Mánudagur 2. september 2024
Síða 2202

Undirrita yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu

48 þúsund erlendir ferðamenn fóru á Látrabjarg skv. könnun Ferðamálastofu.

Á morgun 10.janúar klukkan 14:30 verður í Háskólanum í Reykjavík undirrituð af forsvarsfólki yfir 100 ferðaþjónustufyrirtækja yfirlýsing um ábyrga ferðaþjónustu. Það er Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn, í samstarfi við félög og stofnanir ferðaþjónustunnar, sem standa fyrir undirrituninni og bjóða þau íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum að sammælast um aðgerðir sem leiða til ábyrgar ferðaþjónustu hér á landi. Verndari verkefnisins er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.

Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni og er tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar. Með ábyrgri ferðaþjónustu er átt við að fyrirtækin axli ábyrgð á þeim afleiðingum sem rekstur þeirra hefur á umhverfið og samfélagið.

Festa, í samstarfi við Íslenska ferðaklasann, mun í framhaldinu á árinu 2017 bjóða þátttakendum uppá fræðslu og stuðning í formi hugmyndafunda, málstofa og vinnustofa þar sem sérfræðingar kynna fyrir fyrirtækjum hagnýtar leiðir að ábyrgri ferðaþjónustu. En ferðaþjónustan á Íslandi er mikilvæg atvinnugrein sem getur stuðlað að langtíma velferð og góðum orðstír þjóðarinnar er segir í lýsingu á verkefninu. Þar segir jafnframt að í ferðaþjónustunni séu margar áskoranir sem snúa að samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þar megi telja aukinn ágang á náttúruna, að réttindi starfsfólks séu virt, að nærsamfélögin sem ferðamenn heimsækja fái sanngjarnan skerf af ávinningnum og ekki síst að öryggi ferðamanna sé tryggt og þeim veitt góð þjónusta.

Með undirritun gangast ferðaþjónar við því að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu með því að: Ganga vel um og virða náttúruna, tryggja öryggi gesta sinna og koma fram við þá af háttvísi, virða réttindi starfsfólks og hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið.

Sett verða upp markmið um ofangreinda þætti og þeir mældir og reglulega birtar upplýsingar um árangur fyrirtækisins. Þátttaka í yfirlýsingunni er þátttakendum að kostnaðarlausu en gert er ráð fyrir að henni fylgi raunverulegar aðgerðir fyrirtækjanna og áhrif þessa sameiginlega átaks geti því orðið umtalsverð.

annska@bb.is

Fjórði hlýjasti desembermánuðurinn

Bolungarvík í vetrarskrúða, en nýliðinn desember var einn sá hlýjasti frá upphafi mælinga samkvæmt veðurmælum þar í bæ.

Hlýtt var í veðri á landinu nýliðinn desembermánuð og var tíðin lengst af hagstæð er Veðurstofan greinir frá. Um austanvert landið var mánuðurinn sums staðar sá hlýjasti frá upphafi mælinga og í hópi þeirra hlýjustu um land allt. Úrkomusamt var og dimmt. Ekki var mikið um illviðri að undanskildum fáeinum hvössum dögum undir lok mánaðarins og urðu þá nokkrar samgöngutruflanir. Þá kólnaði nokkuð og var snjór á jörðu um allt land að kalla yfir jólahátíðina. En þann snjó tók þó fljótt upp aftur víðast hvar á láglendi.

Í Bolungarvík var meðalhitinn 2,7 stig og er það 3,6 gráðum hærra en að jafnaði sem gerir þennan desembermánuð að þeim fjórða hlýjasta síðustu 119 árin, sé litið til síðasta áratugar var mánuðurinn 2,7 stigum hlýrri. Meðalhiti í Reykjavík mældist 3,6 stig og er það 3,8 stigum ofan meðalhita áranna 1961 til 1990, en 3,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 2,8 stig, 4,7 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 3,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 3,0 stig og 4,0 stig á Höfn í Hornafirði.

Vindhraði var í ríflegu meðallagi, um 0,3 m/s umfram meðallag síðustu tíu ára á sjálfvirkum stöðvum Veðurstofu Íslands. Suðlægar áttir voru mun algengari og stríðari en þær norðlægu.

annska@bb.is

Fleiri stunda símenntun

Árið 2015 varð mikil aukning í símenntun á Íslandi en þá sóttu 27,5% landsmanna á aldrinum 25-64 ára sér fræðslu, annað hvort í skóla eða aðra fræðslu með leiðbeinanda, eða 45.700 manns er Hagstofan greinir frá. Það er fjölgun um 3.600 manns og um 1,9 prósentustig frá árinu 2014. Frá árinu 2003 hefur hlutfall landsmanna á aldrinum 25-64 ára, sem stundar einhvers konar símenntun, heldur farið hækkandi. Hlutfallið var 22,2% árið 2003 en fór hæst í 27,6% árið 2006 og nálgast nú þá tölu á ný.

Tæp 38% þeirra sem höfðu lokið háskólamenntun sóttu símenntun árið 2015 en rúm 17% þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun. Hlutfall þeirra sem sóttu sér menntun hækkaði mest frá fyrra ári meðal þeirra sem hafa háskólamenntun en lítið meðal þeirra sem aðeins hafa grunnmenntun. Mun fleiri konur en karlar sækja sér fræðslu.
Alls stunduðu 31.400 manns símenntun utan skóla árið 2015, sóttu til dæmis námskeið, ráðstefnu eða fyrirlestur. Þátttaka í símenntun meðal 25-64 ára var hlutfallslega meiri hjá atvinnulausum og fólki utan vinnumarkaðar en hjá starfandi fólki árið 2015. Þannig sóttu 33,8% atvinnulausra 25-64 ára sér fræðslu.

Ísland er í fjórða sæti 33 Evrópuþjóða þegar litið er á þátttöku 25-64 ára í símenntun árið 2015. Aðeins í Danmörku (32,1%), Sviss (31,3%) og Svíþjóð (29,4%) er þátttakan meiri en á Íslandi. Meðaltal Evrópusambandsríkjanna 28 er 10,7%.

Símenntun er skilgreind sem öll menntun sem einstaklingur sækir, hvort sem er formlegt nám í skóla eða menntun utan skóla, s.s. á námskeiði, fyrirlestri eða á ráðstefnu. Tölurnar eru byggðar á niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Grein Hagstofunnar um málið má lesa í heild sinni hér.

annska@bb.is

Minjar í Ólafsdal á Landbúnaðarsafni

Ólafsdalur. Mynd: Jón Guðmundsson/Ljósmyndasafn Íslands.

Hjá Landbúnaðarsafni Íslands er komin út skýrsla um ræktunarminjar í Ólafsdal við Gilsfjörð. Frá þessu segir á Reykhólavefnum. Minjarnar eru unnar af Ragnhildi Helgu Jónsdóttur og Bjarna Guðmundssyni í samvinnu við Ólafsdalsfélagið og með styrk frá Alþingi. Skýrslan gefur hugmynd um þær miklu ræktunarminjar, flestar frá fyrri aldamótum, sem er að finna í Ólafsdal og gera staðinn afar verðmætan í ljósi íslenskrar búnaðarsögu.

brynja@bb.is

Söfnun vegna flóða

Gríðarlegar rigningar eru nú víðsvegar í Tælandi og flæða ár og vötn yfir bakka sína. Þetta eru mannskæð flóð en að minnsta 18 manns hafa látið lífið í flóðunum og þúsundir þorpa eru að mestu undir vatni. Samkvæmt frétt á Vísir.is í gær hefur skólastarf 1500 skóla raskast en flóðin eru talin hafa raskað lífi nærri milljón manns í tíu fylkjum í landinu og útlit fyrir að ekki stytti upp fyrr en á morgun. Herinn hefur verið kallaður út til að hjálpa fólki að flýja flóðin og færa þeim mat sem eru innlyksa.

Laddawan Dagbjartsson íbúi og kennari í Bolungarvík rennur blóðið til skyldunnar og mun næstkomandi laugardag frá klukkan 12:00 – 14:00 vera með matsölu og skemmtun til að afla fjár, afrakstur dagsins fer til stuðnings bágstaddra vegna flóðanna í Tælandi.

bryndis@bb.is

Stormur og ófærð víða

Nokkurrar ófærðar gætir á Vestfjörðum í morgunsárið og sums staðar mjög hvasst í fjórðungnum, með ofankomu víða. Hálsarnir í A-Barðastrandarsýslu eru ófærir og Kleifaheiðin sömuleiðis. Þæfingsfærð er á Mikladal og Hálfdáni. Hálka og snjóþekja er á vegum á norðanverðum Vestfjörðum en stórhríð á Gemlufallsheiði. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum og mokstur ekki hafinn.

Nú er 970 mb lægð á austurleið skammt suður af landinu og veldur hún norðaustan hvassviðri eða stormi um mestallt land. Það dregur smám saman úr vindi og ofankomu seinnipartinn, einungis kaldi eða strekkingur í kvöld og él fyrir norðan og austan.

Á morgun nálgast fleiri lægðir landið, í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að þeim gangi illa að koma sér saman um hver eigi að ráða veðrinu. Það má segja að myndist millibilsástand sem þýðir það að vindur verður lengst af hægur á morgun, en snjómugga gerir vart við sig í flestum landshlutum.

Á miðvikudag og fimmtudag er útlit fyrir að deilan leysist, lægð fyrir austan land tekur völdin og möguleiki er á að berist til okkar mjög kalt loft beint norðan úr Íshafinu. Þá gætu tveggja stafa frosttölur látið sjá sig á mælum, en slíkt hefur verið sjaldgæft í vetur. Eins og svo oft í norðanáttinni, þá snjóar á norðanvert landið, en bjart syðra.

Nýjasta langtímaspá kom í hús nú á sjöunda tímanum og samkvæmt henni er útlit fyrir að kuldakastinu sé lokið á sunnudaginn því þá verði komin sunnanátt og hlýni á landinu.

annska@bb.is

Ísfell kaupir á Flateyri

Hafnarbakki 8 á Flateyri

Í fyrra hóf Ísfell ehf rekstur þvotta- og þjónustustöð fyrir fiskeldispoka á Flateyri en aukið fiskeldi á svæðinu kallar eftir að í boði sé allra handa þjónusta. Netapokarnir eru þvegnir, slitprófaðir, sjónskoðaðir og við þá gert ef þarf á verkstæðinu á Flateyri. Hingað til hefur þurft að aka netapokunum austur á land í þvottastöð, það er því gríðarlegur sparnaður fólgin í því fyrir eldisfyrirtækin á Vestfjörðum að geta fengið þessa þjónustu hér.

Ísfell leigði hluta af Hafnarbakka 8 af Arctic Odda ehf en hefur nú keypt allt húsið en í því var áður fiskmóttaka fyrir Arctic Odda ehf og skrifstofur fyrir Arctic Fish og dótturfyrirtæki. Með í kaupunum fylgdi einnig Gullkistan, viðbyggð skemma sem hefur verið nýtt sem geymsla en í henni fer nú fram saltframleiðsla.

Á heimasíðu Ísfells segir að með þessum kaupum sé fyrirtækið að byggja undir starfsemi sína á Flateyri og huga að framtíðarvexti félagsins á Vestfjörðum samhliða þeim vexti sem er fyrirhugaður hjá fiskeldisfyrirtækjum. Með þessu stóra húsnæði er hægt að bjóða eldisfyrirtækjum upp á geymslu á pokum eftir þvott. Ísfell sér fyrir sér að bæta þjónustu við útgerðir á Vestfjörðum með almennri víra- og netaverkstæðisþjónustu.

Ísfell hefur þegar tekið við eigninni og mun fara í nauðsynlegt viðhald á þaki og útliti þegar fer að vora segir sömuleiðis á heimasíðu Ísfells en húsið er afar illa farið.

bryndis@bb.is

Opið fyrir tilkynningar um innlausn greiðslumarka

Matvælastofnun annast innlausn greiðslumarks lögbýla samkvæmt reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt og geta handhafar greiðslumarka óskað eftir innlausn á greiðslumörkum sínum með að fylla út eyðublað 7.13 í þjónustugátt Matvælastofnunar. Með beiðni um innlausn á greiðslumarki skal fylgja staðfesting um eignarhald á lögbýli, samþykki ábúanda og sameigenda, og þinglýst samþykki veðhafa í lögbýlinu. Tilkynningu um innlausn skal skila eigi síðar en 20. janúar og greiðir Matvælastofnun innleyst greiðslumark eigi síðar en 15. febrúar næstkomandi, en innlausnarvirði þess árið 2017 er 12.480 kr. á ærgildi.

annska@bb.is

Aðalfundur Sjálfsbjargar á morgun

Frá landsfundi Sjálfsbjargar í Bolungarvík 2015

Í síðasta tölublaði Bæjarins besta kemur fram í auglýsingu að aðalfundur Sjálfsbjargar á Ísafirði verði haldinn þriðjudaginn 12. janúar í húsi Framsóknarflokksins við Pollgötu kl. 16:00. Nú er það svo að 12. janúar mun ekki lenda á þriðjudegi fyrr en árið 2021 og fullsnemmt að auglýsa aðalfund með fjögurra ára fyrirvara. Þarna eru leið mistök á ferðinni, fundurinn er á þriðjudegi engu var um það logið en dagurinn mun vera númer 10 í janúar en ekki 12 og leiðréttist það hér með.

Aðalfundur Sjálfsbjargar, félags hreyfihamlaðra á Ísafirði, verður haldinn í húsi Framsóknarflokksins við Pollgötu, þriðjudaginn 10. janúar kl. 16:00, þannig átti að þetta nú að hljóma.

bryndis@bb.is

150 milljónum úthlutað úr Afrekssjóði ÍSÍ

Frá úthlutun styrkjana.

150 milljónum hefur verið úthlutað úr Afrekssjóði ÍSÍ. 100 milljónum verður úthlutað seinna á árinu eftir nýjum reglum sjóðsins sem verið er að vinna að. Frá þessu er greint á vef Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.

Síðasta sumar var ákveðið að auka framlag ríkisins til Afrekssjóðsins og unnið er að mótun nýrra úthlutunarreglna. Áætlað er að framlagið á næsta ári verði 200 milljónir, 300 milljónir árið 2019 og 400 milljónir 2020.

Hæst framlag hljóta þau sérsambönd sem taka þátt í lokamótum stórmóta á árinu en alls bárust umsóknir frá 26 sérsamböndum ÍSÍ. Hæsta framlagið í þetta skiptið fékk Handknattleikssamband Ísland eða 28,5 milljónir.

Körfuknattleikssambandið fékk 18,5 milljónir og Sundsamband Íslands 13,5 milljónir.

Úthlutunin skiptist á eftirfarandi hátt:

Blaksamband Íslands (BLÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 4.400.000,-

Badmintonsamband Íslands (BSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 2.200.000,-

Borðtennissamband Íslands (BTÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-

Dansíþróttasamband Íslands (DSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 2.100.000,-

Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Anítu Hinriksdóttur og Ásdísar Hjálmsdóttur og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 12.000.000,-

Fimleikasamband Íslands (FSÍ)
Vegna landsliðsverkefna í áhaldafimleikum og hópfimleikum, verkefna Irina Sazonova og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 7.950.000,-

Golfsamband Íslands (GSÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 8.850.000,-

Hjólreiðasamband Íslands (HRÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.100.000,-

Handknattleikssamband Íslands (HSÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliða karla og kvenna, yngri landsliða og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 28.500.000,-

Íþróttasamband fatlaðra (ÍF)
Vegna landsliðsverkefna sambandsins, undirbúnings fyrir Paralympic Games 2018, verkefna Helga Sveinssonar og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 7.750.000,-

Íshokkísamband Íslands (ÍHÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliðs karla og kvenna, yngri landsliða og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 3.200.000,-

Skautasamband Íslands (ÍSS)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-

Júdósamband Íslands (JSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.600.000,-

Karatesamband Íslands (KAÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.600.000,-

Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliðs karla og kvenna, yngri landsliða og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 18.500.000,-

Keilusamband Íslands (KLÍ)
Vegna landsliðsverkefna, unglingalandsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.100.000,-

Kraftlyftingasamband Íslands (KRA)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Fanneyjar Hauksdóttur, Júlíans Jóhanns Karls Jóhannssonar, Viktors Samúelssonar og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 6.600.000,-

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ)
Vegna landsliðsverkefna A landsliðs kvenna, yngri landsliða kvenna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 8.400.000,-

Landssamband hestamannafélaga (LH)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 2.200.000,-

Lyftingasamband Íslands (LSÍ)
Vegna landsliðsverkefna kvenna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.100.000,-

Skíðasamband Íslands (SKÍ)
Vegna landsliðsverkefna í alpagreinum, skíðagöngu og á snjóbrettum, undirbúnings fyrir Vetrarólympíuleikar 2018 og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 9.800.000,-

Skylmingasamband Íslands (SKY)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 1.700.000,-

Sundsamband Íslands (SSÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Hrafnhildar Lúthersdóttur, Eyglóar Óskar Gústafsdóttur, Antons Sveins Mckee og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 13.550.000,-

Skotíþróttasamband Íslands (STÍ)
Vegna landsliðsverkefna, verkefna Ásgeirs Sigurgeirssonar og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 3.850.000,-

Tennissamband Íslands (TSÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-

Þríþrautarsamband Íslands (ÞRÍ)
Vegna landsliðsverkefna og fræðslu og fagteymis fyrir afrekshópa
kr. 600.000,-

Heildarúthlutun til sérsambanda ÍSÍ kr. 150.450.000,-

brynja@bb.is

Nýjustu fréttir