afstöðu sveitarfélagsins,“ segir í bókuninni.

 

Umdeilt er hversu mikið gagn endurheimt votlendis gerir í baráttunni við losun gróðurhúsaloft

Þröstur Eysteinsson, Skógræktarstjóri, lýsti því yfir í samtali við fréttastofu RÚV í haust að ekki væri óhætt að ráðast í endurheimt votlendis í stórum stíl nema að undangengnum frekari rannsóknum.

„Rannsóknirnar sem liggja fyrir eru góðar og gildar, ekkert að þeim. Þær eru bara ekkert svakalega miklar og það eru sérstaklega ekkert miklar rannsóknir á því hvað gerist þegar við bleytum upp land,“ sagði hann og benti á að benti á að blautar mýrar losa líka gróðurhúsalofttegundir, metan nánar tiltekið og að sums staðar væri hugsanlega enginn loftslagsávinningur af því að fylla upp í skurði til að endurheimta votlendi. Það þurfi að mæla og sanna ávinning af endurheimt votlendis líkt og gert er með skógrækt og landgræðslu til að slíkar aðgerðir geti talið inn í kolefnisbókhald landsins.

smari@bb.is

 

Brjóstabollur í bakaríum landsins

Brjóstabollan í ár er girnileg.

Félagsmenn í Landssambandi bakarameistara efna til sölu á brjóstabollum í bakaríum um allt land dagana 11.-14. maí og eru dagsetningarnar valdar með mæðradaginn til hliðsjónar en hann er hér á landi annan sunnudag maímánaðar. Salan á bollunum er til stuðnings styrktarfélaginu Göngum saman sem styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini en ganga á þeirra vegum verður einnig um land allt um helgina.

Sala á brjóstabollum er orðinn árviss viðburður í bakaríum um mæðradagshelgina og í hvert sinn er a finna nýja tegund sem gleður bragðlaukana og á sama tíma styður gott málefni. Á þeim sex árum sem bakarameistarar hafa lagt söfnuninni lið hafa safnast 8 milljónir í þessar mikilvægu rannsóknir. Fyrirtæki og stofnanir eru hvött til að bjóða starfsmönnum upp á bollur með kaffinu fimmtudag eða föstudag og síðan er tilvalið að taka þátt í mæðradagsgöngum sem verða um allt land og gæða sér á brjóstabollum að göngu lokinni.

Hægt verður að fá brjóstabollurnar í bakaríum um land allt og á Ísafirði verða þær til sölu í Bakaranum.

annska@bb.is

Bæjarins besta 18. tbl. 34. árgangur

18. tbl. 2017
18. tbl. 2017

Meirihluti landsmanna telur stöðu efnahagsmála góða

Byggingageirinn ásamt ferðaþjónustu kallar á aukið vinnuafl.

Mikill meirihluti landsmanna telur stöðu efnahagsmála á Íslandi í dag vera góða eða 65% samanborið við rúman þriðjung sem telur hana slæma. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýlegrar skoðanakönnunar MMR sem gerð var dagana 11.-26. apríl. Þar af telja 7,4% stöðuna mjög góða, 58% nokkuð góða, 25,1% frekar slæma og 9,6% mjög slæma. Fram kemur í fréttatilkynningu frá MMR að hærra hlutfall karla en kvenna telji stöðu efnahagsmála á Íslandi í dag vera góða. Þannig telja 70% karlamanna stöðu efnahagsmála vera góða en eingöngu 60% kvenna. Þá segja 57% svarenda að efnahagsstaðan á Íslandi verði svipuð og hún er í dag eftir sex mánuði. Konur reyndust ívið líklegri en karlar til að telja að efnahagsstaðan mundi versna næstu 6 mánuði eða 28% gegn 26% karla. Af körlum töldu 19% að efnahags- ástandið myndi batna, samanborið við 14% kvenna.

Aldurshópurinn 18-29 ára var líklegri en aðrir aldurshópar til að telja efnahagsstöðuna slæma en aldurshópurinn 68 ára og eldri var líklegri til þess að telja efnahagsstöðuna vera mjög góða. Fólk í sérfræðistörfum er enn fremur líklegra til að telja stöðu efnahagsmála góða en námsmenn og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar eru einnig talsvert líklegri til þess að vera þeirrar skoð- unar, eða 87%. Stuðningsmenn Pírata eru hins vegar líklegastir af stuðningsmönnum stjórnmálaflokkanna til að telja stöðuna mjög slæma, eða 25%.

Heilsufarsmælingar á norðanverðum Vestfjörðum frestast

Heilsufarsmælingar á norðanverðum Vestfjörðum frestast um óákveðinn tíma .

Heilsufarsmælingar á vegum SÍBS og Hjartaverndar sem bjóða átti upp á í dag á heilsugæslustöðvunum á norðanverðum Vestfjörðum; á Ísafirði, Þingeyri,Flateyri, Suðureyri, Súðavík og Bolungarvík, hefur verið frestað um óákveðinn tíma þar sem hópurinn sem átti að koma er nú staddur á sunnanverðum Vestfjörðum og ófært er um Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar. Nýjar dagsetningar verða auglýstar þegar þær liggja fyrir á heimasíðum SÍBS og HVEST.

annska@bb.is

Jafntefli í fyrstu skák

Guðmundur byrjaði Íslandsmótið með jafntefli. Mynd: mbl.is

Íslandsmótið í skák hófst í hafnarfirði í gær. Tíu skákmenn tefla um Íslandsmeistaratitilinn og Ísfirðingar eiga sinn fulltrúa á mótinu, Guðmund Gíslason. Hann tefldi við Davíð Kjartansson í gær og tefldu þeir lengst allra í fyrstu umferð. Skákinni lauk með jafntefli eftir harða baráttu. Öllum viðureignum gærdagsins nema einni lauk með jafntefli. Héðinn Steingrímsson hefur tekið forystu en hann sigraði Björn Þorfinnsson.

Guðmundur vann sér rétt til að taka þátt í Íslandsmótinu með því að sigra áskorendaflokk Íslandsmótsins fyrir mánuði síðan. Hann sigraði mótið örugglega, var taplaus fram í síðustu umferð þegar hann var búinn að tryggja sigurinn.

 

 

Jákvæð afkoma hjá Bolungarvíkurkaupstað

Rekstur Bolungarvíkurkaupstaðs var að mestu í samræmi við fjárhagsáætlun. Afkoma samstæðunnar (A og B hluta) var jákvæð um 9,4 milljónir króna, litlu lakari en fjárhagsáætlun sem gerði ráð fyrir 12,5 milljóna króna afgang. Árið 2015 var 9 milljóna króna hallarekstur af sveitarfélaginu. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2016 nam 295,4 milljónum krónum og þar af nam eigið fé A hluta 346,2 milljónum króna. Heildarskuldir Bolungarvíkurkaupstað og stofnana hans voru 1.609 milljónir króna í árslok og lækkuðu um 14 milljónir króna milli ára.

Laun og launatengd gjöld á árinu námu um 531 milljónum króna en starfsmannafjöldi hjá sveitarfélaginu nam 68 stöðugildum.

Skuldaviðmið sveitarfélagsins er 119 prósent og lækkaði úr 136 prósentum frá fyrra ári. Skuldaviðmiðið segir til um getu sveitarfélaga til að greiða af skuldum sínum og samkvæmt sveitarstjórnarlögum á það ekki að vera hærra en 150 prósent.

Íbúafjöldi í Bolungarvíkurkaupstað 31. desember 2016 var 908 og fjölgaði um 4 frá fyrra ári.

Knattspyrnan ávallt skipað stóran sess hjá Ísfirðingum

Sigurður er að leggja lokahönd á sögu ísfirskrar knattspyrnu.

Að undanförnu hefur Sigurður Pétursson  sagnfræðingur setið sveittur við ritun sögu ísfirskrar knattspyrnu. Það er Púkamótið sem stendur að útgáfu bókarinnar og kemur hún út 23.júní í sumar en þá hefst einmitt á Ísafirði fjórtánda púkamótið. „Þeir komu að máli við mig um að skrifa þessa bók og þar sem þetta er sameiginlegt áhugamál þá þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um og frá því byrjun árs 2016 hef ég verið að safna efni og skrifa,“ segir Sigurður.

Knattspyrnuiðkun hófst á Ísafirði upp úr 1900, fljótlega á eftir Reykvíkingum og í bókinni er knattspyrnusagan rakin allt fram á síðasta ár. „Ísfirsku knattspyrnufélögin tvö sem börðust hvað harðast um áratugaskeið voru bæði endurvakin á síðasta ári. Vestri var stofnaður í janúar í fyrra og Hörður fór aftur að keppa í fótbolta. Bókin endar þar sem þessi tvö félög eru komin aftur á sjónarsviðið.“

Í bókinni er sérstök umfjöllun um ísfirska landsliðsmenn. „Sá fyrsti var Björn Helgason og þeir síðustu eru ungir menn, Matthías Vilhjálmsson og Emil Pálsson. Sá fyrri er ríkjandi Noregsmeistari með Rosenborg og sá síðari Íslandsmeistari með FH,“ segir hann.

Ísfirskar knattspyrnukonur árið 1914.

Kvennaknattspyrnan fær sinn sess í bókinni og Sigurður segir það ekki á allra vitorði að fyrsta kvennaknattspyrnuliðið á Íslandi var stofnað á Ísafirði. „Árið 1914 var Knattspyrnufélagið Hvöt stofnað til að stunda knattspyrnu kvenna. Félagið lifði að vísu ekki nema í tvö ár en er engu að síður merkilegt í sögu íslenskrar knattspyrnu.“

Eftir að Hvöt lagði upp laupanna lá kvennaknattspyrnan í dvala í áratugi og það var ekki fyrr en um 1980 að hún hófst á ný á Ísafirði. Fljótlega komast þær upp í efstu deild og um tíma spiluðu bæði karla- og kvennalið ÍBÍ í efstu deild á því sem má kalla gullaldarár ísfirskrar knattspyrnu.

Sigurður segir að ritun sögu um sérhæft efni eins og eina íþróttagrein sé í aðra röndina alltaf saga þess samfélags sem viðfangsefnið er sprottið úr. „Við getum nefnt samgöngurnar. Á fyrstu áratugunum sigldu liðin milli landshluta. Víkingur og Fram komu siglandi til Ísafjarðar árið 1921 og um 1940 kom KR fljúgandi vestur fyrst liða.“

Hann segir að gríðarmikið sé til af heimildum um sögu knattspyrnunnar á Ísafirði. „Á Skjalasafninu eru til fundargerðir og annálabækur félaganna sem hafa stundað knattspyrnu í þessa rúmu öld sem Ísfirðingar hafa sparkað bolta. Þá hafa fjölmiðlar ávallt haft áhuga á knattspyrnu og greint vel og skilmerkilega frá leikjum og keppnisferðalögum og það sýnir vel hvaða sess knattspyrnan hefur haft í hugum bæjarbúa.

Honum er ekki kunnugt um að sambærileg bók hafi verið gefin út á Íslandi. „Einstök félög hafa gefið út vegleg rit um sína sögu en ég veit ekki um neina bók um knattspyrnusögu eins byggðarlags, segir Sigurður.

Síðustu vikur hefur áhugasömum kaupendum boðist að kaupa bókina á sérstöku tilboðsverði og um leið að rita nafn sitt í sérstaka heillaóskaskrá í bókinni.  Síðar í vikunni fer bókin í prentun og því síðustu forvöð að skrá sig á heillaóskaskrá bókarinnar. Það er hægt að gera á heimasíðu Púkamótsins, www.pukamot.is/pukabok

Íslenska verði leiðandi tungumál á vinnustaðnum

F.v. Aneta M. Matusewska, skólastjóri Retor fræðslu, Jóhann Magnússon framleiðslustjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, og Hjalti Ómarsson framkvæmdastjóri Retor fræðslu.

Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal hefur gert tólf mánaða samstarfssamning við Retor fræðslu um íslenskukennslu fyrir erlent starfsfólk fyrirtækisins. Samningurinn felur meðal annars í sér námskeið þar sem lögð verður áhersla á að kynna erlendu starfsfólki helsta orðaforðann sem notaður er á vinnustaðnum og snýr að heitum á hinum algengum hlutum sem þar koma fyrir ásamt öðru sem fyrirferðarmikið er í daglegu samtali starfsmanna og snýr að starfi þeirra. Retor mun einnig annast eftirfylgni með námskeiðunum.

Samstarfið kveður einnig á um að koma á framfæri leiðbeiningum og halda stutt námskeið fyrir íslenskt starfsfólk Kalkþörungafélagsins þar sem lögð verður áhersla á að aðlaga vinnustaðarmenninguna að þörfum allra starfsmanna þar sem talað er fleira en eitt tungumál. Markmiðið er að ná þeim árangri að íslenska verði hið leiðandi tungumál á vinnustaðnum. Kennsla Retors verður í fjarkennsluformi í fundarsal kalkþörungafélagsins og verður kennt á bæði pólsku og ensku.

Fyrsta námskeiðið verður haldið í júní þegar tíu kennslustundir verða haldnar í 3 kennslustundir í senn í samtals 30 kennslustundir. Áður en kennslan hefst verður framkvæmt stöðumat á þátttakendum til að greina hvaða námskeið henti best til að byrja með. Stöðumat í byrjun er jafnframt forsenda þess að hægt sé að mæla árangur að námskeiðunum loknum.

Nýjustu fréttir