Laugardagur 18. janúar 2025
Síða 2206

Fjögurra mánaða skilorð fyrir fíkniefnabrot

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Við leit á manninum og í bíl sem hann var farþegi í fann lögreglan 151 g af maríjúana, 9,6 g af kókaíni og 31 ecstasytöflur. Efnin voru ætluð til söludreifingar. Maðurinn mætti ekki til dóms við þingfestingu og var dómur lagður á málið þrátt fyrir fjarveru ákærða þar sem framlögð gögn lögreglu þóttu nægja til sakfellingar. Í desember 2016 gekkst hann undir sektargerð vegna fíkniefnabrota.

Vegtollar fjármagni stórframkvæmdir

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Jón Gunnarsson, ráðherra Samgöngumála segir í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í gær að hugmyndir um stórframkvæmdir í vegagerð verði kynntar á næstunni. Segir hann að starfshópur undir forystu Eyjólfs Árna Rafnssonar verkfræðings muni á næstu vikum skila tillögum um hvernig ráðast megi í stórframkvæmdir í samgöngum út frá höfuðborgarsvæðinu.

„Hugmyndin sem hópnum var falið að skoða er hvernig greiða megi leiðir út frá Reykjavík; til suðurs til Keflavíkurflugvallar, til austurs með nýrri brú yfir Ölfusá við Selfoss og til vesturs til Borgarness með Sundabraut og nýjum göngum undir Hvalfjörð,“ segir Jón meðal annars í greininni, en hann segir það muni taka áratugi að koma þessum nauðsynlegu samgöngubótum á, ef þær yrðu fjármagnaðar með hefðbundnum hætti.

Jón vill að ríkið og einkaaðilar komið að fjármögnum framkvæmdanna og yrðu veggjöld nýtt til að greiða niður fjármögnun þeirra.

„Ég sé fyrir mér að þeirri fjárhæð sem innheimt yrði í formi veggjalda yrði stillt mjög í hóf gagnvart fjölnotendum, þ.e. þeim sem oft eiga leið um umrædda vegi vegna atvinnu sinnar eða skólasóknar svo dæmi séu nefnd,“ segir Jón og miðar við að notendur stærri bíla og rútubíla sem og þeir sem ekki eiga oft leið um eins og ferðamenn greiði hærra verð.

Fjölgar í byggingariðnaði – fækkar í sjávarútvegi

Launþegum hef­ur fjölgað mest í bygg­ing­ariðnaði og ferðaþjón­ustu und­an­farið ár en þeim hef­ur hins veg­ar fækkað í sjáv­ar­út­vegi.

Á 12 mánaða tíma­bili, frá apríl 2016 til mars 2017, voru að jafnaði 16.970 launa­greiðend­ur á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 754 (4,7%) frá síðustu 12 mánuðum á und­an. Á sama tíma­bili greiddu launa­greiðend­ur að meðaltali um 181.900 ein­stak­ling­um laun sem er fjölg­un um 8.300 (4,8%) sam­an­borið við 12 mánaða tíma­bil ári fyrr, seg­ir í frétt Hag­stofu Íslands.

Í mars voru 2.368 launa­greiðend­ur og um 10.900 launþegar í bygg­ing­ar­starf­semi og mann­virkja­gerð og hafði launþegum fjölgað um 1.200 eða um 13% frá því í mars 2016. Sömu­leiðis voru í mars 1.547 launa­greiðend­ur og um 24.000 launþegar í ein­kenn­andi grein­um  ferðaþjón­ustu og hafði launþegum fjölgað um 2.800 eða um 13% á einu ári. Launþegum hef­ur á sama tíma fjölgað um 5.900 eða um 3%.

Hafa verður í huga að í þess­um töl­um eru ekki upp­lýs­ing­ar um ein­yrkja sem eru með rekst­ur á eig­in kenni­tölu og greiða sjálf­um sér laun, en slíkt rekstr­ar­form er al­gengt í bygg­ing­ariðnaði, land­búnaði, hug­verkaiðnaði og skap­andi grein­um svo dæmi séu tek­in.

„Fiskverð ígildi hamfara“

Smábátaeigendur eru þessa dagana rasandi yfir lágu fiskverði eftir því sem kemur fram á vef Landssambands smábátaeigenda (LS). Í gær var meðalverð á mörkuðum fyrir óslægðan þorsk 192 kr/kg. Sama dag í fyrra var verðið 236 kr/kg. „Fiskverðið nú er ígildi hamfara,“ er haft eftir Ólafi Hallgrímssyni, stjórnarmanni í LS.

Á vef LS eru borin saman fiskverð á mörkuðum og útflutingsverðmæti þorskafurða og sést að á tímabilinu janúar til mars á þessu ári lækkaði fiskverð til sjómanna og útgerða um 11 prósent frá sama tímabili árið áður. Meðlaverðmæti útfluttra þorskafurða lækkaði hins vegar um 4,2% á sama tímabili.

„Vafalaust setja menn spurningarmerki við þessar tölur og benda á varðandi útflutninginn í hvaða pakkningar þorskurinn er unninn.  Það breytir því þó ekki að verð á fiskmörkuðum virðist hafa fylgt genginu en í útflutningi hefur náðst hækkun sem fylgt hefur gengisfalli erlendra mynta gagnvart krónu,“ segir á vef LS.

 

Vestri og Víðir mætast á Torfnesvelli

Frá leik Vestra fyrr í sumar.

Vestri mætir Víði frá Garði á Torfnesvelli á morgun. Önnur deild Íslandsmótsins í knattspyrnu hófst um síðustu helgi og Vestri sigraði Fjarðabyggð 1-0 í fyrsta leik með marki frá Þórði Hafþórssyni. Víðir byrjaði deildina með látum þegar liðið sigraði Hött 4-1 á Nesfisksvellinum í Garði. Þjálfarar og fyrirliðar í 2. deild spá Víði 8. sæti í deildinni í sumar en Vestra er spáð öðru sæti, eftir því sem kemur fram í spá Fótbolta.net

Víðir Garði endurheimti sæti sitt í 2. deildinni síðastliðið haust. Víðismenn leika í sumar í fyrsta skipti í 2. deildinni síðan árið 2010.

Ef Vestramenn ætla að standa undir spá Fótbolta.net þá er mikilvægt að byrja tímabilið af krafti og þá sérstaklega á heimavelli. Það gerir liðið best með dyggum stuðningi áhorfenda. Leikurinn hefst á Torfnesvelli kl. 14.

Ársfundur Orkubúsins opinn almenningi

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Fundurinn verður haldinn á Hótel Ísafirði og hefst kl. 12. Svipaðir fundir verða haldnir á Hólmavík og á Patreksfirði fljótlega á eftir. Á fundinum munu Viðar Helgason, stjórnarformaður Orkubúsins og Elías Jónatansson orkubússtjóri fara yfir helstu þætti í rekstri Orkubús Vestfjarða rekstrarárið 2016. Þá verður farið yfir hvað hefur áunnist og það helsta sem er á döfinni hjá fyrirtækinu. Fundarmenn munu fá tækifæri til að bera fram fyrirspurnir eftir að framsögum lýkur.

Líkt og undanfarin ár er ársfundurinn er öllum opinn og verður fundargestum boðið upp á súpu á staðnum. Ráðgert er að fundinum ljúki um kl. 13:30.

Orkubúið hvetur viðskiptavini fyrirtækisins, sveitarstjórnarmenn og annað áhugafólk um orkumál til að mæta á fundinn.

Hvasst í dag

Frá Steingrímsfjarðarheiði.

Veðurstofan varar við stormi í dag við suðausturströndina, á Vestfjörðum og við norðurströnd landsins. Þá er búist við mikilli úrkomu á Austfjörðum og suðausturlandi, austan Öræfa, í dag.  kvöld er spáð austan 15-25 metrum á sekúndu, hvassast á annesjum norðantil og á Vestfjörðum. Hiti verður 0 til 10 stig í dag.

Á morgun lægir nokkuð, samkvæmt spá Veðurstofunnar. Spáð er austan 8-15 metrum á sekúndu og talsverðri eða mikilli rigningu austanlands. Varað er við vatnavöxtum og leysingum á austanverðu landinu.

Á Vestfjörðum eru hálka á Gemlufallsheiði en snjóþekja og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði.   Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar.

Skora á ráðherra að friða Eyjafjörð

Hags­munaaðilar í veiði, hvala­skoðun, úti­vist og sjó­mennsku hafa skorað á Þor­gerði Katrínu Gunn­ars­dótt­ur, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, að friða Eyja­fjörð fyr­ir sjókvía­eldi á laxi. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu. Arnarlax á Bíldudal vinnur nú að umhverfismati fyrir 10.000 tonna laxeldi í Eyjafirði.

Í áskor­un­inni seg­ir meðal ann­ars:

„Við und­ir­rituð tök­um heils­hug­ar und­ir efa­semd­ir þínar um fyr­ir­hugað sjókvía­eldi á laxi í Eyjaf­irði. Einnig lýs­um við yfir ánægju með um­mæli þín þar sem þú seg­ist vilja gæta varúðar og verja nátt­úr­una gegn um­hverf­is­spjöll­um af völd­um lax­eld­is í sjó.

Við leggj­umst al­farið gegn sjókvía­eldi á laxi í Eyjaf­irði. Fyr­ir­hugað risa­eldi á 10.000 tonn­um af laxi myndi spilla hreinni ímynd fjarðar­ins, skaða hags­muni ferðaþjón­ustu, valda smá­báta­eig­end­um búsifj­um, bitna harka­lega á villt­um Atlants­hafslaxi sem geng­ur í ár á svæðinu og að öll­um lík­ind­um eyða sjó­bleikju­stofn­um í Eyjaf­irði.“

„Örugglega Íslandsmet“

Framleiðslustjórinn Tryggvi Bjarnason og gæðastjórinn Þóra Jörundsdóttir ásamt þjarkinum sem sér um að raða öllu samviskusamlega á bretti.

Rúmt ár er síðan slátrun hófst hjá Arnarlaxi á Bíldudal og hefur framleiðslan aukist jafnt og þétt með hverjum mánuðinum. Í gær var slátrað og pakkað 65 tonnum af ferskum laxi og segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlaxa, að þetta sé örugglega Íslandsmet. „Þetta gerir fjóra flutningarbíla sem fóru frá Bíldudal full lestaðir af gæðalaxi til útflutnings,“ segir Víkingur. Flutningarbílarnir fara ýmist til Seyðisfjarðar, Þorlákshafnar, Reykjavíkur og Keflavíkur þar afurðirnar eru fluttar á erlenda markaði. Verðmæti afurðanna þennan eina dag eru um það bil 55 milljónir króna.

Víkingur segir að umreiknað í matarskammta þá er útflutngingur gærdagsins 227.000 máltíðir sem dreifast um allan heim.

Víkungur Gunnarsson. Mynd: Helgi Bjarnason.

Fyrirtækið slátrar á milli 250-300 tonnum á viku þessar vikurnar. Í fyrra slátraði Arnarlax 6.000 tonnum og í ár verður framleiðslan 10.000 tonn. „Þessi aukna framleiðsla þýðir að við þurftum nýjan brunnbát og vorum að fá einn til bráðabirgðar, en það kemur nýr bátur til okkar í næsta mánuði.“

En það er ekki bara Arnarlax sem þarf að stækka við sig í tækjum og tólum til að mæta nýjum tímum á Bíldudal og sunnanverðum Vestfjörðum. Víkingur segir að stjórnvöld verði að girða sig í brók með uppbyggingu innviða.

„Það er orðið bráðnauðsynlegt fara í uppbyggingu á Dynjandisheiði og þess vegna kom það eins og blaut tuska framan í okkur þegar allt framkvæmdafé í heiðina var skorið niður í fjárlögum,“ segir Víkingur.

Í dag þurfa flutningabílar sem fara með afurðir frá Bíldudal að keyra yfir Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði og er það 45 km lengri leið en að fara stystu leið um Dynjandisheiði úr Arnarfirði yfir á Flókalund sem er ófær stóran hluta ársins.

„Ef við miðum við framleiðsluna eins og hún er hjá okkur í dag sem fer í 4-5 flutningarbílum á dag, þá kostar þessi aukarúntur okkur 41 milljón á ári. Fyrir utan kostnaðinn þá er þetta öruggari leið, um einn fjallveg að fara í stað þriggja. Hérna erum við bara að tala um eittt fyrirtæki, við þetta bætast áhrif á íbúa og ferðamenn,“ segir Víkingur.

Bolfiskvinnsla að nálgast þolmörkin

Styrking krónunnar hefur haft veruleg áhrif á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Raungengi krónunnar er nú svipað og það var fyrir hrun. Ætla má að tekjur vegna bolfiskafurða verði um 25 til 30 milljörðum króna lægri árið 2017 en þær voru árið 2015. Þetta kemur fram í viðtali í nýjustu Fiskifréttum við Hallveigu Ólafsdóttur, hagfræðing Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Á sama tíma og tekjur rýrna hækkar innlendur kostnaður. Þannig hefur launavísitalan hækkað um 27% frá upphafi árs 2014 en gengi krónunnar hefur styrkst um 26% á sama tímabili. Framlegð í botnfiskveiðum og -vinnslu á árinu 2015 var góð, eða um 27%, en gera má ráð fyrir að framlegðin fari niður í 16% í ár. Í Fiskifréttum er haft eftir Pétri H. Pálssyni, framkvæmdastjóra Vísis hf., að rekstur bolfiskvinnslunnar væri að nálgast þolmörkin og framlegð væri hægt og bítandi að hverfa. Hann segir einu raunhæfu leiðina til að bregðast við stöðunni vera stærri einingar með sameingu fyrirtækja. Einnig væri hægt að fjárfesta í betri tækni en það yrði ekki gert nema með auknu hlutafé. Hann bætti því við að sameining fæli óhjákvæmilega í sér fækkun skipa, fiskvinnslustöðva og ófaglærðs fólks.

 

 

Nýjustu fréttir