Laugardagur 18. janúar 2025
Síða 2204

Nemendafjöldinn hefur tvöfaldast

Bíldudalur. Mynd úr safni. Ljósmyndari Mats Wibe Lund.

Þrjátíu og sjö krakkar sækja Bíldudalsskóla. Nemendur voru átján þegar fæst var. Þetta kemur fram í viðtali sérblaðs Fréttablaðsins um skólamál við Ásdísi Snót Guðmundsdóttur skólastjóra Bíldudalsskóla. sl laugardag. „Það hefur verið ævintýralegt að fylgjast með fólksfjölgun í sveitarfélaginu síðustu ári og auðvitað mjög ánægjulegt“, segir Ásdís Snót Guðmundsdóttir, skólastjóri Bíldudalsskóla en þar hefur fjöldi nemenda hátt í tvöfaldast á nokkrum árum.

Úr 18 nemendum í 37
Þegar fæst var í skólanum voru nemendur átján talsins og hafði þá farið fækkandi í nokkur ár. „Upp úr árinu 2007 fór aðeins að lifna yfir málum en um það leyti var kalkþörungaverksmiðjan reist í sveitarfélaginu og íbúum fjölgaði. Haustið 2015 voru þeir orðnir þrjátíu og fimm en þá hafði Arnarlax hafið starfsemi í Arnarfirði. Síðasta haust var fjöldi nemenda við skólann orðinn þrjátíu og sjö. Fólki getur líka fækkað jafn hratt og því fjölgar, ef ein barnmörg fjölskylda flyst í burt fækkar um marga nemendur í skólanum. En vonandi heldur áfram að fjölga, það er skemmtilegri þróun“, segir Ásdís. Skólinn er í nánu samstarfi við leikskólann í bænum þar sem fjöldi barna sveiflast einnig til.

Vaxtarverkirnir eru húsnæðismálin

„Ég hugsa að helstu vaxtarverkir þessar þróunar séu húsnæðismálin“, segir Ásdís. Það vanti leiguhúsnæði fyrir fjölskyldufólk. „Fólk leggur kannski síður í að byggja úti á landi með tilheyrandi kostnaði.“

Landvernd leggst gegn eldi á frjóum laxi

Landvernd krefst þess að stjórnvöld móti skýra stefnu sem banni ræktun á eldislaxi í sjó nema tryggt sé að erfðablöndun geti ekki átt sér stað við íslenska laxastofna. Í ályktun aðalfundar Landverndar segir að þetta megi tryggja með notkun geldstofna eða ræktun í lokuðum kerfum í sjó eða á landi. Auk þess þurfi að tryggja öflugt eftirlit með starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Í ályktuninni segir að rannsóknir hafi sýnt að erfðablöndun eldislax við villta stofna Atlantshafslax hafi neikvæð áhrif á lífsferil og möguleika villtra stofna til að bregðast við breytingum í umhverfi til lengri tíma litið vegna erfðabreytinga.

Aflasamdráttur í apríl

Fiskafli í apríl var 5% meiri en hann var í apríl árið 2016, eða rúmlega 109 þúsund tonn eftir því sem kemur fram í frétt Hagstofunnar. Metinn á föstu verðlagi var fiskaflinn 10,7% minni en ári fyrr. Mestu munar um aukin kolmunaafla, en það veiddust 67 þúsund tonn í apríl í ár samanborið við 56 þúsund tonn í fyrra.

Hins vegar dróst botnfiskafli saman á milli ára, og veiddust tæp 40 þúsund tonn af botnfisktegundum samanborið við 43 þúsund tonn fyrir ári. Samdrátturinn í þorskafla milli ára er 10%, og veiddust rúm 18 þúsund tonn af honum í aprílmánuði.

Ef horft er til 12 mánaða tímabils frá maí 2016 til apríl 2017 sést að heildaraflinn hefur dregist saman um 59 þúsund tonn eða 5% samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.

140 manns á fjölmenningarhátíð á Suðureyri

Það var heilmikil gleði í Félagsheimilinu á Suðureyri á föstudagskvöldið er um 140 manns komu þar saman á fjölmenningarfögnuði. Þegar gengið var inn í húsið blöstu við kynningarbásar þar sem gestir gátu séð hina ýmsu menningartengdu hluti frá heimalöndum þeirra mörgu íbúa Suðureyrar sem eiga rætur sínar að rekja til fjarlægari breiddargráða. Nemendur leik- og grunnskóla Suðureyrar voru svo í aðalhlutverki í söng-, dans- og leikatriðum, ásamt upplestri á öllum þeim tungumálum sem prýða samfélagið í Súgandafirði. Á milli atriða gæddu gestir sér á gómsætu hlaðborði með mat frá Filippseyjum, Íslandi, Póllandi og Tælandi.

Það var foreldrafélag leik- og grunnskólans sem skipulagði þessa glæsilegu hátíð  og það voru saddir og sælir gestir sem yfirgáfu félagsheimilið eftir frábært kvöld að sögn Þormóðs Loga Björnssonar skólastjóra Grunnskólans á Suðureyri: „Þessi stórglæsilega hátíð, vinnan sem stjórnir foreldrafélagana og foreldrar lögðu á sig er samfélagi okkar til mikils sóma.“

Meðfylgjandi myndir frá hátíðinni tóku Lilja Einarsdóttir og Steinar Skjaldarson.

annska@bb.is

 

 

Fjórir Ísfirðingar í landsliðið

Albert og Sigurður Arnar að lokinni 50 km Fossavatnsgöngu.

Skíðagöngunefnd Skíðasambands Íslands hefur gefið út landsliðshópinn fyrir næsta vetur. Fjórir Ísfirðingar eru í landsliðinu. Albert Jónsson var valinn í A-liðið og þau Anna María Daníelsdóttir, Dagur Benediktsson og Sigurður Arnar Hannesson voru valin í B-liðið. Albert, Dagur og Sigurður Arnar voru allir í B-liðinu í vetur, en Anna María kemur ný inn í landsliðshópinn.

Anna María Daníelsdóttir.

Þessir fræknu Ísfirðingar hafa tekið miklum framförum síðustu ár og misseri og eiga framtíðina fyrir sér. Þeir Albert, Dagur og Sigurður Arnar voru meðal efstu manna í Fossavatnsgöngunni um mánaðamótin. Anna María hefur í vetur verið við nám og æfingar í Svíþjóð.

 

Dagur Benediktsson.

 

 

 

Pattstaða án gjaldtöku

„Þær framkvæmdir sem verið er að skoða eru af þeirri stærðargráðu að augljóst er að þær munu tæpast komast á áætlun á næstu árum nema að takmörkuðu leyti, ef þær ætti að fjármagna af vegafé sem veitt er af fjárlögum,“ segir Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, um stórframkvæmdir í samgöngumálum út frá höfuðborgarsvæðinu. Í vetur skipaði Jón starfshóp til il að kanna hvernig umfangsmiklum framkvæmdum við stofnleiðir út frá höfuðborgarsvæðinu verði best háttað.

Haft er eftir Jóni í Fréttablaðinu í dag að á þessu ári sé fjárveiting til nýframkvæmda á öllu landinu um ellefu milljarðar króna. Samgöngubætur á suðvesturhorninu sem starfshópurinn er með til skoðunar eru af stærðargráðunni 100 milljarðar króna. Það eru meðal annars Sundabraut, ný Hvalfjarðargöng, tvöföldun eða 2+1 vegur upp í Borgarnes, tvöföldun vegarins til Keflavíkur og austur fyrir Selfoss með nýrri brú á Ölfusá.

Samgönguráðherra segir að ávinningur af þessum framkvæmdum, sem verði fjármagnaðar með gjaldtöku, verði ekki síst á landsbyggðinni.

„Það er alveg ljóst að verði farið í þessar framkvæmdir út frá höfuðborgarsvæðinu, þá mun skapast rými til að ráðast fyrr en ella í brýn verkefni um land allt. Það er víða kallað eftir umbótum, ekki síst á fjölförnum ferðamannaleiðum. Með innheimtu veggjalda á áðurnefndum leiðum erum við líka að fá ferðamenn, þessa nýju stórnotendur að íslenska vegakerfinu, til að taka þátt í uppbyggingu samgönguinnviða með okkur,“ segir Jón í skriflegu svari til Fréttablaðsins.

Aukið umferðareftirlit

Ellefu ökumenn voru í síðustu viku kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Flestir þeirra voru stöðvaðir í Strandasýslu en einnig á Djúpvegi. Sá sem hraðast ók var mældur á 134 km hraða. Lögreglan á Vestfjörðum hefur og mun efla umferðareftirlit og eru ökumenn hvattir til að virða umferðarlög í einu og öllu. Þannig lágmörkum við hættuna á umferðarslysum.

Einn ökumaður var kærður fyrir að nota farsíma við akstur, án handfrjáls búnaðar.

Tilkynnt var til lögreglunnar á Vestfjörðum um að ekið hafi verið utan í mannlausa bifreið sem stóð á bifreiðastæði við knattspyrnuvöllinn á Torfesi á Ísafirði síðdegis laugardaginn 13. maí. Bifreiðin sem um ræðir er af gerðinni Skoda Octavia, grábrún að lit. Þeir sem geta gefið upplýsingar um atvikið eru hvattir til að hafa samband við lögregluna í síma 444 0400.

Vélarvana norður af Rekavík

Vitinn á Straumnesi.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á fimmta tímanum í gær neyðarkall frá báti sem var orðinn vélarvana norður af Rekavík bak Látur á Hornströndum. Einn maður var um borð. Bátinn rak í átt að Straumnesi en þar er stórgrýtt fjara og straumþung röst og því ljóst að talsverð hætta var á ferðum. Kallað var eftir aðstoð nærliggjandi báta og björgunarsveitir á Ísafirði og í Bolungarvík kallaðar út. Gunnar Friðriksson, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Ísafirði, og Gísli Hjaltason björgunarbátur björgunarsveitarinnar Ernis í Bolungarvík, héldu þegar á staðinn. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LIF einnig send af stað. Þegar báturinn var innan við hálfa sjómílu frá Straumnesi breyttist rekið svo hann rak norður fyrir. Gísli Hjaltason kom fyrstur á vettvang og tók bátinn í tog.

TF-LIF var komin í Ísafjarðardjúp þegar ljóst varð að skipverjinn á bátnum væri óhultur. Henni var þá snúið við austur á Langanes þar sem maður sem var við eggjatöku í Læknesstaðabjargi var lentur í sjálfheldu eftir að hafa slasast á fæti. Þá voru lögregla og björgunarsveitir á svæðinu komnar á vettvang. Á leiðinni þangað barst stjórnstöð hins vegar beiðni frá Neyðarlínunni um aðstoð vegna bílsslys í Vatnsdal, rétt vestan Blönduóss. Þyrlan lenti við slysstaðinn í Vatnsdal um sjöleytið og var farið með þá slösuðu á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Gagnagíslatökuárásir herja á tölvur heimsins

Bylgja gagnagíslatökuárása (e. ransomware) gengur nú yfir heiminn. Árásin er gríðarlega umfangsmikil; hundruð þúsunda tölva eru sýktar út um allan heim. Árásin er með þeim hætti aða tölvur eru sýktar með óværu sem dulritar gögnin á tölvunni og kemur þannig í veg fyrir að notandinn komist í gögn sín. Hætt er við að aðrar nettengdar tölvur og gögn á nettengdum staðarnetum verði einnig dulrituð. Óværan nýtir sér þekktan veikleika í Windows stýrikerfinu, MS17-010 sem búið er að gefa út öryggisleiðréttingu á. Samkvæmt upplýsingum frá Microsoft eru það eingöngu tölvur með eldra stýrikerfi en Windows 10 sem eru í hættu fyrir þessari árás. Netöryggissveitin CERT-ÍS mælir engu að síður með því að uppfæra reglulega öll Windows stýrikerfi, þar með talið Windows 10.

Í frétt á vef Póst- og fjarskiptastofnunar segir að enn sem komið er hafi ekki borist neinar staðfestar tilkynningar um sýktar tölvur hérlendis af völdum árásarinnar. Tvær vísbendingar hafa þó borist en ekki er staðfest að um sýkingu af völdum WannaCry óværunnar sé að ræða. Einnig hefur Netöryggissveitin CERT-ÍS fengið vísbendingar í gagnastraumum um fimm IP tölur hérlendis sem gætu hafa sýkst.

Afar mikilvægt er að senda tilkynningu til Netöryggissveitarinnar CERT-ÍS ef grunur leikur á að tölva sé sýkt. Allar upplýsingar um þann sem tilkynnir tilvik eru höndlaðar sem trúnaðarmál og ekki gefnar upp nema að fengnu samþykki viðkomandi. Tilkynningar sendist á cert@cert.is eða á fax nr. 510-1509

Í fréttinni kemur einnig fram að fleiri vírusar en WannaCry óværan séu í umferð svo allir tölvu- og netnotendur ættu að vera á varðbergi og uppfæra stýrikerfi sín og vírusvarnir reglulega.

Frekari upplýsingar um aðgerðir má finna á vef Póst- og fjarskiptastofnunar.

annska@bb.is

 

Tilfinningarík stund

Annika Olsen, borgarstjóri í Þórshöfn, afhjúpaði listaverkið sem er eftir Jón Sigurpálsson.

Eins og greint var frá í síðustu viku fóru fulltrúar Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps í opinbera heimsókn til Þórshafnar í Færeyjum í síðustu viku. Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir að það hafi verið tilfinningarík stund fyrir súðvískt samfélag að afhenda Færeyingum minnisvarða um vináttu færeysku og íslensku þjóðanna. „Það var gott að geta faðmað frændþjóð og þakkað fyrir ómetanlegan stuðning þegar svartnættið var ríkjandi,“ segir Pétur. Í eftir snjóflóðin mannskæðu á tíunda áratugnum stóðu Færeyingar í tvígang fyrir þjóðarsöfnun og söfnunarféð var nýtt til að reisa leikskóla í Súðavík og á Flateyri. „Leikskólinn er hjartað í Súðavík, þökk sé Færeyingum,“ segir Pétur.

Í ferðinni var tækifærið notað og sveitarstjórnarfulltrúar kynntu sér laxeldi í Færeyjum sem er afar framþróað. „Það er ómetanlegt fyrir okkur að sjá þessa starfsemi með eigin augum. Við fengum að sjá alla keðjuna, allt frá seiðaframleiðslu til fóðurframleiðslu og litum við í hátæknivinnslu þar sem 800 manns vinna á vöktum við að búa til verðmæti úr eldislaxi.“

Pétur segir það upplýsandi að sjá hvernig gæti ræst úr þessari atvinnuuppbyggingu hér á landi og segir að Íslendingar geti lært margt af Færeyingum.

„Þá gerum við miklar kröfur til eftirlits, dreifum starfseminni milli ólíkra byggðakjarna, sjáum til þess að sveitarfélögin fái trausta og góða tekjustofna af framleiðslunni, sköpum störf og velferð í kringum þessa uppbyggingu og byggjum eðlilega og almennilega innviði, vegi og göng, svo mögulegt sé að láta út rætast.  Eftir ferðina er ég sannfærður um að þetta sé mögulegt, fyrirmyndin er til staðar,“ segir Pétur.

Nýjustu fréttir