Mánudagur 2. september 2024
Síða 2204

Hægur vindur og bjart í dag

Veður í dag klukkan 12.

Eftir stormasama nótt með éljagang hillir í betri tíð og jafnvel hið ágætasta vetrarveður eftir hádegi að sögn Veðurstofunnar. Á Vestfjörðum verður hægur vindur fram eftir degi, frost og bjart eða léttskýjað. Vindstrengur er við sunnanverða Vestfirði og skýjað. Síðdegis nálgast lægðardrag landið og fer þá að þykkna upp sunnan og vestanlands með slyddu, og talsverðri rigningu undir kvöld. Í kvöld og nótt má búast við 2-3°C hita og úrkomu.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er snjóþekja er á flestum vegum á Vestfjörðum og sums staðar þæfingur á fjallvegum en verið að hreinsa. Þá er jeppafært norður í Árneshrepp.

brynja@bb.is

Heimska valin besti skandinavíski skáldskapurinn

Eiríkur Örn Norðdahl.

Heimska, bók Eiríks Arnar Norðdahl, hefur verið valin besti skandinavíski skáldskapurinn af franska bókmenntatímaritinu Transfuge. Heimska gerist í óskilgreindri framtíð, í eftirlitssamfélagi framtíðarinnar. Í umsögn franska tímaritsins við veitingu verðlaunanna segir að Eiríki Erni Norðdahl takist að koma þema sögunnar fram á ólíkum stigum og dýpt, hann taki áhættu og takist vel til. Honum takist gríðarlega vel að útfæra hugmyndina um eftirlitssamfélag sem gerist í póst-módernísku samfélagi.

Eiríkur er að vonum ánægður með verðlaunin „Ég er mjög kátur yfir þessu öllu saman, einsog vera ber. Heimska kom líka út í Svíþjóð í nóvember og hefur fengið feykifína dóma þar. Þetta er ekki síst gleðilegt vegna þess að bókin kom hálfskakkt út úr jólabókaflóðinu. Það munar um minna, að eiga annan séns – að ég tali ekki um þann þriðja – þegar maður býr á lítilli eyju.“

Þetta er í annað sinn sem Eiríkur hlýtur þessi verðlaun, en hann hlaut þau einnig fyrir skáldsöguna Illsku. Fyrir Illsku hlaut
hann einnig Íslensku bókmenntaverðlaunin.

brynja@bb.is

Næst fundað í kjaradeilu sjómanna á mánudag

Kröfum sjómanna var hafnað.

Öllum kröfum sjómanna var hafnað á fundi sjómannaforystunnar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í gær. Fundað var hjá ríkissáttasemjara og sagði Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur að öllu kröfum hafi verið hafnað. Frá þessu var greint á mbl.is.

Ekki hefur verið fundað síðan 20. desember og verður næsti fundur á mánudaginn kemur. Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir í samtali við Ríkisútvarpið að fundurinn á mánudaginn verði ákveðinn úrslitafundur, en þá skýrist betur hvort einhver framvinda verði á kjaradeilunni.

brynja@bb.is

Metár á fiskmörkuðum

Metsala varð á fiskmörkuðum landsins í tonnum talið á síðasta ári. Þrátt fyrir mikla aukningu í magni dróst söluverðmætið hins vegar saman milli ára vegna lækkandi fiskverðs. Þetta kemur fram í úttekt í nýjustu Fiskifréttum.

Í heild nam salan á fiskmörkuðum landsins rúmum 113 þúsund tonnum á síðasta ári og söluverðmætin voru um 26,3 milljarðar króna. Aldrei fyrr í sögu fiskmarkaðanna hefur salan farið yfir 110 þúsund tonn en árið 2013 var salan 109,8 þúsund tonn.

Á árinu 2015 voru seld rúm 104 þúsund tonn á fiskmörkuðunum þannig að salan á síðasta ári jókst um 9 tonn frá árinu áður, eða 8,7%. Salan í verðmætum dróst hins vegar saman um 1,1 milljarð á síðasta ári eða um 4% enda lækkaði meðalverð á fiski talsvert.

Meðalverð á öllum tegundum á fiskmörkuðum var 231,44 krónur á kíló á síðasta ári en var 263,12 krónur á kíló á árinu 2015. Meðalverðið lækkaði þannig um 31,68 krónur milli ára, eða um 12%. Þessa lækkun má að hluta til skýra með sterku gengi íslensku krónunnar.

brynja@bb.is

Sjúkraflug eykst og heilsugæslan í sárum

Á síðasta ári voru hátt í 700 manns fluttir með sjúkraflugi hér á landi, en árið 2006 var fjöldi þeirra sem fluttur var 464. Björn Gunnarsson‚ barna- svæfinga- og gjörgæslulæknir, segir brýnt að komast því hvers vegna sjúkraflutningum með flugi hefur fjölgað svo mikið og gerir hann það að umtalsefni sínu í ritstjórnargrein í Læknablaðinu og spyr hann hvort minni sjúkrahús úti á landi mæti niðurskurði með því að senda sjúklinga til Reykjavíkur.

Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, vísar því á bug í tilfelli HSVEST og segir í raun sömu starfsemi á sjúkrahúsinu á Ísafirði og hefur verið, þrátt fyrir fjárhagserfiðleika og því ekki um bein áhrif af þeim að ræða. Hallgrímur segir fjárhagserfiðleikarnir sem HVEST glímir við hafa bitnað mest á Heilsugæslunni og þar starfi of fáir læknar. Viðvarandi læknaskortur hafi verst bitnað á útstöðvunum heilbrigðisstofnunarinnar; Bolungarvík, Súðavík, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri,Tálknafirði og Bíldudal.

Við þetta rímar vel grein Þórarins Ingólfssonar‚ formanns Félags íslenskra heimilislækna sem einnig birtist í Læknablaðinu þar sem segir meðal annars: „Heilsugæsla á landsbyggðinni stendur veikt og er læknisþjónustan víða rekin með aðstoð afleysara í verktöku. Slíkt er ekki boðlegt. Fórnarkostnaðurinn við að skila hallalausum rekstri hefur verið heilsugæsla í sárum sem ekki nær að sinna hlutverki sínu og starfsánægja í lágmarki. Til samanburðar má nefna að í fjármögnunarlíkani því í Svíþjóð sem er fyrirmynd fjármögnunarlíkans þess sem á að innleiða á næsta ári í heilsugæslu er fjármögnunin um 40% meiri. Þó er skólaheilsugæsla og mæðravernd ekki inni í sænska líkaninu. Þá væri munurinn enn meiri.“

Á öðrum stað í greininni vísar hann til undirmönnunar á heilsugæslunni hér á landi og bendir á að í sérnámi hérlendis hafi verið 30-40 námslæknar undanfarið og 4-9 útskrifast að jafnaði á ári. En ef við miðuðum okkur við Svía ættu hér að vera 80 sérnámslæknar og þrír kennslustjórar fjármagnaðir af velferðarráðuneyti og segir hann að verulega þurfi að bæta í ef vel eigi að vera.

annska@bb.is

Gáfu Sæfara nýja báta

Einar Torfi, Valur Richter hjá Rörás og Torfi Einarsson við afhendingu kajakanna.

Siglingaklúbburinn Sæfari á Ísafirði var á dögunum færðir tveir nýir kajak bátar. Rörás, pípulagningafyrritæki, gaf bátana. „Þeir tóku sig til því við erum með aðstöðuna okkar beint fyrir framan gluggann hjá þeim og höfðu orð á því að þeir yrðu að gera eitthvað því það væri svo gaman að hafa starfið okkar hérna,“ segir Torfi Einarsson hjá Sæfara.
Bátarnir sem Sæfari fékk gefins eru svokallaðir „sit on top“ eða yfirsetnir kajakbátar, þetta eru breiðir og stöðugir kajakar sem eru mikið notaðir til veiða.

„Rörás ákvað sem sagt að gefa okkur þessa tvo splunkunýju báta á gamlársdag. Þetta er skemmtileg viðbót við þá báta sem við eigum. Þetta eru mjög stöðugir kajakar, sem venjulega eru notaðir mikið til skotveiða, sem við munum nú ekki gera, en krakkarnir geta farið og danglað með veiðistöng á námskeiðum sínum í sumar,“ segir Torfi.

„Maður þakkar auðvitað þessum fyrirtækjum fyrir, flest fyrirtæki hérna sýna okkur rosalegan velvilja og styrkja okkur,“ bætir Torfi við.

Nýju bátarnir skoðaðir.

Bæjarins besta 1. tbl. 34. árgangur 2017

Heimildarmynd um rafrettur

Myndin verður á dagskrá Ríkisútvarpsins í kvöld klukkan 20:05.

Fjallað var um svokallaðar rafrettur í Kastljósi í gærkvöldi. Þar var sagt frá heimildarmynd BBC með lækninum Michael Mosley, þar sem hann fjallar um rafrettur. Umdeilt þykir hvort og hvaða áhrif rafrettur hafi á heilsuna þó svo að einhverjir telji þær betri kost en sígarettur.

Á vef Ríkisútvarpsins kemur fram að í myndinni séu tekin sýni úr slímhúð og öndunarvegi Mosleys eftir að hann hafði reykt rafrettu í einn mánuð, hafandi aldrei reykt áður. Niðurstöðurnar úr sýnatökum hafi í raun verið sláandi því eftir þennan skamma tíma greindust bólgur í öndunarvegi hans og í slímhúð hans hafði svokölluðum átfrumum fjölgað í lungunum en þær framkalla hvata sem geta skaðað öndunarveginn ef áreitið verður of mikið í langan tíma.

Myndin verður á dagskrá Ríkisútvarpsins í kvöld klukkan 20:05.

brynja@bb.is

Met í notkun tauga- og geðlyfja

Íslendingar nota mikið af tauga- og geðlyfjum.

Mest er notað af tauga- og geðlyfjum hér á landi þegar notkunin á Norðurlöndunum er skoðuð. Þetta kemur fram í Læknablaðinu. Svíþjóð er í öðru sæti en þar er notkun slíkra lyfja þó um 30% minni en á Íslandi. Einnig kemur fram að talsvert beri á því að lyfjafíklar rápi milli lækna, sem ekki noti lyfjagagnagrunn, til að fá sömu lyfin.

„Ávanabindandi lyf eru hluti tauga- og geðlyfja en þetta eru lyf eins og ópíóíðar, svefn- og róandi lyf, róandi og kvíðastillandi lyf, örvandi lyf og sum flogaveikilyf. Heilsugæslan ber hitann og þungann af ávísunum þessara lyfja og margir sjúklinganna glíma við erfið veikindi, þar með talið við lyfjafíkn,“ segir í greininni.

Koma megi í veg fyrir lyfjaráp með að nota lyfagagnagrunn þar sem sjúkraskrárkerfi eru samkeyrð, en enn beri á því að læknar noti ekki kerfið eða séu ekki komnir með aðgang að slíkum upplýsingum: „Þegar þetta ástand lagast mun álag á heilsugæsluna minnka og gagnsæi batna. Það er því mjög mikilvægt að allir læknar noti grunninn og fletti þar upp lyfjasögu sjúklings við minnsta grun um lyfjafíkn eða annars konar misferli með ávanabindandi lyf.“

brynja@bb.is

Búið að aflýsa flugi

Búið er að aflýsa öllu flugi hjá Flugfélagi Íslands á landinu í dag. Flug til Nuuk í kvöld klukkan 19.45 er eina flugið sem enn á áætlun. Ofsaveður er víða um land, einkum á vestur og norðvesturlandi. Sterk suðlæg átt, er á landinu öllu, allt að 23 metrar á sekúndu og vindinum fylgir talsverð eða mikil rigning, einkum sunnan og vestanlands fram eftir degi. Þegar líður á daginn verður suðvestan hvassviðri eða stormur og éljagangur. Samkvæmt Veðurstofu Íslands eiga veðurskilin að ganga hratt yfir landið í kvöld og lægja í nótt. Næsti stormur er væntanlegur á sunnudagskvöld.

Samkvæmt Vegagerðinni eru hálka eða snjóþekja á fjallvegum á Vestfjörðum, óveður og hálka eða hálkublettir á láglendi. Éljagangur er víða. Á Vesturlandi eru sömuleiðis hálkublettir og éljagangur. Óveður er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku.

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir