Mánudagur 2. september 2024
Síða 2200

Fordæmir verkfallsbrot

Miðstjórn ASÍ ályktaði í dag um fullan stuðning við verkföll og kjarabaráttu sjómanna og vélstjóra. Í ályktuninni kemur fram að útgerðarmenn hafi árum saman neitað að ganga til samninga við sjómenn og vélstjóra og sett fram óbilgjarnar kröfur um að launafólk greiði verulegan hluta af eðlilegri greiðslu fyrirtækjanna fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Jafnframt fordæmir miðstjórnin þau verkfallsbrot sem framin hafa verið og skorar á útgerðarmenn að virða löglega boðaðar aðgerðir sjómanna og ganga nú þegar til kjarasamninga.

bryndis@bb.is

FKA bjóða upp á námskeið í leiðtogaþjálfun

Hrefna Birgitta Bjarnadóttir. Mynd: bruen.is

FKA á Vestfjörðum, sem er hinn vestfirski armur Félags kvenna í atvinnulífinu stendur fyrir námskeiði í markmiðasetningu og leiðtogaþjálfun á veitingastaðnum Við Pollinn á morgun. Það er Hrefna Birgitta Bjarnadóttir sem kennir á námskeiðinu, en hún er flestum hnútum á málefninu kunn, annarsvegar sem NLP sérfræðingur og markþjálfi og hinsvegar sem frumkvöðull og athafnakona. Hún er með áratugalanga reynslu á sviði kennslu og fyrirlestra og hefur búið og starfað um margra ára skeið í Noregi og Danmörku. Þar, eins og á Íslandi, hefur hún komið að fjölda verkefna fyrir vinnu-, velferða- og heilbrigðiskerfisins. Hún hefur einnig komið að breytingaferli, stefnumótun og stjórnendaþjálfun, stærri og smærri fyrirtækja í þessum löndum.

Á námskeiðinu munu þátttakendur meðal annars læra hvernig ná má markmiðum sínum á auðveldari hátt, fá innsýn í NLP markþjálfun og nota þau verkfæri til að gera markvisst stefnumótunarferli.

Námskeiðið er þriggja klukkustunda langt og hefst það klukkan 11:30. Við skráningum tekur Hólmfríður Vala á
netfanginu vala@hotelisafjordur.is. Námsskeiðið er opið öllum konum og er það kostnaðarlausu fyrir félagskonur FKA á Vestfjörðum.

annska@bb.is

Engar uppsagnir hjá HG

Engar uppsagnir hafa verið hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvöru í Hnífsdal vegna verkfalls sjómanna sem staðið hefur hátt í mánuð og verið þess valdandi að margar fiskvinnslur á landinu hafa gripið til þess ráðs að segja upp landverkafólki tímabundið vegna skorts á hráefni. Kristján G. Jóakimsson vinnslustjóri hjá HG segir að starfsfólki þeirra hafi verið boðið að sitja námskeið í verkfallinu, jafnframt því sem frá desemberlokum hafi verið eitthvað um vinnslu á eldisfiski, en búið er að slátra á annað hundrað tonnum úr fiskeldiskvíum frá desemberlokum. Kristján segist í ljósi þess að samningafundir séu daglega um þessar mundir, vera vongóður um að brátt sjái fyrir lok verkfallsins.

Um sextíu manns vinna í vinnslum HG í Hnífsdal og Ísafirði og hafa flestir þeirra setið námskeið á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða í verkfallinu, en að námskeiði loknu öðlast þeir starfsheitið sérhæfður fiskvinnslumaður. Í náminu er farið í sjálfstyrkingu, samskipti, fjölmenningu, öryggismál, kjarasamninga, gefin yfirsýn yfir greina sem og markaðsmál og síðast en ekki síst er farið ítarlega í gæðamál og meðferð matvæla.

annska@bb.is

Tekjur hærri, útgjöld lægri

Stjórnsýsluhús Ísafjarðarbæjar

Samkvæmt minnisblaði Helgu Ásgeirsdóttur verkefnastjóra á fjármálasviði sem lagt var fyrir bæjarráð á mánudaginn eru útsvarstekjur fyrstu ellefu mánuði 2016 tæpum 6 milljónum hærri en áætlað var í upphafi árs og rúmum 16,6 milljónum hærri en á sama tímabili árið 2015. Sömuleiðis eru greiðslur frá Jöfnunarsjóði hærri en áætlað var um kr. 1,8 milljónir króna. Launakostnaður er tæpum 4 milljónum lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir og má því ætla að staða bæjarsjóðs hafi batnað um rúmar 11 milljónir í lok nóvember miðað við áætlanir.

bryndis@bb.is

Djúpið teppalagt, eða ekki

Teppisbútar víðs vegar um Djúpið

Þorsteinn Másson starfsmaður Arnarlax skrifaði í gær grein sem birt var á bb.is þar sem hann útskýrir yfirlitskort yfir eldissvæði Arnarlax í Ísafjarðardjúpi. Myndin sem tekin er úr tillögu að matsáætlun sem Arnarlax hefur skilað til Skipulagsstofnunar og sýnir áætluð svæði fyrir kvíar, sýnir svæðin sem mislita búta víðsvegar um djúpið. Í Fréttatímanum er fjallað um þessa mynd með fyrirsögninni „Ísafjarðardjúp teppalagt með laxeldiskvíum“. Um málið er líka fjallað á facebook síðu Landssambands veiðifélaga en sem kunnugt er eru stangveiðimenn og samtök þeirra mjög ósátt við opið sjókvíaeldi

Þorsteinn segir í grein sinni að myndin gefi skakka mynd og að svæðin sem fari undir kvíar séu aðeins brotabrot af því sem „teppisbútarnir“ gefi til kynna. Sótt er um svæði sem fyrirtækin hafa áhuga á að nota undir eldið, síðan sé farið í rannsóknir sem eiga að tryggja að kvíarnar verði á besta mögulega staðnum inn á svæðinu.

Þau eru þrjú eldisfyrirtækin, Arnarlax, Arctic Sea Farm og Hraðfrystihúsið Gunnvör sem nú hyggja á stórfellt eldi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi og eru leyfismál mislangt á veg komin. Fyrir liggur að félagið Náttúruvernd 1 hefur stefnt Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Arnarlaxi vegna leyfisveitinga í Arnarfirði en eigendur Náttúruverndar 1 eru eigendur Kirkjubóls, Hringdals og Grænuhlíðar í Arnarfirði, eigendur veiðiréttar í Haffjarðará á Snæfellsnesi og veiðifélag Laxár á Ásum í Austur Húnavatnssýslu. Að sögn Jóns Steinars Gunnlaugssonar lögmanns Náttúruverndar 1 stendur til að stofna Náttúruvernd 2, 3 og jafnvel fleiri eftir atvikum. Í Viðskiptablaðinu er haft eftir Jóni „ Það er ætlun þess hóps sem stendur að þessu að láta reyna á lögmæti sjókvíaeldisstöðva víðsvegar um land. Búið er að reyna að andæfa þessu á stjórnsýslustiginu en það hefur ekki borið árangur og þess vegna er nú verið að fara með málið fyrir dómstóla. Í grunninn snýst þetta allt saman um verndun verðmætra náttúruréttinda á Íslandi.“

bryndis@bb.is

Kalt og stöku él

Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir norðaustan 5-13 m/s á Vestfjörðum í dag með stöku éljum. Kalt verður í veðri og frost yfirleitt á bilinu 5 til 10 stig. Veður verður með svipuðum hætti á morgun, en þó harðar enn frekar í frostinu. Á föstudag er búist við hægri breytilegri átt á landinu, léttskýjuðu og talsverðu frosti, en dálítil él verða við norður- og norðausturströndina. Síðan tekur að hlýna á landinu og á sunnudag er búist við hitatölum vel yfir frostmarki eða 4-12 stigum.

Á Vestfjörðum er snjóþekja eða hálka og þæfingur í Ísafjarðardjúpi.

annska@bb.is

Viðurkenningar veittar fyrir bestu tuðrurnar

Arna Dalrós Guðjónsdóttir með pokann sem sigraði í einstaklingsflokki, Elísabet Finnbjörnsdóttir með þann sem var í öðru sæti, Örn Smári Gíslason með poka Fánasmiðjunnar og Lína Tryggvadóttir með poka Elínar Viktoríu Gray.

Arna Dalrós Guðjónsdóttir menntaskólanemi á Ísafirði bar sigur úr býtum í einstaklingskeppni hönnunarsamkeppninnar Tuðrunnar, en tilkynnt var um úrslitin í dag í sal Þróunarseturs Vestfjarða. Fánasmiðjan var hlutskörpust í fyrirtækjaflokki fyrir tuðru sem gerð er úr efni sem fellur til við fánagerð hjá fyrirtækinu. Það er Fjórðungssamband Vestfirðinga sem stóð fyrir keppninni og var markmið hennar að fá einstaklinga til að huga að hráefni sem væri hægt að nýta og félli til á heimaslóðum og færi í rusl eða flokkun. Nemendur á grunnskólaaldri voru sértaklega hvattir til að taka þátt í keppninni, en einnig einstaklingar og fyrirtæki og voru sendir póstar í alla skóla á Vestfjörðum til að vekja athygli á keppninni.
Það voru þær Tinna Gunnarsdóttir, prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands og Ásthildur Björg Jónsdóttir, lektor í listkennsludeild LHÍ, sem völdu bestu tuðrurnar, en 28 tillögur bárust í keppnina og vöru kynjahlutföll hönnuðanna nokkuð jöfn. Veitt voru ein verðlaun í fyrirtækjaflokk og þrjú verðlaun í einstaklingsflokki.

Í umsögn dómnefndar um tösku Örnu Dalrósar segir: Hráefnið í töskunum er sterkt, endurnýtt og því í anda sjálfbærra áherslna. Pokinn er bæði þægilegur og handhægur og bæði hægt að nota hann með ól, baki eða halda á honum í hendi. Taskan er fallega útfærð og gefur sterka tengingu við Vestfirði með blýantsteikningu sem er framan á. Arna Dalrós hlaut að launum 25.000 krónur ásamt 20 tímum í ráðgjöf hjá AtVest við gerð viðskiptaáætlunar vegna hugmyndarinnar.
Arna Dalrós var að vonum glöð með sigurinn en pokinn, sem gerður er út skútusegli sem átti að henda, er hennar fyrsta hönnunarverk. Hún hóf nám við listnámsbraut Menntaskólans á Ísafirði síðastliðið haust og var pokahönnunin það fyrsta sem hún gerði í náminu að áeggjan Ástu Þórisdóttur kennara hennar.

Í umsögn dómnefndar um poka Fánasmiðjunnar, sem mörgum Vestfirðingum er að góðum kunnur var sagt: Taskan þeirra er unnin úr fánum sem falla frá eða eru ónýtir í framleiðslu. Hráefnið í töskunum er því endurnýtt og í anda sjálfbærra áherslna. Pokarnir eru bæði þægilegir og handhægir og geta borið þunga fjölbreytta vöru. Fánasmiðjan hlaut einnig 25.000 króna verðlaunafé og 20 tíma hjá Atvest.

Elísabet Finnbjörnsdóttir menntaskólanemi á Ísafirði var í öðru sæti í einstaklingskeppninni og hlaut hún 15.000 krónur í verðlaunafé fyrir. Um hennar poka var sagt: Hráefni töskunnar er endurnýtt og því í anda sjálfbærra áherslna með sterkri skírskotun tilhelstu atvinnugreinar á Vestfjörðum. Pokinn virkar bæði þægilegur og handhægur og getur borið þunga og fjölbreytta vöru.

Þriðju verðlaun 10.000 hlaut Elín Viktoría Gray grunnskólanemi á Hólmavík og þetta sagði dómnefndin: Hráefni töskunnar er endurnýtt úr gömlu tjaldi og því í anda sjálfbærra áherslna. Pokinn er bæði þægilegir og handhægur og getur borið þunga vöru. Pokinn er frekar lítill en skemmtilegur í laginu og líflegur. Hann bíður upp á fjölbreytt skilaboð sem gerir hvern poka sérstakan.

Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa undanfarin ár unnið að því að fá Vestfirði umhverfisvottaða. Árið 2016 fengu sveitarfélögin vottun fyrir starfsemi sína 2015 og er það ætlun þeirra að halda áfram með það verkefni. Verkefnið plastpokalausir Vestfirðir varð til sem hliðarverkefni út frá umhverfisvottuninni.

Arna Dalrós með töskuna sem bar sigur úr býtum í einstaklingsflokki
Örn Smári tekur við viðurkenningu fyrir hönd Fánasmiðjunnar

Bolungarvík greiðir frístundastyrki

Það eru spennandi og flott verkefni sem íbúar Bolungarvíkur geta valið á milli næstu daga. Mynd: SJS.

Á fjárhagsáætlun Bolungarvíkur er gert ráð fyrir að greiða út frístundastyrki til ungmenna fæddra 1997 og síðar í formi frístundakorta sem nýtast geta öllum börnum og unglingum sem eiga lögheimili í Bolungarvík. Styrkur er greiddur út vegna útgjalda sem myndast á almanaksárinu 2017 og getur hann mestur orðið 20.000 krónur á einstakling. Beiðnir um endurgreiðslu eiga að berast á árinu á Bæjarskrifstofu Bolungarvíkur og skila þarf kvittunum á bæjarskrifstofu fyrir greiðslu á þátttökugjöldum vegna íþrótta eða lista til að fá styrk greiddan.

annska@bb.is

Viðskiptahraðall, hvað er nú það

Startup Tourism sem er samstarfsverkefni Isavia, Íslandsbanka, Bláa lónsins og Vodafone, auglýsa nú eftir sprotafyrirtækjum í ferðaþjónustu til að taka þátt í 10 vikna námskeiði sem kallað er Viðskiptahraðall. Þátttakendur fá aðgang að fullútbúinni vinnuaðstöðu á tímabilinu, leiðbeiningu og ráðgjöf frá reyndum frumkvöðlum, fjárfestum og sérfræðingum. Verkefninu þetta árið mun ljúka 28. apríl með kynningum fyrirtækjanna fyrir fullum sal af fjárfestum og lykilaðilum í ferðaþjónustunni.

Markmið Startup Tourism er samkvæmt heimasíðu þeirra að efla frumkvöðlastarf í ferðaþjónustu og ýta undir atvinnu- og verðmætasköpun á Íslandi. Ennfremur að stuðla að faglegri undirstöðu hjá nýjum fyrirtækjum í ferðaþjónustu og dreifingu ferðamanna í kringum landið, árið um kring.

Sótt er um á heimasíðu Startup Tourism og er umsóknarfrestur er til 16. janúar.

bryndis@bb.is

Fárveikum manni gert að hringja í 1700

Það er ekki nóg að komast inn um þessar dyr, þú þarft samt að hringja eftir aðstoð.

Á laugardag kom vegfarandi á Hlíðarvegi á Ísafirði að manni sem fengið hafði aðsvif og lognast út af. Bankaði hinn gangandi vegfarandi strax upp á í næsta húsi og bað húsráðendur að hringja á eftir hjálp. Maðurinn var þá kominn til fullrar meðvitundar og gat gert grein fyrir því að hann væri á leið á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða til að leita hjálpar vegna lungnabólgu sem þjakaði hann. Húsráðendur brugðu á það ráð að annar skyldi aka honum beint á sjúkrahúsið sem er staðsett steinsnar frá húsinu, á meðan að hinn hringdi á lækni.

Ekki svaraði strax í 1700, svo húsráðandi fletti upp númeri undir formerkjum Læknavaktarinnar og fær þá að það sé 1770. Eftir að hafa valið sig áfram til að fá loks aðstoð, kom í ljós að hann var númer þrjú í röðinni. Ákvað hann þá að hringja í 112, en segir að talsvert sé nú síðan að mennirnir hafi komið á sjúkrahúsið og því eflaust búnir að fá aðstoð.

Móttökur á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða voru með þeim hætti að sjúklingnum og þeim sem aðstoðaði hann var bent á að hringja vaktsímann 1700 til að fá aðstoð. Íbúinn sem heima sat við símann hringdi þá aftur í 112, þar sem boðist var til að hringja eftir sjúkrabíl fyrir manninn sem þegar var kominn á sjúkrahúsið, til þess að kalla mætti til lækni eftir þeim leiðum.

Í nóvember kom upp tilvik af svipuðum toga, slasaður maður sem kom sér sjálfur á sjúkrahúsið var gert að dúsa í anddyrinu og hringja sjálfur í hjúkrunarfræðing í Reykjavík sem gaf honum svo samband við lækni á Ísafirði. Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóra lækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sagði þá að það væri stundum ekki ljóst ef sjúklingar komi sér sjálfir á staðinn eftir almennan opnunartíma stofnunarinnar, hvort vandinn sé af þeim toga að beri að bregðast við honum strax eða hvort málin geti fengið afgreiðslu í gegnum vaktnúmerið 1700. Segir hann að ef um augljós bráðatilvik er að ræða séu sjúklingar fyrirvaralaust teknir inn á deild og læknir kallaður til og í þessu tilfelli hefði átt að taka strax á móti sjúklingnum.

Svör Hallgríms við þessu tilviki eru á svipaðan veg, hringja ætti í neyðarnúmer eftir aðstoð eða sjúklingar sem sjálfir eða með aðstoð annarra komast á sjúkrahúsið er gert að hringja sjálfir í vaktsíma. Í báðum þessum tilvikum er heilbrigðismenntað starfsfólk inn á stofnuninni á meðan að annað heilbrigðismenntað starfsfólk annarsstaðar á landinu reynir að greina gegnum síma hvort viðkomandi þurfi aðstoð eða ekki, og í báðum þessara tilfella mátti þykja ljóst að mennirnir þurftu aðstoðar læknis, en maðurinn í þessu tilfelli reyndist alvarlega veikur.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir