Mánudagur 2. september 2024
Síða 2203

Skoðar lausnir til að berjast gegn landrofi

Brian Gerrity á Ísafirði síðasta vor. Mynd af vef UW: Kristin Weis.

Brian Gerrity, nemandi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, vinnur nú að meistaraprófsverkefni þar sem hann fjallar um lausnir til að berjast gegn landrofi sjávar í heimabæ sínum Half Moon Bay í Kaliforníu. Á næstu vikum mun hann skila lokaritgerðinni og verja hana í framhaldinu. Þótt verkefninu sé ekki að fullu lokið hefur það nú þegar vakið athygli í heimabæ Brians. Í síðustu viku fjallaði blaðið Half Moon Bay Review um verkefnið og þau vandamál sem stafa af landrofi á svæðinu.

Frá þessu er sagt á vef Háskólaseturs Vestfjarða og þar segir jafnframt að verkefni Brians sé gott dæmi um það hvernig rannsóknir nemenda í haf- og strandsvæðastjórnun geta haft áhrif á viðfangsefni sem fengist er við á strandsvæðum bæði í byggð og óbyggðum.

Brian Gerrity mun síðar á árinu verja ritgerð sína og það munu einnig gera fleiri nemendur úr 2015 árgangi meistaranámsins. Á vef Háskólasetursins verður komið á framfæri fréttum af hverri vörn fyrir sig áður en þær eiga sér stað.

annska@bb.is

Mugison tilnefndur til Hlustendaverðlaunanna

Mugison ásamt hljómsveit sinni á útgáfutónleikum í Edinborgarhúsinu. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Mugison er tilnefndur í tveimur flokkum Hlustendaverðlaunanna 2017. Annars vegar í flokknum plata ársins, þar sem nýjasta plata hans Enjoy! keppir við skífur Skálmaldar, Kaleo, Júníusar Meyvants og Emmsjé Gauta sem einnig komu út á síðasta ári. Hins vegar er Mugison að finna í flokknum söngvari ársins, en þar eru líka þeir: Friðrik Dór, Jökull Júlíusson, Páll Óskar, Júníus Meyvant og Magni.

Það eru: Bylgjan, X-ið. FM957 og Tónlist sem standa fyrir Hlustendaverðlaununum. Allir geta tekið þátt í kosningunni á einfaldan máta með því að smella á „líkar þetta“ við þá listamenn sem þeim fannst skara fram úr á nýliðnu ári. Einnig er kosið í flokkunum: Söngkona ársins, lag ársins, erlenda lag ársins, flytjandi ársins, myndband ársins og nýliði ársins.

Hlustendaverðlaunin verða veitt í Háskólabíói þann 3.febrúar og verður sjónvarpað beint frá þeim á Stöð2.

annska@bb.is

Nýársfagnaður á Hlíf

Mynd úr safni

Hinn árlegi nýársfagnaður Kiwanisklúbbsins Bása verður haldinn á sunnudaginn og hefst hann kl. 15:00. Í boði verða að venju girnilegar kaffiveitingar og skemmtiefni af fínustu sort. Nýársfagnaðurinn nýtur mikilla vinsælda og þegar best hefur látið hafa mætt um 120 manns en allir eldri borgarar eru velkomnir.

bryndis@bb.is

Bændur uggandi vegna stjórnarmyndunar

Sindri Sigurgeirsson.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir í pistli á vef samtakanna að bændur séu uggandi vegna frétta síðustu daga af stjórnarmyndunarviðræðum. Hann segir þær valda ugg hjá fleirum sem byggja afkomu sína á matvælaframleiðslu víða um land.

„Helstu tíðindin sem borist hafa úr stjórnarmyndunarviðræðunum eru að stefnt verði að frekari tollalækkunum á ostum og svína- og alifuglakjöti. Þessar fregnir koma bændum á óvart enda nýbúið að gera róttækar breytingar á tollaumhverfinu með nýlegum samningi við Evrópusambandið u m aukna tollfrjálsa kvóta á búvörum,“ segir Sindri í pistli sínum og segir áhrif þess samnings afar neikvæð fyrir íslenskan landbúnað og að útreikningar sýni beint fjárhagslegt tjón upp á hundruð milljón króna.

Sindri segir að hér sé notað minna af sýklalyfjum en víðast annars staðar og að heilbrigði búfjár sé betra en í samanburðarlöndum og spyr hvort stjórnmálamenn sé tilbúnir að fórna því: „Lyfjaþolnar bakteríur hafa ekki fundist hér á landi og meiri kröfur eru gerðar til framleiðenda varðandi eyðingu á salmonellasmituðum afurðum og þannig má lengi áfram telja. Vilja stjórnmálamenn og kjósendur þeirra gefa eftir þessa stöðu í skiptum fyrir ódýrar matvörur að utan?“

brynja@bb.is

Jólin kvödd í dag

Þrettándinn, þrettándi og síðasti dagur jóla, er í dag. Ýmis þjóðtrú er deginum tengd hér á landi líkt og að kýrnar tali mannamál og búferlaflutningar álfa. Fólk hefur gjarnan komið saman og kveikt upp elda til að fagna deginum og kveðja jólin og ekki er þá óalgengt að álfarnir sjálfir – í miðjum flutningum, ásamt öðrum furðuverum láti sjá sig. Björgunarsveitin Dýri og íþróttafélagið Höfrungur hafa um árabil haldið saman þrettándagleði á Þingeyri og verður slík í dag klukkan 17. Safnast verður saman innst í Brekkugötu, þar sem seldir verða kyndlar fyrir gönguna og þaðan gengið að Stefánsbúð, þar sem kveikt verður upp í brennunni og sungið. Botninn verður svo sleginn í gleðina með flugeldasýningu björgunarsveitarinnar. Á Þingeyri er hefð fyrir því að börnin bregði sér í allra kvikinda líki á þrettándanum og þrammi um bæinn og sníki sér gott í gogginn og halda þau í þá ævintýraferð að brennu lokinni.

Í Bolungarvík verður sameiginleg þrettándagleði Bolungarvíkurkaupstaðar og Ísafjarðarbæjar við Hreggnasa klukkan 20. Þar mun eldurinn í brennunni loga, dans stiginn og söngvar sungnir við hljóðfæraspil. Að sama skapi endar gleðin þar á flugeldasýningu sem Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík stendur fyrir.

annska@bb.is

Viðræður á núll punkt

Viðræður sjómanna og útgerðanna eru komnar á núll punkt. Þetta kemur fram í frétt Verkalýðs Vestfjarða eftir samningafund sem haldinn var hjá ríkissáttasemjara í gær. Á fundinum höfnuðu útgerðarmenn höfnuðu öllum kröfum sjómanna og höfnuðu einnig þeim hugmyndum að byggt yrði ofan á þann samning sem var felldur í desember 2016.

Í fréttinni kemur fram að viðbrögð útgerðarinnar setji viðræðurnar í raun á núll punkt og að því miður sé ekki hægt að segja annað en að deilan hafi harðnað til muna eftir þessi hörðu viðbrögð útgerðarmanna við kröfum sjómanna.

Ríkissáttasemjari hefur boðað deiluaðila til fundar mánudaginn 9. janúar þar sem næstu skref í viðræðunni verða ákveðin.

brynja@bb.is

Útgjöld til fræðslumála ekki lægri frá 2001

Áætlaður árlegur rekstrarkostnaður samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands á hvern nemanda í grunnskólum, sem reknir eru af sveitarfélögum, er 1.754.072 krónur. Meðalrekstrarkostnaður á hvern nemanda í grunnskólum árið 2015 var 1.651.002 krónur og vegin meðalverðbreyting rekstrarkostnaðar frá 2015 til janúar 2017 er áætluð 6,2%. Útreikningarnir eru skv. 2. og 3. mgr. 3.gr. reglugerðar nr. 1270/2016 um ákvörðun framlaga úr sveitarsjóði til sjálfstætt rekinna grunnskóla.

„Útreikningur Hagstofu Íslands skv. 1. mgr. vegna komandi skólaárs skal liggja fyrir í september ár hvert. Útreikningur skal byggður á ársreikningum sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga til þess dags sem útreikningur er gerður. Verðlagsbreytingar skulu taka mið af almennum launahækkunum starfsmanna grunnskóla og breytingum á vísitölu neysluverðs að teknu tilliti til vægis hvors þáttar fyrir sig í rekstrarkostnaði grunnskólanna.

Hagstofa Íslands tekur saman 90 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur og birtir fimmta dags hvers mánaðar, á tímabilinu frá október og fram til ágúst, framreiknað framlag skv. 1. mgr. Við framreikning þess skal tekið tillit til verðlagsbreytinga sem orðið hafa frá ákvörðun framlags skv. 1. mgr., þ.e. almennra launahækkana starfsmanna grunnskóla og breytinga á vísitölu neysluverðs, miðað við vægi hvors þáttar í rekstrarkostnaði grunnskóla.“ Segir á vef Hagstofu Íslands.

annska@bb.is

Íslenskunámskeið í Háskólasetri

Nemendur á íslenskunámskeiði. Mynd: Háskólasetur Vestfjarða.

Undanfarna viku hefur staðið yfir íslenskunámskeið við Háskólasetrið. Námskeiðið er vikulangt og er svokallað Crash Course námskeið. Þetta námskeið hefur verið í boði í byrjun árs í nokkur ár en einnig er hægt að sækja það í maí og ágúst.
Að þessu sinni sækja sex nemendur sækja námskeiðið og koma þeir frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Finnlandi og Þýskalandi. Tveir nemendanna eru búsettir á Vestfjörðum en flestir hinna nemendanna koma gagngert til Íslands og Ísafjarðar til að sækja námskeiðið.

brynja@bb.is

Klofningur segir upp fólki

Frá hausaþurrkun.

Fiskþurrkunarfyrirtækið Klofningur hefur sagt upp fimm starfsmönnum í starfsstöð fyrirtækisins á Brjánslæk. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá þessu. Uppsagnirnar tóku gildi frá áramótum og verður starfsstöðinni lokað. Guðni Einarsson, framkvæmdastjóri Klofnings, vonar að einungis sé um tímabundnar uppsagnir að ræða.

Undanfarið ár hefur rekstur Klofnings verið þungur og tekjur fyrirtækisins hafa lækkað um 65%. Gengi nærunnar, gjaldmiðils Nígeríu, féll og skapaði það erfiða markaðsstöðu. Einnig lækkaði vöruverð Klofnings um allt að 50% í dollurum og styrking krónunnar hefur reynst fyrirtækinu erfið. Auk þess hafa launahækkanir og hráefnisskortur vegna sjómannaverkfalls haft áhrif.

Guðni segir að ekkert hafi verið að gera frá áramótum og er þetta í fyrsta skiptið í 20 ár að fólk sé sent heim. Síðast hafi það gerast á fyrsta rekstrarári Klofnings þegar verkalýðsfélögin á Vestfjörðum fóru í verkfall. Klofningur er með starfsstöðvar á Brjánslæk, á Ísafirði, Tálknafirði og tvær á Suðureyri og vonast Guðni til þess að halda megi rekstrinum gangandi á hinum starfsstöðvum Klofnings en segir útlitið ekki vera bjart.

brynja@bb.is

Haftyrðlar á Ströndum

Hraktir haftyrðlar fundust víða um Strandir undir lok síðasta mánaðar er greint er frá á Strandir.is. Fundust þeir m.a. í Kollafirði, Steingrímsfirði og Bjarnarfirði. Haftyrðlar (Alle alle) eru ekki lengur varpfuglar við Ísland, en verptu í Grímsey, á Langanesi og e.t.v. í Kolbeinsey þar til í kringum 1900. Fuglinum fækkaði síðan mjög, vegna hlýnandi veðurfars að því talið er. Til skamms tíma verptu fáein pör í Grímsey, þar sem fuglinn var stranglega friðaður, en hann er nú alveg horfinn þaðan.

Haftyrðill er smæstur svartfugla og einn af minnstu sjófuglunum er segir í lýsingu Jóhanns Óla Hilmarssonar á fuglinum á vef Náttúruminjasafns Íslands. Hann er þybbinn, hálsstuttur og mjög kubbslegur, á stærð við stara. Vængirnir eru stuttir. Á sumrin er hann svartur að ofan, niður á bringu, og hvítur að neðan. Hvítar rákir eru um axlir. Á veturna verður hann hvítur á bringu, kverk og upp á vanga. Stuttur, keilulaga goggurinn er svartur eins og fæturnir, augu eru dökk.

Fyrrum vakti það furðu þegar haftyrðlar fundust á veturna, dauðir eða lifandi, og vissu menn ekki hvaðan þessi furðufugl var kominn. Talið var að þetta væri þjóðsagnafuglinn halkíon. Sem átti samkvæmt grískum þjóðsögum að verpa úti á rúmsjó. Haftyrðill var sagður fyrirboði um illviðri, en annars er lítið í þjóðtrúnni um fuglinn, fyrir utan söguna um halkíon.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir