Sunnudagur 19. janúar 2025
Síða 2202

Vill tómstundafulltrúa fyrir eldri borgara

Eldri borgurum fjölgar hratt næstu árin.

Öldungaráð Ísafjarðarbæjar hvetur bæjarstjórn til þess að tryggja eldri borgurum aukna þjónustu. Ráðið leggur meðal annars til að sérstakur fulltrúi sinni íþrótta- og tómstundamálum eldri borgara í Ísafjarðarbæ. Öldungaráð bendir á að tómstundafulltrúi Ísafjarðarbæjar sinni ungu fólki sérstaklega en þarfir eldri borgara séu jafn brýnar fyrir slíka þjónustu. Eldri borgurum fjölgar hratt og öldungaráið telur raunhæft að gera ráð fyrir að því fylgi aukin þjónusta og utanumhald til þess að tryggja að lýðheilsusjónarmið nái til allra íbúa Ísafjarðarbæjar.

Íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar hefur tekið vel í hugmyndir öldungaráðs og starfsmanni nefndarinnar var falið að kostnaðarmeta tillöguna.

Fyrsta skip sumarsins í höfn

Ocean Diamond við Ásgeirsbakka. Risaskipið Aida Luna í baksýn.

Fyrsta skip sumarsins Ocean Diamond lagðist að bryggju á Ísafirði í morgun. Koma skipsins markar upphaf skemmtiferðaskipavertíðarinnar þetta árið sem mun standa fram til 22.september er Ocean Diamond lokar henni aftur, reyndar með annað skip, Hanseatic, sér til fulltingis þann daginn. Það er ferðaskrifstofan Iceland ProCruises, sem er með Ocean Diamond á leigu og er Reykjavík heimahöfn þess.

Von er á yfir 100 skipum til Ísafjarðar í sumar og hafa þau aldrei vera fleiri.

Vorsýning nemenda á lista- og nýsköpunarbraut

Edinborgarhúsið á Ísafirði.

Vorsýning nema á Lista- og Nýsköpunarbraut Menntaskólans á Ísafirði, verður haldin á ganginum í Edinborgarhúsinu í dag klukkan 17. Þar gefur að líta afrakstur nemanda úr margmiðlun- og listaáföngum annarinnar og stendur sýningin aðeins þennan eina dag. Undanfarinn vetur er sá fyrsti sem kennt er á lista- og nýsköpunarbraut við skólann og er þar lögð áhersla á listir og nýsköpun. Brautin var stofnuð með það í huga að breikka námsframboð skólans og höfða til þeirra nemenda sem sækja um skólavist og hafa sérstakan áhuga á listum og (ný)sköpun. Brautinni lýkur með framhaldsskólaprófi eftir 120 f-einingar en nemendur geta haldið áfram námi til stúdentsprófs.

annska@bb.is

Vestri fær styrk til að reisa knattspyrnuhús

Teikning af knattspyrnuhúsi á Torfnesi úr skýrslu Vestra um knattspyrnuhús á Ísafirði.

Íþróttafélagið Vestri hefur fengið 10 milljóna króna styrk úr mannvirkjasjóði Knattspyrnusambands Íslands til að reisa knattspyrnuhús á Ísafirði. Mannvirkjasjóður KSÍ úthlutaði á dögunum 170 milljónum króna til 25 verkefna. Bygging knattspyrnuhúss er áralangur draumur hjá knattspyrnuforkólfum á Ísafirði og málið er komið á skrið innan bæjarkerfisins. Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar er með skipulagsmál á Torfnesi til umfjöllunar og ætlunin er að finna út hvort og hvernig knattspyrnuhús kemst best fyrir á svæðinu. Ekki hefur tekin formleg ákvörðun um að reisa húsið og samkvæmt reglum mannvirkjasjóðs þarf að sækja um styrki aftur vegna verkefna sem hefjast ekki á árinu.

Kostnaður við knattspyrnuhús er samkvæmt árs gamalli skýrslu Vestra 235-262 milljónir króna eftir útfærslu og efnisvali hússins.

Hvalaskoðun í Steingrímsfirði

Búrhvalir á Steingrímsfirði. Mynd: Jón Halldórsson.

Hvalaskoðunarfyrirtækið Láki Tours sem er með höfuðstöðvar í Grundarfirði ætlar að færa út kvíarnar og bjóða upp á hvalaskoðun frá Hólmavík í sumar. Reglulegar ferðir verða farnar þrisvar sinnum á dag á tímabilinu frá 15. júní – 20. ágúst. Frá þessu er greint á fréttavefnum Strandir.is. Hvalagengd er almennt talsverð eða mikil í Steingrímsfirði og því ætti fjörðurinn að henta vel til hvalaskoðunar. Steingrímsfjörður er einn fjarða og flóa á Íslandi þar sem Hafrannsóknastofnun lagði til að hvalveiðar yrðu bannaðar vegna góðra aðstæðna til hvalaskoðunar.

Vísindin í óvæntu ljósi

Háskólalestin er fræðandi og skemmtileg.

Nemendur í eldri bekkjum grunnskólanna á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri sækja skemmtileg námskeið úr Háskóla unga fólksins þegar Háskólalestin heimsækir þessi byggðarlög dagana 19. og 20. maí. Jafnframt verða vísindin sýnd í óvæntu og litríku ljósi í vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna sem fram fer á Suðureyri í sömu heimsókn.

Ferð Háskólalestarinnar á norðanverða Vestfirði er sú þriðja í maímánuði en þegar hefur lestin heimsótt Vík í Mýrdal og Sandgerði. Líkt og í fyrri heimsóknum fer dagskrá lestarinnar fram á föstudegi og laugardegi í þeim bæjarfélögum þar sem lestin nemur staðar.

Á morgun föstudag munu kennarar í Háskólalestinni taka að sér kennslu í Grunnskólanum á Flateyri og bjóða nemendum í 5.-10. bekk á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri upp á námskeið í blaða – og fréttamennsku, eðlisfræði, efnafræði, stjörnufræði og vindmyllum.

Á laugardaginn færir Háskólalestin sig svo yfir til Suðureyrar þar sem efnt verður til glæsilegrar vísindaveislu í íþróttahúsinu og grunnskólanum milli kl. 11 og 15. Þar geta gestir spreytt sig á alls kyns þrautum og hugarleikfimi á vegum Vísindavefsins, skellt sér í ferð um himingeiminn í stjörnutjaldinu, kynnt sér japanska menningu og tungu, skoðað óvenjulegar steintegundir, kynnst undrum efnafræðinnar, prófað vindmyllusmíði og gert ýmis konar óvæntar uppgötvanir.

Aðgangur að Vísindaveislunni er ókeypis og allir velkomnir.

Háskólalestin hefur heimsótt um 30 staði víða um land frá því að henni var ýtt af stað á aldarafmælisári skólans árið 2011. Lestin brunar nú um landið sjöunda árið í röð en áhöfnin hefur frá upphafi lagt áherslu á lifandi og skemmtilega miðlun vísinda til fólks á öllum aldri.

Flateyri, Suðureyri og Þingeyri eru síðustu áfangastaðir Háskólalestarinnar í maímánuði en fyrirhugaðri heimsókn til Patreksfjarðar dagana 26. og 27. maí hefur verið frestað um sinn.

Samstillt fegrunarátak í bænum

Grunnskólanemar ætla ekki að láta sitt eftir liggja í Grænni viku.

Árleg „Græn vika“ verður í Ísafjarðarbæ í næstu viku og verður sveitarfélagið með samstillt fegrunarátak fyrir umhverfið til að það megi vera til sem mestrar prýði er sumarið gengur í garð með tilheyrandi útiveru, grillveislum og ferðafólki. Átakið stendur til sunnudagsins 28. maí og taka ýmsar stofnanir bæjarins þátt í því, líkt og grunnskólarnir sem efna til vorverkadaga hjá nemendum. Einnig verður leitað til íbúa og hverfasamtaka um þátttöku, sem og fyrirtækja í bænum, og þannig stuðlað að því að allir leggist saman á árarnar til að prýða umhverfið. Ekki liggur fyrir tímasetningar á hreinsunarátökunum í kjörnunum, en eru íbúar hvattir til að fylgjast með inn á heimasíðu eða Fésbókarsíðu Ísafjarðarbæjar.

Gámar fyrir garðaúrgang verða í öllum þéttbýliskjörnum og skiptir miklu máli að íbúar flokki vel og setji einvörðungu garðaúrgang í þar til gerða gáma. Fyrir íbúa Skutulsfjarðar verður gámur fyrir garðúrgang staðsettur í Funa og reyndar verður hann þar í allt sumar. Í öðrum kjörnum verða garðaúrgangsgámarnir á meðan að Grænu vikunni stendur. Í Hnífsdal verður gámurinn staðsettur við leikskólann, á Suðureyri verður hann við hausaþurrkunina Klofning, á Þingeyri hjá gamla áhaldahúsinu og á Flateyri verður gámurinn staðsettur á höfninni.

Þá verður ýmislegt gert bæði til gagns og til gamans, til að mynda fer fram taupokagerð víða til að gera megi taupokastöðvar í verslunum, svo sporna megi enn frekar við plastpokanotkun. Þá verður Helga Hausner með opinn gróðurgarð að Seljalandsvegi 85 þar sem margar fjölærar plöntur er að finna alla daga vikunnar á milli klukkan 26 og 18, þá býður hún einnig til plöntugöngu fimmtudaginn 25.05 klukkan 14 og hefst hún við Ísafjarðarkirkju.

Hér má fylgjast með dagskrá Grænu vikunnar og verður hún uppfærð eftir því sem fleiri viðburðir bætast við dagskrána.

annska@bb.is

Munnhörpuleikur á heimsmælikvarða

Munnhörpuleikarinn margfrægi Þorleifur Gaukur Davíðsson er mættur á landið eftir nám í Berklee College of Music. Í þetta skiptið tekur hann með sér Ethan Jodziewicz, einn fremsta roots-bassaleikara heims og spila þeir í Edinborgarhúsinu á Ísafirði annaðkvöld. Ethan er á milli túra með Grammy-tilnefndu Sierra Hull og hefur hann spilað með öllum frá Bela Fleck til David Grisman. Þorleifur Gaukur og Ethan blanda saman bluegrass og djassi á einstakan hátt og útkoman er ferskur og orkumikill spuni sem heldur áheyrendunum spenntum.

Þorleifur Gaukur hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi frá unga aldri. Hann hefur spilað með KK, Kaleo, Victor Wooten, Bob Margolin, Peter Rowan, Tómas R. Einarsson, Skúla mennska og mörgum fleirum. Haustið 2015 hóf hann nám við Berklee tónlistarháskólanum í Kalíforníu á fullum skólastyrk og fékk Clark Terry verðlaunin fyrir framúrskarandi árangur í fyrra. Hann hefur verið aktívur í bluegrass senuni í Bandaríkjunum og er draumurinn að kynna þá tónlist fyrir landanum.

Sjá viðtal RÚV við Þorleif Davíð

Rukka inn í Skrúð

Hefja á innheimtu aðgangseyris í lystigarðinn Skrúð í Dýrafirði í sumar. Framkvæmdasjóður garðsins segir þetta nauðsynlegt vegna þess að ekkert framlag hafi fengist frá ríkinu til Skrúðs á síðustu tveimur árum, í fyrsta sinn síðan 1996.  „Það er því nauðsynlegt að tryggja lágmarks þjónustu og uppbyggingu við Skrúð og ekki neitt í augsýn sem gæti tryggt rekstur hans, annað en gjaldtaka við garðinn,“ segir í bréfi þar sem óskað var heimildar  Ísafjarðarbæjar fyrir því að innheimta  aðgangseyri að Skrúði. Rætt er um að upphæðin verði 300 krónur og að gjaldtakan hefjist 17. júní. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar setur sig ekki upp á móti gjaldtöku þar sem öll tilskilin leyfi liggja fyrir.

Til að bregðast við síaukinni umferð ferðamanna um Skrúð er einnig nauðsynlegt að koma upp bráðabirgðasalernisaðstöðu þar til að varanleg aðstaða á fyrirhuguðum byggingarreit verður komin í gagnið. Því hefur Framkvæmdasjóður Skrúðs farið þess á leit við Ísafjarðarbæ að fá bráðabirgðastöðuleyfi fyrir salernisaðstöðu.

Árlegir vortónleikar Ernis

Árlegir vortónleikar Ernis

Karlakórinn Ernir heldur árlega vortónleika á sunnudag og mánudag. Kórinn ríður á vaðið með tónleikum í Félagsheimilinu í Bolungarvík á sunnudag kl. 15. Seinni tónleikar dagsins verða kl. 20 í Ísafjarðarkirkju og á mánudagskvöld kl. 20 verða tónleikar í Félagsheimilinu á Þingeyri. Stjórnandi kórsins er Beáta Joó og undirleikari er Pétur Ernir Svavarsson. Í byrjun júní heldur kórinn til Kanada og syngur á tónleikum á Íslendingaslóðum í Gimli og Winnipeg.

Karlakórinn Ernir varð til er kórarnir í Bolungarvík, Þingeyri og Ísafirði sameinuðust árið 1983.
Eftir nokkurra ára dvala var ákveðið að blása lífi í kórinn að nýju haustið 2002. Efldist hann síðan ár frá ári og fetar nú nýjar jafnt sem hefðbundnar leiðir í tónlistarflutningi sínum.

Nýjustu fréttir