Sunnudagur 19. janúar 2025
Síða 2201

Afkoman sú lakasta í 20 ár

Sterk króna mun líklega leiða til þess að afkoma í sjávarútvegi í ár verði hin versta í 20 ár. Þetta kemur fram í úttekt greiningardeildar Arion banka. Reiknað er með að hlutfall EBITDA-hagnaðar af tekjum verði 13% í ár en til samanburðar var það 30% á árunum 2011 og 2012. Breytt landslag kallar ugglaust á hagræðingu í greininni. „Það er ekki lengur góðæri í sjávarútvegi,“ segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, í samtali við ViðskiptaMoggann. Þrátt fyrir að efnahagur sjávarútvegsins sé í heild traustur bendir Konráð á að tæpur fjórðungur sjávarútvegsfyrirtækja var með neikvætt eigið fé árið 2015.

„Það eru allar líkur á því að einhver uppstokkun muni eiga sér stað í sjávarútvegi til að mæta breyttum aðstæðum, hvort sem það verður með sameiningum eða fyrirtækjunum takist að bregðast við með öðrum hætti,“ segir Konráð.

Fjórar sögur um dauða, sorg, vinskap og upprisu

Pétur Georg Markan

Borgarstjóri Þórshafnar, varalögmaður Færeyinga, systur og bræður Færeyingar,

Ég flyt ykkur kveðju frá Vestfjörðum, ég færi ykkur samhug, vinafaðmlag og þakklæti frá Súðavíkurhreppi.

Af meðvitund um eigin vanmátt  á mót örlagaríkri sögu, sorg og upprisu samfélaga, ástvinamissi og vinagjöfum, ætla ég að segja ykkur fjórar sögur í dag.

Fyrsta sagan er af dauðahamförum, örlögum smáþorps á Vestfjörðum og því sem gerist þegar guð lítur undan fólkinu sínu.  Þann 16. janúar 1995, reið yfir Súðavík snjóflóð, sem sem klauf byggðina, hreif með sér 14 líf í dauðann, þar á meðal átta börn. Átta vaxtarsprotar, börn sem aldrei urðu menn.

Hús og fyrirtæki gjöreyðilögðust og líf þeirra sem byggðu Súðavík umbreyttist. Fyrir og eftir er skiptingin á lífshlaupi þeirra sem lifðu flóðið.

Önnur sagan er um sorg sem er þykk eins og Færeyjarþokan. Hvað gerir maður þegar allt er farið,  þorpið kalið og dagleg veðurspá boðar sorgarvetur? Það er ekki sjálfgefið að vilja lifa, það er ekki lögmál að þorp lifi að eilífu.

Allar stundir ævi minnar

ertu nálæg, hjartans Lilja.

Þó er næst um næðisstundu

návist þín og angurblíða,

ástarljós og endurminning.

Allar stundir ævi minnar,

yndistíð og harmdaga,

unaðssumur, sorgarvetur –

sakna ég og minnist þín.

(Hulda)

Þriðja sagan er um skilyrðislausa vináttu, eyjaást, sem nær yfir dauða, landamæri og kreppur.

Sú taug sem tengir þessar þjóðir saman, er ekki ofin saman úr þjóðhagslegum ávinningum, heldur úr kærleika og vináttu, skyldleika og samhug íbúa þessara tveggja þjóða. Gjöf Færeyinga til Súðvíkinga og Flateyringa endurspeglar þessi grunnstef í sambandi þjóðanna. Í þungum þönkum sorgarinnar kom söfnun Færeyinga sem ljós inn í myrkur, umhyggjusamt bros vonarinnar og þíðunnar.

Það er ekki sjálfgefið að vilja lifa, stundum þarf maður aðstoð til þess að sjá framtíðina, og til að leggja nýjan grunn að henni, til dæmis byggja nýjan leikskóla.

Ég get verið þíðan þín,

þegar allt er frosið.

Því sólin hún er systir mín,

sagði litla brosið.

(Ragnar Gröndal)

Fjórða sagan er um upprisu, framtíð og börn að róla sér á leikskólavelli. Ég sé leikskólann í Súðavík frá skrifstofu sveitarfélagsins.  Ég virði fyrir mér iðandi og leikandi vaxtarsprotana á hverjum degi, þar sem þeir eru að leik og störfum í gjöfinni sem þið, Færeyingar, söfnuðuð fyrir. Gjöfin sem geymir framtíð Súðavíkur og sér til þess að sveitarfélagið eigi sér morgundag, nýjar kynslóðir. Hjartað í samfélaginu, sem aldrei verður vílað eða dílað um, er ykkar framlag.

Sumt verður aldrei fullþakkað.

Söfnun og gjöf Færeyinga má auðveldlega færa í búning ekkjunnar í guðspjöllunum, sem gaf af skorti sínum, með hreinu hjarta. Það voru ekki auðveldir tímar í Færeyjum þegar safnað var fyrir Vestfirðingum. En það hélt ekki aftur af bræðrum okkar og systrum. Ekkert lýsir betur einstakri þjóð en sú einfalda staðreynd.

Listaverkið, Tveir vitar, sem í dag verður afhent, er ekki ætlað að fullþakka, heldur til að minna okkur á einstakt samband þjóðanna,  söfnunina og gjafirnar, skilyrðislausa vináttu, og það kannski skiptir mestu í lok dagsins, kærleikurinn milli manna.

Bræður og systur Færeyingar,

ég flyt ykkur kveðju frá Vestfjörðum, ég færi ykkur samhug, vinafaðmlag og þakklæti frá Súðavíkurhreppi.

Pétur Markan

 

Gera áhættumat fyrir erfðablöndun laxastofna

Vinna er hafin á gerð áhættumats vegna mögulegrar erfðablöndunar eldislax við íslenska, villta laxastofna. Þetta kemur fram í svari Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Bjarna Jónssonar, varaþingmanns Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.

Markmið áhættumatsins er að meta hve mikið umfang eldis má vera á hverjum stað án þess að það valdi óafturkræfum skaða á náttúrulegum laxastofnum vegna erfðablöndunar. Í svari ráðherra kemur fram að við gerð áhættumatsins verða notuð bestu fáanlegu gögn um hlutfall sleppinga, áhrifa hafstrauma, fjarlægð áa og stofnstærð laxa í ám auk erfðasamsetningar villtra stofna.

Hafrannsóknastofnun annast framkvæmd verkefnisins með hjálp erlendra sérfræðinga.

Hlynur frá Bæjaralandi breytir framtíðinni á Íslandi

Ludwig Pertl.

Lítið fræ verður að stórum skógi.

Það er hinn raunverulegi leyndardómur vinabæjasamstarfs okkar við Ísafjörð.

Sameiginlegi skógurinn okkar, svo leyndardómsfullur og spennandi sem hann er, hefur ekki vakið mikla athygli ennþá en það mun hann gera í framtíðinni! Fyrir utan öll hin verkefnin okkar, eins og t.d. öflug nemendaskipti milli sveitarfélaganna á síðustu árum sem eru ekki síður gífurlega mikilvægt framtíðarverkefni.

Þrautreyndir skógræktarmenn frá Kaufering og Ísafirði, þeir Ludwig Pertl og Sæmundur Þorvaldsson hafa frá upphafi verið mjög fúsir og reiðubúnir í þetta sameiginlega skógræktarverkefni.

Árangurinn er stórkostlegur. Eiginlega ótrúlegur. Farið hefur verið í mörg stór átaksverkefni til að rækta nýja skóga á Íslandi þar sem áður var lítið um trjágróður. Það var sameiginlegt markmið vinabæjarsamstarfsins frá upphafi, einnig okkar Sæmundar. Loftslagsbreytingar hafa líka haft áhrif á Íslandi og hættan á jarðvegseyðingu fer greinilega vaxandi.

Þar eð hingað til hafa aðallega barrtré (Síberíulerki og önnur barrtré frá Kanada) verið flutt til Íslands var ákveðið að bæta nú við lauftrjám til að auka frjósemi jarðvegsins.

Trjátegundir sem vaxa í Ölpunum, s.s. fjallahlynur, linditré, askur og beyki geta gegnt hér mikilvægu hlutverki. Þar sem veðurskilyrði eru svipuð í Alpafjöllum og á Íslandi, spurðist Ludwig Pertl fyrir um það hjá gróðrarstöð í Laufen hvort hægt væri að fá heppilega stofna hjá þeim. Síðan þurfti að sækja um nauðsynleg leyfi hjá íslenskum skógræktaryfirvöldum og vorið 2014 var hægt að senda fyrstu sendingu af fræi til Íslands. Sáningin tókst frábærlega og þannig var hægt að planta u.þ.b. 8000 lauftrjám á Íslandi.

12 manna hópur frá Kaufering fór til Ísafjarðar í júlí 2016 og tók þar þátt í hátíðahöldum í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins og einn liður í þeim var sameiginleg gróðursetning á Þingeyri. Fyrir ofan þorpið vex nú fyrsti bæverski skjólskógurinn á Íslandi með fjórum tegundum lauftrjáa frá Ölpunum. Árið 2015 plöntuðu bæjarstjórarnir Erich Püttner og Gísli Halldór Halldórsson einnig samanburðarskógi í Kaufering.

Gróðursetning ofan Þingeyrar.

Frá því í nóvember 2016 hefur Markaðurinn í Kaufering verið starfandi aðili að EU-INTERREG verkefninu fyrir Alpasvæðið undir titlinum: „Links4Soils“.  Kaufering í samstarfi við rannsóknarstofu LWF- Weihenstephan bauð Skógrækt ríkisins á Íslandi að starfa með sér og fylgjast með verkefninu.

Þannig hafa báðir aðilar sama markmið, að skapa barnabörnum okkar meiri lífsgæði á heimaslóðum; sjálfbæra aðlögun að náttúruöflunum, að styrkja heilbrigðan lifandi jarðveg og vistkerfi. Að sjálfsögðu kemur Sæmundur Þorvaldsson frá Ísafirði til Þýskalands til að taka þátt í vinnudögum í júní. Þróunin er mjög spennandi og við væntum þess að árið 2100 verði öflugur laufskógur farinn að veita gott skjól á Þingeyri og önnur nauðsynleg langtímaverkefni verði farin að skila góðum árangri á ýmsum sviðum .

Ludwig Pertl

Bæjarins besta 19. tbl. 34. árg.

BB_19

Bæverskur laufskógur dafnar á Þingeyri

Frá gróðursetningu á Þingeyri. F.v. Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Gerður Eðvarsdóttir, Erich Püttner bæjarstjóri Kaufering og Ludwig Pertl.

Vinabæjarsamstarf Ísafjarðarbæjar og Kaufering í Þýskalandi er um margt merkilegt. Einn þáttur í því sem ekki hefur farið hátt er er elja skógræktarmanna í báðum sveitarfélögum. Þeir Ludwig Pertl frá Kaufering og Sæmundur Þorvaldsson frá Læk í Dýrafirði hafa síðustu ár unnið að ræktun skógar fyrir ofan Þingeyri og sömuleiðis hefur verið plantað samanburðarskógi í Kaufering. Í aðsendri grein Ludwig Pertl í dag segir hann að þar eð hingað til hafi aðallega barrtré verið flutt til Íslands var ákveðið að bæta nú við lauftrjám til að auka frjósemi jarðvegsins. Trjátegundir sem vaxa í Ölpunum, s.s. garðahlynur, linditré, askur og beyki geta gegnt hér mikilvægu hlutverki. Eftir tilskilin leyfi fengust frá íslenskum skógræktaryfirvöldum vorið 2014 var hægt að senda fyrstu sendingu af fræi til Íslands. Sáningin tókst frábærlega og þannig var hægt að planta u.þ.b. 8000 lauftrjám á Íslandi.

12 manna hópur frá Kaufering fór til Ísafjarðar í júlí 2016 og tók þar þátt í hátíðahöldum í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins og einn liður í þeim var sameiginleg gróðursetning á Þingeyri. Fyrir ofan þorpið vex nú fyrsti bæverski skjólskógurinn á Íslandi með fjórum tegundum lauftrjáa frá Ölpunum. Árið 2015 plöntuðu bæjarstjórarnir Erich Püttner og Gísli Halldór Halldórsson samanburðarskógi í Kaufering.

„Árangurinn er stórkostlegur. Eiginlega ótrúlegur. Farið hefur verið í mörg stór átaksverkefni til að rækta nýja skóga á Íslandi þar sem áður var lítið um trjágróður. Það var sameiginlegt markmið vinabæjarsamstarfsins frá upphafi, einnig okkar Sæmundar. Loftslagsbreytingar hafa líka haft áhrif á Íslandi og hættan á jarðvegseyðingu fer greinilega vaxandi,“ segir í greininni.

Mikil andstaða við áfengisfrumvarpið

Mikill meirihluti landsmanna er andvígur frumvarpi um sölu áfengis í matvöruverslunum. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun vann fyrir Rúnar Vilhjálmsson, prófessor á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, og greint er frá á vef RÚV. Könnunin er hluti af netkönnun Félagsvísindastofnunar. Hún náði til 1733 18 ára og eldri á landinu öllu. Fólkið var valið af handahófi úr þjóðskrá. Spurt er um ýmis samfélagsleg málefni í könnuninni og var ein af spurningunum um viðhorf almennings til frumvarps um sölu áfengis í verslunum. Svarhlutfall var 65%. Samkvæmt könnuninni er tæplega 70% landsmanna andvígur frumvarpinu og meirihluti allra samfélagshópa og kjósenda allra stjórnmálaflokka er á móti frumvarpinu.

Andstaðan við frumvarpið er meiri á landsbyggðinni, þar sem 74 prósent voru á móti en 66,5 prósent á höfuðborgarsvæðinu.

Hátíðisdagur í Tónlistarskólanum

Tónleikarnir verða í Hömrum.

Á laugardaginn verður sannkallaður hátíðisdagur í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þá munu tveir nemendur skólans, þau Mikolaj Ólafur Frach og Anna Anika Jónína Gumundsdóttir halda einleikstónleika en þau þreyta bæði framhaldspróf í píanóleik í vikunni.

Anna og Mikolaj hafa bæði stundað nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá unga aldri. Anna fæddist á Ísafirði 19. maí 1998 og hóf píanónám sitt í útibúi Tónlistarskólans á Flateyri árið 2004 en undanfarin 3 ár hefur Beata Joó verið aðalkennari hennar. Anna Anika hefur tekið virkan þátt í skólastarfinu og komið fram innan tónlistarskólans og utan hans. Hún tók t.a.m. tvisvar þátt í Samfés ásamt vinum sínum og spilaði í annað skiptið til úrslita í Reykjavík. Í nóvember árið 2015 tók Anna þátt í píanókeppni EPTA og hafnaði í 4.-5. sæti. Anna hefur tekið þátt í tónlistarflutningi á sólrisuhátið MÍ árin 2016 og 2017. Í vetur hefur hún verið í ryþmasveit tónlistarskólans. Anna Jónína kveður Tónlistarskóla Ísafjarðar með þessum tónleikum en hún hyggst hefja nám í eðlisfræði við Háskóla Íslands næsta haust. Dagskráin er fjölbreytt og fær Anna til liðs við sig nokkra gesti meðal annarra afa sinn Björgvin Þórðarson sem syngur einsöng.

Mikolaj fæddist á Ísafirði árið 2000. Hann hóf píanónam hjá móður sinni Iwonu Frach aðeins fimm ára gamall en hún hefur verið aðalkennari hans frá upphafi.

Mikolaj hefur hlotið margar viðurkenningar á tónlistarkeppnum bæði hér á landi og í útlöndum. Mikolaj  sigraði VI Píanókeppni Íslandsdeildar EPTA í Reykjavík (2015), hlaut þriðju verðlaun í XIII Alþjóðlegri Píanókeppni í Görlitz (2014). Einnig hlaut hann annað sæti í Fryderyk Chopin Interpretation Competition í Reykjavík (2010). Mikolaj hefur margsinnis komið fram fyrir hönd skólans á Lokatónleikum Nótunnar í Hörpu.

 

Mikolaj stundar líka gítar- og söngnám við TÍ en hugðarefni hans eru liggja ekki eingöngu í tónlistinni, heldur skipa íþróttir stóran í sess í lífi hans og má þar nefna sund og gönguskíði. Á efnisskráni eru m.a. verk eftir Bach, Beethoven og Chopin.

 

Tónleikarnir verða í Hömrum og hefjast tónleikar Önnu Jónínu kl. 13 en tónleikar Mikolaj verða kl. 16.

 

 

 

Fjölgar mest í byggingastarfsemi og ferðaþjónustu

Byggingageirinn ásamt ferðaþjónustu kallar á aukið vinnuafl.

Á 12 mánaða tímabili, frá apríl 2016 til mars 2017, fjölgaði launþegum á Íslandi um 4,8 prósent og voru þeir 181.900 í mars sl. Skipt eftir atvinnugreinum hefur launþegum fjölgað mikið á milli ára hjá launagreiðendum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Launþegum hefur hins vegar fækkað í sjávarútvegi. Þetta kemur fram í gögnum Hagstofunnar.

Í mars voru 2.368 launagreiðendur og um 10.900 launþegar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og hafði launþegum fjölgað um 1.200 eða um 13% samanborið við mars 2016. Sömuleiðis voru í mars 1.547 launagreiðendur og um 24.000 launþegar í einkennandi greinum  ferðaþjónustu og hafði launþegum fjölgað um 2.800 eða um 13% á einu ári. Launþegum hefur á sama tíma fjölgað um 5.900 eða um 3%.

Brotthvarfi Baldurs mótmælt harðlega

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar mótmælir harðlega þeirri ákvörðun að taka Breiðafjarðarferjuna Baldur úr áætlun yfir Breiðafjörð með tilheyrandi röskun fyrir íbúa og atvinnulíf.  Baldur hefur gert hlé á ferðum sínum milli Stykkishólms og Brjánslækjar þar sem skipið var lánað til Vestmannaeyja til afleysinga á meðan Herjólfur er í slipp.

Í bókun bæjarstjórnar frá því í gær er bent er á að ferðir Baldurs eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu á svæðinu svo og aðrar útflutningsgreinar. Baldur fer væntanlega í slipp í haust og fækkar það enn ferðum ferjunnar á þessu ári. Bæjarstjórn Vesturbyggðar krefst þess að samgönguyfirvöld útvegi ferju til að leysa Breiðafjarðarferjuna Baldur af líkt og fordæmi eru fyrir annars staðar í landinu.

Nýjustu fréttir