Laugardagur 18. janúar 2025
Síða 2205

Gengið saman í rokinu

Haldið af stað. Mynd: Hrafn Snorrason

Þó lognið eigi á Ísafirði lögheimili þá koma tímar þar sem það bregður sér af bæ, líkt og í síðustu viku. Það stoppaði þó ekki rúmlega tuttugu manns á öllum aldri sem vasklega skelltu sér í göngu undir formerkjum „Göngum saman“ sem farin var á laugardag og er óhætt að segja að göngugarparnir hafi verið í sólskinsskapi þrátt fyrir hvassvirði. Misjafnt var hve langt fólk gekk en allar vegalengdir voru nýttar 1,5 km, 3 km og 7 km og var það starfsfólk Íslandsbanka sem bauð fram aðstoð sína við umsýslu göngunnar í ár. Göngum saman verkefnið fagnaði 10 ára afmæli í ár og var gengið á vegum þeirra á 14 stöðum á laugardaginn, auk þess sem gengið var á Tenerife og í Lucca á Ítalíu og tóku í heildina þátt hátt á annað þúsund manns.

Þó lognið væri að flýta sér voru göngugarparnir hinir hressustu. Mynd: Hrafn Snorrason.

Styrktarfélagið Göngum saman hefur það að markmiði að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini en þær eru undirstaða þess að lækning finnist í framtíðinni. Félagið leggur áherslu á mikilvægi hreyfingar bæði til heilsueflingar og til að afla fjár í styrktarsjóðinn. Stærsta fjáröflun ársins er í kringum árlega göngu félagsins og frá stofnun félagsins hefur félagið úthlutað rúmlega 70 milljónum í rannsóknastyrki til íslenskra vísindamanna. Fyrsti styrkurinn var veittur árið 2007 en síðan hefur Göngum saman veitt styrki á hverju ári, síðast 10 milljónum króna í október 2016.

Staðan ekki sterkari í áratugi

Fjárhagsleg staða Bolungarvíkur hefur ekki verið sterkari í áratugi. Skuldir hafa lækkað, veltufé frá rekstri aukist og Bolungarvíkurkaupstaður hefur aukna getu til fjárfestinga í innviðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Jóns Páls Hreinssonar bæjarstjóra. Ársreikningur Bolungarvíkurkaupstaðar var samþykktur í bæjarstjórn í síðustu viku. Rekstarniðurstaða samstæðunnar var jákvæð um 9,4 milljónir kr. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er 119% og hefur lækkað jafnt og þétt síðustu ár. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum á skuldahlutfall ekki að vera hærra en 150%. Árið 2008 stóð hlutfallið í 194%.

„Niðurstaða ársreiknings Bolungarvíkurkaupstaðar fyrir árið 2016 er jákvæð og hefur fjárhagsleg staða bæjarins ekki verið sterkari um áratuga skeið. Skuldir hafa lækkað á sama tíma og veltufé frá rekstri hefur aukist og hefur það bætt getu sveitarfélagsins til að fjárfesta í innviðum. Fjárhagsleg staða bæjarfélagsins gefur því svigrúm til frekari framkvæmda til að styrkja innviði, án þess að tekin sé óþarfa áhætta eða gengið of nærri grunnrekstri bæjarfélagsins,“ segir í tilkynningunni.

Aldraðir, eru ekki til peningar?

Guðjón Brjánsson

Nokkrum dögum fyrir alþingiskosningarnar 2013 ritaði formaður Sjálfstæðisflokksins eldri borgurum bréf þar sem hann tíundaði loforð um átak í þeirra þágu. Það átti snarlega að afnema kjaraskerðingu, lækka fjármagnstekjuskatt og afnema tekjutengingar ellilífeyris. Sjálfstæðisflokkurinn hjarir enn við völd og allt hefur þetta verið sniðgengið svo ekki sé dýpra tekið í árinni, enn bíða aldraðir og nú er komið árið 2017.

Við jafnaðarmenn áréttum að hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega úr 25.000 krónum á mánuði í 100.000 krónur í áföngum á árunum 2018-2022 er breyting sem eingöngu gagnast þeim ellilífeyrisþegum sem stunda atvinnu og hafa atvinnutekjur umfram 25.000 krónur á mánuði. Það eru einungis um 14% ellilífeyrisþega sem hafa yfirleitt atvinnutekjur og af þeim aðeins þriðjungur sem hefur tekjur yfir þessum mörkum. Aðgerðin mun því ekki gagnast tekjulægstu lífeyrisþegunum. Hér þurfum við að gera betur og samþykkja á Alþingi hið fyrsta gjörning sem tryggir sæmandi afkomu, bæði aldraðra og öryrkja. Að því mun þingflokkur okkar vinna.

Sjálfstæðisflokkurinn segir að ekki sé meira svigrúm í hagkerfinu, með öðrum orðum að ekki séu til peningar í málaflokkinn. Þetta er rangt. Peningarnir eru til en þeir eru ekki í okkar höndum sameiginlega, heldur í vösum einkafyrirtækja sem fá t.d. óáreitt að nýta sér auðlindir þjóðarinnar án þess að þurfa að gangast undir þær samfélagslegar skuldbindingar að stuðla að velferð og jöfnuði með eðlilegri greiðslu fyrir afnotin.

Það bíða verkefni í þágu aldraðra. Brýn eru þau sem lúta að almennum kjörum en ekki síður lausn á vanda þeirra sem bíða þjónustu, aðstoðar og stuðnings heima fyrir, hafa væntingar og loforð um ásættanlegt búsetuúrræði í heimabyggð eða þeirra sem bundnir á sjúkrahúsi og eiga ekki annan kost.

Í fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar lofa stjórnvöld að byggð verði tæplega 300 hjúkrunarrými til að leysa vandann, aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Þá liggja jafnframt fyrir loforð um að endurbæta eldra húsnæði á stofnunum sem víða eru starfrækt á undanþágum frá eftirlitsaðilum, einnig að bæta dagþjálfun og fleiru er lofað. Allt er þetta jákvætt og í sjálfsögðu samræmi við nútímaleg viðhorf. Gallinn er bara sá að ríkisstjórnin hefur ekki dug til að afla þeirra tekna sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að standa við loforðin, enn vantar líklega um tug milljarða til þess. Stefna og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er orsökin.

Það er því miður rík ástæða til að efast um efndir. Það væri eftir öðru að Sjálfstæðisflokkurinn færi samviskulaus í þriðju kosningarnar í röð með sömu innihaldslausu loforðin og vanefndirnar í farteskinu. Munu aldraðir sætta sig við að allt sé þá þrennt er?

Guðjón S. Brjánsson

alþingismaður

Páll fær kunnuglega liti

Nýr Páll Pálsson búinn að fá HG-litina.

Nýr togari Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. í Hnífsdal sem er í smíðum í Kína er kominn vel á veg. Búið er að sandblása og galvanísera skrokkinn og er hann óðum að fá á sig kunnuglega liti sem hafa prýtt Pál Pálsson í hartnær fimm áratugi. Von er á nýja Páli í lok sumars eða snemma í haust en smíði skipsins hefur dregist nokkuð. Það var vorið 2014 sem tilkynnt var um smíði skipsins.

Skipasmíðastöðin í Kína er með tvö samskonar skip í smíðum fyrir íslenskar útgerðir, Pál fyrir HG og Breka VE fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum. Við hönnun skipanna var olíusparnaður leiðarstef og skrúfur Breka og Páls eru tæplega fimm metrar í þvermál og nýta vélarafl við togveiðar á þann veg að áætlað er að eldsneytissparnaður nemi allt að 40%.

Breki og Páll eiga að skila 19 kg togspyrnu á hvert hestafl en sambærileg ný skip með venjulegar skrúfur skila 14-16 kg á hestafl að jafnaði. Þarna spilar saman stór skrúfa annars vegar og hönnunin á skipsskrokknum hins vegar. Togararnir eru með djúpan kjöl, sem hentar vel þegar troll er dregið. Þyngdardreifing í skipinu skiptir hér miklu máli og skiptir mun meira máli en hvernig stefnið er hannað.

Fyrsta skipið kemur í vikunni

Ocean Diamond við Ásgeirsbakka. Risaskipið Aida Luna í baksýn.

Skemmtiferðaskipavertíðin á Ísafirði hefst á fimmtudaginn þegar Ocean Diamond leggst að bryggju. Ocean Diamond siglir hringinn í kringum landið í allt sumar og kemur tólf sinnum til Ísafjarðar og síðasta koman er í lok september. „Vertíðin leggst vel í okkur á höfninni. Þetta verður metsumar og það sér ekkert fyrir endann á fjölgun skipa,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson hafnarstjóri á Ísafirði. Bókanir fyrir sumarið 2018 eru komnar vel á veg og að sögn hafnarstjórans hafa um 100 skip bókað komu sína á næsta ári og sumarið 2019 lítur einnig vel út.

Aðspurður hvað valdi þessum öra vexti í komum skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar segir Guðmundur að hann hafi nýlega verið á ráðstefnu Cruise Europe samtakanna og þar hafi komið skýrt fram að vöxturinn í greininni er í Norður-Evrópu og í Kína. „Skipin eru að draga sig frá Miðjarðarhafinu til dæmis. Svo liggur skýringin á okkar vinsældum einnig í að Ísland er almennt vinsæll áfangastaður og það gildir jafnt um skemmtiferðaskipin sem og aðra tegundir ferðaþjónustu,“ segir hann.

Hægir á launahækkunum

Launa­vísi­tala hækkaði um 0,4% milli fe­brú­ar og mars og hef­ur hún nú hækkað um 5% frá því í mars í fyrra. Stöðugt hef­ur þó hægt á hækk­un­ar­takt­in­um frá apr­íl­mánuði 2016, þegar árs­hækk­un­in náði há­marki í 13,4%. Seg­ir í frétta­til­kynn­ingu frá Land­bank­an­um að launa­hækk­un­ar­takt­ur­inn sé því nú ekki ósvipaður því sem var á ár­un­um 2012 til 2015.

Bent er á að nú­gild­andi kjara­samn­ing­ar hafi verið fram­lengd­ir um eitt ár í fe­brú­ar sl. Það hafi falið í sér að laun hækkuðu að jafnaði um 4,5% 1. maí og gildi samn­ing­ur­inn áfram munu laun hækka um 3% 1. maí 2018. „Eins og oft hef­ur verið nefnt var stefnt að því með Salek-sam­komu­lag­inu að hækk­un launa­kostnaðar færi ekki fram úr 32% frá árs­lok­um 2014 fram til árs­loka 2018. Hækk­un launa­vísi­tölu frá árs­lok­um 2014 fram til mars 2017 er orðin 20,8%. Sé áður­nefnd­um áfanga­hækk­un­um bætt við fæst launa­hækk­un upp á 30% þannig að svig­rúmið er næst­um full­nýtt þegar eitt og hálft ár er eft­ir af samn­ingn­um,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Hægviðri í dag

Rjómablíða í dag.

Veðurstofan spáir austan hægviðri á Vestfjörðum í dag. Skýjað með köflum og þurrt að kalla og hiti 7 til 14 stig. Í kvöld fer að vinda af norðaustri og í nótt herðir vind og má gera ráð fyrir 12 til 18 m/s. Hægir á morgun en kalt í veðri.

 

Allir vegir á Vestfjörðum eru greiðfærir, en Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði voru mokaðar um helgina. Vegna aurbleytu hættu á skemmdum eru sérstakar ásþungatakmarkanir á fáeinum vegum á á Vestfjörðum.

Sterk byrjun hjá Vestra

Vestri er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðir 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Á laugardaginn lék Vestri við Víði frá Garði á Torfnesvelli. Eftir einungis 10 mínútur komst Vestri yfir þegar leikmaður Víðis varð fyrir því óláni að skora í eigið mark. Vestramenn létu kné fylgja kviði og á 23. mínútu var brotið á leikmanni Vestra í vítateig Víðis og Hollendingurinn Kevin Alson Schmidt skoraði úr vítaspyrnunni. Fjórum mínútum síðar kom Pétur Bjarnason Vestra í 3-0 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Í seinni hálfleik slökuðu heimamenn á klónni og Víðir náði að klóra í bakkann á 82. mínútu með sjálfsmarki Vestra. Ekki var skorað meira og 3-1 sigur Vestra í höfn sem hefur eins og áður segir unnið báða leiki sína.

Um næstu helgi leikur Vestri við Knattspyrnufélag Vesturbæjar á KR vellinum.

Magni Grenivík og Vestri eru í efstu sætum deildarinnar með 6 stig.

Aukið fjármagn í landvörslu

Ferðamenn á Látrabjargi.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra að ráðast í átak í landvörslu í sumar. Verður 160 milljónum veitt aukalega til landvörslu á stöðum í náttúru Íslands sem fjölsóttir eru af ferðamönnum. Um er að ræða 70% aukningu landvarðavikna sem ráðið er í til skemmri tíma.

Aukin landvarsla og umsjón með viðkvæmum svæðum er að mati ráðuneytisins ein skilvirkasta leiðin til að vernda náttúru Íslands nú þegar stefnir í metár í heimsókn ferðamanna til landsins. Viðvera landvarða er einnig öryggismál og er ekki síst mikilvæg á þeim svæðum sem enn vantar upp á að innviðir séu fullnægjandi.

Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður munu hafa umsjón með verkefninu sem beinist m.a. að lengingu viðveru landvarða nú í vor og haust í samræmi við lengingu ferðamannatímabilsins.

Skóflustungu aflýst vegna ófærðar – sýnir mikilvægi Dýrafjarðarganga

Gangamunni Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

Ráðgert var að taka fyrstu skóflustungu Dýrafjarðarganga á morgun en vegna ófærðar á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði hefur því verið aflýst. Einnig átti að vera dagskrá á Hrafnseyri þar sem fjallað yrði um Dýrafjarðargöng og vegagerð á Vestfjörðum.

Ákveðið að blása til skóflustungunnar og dagskrár á Hrafnseyri þegar ekkert varð af undirritun verksamninga á Hrafnseyri á sumardaginn fyrsta, en þá tepptist heiðin skyndilega í norðanhreti og undirritunin var færð til Reykjavíkur. Gísli Eiríksson, forstöðumaður jarðgangaframkvæmda Vegagerðarinnar, segir óvíst hvort að samkomunni verði frestað að alfarið hætt við hana en segir önnur tilefni gefist síðar í verkinu til að koma saman.

„Ég ætla ekki að kenna arnfirskum galdramönnum um þetta þó að einhverjir hafi verið nefndir en þetta veðurlag sýnir að ekki er vafamál að það vantar göng,“ segir Gísli.

Í ár er ráðgert að vinna fyrir 1.500 milljónir króna samkvæmt fjárlögum og fyrir um 3 milljarða á því næsta. Tilboð Metrostav a.s. og Suðurverks hf. í gerð Dýrafjarðarganga nam tæpum 8,7 milljörðum króna, eða rúmum 93 prósentum af kostnaðaráætlun, og var um 630 milljónum króna lægra en næstu boð sem bæði voru nánast það sama og kostnaðaráætlunin.

Framkvæmdir hefjast í lok sumar eða í haust.

Nýjustu fréttir