Mánudagur 2. september 2024
Síða 2205

15 samningum þinglýst

15 samningum vegna fasteignaviðskipta var þinglýst á Vestfjörðum í Desember 2016. Þar af voru 5 samningar um eignir í fjölbýli, 3 samningar um eignir í sérbýli og 7 samningar um annars konar eignir. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands. Heildarveltan var 603 milljónir króna og meðalupphæð á samning 40,2 milljónir króna. Af þessum 15 voru 6 samningar um eignir á Ísafirði. Þar af voru 3 samningar um eignir í fjölbýli, 1 samningur um eign í sérbýli og 2 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 496 milljónir króna og meðalupphæð á samning 82,7 milljónir króna.

Til samanburðar var 31 samningi þinglýst á Austurlandi, 110 á Suðurlandi og 104 á Norðurlandi.

brynja@bb.is

Engar bætur vegna snjóflóða

Viðar Kristinsson ræðir við Höllu Ólafsdóttur. Skjáskot úr Kastljósi

Í Kastljósi RÚV í fyrrakvöld var viðtal við Viðar Kristinsson á Ísafirði sem fyrir tæpum tveimur árum lenti í snjóflóði í Eyrarfjalli ofan bæjarins. Viðar var á fjallaskíðum með Hauki Sigurðssyni frænda sínum er þeir settu af stað snjóflóð ofarlega í brekkunni innan við Grænagarð, snjóflóðið hreif Viðar með sér og endaði hann ofan á flóðinu um 350 metrum neðar í brekkunni. Hann var illa brotinn á hægri handlegg, hryggjarliðir féllu saman og það þurfti að sauma yfir þrjátíu spor í höfuðið á honum. Haukur slapp naumlega og gat hann strax hringt eftir aðstoð og var fyrst hlúð að Viðari í brekkunni, en hann var svo fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem tók við langt og strangt bataferli.

Viðar var vel tryggður og hafði sérstaka frístundatryggingu sem hann hafði óskað eftir vegna þess að hann stundaði t.a.m. fjallaskíði og klifur, en þegar hann ætlaði að sækja bætur hjá tryggingafélagi sínu, Sjóvá, eftir slysið kom hann að lokuðum dyrunum. Í 69. grein tryggingaskilmála þeirra segir: „Félagið bætir ekki tjón sökum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða, vatnsflóða og annarra náttúruhamfara.“ Í svarbréfi Sjóvár var bent á að Viðlagatryggingar Íslands bætti munatjón í snjóflóðum. En Viðlagatryggingarnar höfnuðu kröfu Viðars einnig þar sem þar er aðeins bætt tjón sem verður við náttúruhamfarir. Þetta snjóflóð hafi hins vegar verið af mannavöldum.

Niðurstaða Hörpu Grímsdóttur, fagstjóra ofanflóðavaktar á Veðurstofunni var sú að flóðið teldist ekki til náttúruhamfara í eiginlegri merkingu þess orðs, þar sem það var af mannavöldum og segja má að mál Viðars hafi lent á milli báts og bryggju. Hann ætlar þó að halda málinu áfram með lögfræðingi sínum til að fá úr þessu skorið, þar sem hann telur frístundatrygginguna ná yfir slys af þessu tagi. Þar sem í tryggingaskilmálanna segir meðal annars: „Með orðinu slys er hér átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama vátryggðs og gerist án vilja hans.“
Í umfjöllun Kastljóss var meðal annars bent á að fólk hér á landi væri í síauknu mæli farið að stunda útivist allan ársins hring og þar á meðal fjallaskíðamennsku sem tæplega teldist lengur til jaðarsports og þyrfti það því að vera þess vel meðvitað hvað tryggingar ná yfir og hvað ekki – líkt og snjóflóð.

Umfjöllun Kastljóssins í heild sinni, þar sem meðal annars er að finna viðtal fréttaritara RÚV á Vestfjörðum Höllu Ólafsdóttur við Viðar.

annska@bb.is

Langvarandi undirfjármögnun heilsugæslna

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna, segir heilsugæslur á ‚Islandi hafa liðið fyrir langvarandi undirfjármögnun og stjórnunarvanda. Hann segir megin rekstrarmarkmið stærstu heilbrigðisstofnana sem reka heilsugæslu hafi verið að skila stofnunum réttum megin við fjárheimildir. Þá hafi árið 2008 komið átakanlegur niðurskurðu sem þjónustan hafi liðið fyrir.

Í grein sem Þórarinn skrifar í Læknablaðinu segir hann að heilsugæsla á landsbygðinni vera rekna með afleysingum í verktöku. „Heilsugæsla á landsbyggðinni stendur veikt og er læknisþjónustan víða rekin með aðstoð afleysara í verktöku. Slíkt er ekki boðlegt. Fórnarkostnaðurinn við að skila hallalausum rekstri hefur verið heilsugæsla í sárum sem ekki nær að sinna hlutverki sínu og starfsánægja í lágmarki,“ segir Þórarinn.

Um 100 milljón króna rekstrarhalli er á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á þessu ári. Og fram kom í fréttum í desember að mikil þörf sé á tækjaendurnýjun.

brynja@bb.is

Bolungarvíkurkaupstaður eykur þjónustu við tjaldgesti

Gert er ráð fyrir að endurnýja þjónustuhús við tjaldsvæðið í Bolungarvík á árinu. Markmiðið með húsbyggingunni er að auka þjónustu við tjaldsvæðagesti og verður húsið á opinn hátt tengt við sundlaugarbygginguna. Tjaldsvæðið í Bolungarvík er miðsvæðis í bænum með sundlaugina á aðra hönd og Hólsá á hina. Hið nýja þjónustuhús verður að stærstum hluta borðsalur fyrir gesti tjaldsvæðis, þar verður einnig eldunaraðstaða, þvottaaðstaða og salerni. Bæjarstjóri Bolungarvíkur Jón
Páll Hreinsson segir vonir bundnar við að byggingin verði tilbúin í vor og geti því þjónað gestum frá upphafi sumars.

Samhliða uppbyggingunni á tjaldsvæðinu verður farið í sérstaka markaðsherferð með það að markmiði að kynna hina nýju aðstöðu ásamt annarri þjónustu sem Bolungarvík hefur upp á að bjóða fyrir gesti sína. Í frétt á vef Bolungarvíkurkaupstaðar segir að allar spár gangi út á mikla aukningu ferðamanna til Vestfjarða næsta sumar og þessar framkvæmdir liður í því að bæta þjónustu við þá og auka aðgengi þeirra að Bolungarvík og auka þannig komur þeirra á þessu og næstu árum.

annska@bb.is

Allt innanlandsflug liggur niðri

Allt innanlandsflug liggur niðri vegna veðurs en sunnan stormur ríkir nú á landinu. Hjá Flugfélagi Íslands er búið að aflýsa flugi til Kulusuk, næstu upplýsingar vegna flugs til Egilstaða og Akureyrar er að vænta klukkan 11:15 og vegna flugs til Ísafjarðar klukkan 14:15. Vindur snýr sér er líður á daginn til vesturs og kólnar þá ört. Hjá flugfélaginu Erni á að athuga með flug klukkan 11:15.

annska@bb.is

Kólnandi veður

Yfirvöld veðurs og vinda bjóða upp á suðvestan 13-20 og él um hádegi en seinnipartinn gefur aðeins í vindinn og búist er við 15-23 m/s síðdegis en lægir og styttir upp í nótt. Á morgun er reiknað með suðaustan 3-8 og þurru en fari að snjóa annað kvöld og hiti kringum frostmark. En eins og í gær eru miklar sviptingar í veðri og fólk hvatt til að fylgjast vel með veðurspám og færð áður en lagt er upp í ferðalög milli landshluta.

bryndis@bb.is

Hryðjuverk, utanríkisstefna og ímyndarstjórnmál í Vísindaporti

Brynja Huld Óskarsdóttir

Fyrsta Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða á nýju ári fer fram í hádeginu á morgun, föstudaginn 6. janúar. Sú sem ríður á vaðið er Brynja Huld Óskardóttir, sem nýverið útskrifaðist með meistaragráðu í öryggismálafræðum frá Bretlandi. Í erindi sínu mun Brynja Huld fjalla um hryðjuverk og tengsl þeirra við svokölluð sjálfsmyndarstjórnmál (e. identity politics) og utanríkisstefnu. Farið verður yfir nokkur hugtök um hryðjuverk og þá sem þeim beita. Í erindinu svarar Brynja Huld meðal annars spurningum á borð við: „Hvað eru hryðjuverk? Hver notar þau og í hvaða tilgangi? Hvers vegna eru sum lönd viðkvæmari fyrir hryðjuverkum og í því samhengi, hvers vegna er Frakkland skotmark Íslamska ríkisins?“.

Brynja Huld er sem áður segir með MSc gráðu í öryggismálafræðum frá University College London. Áður lagði hún stund á heimspeki í Háskóla Íslands og Sorbonne í París. Í öryggismálafræðunum lagði hún áherslu á utanríkisstefnugreiningu, tengsl utanríkisstefnu við hryðjuverk og þá þætti sem ríki, sem verða fyrir hryðjuverkum, eiga sameiginlega. Undanfarin ár hefur Brynja Huld unnið hjá Fréttastofu Ríkisútvarpins, fyrst sem fréttaritari á Vestfjörðum, svo á fréttastofu í Reykjavík, og í Morgunútvarpi Rásar 2. Þá vann hún sem fjölmiðlafulltrúi hjá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Í janúar hefur hún störf við áhættugreiningu hjá Jane’s Terrorism and Insurgency Centre í London, þar sem hún mun vinna í teymi sem vaktar og greinir átök, óeirðir og hryðjuverk. Eins og glöggir lesendur Bæjarins besta hafa eflaust tekið eftir hefur Brynja Huld skrifað fyrir BB síðustu tvo mánuði í fjarveru Smára Karlssonar, en brátt mun hún halda til Englands á ný.

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku en hann hefst kl. 12.10 og að honum loknum verða fyrirspurnir og umræður. Að venju er Vísindaportið opið öllum áhugasömum.

annska@bb.is

Blossi ÍS aflahæstur

Blossi ÍS er flottur bátur.

Blossi ÍS 225 frá Flateyri er aflahæstur 13 brúttótonna báta það sem af er janúarmánaðar. Blossi byrjar tvöfalt betur en aðrir bátar og landaði 7,9 tonnum í fyrsta túrnum sínum. Það er fullfermistúr. Næsti bátur á eftir Blossa er Herja ST 166 frá Hólmavík með 4,2 tonn. Nánari lista má skoða á vef Aflafrétta.

brynja@bb.is

Tæplega 90GWst framleidd í vatnsaflsvirkjunum

Á myndinni má sjá orkuframleiðslu 2015 og 2016.

Framleiðsla vatnsaflvirkjana Orkubús Vestfjarða fyrir árið 2016 var tæpar 90 Gígawattstundir (GWst). Árið 2015 var framleiðslan tæpar 93 GWst. Fram kemur í frétt á vef Orkubúsins að lækkunin hafi ekki verið vegna lakari vatnsárs, heldur vegna framkvæmda við Mjólká. En á meðan vélaskiptum stóð framleiddi Mjólká I ekkert í tvo og hálfan mánuð, sem nemur framleiðslutapi um tæpar 3 GWst.

Þegar samanburður síðustu tveggja vatnsára er skoðaður sést að bæði árin teljast mjög góð, segir í frétt hjá Orkubúinu.

brynja@bb.is

Ný færðarkort hjá Vegagerðinni

Svona lítur nýtt færðarkort Vestfjarða út á vef Vegagerðarinnar

Á vef Vegagerðarinnar er nú að finna ný færðarkort og leysa þau af hólmi kort af grænu Íslandi sem hafa sinnt þessari upplýsingaveitu í 20 ár. Kortin með upplýsingum um færð og veður hafa í áranna rás verið eitt mikilvægasta verkfærið í upplýsingamiðlun Vegagerðarinnar og á dögum vályndra veðra hafa heimsóknir farið yfir 80.000. Margt hefur breyst í tölvunotkun landsmanna frá árinu 1996 en þá tengdust heimili til að mynda netinu í gegnum módem. Snjallsímar voru þá langt inni í framtíðinni sem og spjaldtölvur og því kominn tími til að færa kortin í frekari nútímabúning er segir í frétt um nýja síðu á Vegagerðarvefnum.

Á nýju kortunum eru reitir sem birta upplýsingar um hitastig, vindátt, vindhraða, vindhviður og umferð. Framsetning upplýsinga í þessum reitum er mikið breytt og hún nú orðin grafískari. Sé smellt á reit kemur upp vefsíða með frekari upplýsingum, t.d. daggarmarki, veghita og raka. Vefsíðan birtir einnig línurit yfir upplýsingar frá veðurstöð aftur í tímann. Einnig er hægt að smella beint á vefmyndavélar til að sjá myndir frá viðkomandi stað.

Á nýju færðarkortunum er landið teiknað í þremur grátónum sem mynda litabreytingu á kortunum þar sem hæð nær 200 og 400 metrum yfir sjávarmáli. Á nokkrum vegum hefur vegnúmerum verið bætt við kortin og einnig hefur örnefnum verið fjölgað nokkuð á kortunum. Þá hefur kortum verið fjölgað og eru nú birt kort fyrir miðhálendið og fyrir Reykjavík og nágrenni. Litir sem tákna færð eru nánast þeir sömu og áður. Tákn fyrir aðstæður hafa verið betrumbætt og táknið „Fært fjallabílum“ er nú með mynd af jeppa í stað 4×4 táknsins sem áður var.

Tæknileg högum á framsetningu línuritanna er nú gjörbreytt því í stað þess að birta tilbúnar myndir með línuritum eru nýju línuritin teiknuð í vafra notandans á grundvelli gagna um veður og umferð síðustu sólarhringa. Nýju línuritin hafa m.a. þann eiginleika að þau aðlaga sig að skjástærð notandans. Einnig birta þau benditexta með ítarupplýsingum þegar notandi fer með mús yfir línuritin eða snertir þau á snjalltæki.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir