Laugardagur 18. janúar 2025
Síða 2203

Geta ekki nýtt sér rútuferðirnar

Ný bæjarstjórn leggur áherslu á gott samstarf milli allra. Mynd: Mats Wibe Lund.

Tímasetningar á rútuferðum milli Flateyrar og Ísafjarðar henta ekki nemendum í Grunnskólanum Önundarfjarðar. Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar á mánudag var lagt fram bréf nemenda 5. – 9. bekkj í skólanum. Nemendurnir geta ekki nýtt sér ferðir almenningsvagna til og frá Flateyri, þar sem tímasetningar eru óhentugar.

Í bréfinu segja krakkarnir að fyrri ferð dagsins, sem fer frá Flateyri kl. 13, komi þeim að engum notum þar sem þau eru enn í skólanum á þeim tíma. Seinni ferðin er kl. 17 sem er of seint fyrir þá sem ætla að taka þátt í íþróttastarfi og öðrum tómstundum sem eru í boði á Ísafirði. Að auki fer sú rúta til baka kl. 18 sem gefur krökkunum einungis 40 mínútur á Ísafirði. Sömuleiðis er seinni ferðin eftir lokun banka sem krakkarnir segja bagalegt.

Í bréfinu er óskað eftir því að bæjaryfirvöld leiti álits grunnskólakrakka á Flateyri ef og þegar breytingar verði gerðar á áætlun rútuferðanna.

Óskað eftir sjálfboðaliðum í ruslhreinsunarferð á Hornstrandir

Dagana 26.-27. maí er áætlað að fara í árlega ruslahreinsun á Hornstrandir ef veður og verkefni varðskips leyfa, líkt og greint var frá hér á vefnum nýverið. Nú er óskað eftir duglegum sjálfboðaliðum sem eru tilbúnir í göngu og hörkuvinnu þessa tvo daga. Fyrirkomulag verður þannig að lagt verður af stað frá Ísafirði klukkan 14 áleiðis til Hrafnfjarðar í Jökulfjörðum föstudaginn 26 maí. Þaðan tekur við nokkuð erfið ganga, hugsanlega töluvert í snjó í um 5 tíma yfir Bolungavíkurheiði yfir í Bolungavík á Ströndum þar sem verður gist yfir nótt, annaðhvort í húsum eða í eigin tjöldum.

Snemma á laugardagsmorgni hefst síðan hreinsunin í Bolungavík og hugsanlega í Barðsvík ef tími vinnst til og mun hún standa frameftir degi. Nesti verður í boði fyrir sjálfboðaliðana og þegar hreinsun er lokið seinnipartinn verður slegið upp grillveislu um borð í varðskipinu Þór sem mun sigla með hópinn heim til Ísafjarðar en áætlað er að koma seint að kvöldi laugardags í höfn á Ísafirði.

Umsóknir berist á upplysingafulltrui@isafjordur.is

annska@bb.is

1 af hverjum 6 glímir við ófrjósemi

Þessa vikuna stendur yfir vitundarvakningarátakið 1 af 6 á vegum Tilveru, samtaka um ófrjósemi, en áætlað er að hverju sinni glími einn af hverjum sex hér á landi við ófrjósemi þar sem þriðjungur er rakinn til ófrjósemi karla, þriðjungur til kvenna og þriðjungur svokölluð óútskýrð ófrjósemi. Markmið vitundarvakningarinnar er að vekja athygli á ófrjósemi og þeim sorgum og sigrum sem fólk gengur í gegnum þegar það þarf að nýta sér aðstoð tækninnar til að eignast barn og nauðsyn þess að allir hafi jafnan aðgang að meðferðum og þurfi ekki frá að hverfa vegna kostnaðar.

Kvikmyndafyrirtækið Bergsól ehf. hefur framleitt sex myndbönd vegna átaksins sem nefnast 1 af 6 en þar en þar segir fólk frá glímunni við sjúkdóminn á afar áhrifaríkan hátt. Myndböndin eru sýnd á RÚV alla þessa viku, þá var málefnið einnig tekið til umfjöllunar í Kastljósinu í gær.

Í dag klukkan 18 verður gjörningur á vegum Tilveru til að vekja athygli á málefninu þar sem fólk gengur með tóma barnavagna í kringum Reykjavíkurtjörn. Tómur barnavagn táknar þann sársauka sem fólk sem glímir við ófrjósemi ber oft innra með sér.

Tilvera hefur fengið til liðs við sig Hlín Reykdal skartgripahönnuð til að hanna lyklakippu sem táknar 1 af 6. Með þessu er ekki einungis verið að vekja athygli á málstaðnum heldur mun ágóði sölu þessara lyklakippa fara í að styrkja félagsmenn sem eiga ekki rétt á niðurgreiddri meðferð frá Sjúkratryggingum Íslands, en ekki er í boði niðurgreiðsla vegna fyrstu meðferðar hér á landi.

Hægt er að lesa meira um átakið, kynna sér Tilveru og styrkja samtökin á heimasíðunni www.tilvera.is

annska@bb.is

Atvinnuleysið 2,9 prósent

Á fyrsta ársfjórðungi 2017 voru að jafnaði 197.100 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði. Af þeim voru 191.500 starfandi og 5.600 án vinnu og í atvinnuleit og  atvinnuleysi því2,9%. Frá fyrsta ársfjórðungi 2016 fjölgaði starfandi fólki um 7.200 og hlutfallið jókst um 1,2 prósentustig. Atvinnulausum fækkaði á sama tíma um 500 manns og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli lækkaði um 0,4 prósentustig. Atvinnuleysi var 2,6% á höfuðborgarsvæðinu og 3,3% utan þess. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Af þeim sem voru atvinnulausir á fyrsta ársfjórðungi 2017 voru að jafnaði 3.900 manns búnir að vera atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur eða 69,8% atvinnulausra. Á fyrsta ársfjórðungi 2016 höfðu um 4.200 verið atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur sem þá var 69,2% atvinnulausra.

Á fyrsta ársfjórðungi 2017 höfðu 600 manns verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur samanborið við 400 manns á fyrsta ársfjórðungi 2016. Langtímaatvinnuleysi, sem hlutfall af heildarfjölda atvinnulausra var 11,2% samanborið við 6,2% á sama tíma fyrir ári. Ef hlutfallið er tekið af öllum á vinnumarkaði þá voru 0,3% langtímaatvinnulausir samanborið við 0,2% árið áður.

„Skammturinn“ lækkað um 80 þúsund krónur

Verðmæti „skammtsins“ á strandveiðum er nú 144 þúsund krónur, sem er 80 þúsund krónum lægra en fyrir 7 árum. Umræddur skammtur er það sem hver strandveiðibátur má veiða á dag sem er 650 þorskígildiskíló. Fiskverð það lægsta sem strandveiðisjómenn hafa upplifað, 186 kr/kg fyrir óslægðan þorsk, sem meðalverð á fiskmörkuðum 2.-12. maí. Verðmæti „skammtsins“ er nú 144 þúsund krónur, sem er 80 þúsund krónum lægra en fyrir 7 árum. „Nánast er hægt að fullyrða að sú kjaraskerðing sem nú herjar á smábátaeigendur á sér vart fordæmi. Það er því ekki að furða að kallað sé eftir auknum veiðiheimildum, framlengingu á afslætti á veðigjaldi og gjaldið verði innheimt af hlutdeildarhöfum eins upphaflega var gert,“ segir á vef LS.

Ókeypis heilsufarsmælingar

Friðbjörg Matthíasdóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð lét sig ekki vanta í heilsufarsmælingu.

Hjartaheill og SÍBS í samstarfi við sveitarfélög og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða munu bjóða Vestfirðingum ókeypis heilsufarsmælingu 24.- 26. maí í stað þeirra sem frestað var 10.-11. maí vegna veðurs. Mælingarnar ná til helstu áhættuþáttta lífsstílssjúkdóma þar sem mældur er blóðþrýstingur, blóðsykur, blóðfita, súrefnismettun og styrkur auk þess sem boðið verður upp á öndunarmælingu fyrir þá sem mælast lágir í súrefnismettun. Jafnframt gefst þátttakendum kostur á að svara lýðheilsukönnun. Fræðsla um lífsstílstengda sjúkdóma verður í boði, hjúkrunarfræðingar frá heilsugæslunni verða á staðnum og veita ráðgjöf og eftirfylgd.

Heilsufarsmælingarnar verða á eftirtöldum stöðum:

Bolungarvík, Höfðastíg 15, miðvikudaginn 24. maí, kl. 14 – 17

Suðureyri, Aðalgötu 2, miðvikudaginn 24. maí, kl. 19 – 21

Ísafirði, Torfnesi, fimmtudaginn 25. maí, kl. 11 – 15

Súðavík, Grundarstræti 1, fimmtudaginn 25. maí, kl. 17 – 19

Þingeyri, Vallargötu 7, föstudaginn 26. maí, kl. 10 – 12

Flateyri, Eyrarvegi 8, föstudaginn 26. maí, kl. 14 – 16

Þátttakendum gefst kostur á að fá sínar niðurstöður sendar í tölvupósti ásamt heildarniðurstöðum. Oddvitar, bæjar- og sveitarstjórar munu opna mælingarnar í sinni heimabyggð.

Orkubúið verður að auka tekjurnar

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Hagnaður af rekstri Orkubús Vestfjarða árið 2016 nam 96,5 milljónum króna og eigandinn, sem er ríkið, fær 60 milljóna króna arðgreiðslu. Ársfundur Orkubúsins var haldinn í gær. Í ávarpi Viðars Helgasonar stjórnarformanns kom fram að afkoma síðustu tveggja ára hafi verið langt frá því að vera æskileg og skjóta þurfi styrkari stoðum undir tekjuöflun fyrirtækisins. Lykilatriði í því felast í að auka rekstrarlega hagkvæmni og auka orkuframleiðslu Orkubúsins.
Eigið fé Orkubúsins er 5,8 milljarðar króna. Framlegð síðasta árs var 487 milljónir króna og nam veltufé frá rekstri 503 milljónum króna. Fjárfestingar ársins námu 716 milljónum króna. Í ársskýrslu segir að Orkubúið standi eignalega vel, en stendur frammi fyrir áskorunum í að auka arðsemi félagsins.

Sakar sveitarfélögin um að brjóta á Orkubúinu

Viðar Helgason, stjórnarformaður Orkubús Vestfjarða.

Nokkuð hefur borið á því á undanförnum árum að sveitarfélög á Vestfjörðum hafi brotið gegn hagsmunum Orkubús Vestfjarða með sölu á vatsnréttindum til annarra fyrirtækja. Þetta kom fram í ávarpi Viðars Helgasonar, stjórnarformanns Orkubúsins, á ársfundi fyrirtækisins í dag. Viðar segir að sveitarfélögin hafi lagt vatnsréttindi inn til Orkubúsins fyrirr 40 árum þegar fyrirtækið var í sameign ríkis og sveitarfélaga á Vestfjörðum. Í ávarpinu nefnir hann tiltekin sveitarfélög ekki á nafn, en Orkubúið hefur til að mynda viljað fá rannsóknarleyfi í Skötufirði, Hestfirði og Ísafirði, sem eru í Súðavíkurhreppi, en Orkustofnun úthlutaði Vesturverki ehf. rannsóknarleyfum í fjarðarbotnunum. Sömuleiðis hefur Vesturverk fengið rannsóknarleyfi fyrir Skúfnavatnavirkjun í Strandabyggð.

Viðar segir að Orkubúið hafi átt í viðræðum við sveitarfélögin um þessi mál með litlum árangri. Ef samningaumleitanir skila Orkubúinu ekki ásættanlegri niðurstöðu þá segir Viðar það vera skyldu stjórnar að leita til dómstóla.

„Nærtækara væri að sveitarfélögin stæðu með Orkubúi Vestfjarða og styddu það í viðleitni félagsins til þess að vaxa og dafna, til að geta bætt þjónustu á starfssvæði sínu áframhaldandi. Í því fælist styrkur fyrir Vestfirði,“ sagði Viðar í ávarpi sínu.

Skóbúðin leitar mynda af veisluborðum

Skóbúðin leitar nú mynda af veisluborðum.

Hverdagssafnið Skóbúðin á Ísafirði setur nú upp sýninguna „Undirbúningurinn fyrir veisluna“ þar sem gefur að líta ljósmyndir af veisluborðum af öllum stærðum og gerðum, bæði nýjar og gamlar myndir frá hinum ýmsu viðburðum. Að loknum veisluundirbúningi sem oftar en ekki tekur drjúgan tíma hverfa kannski  kökurnar fljótt, en rétt áður en það gerist er örlítil stund þar sem dáðst er að afrakstrinum – sjálfu veisluborðinu og hefð hefur skapast fyrir því að fanga það á mynd áður en gestirnir mæta á staðinn.

Í Skóbúðinni er lögð áhersla á að segja sögur úr hversdagslífinu og eru notaðir til þess hinir ýmsu miðlar. Í þessari sýningu sem nú er í undirbúningi er leitast við að draga fram sögu kvenna, sem ekki er fyrirferðamikil í hefðbundnum sagnfræðiritum, þar sem störf þeirra sem snéru oftar en ekki að heimilinu. Þó svo þessar endurteknu athafnir eins og eldamennska, umönnun, bakstur og þrif þyki jafnan ekki í frásögur færandi þá snerta þær daglegt líf okkar og verða að minningum, reynslu, móta einstaklinga og eiga stóran þátt í mótun samfélags.

Nú leitar þær Skóbúðarstöllur, Björg og Vaida, að myndum af veisluborðum á sýninguna og ef þið eigið slíkar myndir í ykkar fórum og viljið taka þátt, vinsamlegast sendið þær á netfangið: skobudin.hversdagssafn@gmail.com og látið einnig fylgja með upplýsingar um hver/hverjar stóðu á bak við veisluna og hvert tilefnið var. Einnig er hægt að fara ljósmyndir Skóbúðina þar sem hægt er skanna þær inn.

annska@bb.is

Þjóðgarð í stað virkjunar

Hvalárgljúfur og fossinn Drynjandi.

 

Landvernd skorar á sveitarstjórn og landeigendur í Árneshreppi á Ströndum að falla nú þegar frá öllum áformum um Hvalárvirkjun en stefnt verði að því að stofna þjóðgarð á svæðinu. Á ályktun landsfundar Landverndar segir að með þjóðgarði mundu strax skapast nokkur langtímastörf í náttúruvernd og til langs tíma fjölmörg störf í náttúrutengdri ferðamennsku. Landvernd hafnar því að fjármunum almennings sé varið til stuðning við tengivirki Landsnets á Nauteyri við Ísafjarðardjúp og leggja til að frekar sé lagt til fé í uppbyggingu Strandaþjóðgarðs.

Hvalárvirkjun mun heldur ekki leysa raforkuvanda Vestfirðinga, að mati Landverndar, þar sem ekki er gert ráð fyrir tengingu við Ísafjörð heldur verði orka flutt beina leið inn á landsnetið í Geiradal með viðkomu í tengivirki í botni Ísafjarðardjúps.

„Bygging Hvalárvirkjunar skapar engin langtímastörf fyrir sveitina en mikla atvinnu á tveggja til þriggja ára framkvæmdatíma. Fyrir sveitarfélag í vanda vegna fólksfækkunar er átaksverkefni af þessu tagi engin lausn. Sérstaða svæðisins mun hverfa að meira eða minna leyti þegar Hvalárvirkjun er risin með tilheyrandi veitum, uppistöðulónum og upphækkuðum vegum. Hvalárvirkjun mun heldur ekki leysa raforkuvanda Vestfirðinga þar sem ekki er gert ráð fyrir tengingu við Ísafjörð heldur verði orka flutt beina leið inn á landsnetið í Geiradal með viðkomu í tengivirki í botni Ísafjarðardjúps sem Landsnet myndi reisa sem meðgjöf til virkjunaraðilanna frá hinu opinbera. Bygging raflínunnar mun spilla enn frekar óbyggðu víðerni Ófeigsfjarðarheiðar,“ segir í ályktun Landverndar.

Nýjustu fréttir