Sunnudagur 19. janúar 2025
Síða 2200

Taupokarnir taka yfir

Í Suðupotti sjálfbærra hugmynda sem starfræktur var í Skóbúðinni í vetur komu fram margar hugmyndir um með hvaða hætti íbúar á svæðinu gætu tamið sér umhverfisvænni lífsstíl. Ein var sú hugmynd sem oftast heyrðist og það var að komið yrði upp taupokastöðvum á Ísafirði svo sporna mætti við notkun plastpoka. Í vetur hófu Suðupottsþátttakendur að sauma poka og má segja að fyrsta hlassið sé tilbúið til notkunar.

Í næstu viku verður Græn vika í Ísafjarðarbæ og þá er hugmyndin að allir leggist á eitt við að útbúa fjölnota poka í stórum stíl og hefur Hildur Dagbjört Arnardóttir, umhverfisfrumkvöðull á Ísafirði fengið til liðs við sig hina ýmsu aðila í bænum til að pokasafnið verði sem stærst. Nemendur í Grunnskólanum á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri, Bolungarvík og Súðavík munu til að mynda gera poka úr bolum.  Vesturafl og Fjölsmiðjan framleiða einnig poka í stórum stíl og munu einnig sjá um móttöku á fjölnota pokum, merkja þá og koma þeim í pokastöðina. Þá verður Klæðakot með opna taupokasmiðju þar sem tekið verður við gömlum gardínum, sængurfötum eða hverju öðru sem nothæft er í taupoka. Saumastofan stendur svo opin öllum þeim sem vilja leggja hönd á plóg við að sauma poka úr efninu.  Í samvinnu við Fablab verður smíðaður pokastandur úr endurnýttum efnivið.

Hildur Dagbjört segir það ekki þurfa að vera flókið að breyta gömlum bolum í poka og hér má sjá þrjár útfærslur sem styðjast má við:

bolapoki

Texti: Aðferð 1 er ofureinföld og tekur ekki nema ca. 5 mínútur, skæri og að binda einn hnút.

bolapoki-II

Texti: Aðferð 2 er líka einföld en tekur ca. 15-30 mínútur (eftir aldri), skæri og binda marga hnúta.

Aðferð 3 er fljótleg og einföld en þarf saumavél og skæri:

https://www.youtube.com/watch?v=hnRjkdLfxEQ

Hildur Dagbjört segir líka einfalt að gera ýmiskonar poka úr endurnýttum efnum, gömlum gardínum, rúmfötum, púðaverum og fleiru þess háttar: „Það eru engar kröfur um útlit, allir pokar eru velkomnir sama hvernig þeir líta út.  Það er til fullt af hugmyndum á netinu og á youtube, en líka einfalt að láta hugmyndaflugið ráða ferðinni.“

Fánasmiðjan á Ísafirði styrkir verkefnið og hafa þar verið útbúnar merkingar fyrir 500 poka. Þá hefur Rauði krossinn á Ísafirði safnað mikið af bolum sem fá brátt nýtt líf í hlutverki taupoka.

„Það er svo mikilvægt að allir krakkar, ungt fólk og fullorðnir – allir íbúarnir á Norðanverðum Vestfjörðum, búi til poka og finnist að þeir eigi eitthvað í þessu verkefni!  Það passar svo vel að taka þetta átak í Grænu viku Ísafjarðarbæjar og opna okkar eigin pokastöð svo í lok vikunnar. Við getum svo í framhaldinu séð aðra ganga um bæinn með pokana sem við gerðum. Er það ekki dásamlegt?“ Segir Hildur Dagbjört og bætir við hvatningu inn á alla vinnustaði á svæðinu um að allir taki eins og einn 15 mínútna kaffitíma í að gera einn poka á mann – og þannig megi fylla bæinn af taupokum og draga úr plastpokanotkuninni.

Pokastöðvar eru að sækja í sig veðrið með aukinni umfjöllun um skaðsemi plasts í umhverfinu og hefur til að mynda slík verið á Höfn í Hornafirði í eitt og hálft ár og gengið mjög vel:

„Nú er fullt af fólki út um allt land að feta í þeirra fótspor og gera pokastöð í sínu byggðalagi.  Og ekki nóg með það, þá er verið að koma upp svona pokastöðum út um allt í heiminum og við verðum hluti af alþjóðlegu pokastöðvaverkefni, og pokarnir geta flakkað á milli allra boomerang-bags pokastöðvanna á íslandi og í öllum heiminum!“ Segir Hildur Dagbjört sem bjartsýn er á að verkefnið verði farsælt á Ísafirði sem víðar:

„Fyrsta pokastöðin verður í Nettó á Ísafirði þar sem allmargir leggja leið sína fyrirvaralaust og hefur oft vantað fjölnotapoka. En að sjálfsögðu verða opnaðar fleiri pokastöðvar, t.d. í Bolungarvík, Súðavík, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Bónus, svo lengi sem við erum tilbúin til að sauma poka í pokastöðvarnar.“

Hver og einn ætti að geta gert í það minnsta einn poka.  Pokunum má skila í Vesturafl (Suðurgötu 9) milli 10 og 16 virka daga, þar sem þeir verða merktir pokastöðinni. Hafi einhverjir spurningar varðandi verkefnið, vilji koma að verkefninu á annan hátt eða komist ekki á opnunartíma Vesturafls þá má hafa samband við Hildi Dagbjörtu í síma 8445963 eða á netfangið hda@verkis.is

annska@bb.is

Mandarínönd í Bolungarvík

Hinn litskrúðugi gestur snyrtir sig á steini. Mynd: Ágúst Svavar Hrólfsson.

Vorið kemur með margan fiðraðan gestinn hingað til lands. Fjölmargar fuglategundir hafa hér búsetu yfir sumartímann og auðga til muna hin fjölskrúðuga fuglalíf sem hér þrífst. Þá eru einnig innan um sjaldséðir gestir sem kannski hyggja ekki á búsetu til langframa en flækjast um stund hér um, sjónarvottum til gleði. Einn slíkur gestur hefur verið í Bolungarvík að undanförnu og er það skrautlegur mandarínandarsteggur. Madarínendur eru upprunar í Austur Asíu, en vegna skrautlegs útlits síns hafa þær verið vinsælar í lystigörðum í Evrópu. Þær hafa fram til þessa ekki verið þekktir varpfuglar hér á landi en flækjast reglulega hingað til lands.

Mandarínönd í Bolungarvík. Mynd: Ágúst Svavar Hrólfsson.

Ljósmyndarinn Ágúst Svavar Hrólfsson náði á dögunum að fanga fuglinn með linsu myndavélar sinnar, en fuglinn hafði látið hafa talsvert fyrir sér áður en þessar glæsilegu myndir náðust.

annska@bb.is

 

Kennarar víða að heimsækja Ísafjörð

Hópurinn saman kominn á Ísafirði

Kennarar við Grunnskólann á Ísafirði hafa undanfarin tvö ár verið þátttakendur í verkefni á vegum Erasmus+, menntaáætlunar Evrópusambandsins. Í verkefninu sem snýr að því að skoða frammistöðu minnihlutahópa í þátttökuskólum, taka auk Íslands þátt kennarar frá Þýskalandi, Portúgal, Kýpur, Króatíu og Lettlandi. Hafa þau verið að skoða hvort munur sé á námsframvindu hjá minnihlutahópum og ef svo er, hvað er hægt að gera til að leiðrétta það.

Þessa vikuna var haldinn síðasti fundur verkefnisins hér á Ísafirði. En fram til þessa hafa farið tveir fulltrúar frá Ísafirði á fund í hverju þátttökulandi nema til Riga, en þangað fóru þrír kennarar ásamt Olgu Veturliðadóttur skólastjóra. Auk fjögurra kennara við Grunnskólann á Ísafirði taka tólf kennarar frá hinum löndunum þátt í verkefninu og eru þeir nú komnir hingað í heimsókn. Samhliða því að setja saman lokaskýrsluna fyrir verkefnið hefur hópurinn gert víðreist um svæðið og meðal annars heimsótt Stjórnsýsluhúsið þar sem þar sem Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri, Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari og Margrét Halldórsdóttir sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs tóku á móti hópnum. Þau fóru einnig í heimsókn til Bolungarvíkur þar sem Ósvör var meðal annars skoðuð og fengu leiðsögn um Skutulsfjarðareyri. Erlendu gestirnir halda svo til síns heima í dag eftir viðburðarríka viku á Ísafirði.

Fram til þessa hafa verið haldnir fundir í hverju landi þar sem kennarar hafa kynnt verkefnin sem þeir hafa unnið ásamt nemendum sínum á milli funda. Bryndís Bjarnason er ein þeirra sem tekið hefur þátt í verkefninu og segir hún verkefnin hafa verið fjölbreytt og kennararnir lært mikið sem nýtist þeim vel í kennslu sinni hér heima. annska@bb.is

Erasmus-Iso-17

Hópurinn saman kominn á Ísafirði

Gerið grillin klár!

Veðurstofa Íslands spáir fremur hægri suðvestlægri eða breytilegri átt á Vestfjörðum í dag og björtu að mestu, með hita á bilinu 6 til 13 stig að deginum. Í dag og næstu daga er gert ráð fyrir fínasta vorveðri hér landi og ætti sólin að leika við landsmenn. Í athugasemdum veðurfræðings segir þó að nú sé hins vegar er sá árstími að ganga í garð er hafgolan fer að láta á sér kræla og sem mörgum þyki hvimleið. Svona snemma vors hefur hún talsverðan kælingarmátt sem gæti spillt vortilfinningunni fyrir einhverjum, jafnframt því sem þoku kunni að gæta einhversstaðar.

Engu að síður er veðurspáin frábær fyrir helgina þar sem spáð er bjartviðri og hita frá 9 að 19 stigum á morgun. Það er því vel til fundið að draga fram grillin, sem sum hver hafa eflaust verið í pásu frá því síðasta sumar og njóta blíðunnar.

Veðurstofa Íslands spáir fremur hægri suðvestlægri eða breytilegri átt á Vestfjörðum í dag og björtu að mestu, með hita á bilinu 6 til 13 stig að deginum. Í dag og næstu daga er gert ráð fyrir fínasta vorveðri hér landi og ætti sólin að leika við landsmenn. Í athugasemdum veðurfræðings segir þó að nú sé hins vegar er sá árstími að ganga í garð er hafgolan fer að láta á sér kræla og sem mörgum þyki hvimleið. Svona snemma vors hefur hún talsverðan kælingarmátt sem gæti spillt vortilfinningunni fyrir einhverjum, jafnframt því sem þoku kunni að gæta einhversstaðar.

Engu að síður er veðurspáin frábær fyrir helgina þar sem spáð er bjartviðri og hita frá 9 að 19 stigum á morgun. Það er því vel til fundið að draga fram grillin, sem sum hver hafa eflaust verið í pásu frá því síðasta sumar og njóta blíðunnar.

annska@bb.is

Formleg opnun Nettó

Ingólfur Hallgrímsson verslunarstjóri í búðinni eftir gagngerar breytingar.

Eins og Ísfirðingar hafa verið varir við síðustu vikur hafa staðið yfir miklar breytingar á verslun Samkaupa. Á hádegi í dag var formleg opnun verslunarinnar sem er nú rekin undir nafni Nettó.

Samkaup rekur verslunarkeðjurnar  Nettó, Kjörbúðina og Krambúð. Í tilkynningu segir að með opnun Nettó Ísafjarðar er Samkaup að svara kalli bæjarbúa um aukna þjónustu, meira vöruúrval og vörur á góðu verði sem og auknum straumi ferðamanna. Nettó verslunin á Ísafirði er sú 16 í röð Nettó verslana.

„Við höfum góða reynslu af því að þjóna íbúum á Vestfjörðum og töldum mikilvægt að Ísfirðingar fengiu sína Nettó verslun.Miklar breytingar hafa verið gerðar á versluninni og að því komu fjölmargir verslunarstjórar úr verslunum víða um land,“ segir Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samkaupa. Verslanir Samkaupa eru í allt 47 talsins og um 75% þeirra úti á landi. Þær eru af misjöfnum stærðum og aðlagaðar staðháttum á hverjum stað. Nýja verslunin á Ísafirði er með vöruúrval eins og það gerist best í Nettóverslununum.

Hallur Geir Heiðarsson rekstrarstjóri Nettóverslananna segir áherslur verið lagðar á gott úrval af grænmeti og ávöxtum, nýbakað brauðmeti, heilsuvörur og lífrænt ræktaðar vörur. Stórir hringir í loftum afmarka þessa áherslu og yfir grænmetinu koma innan tíðar koma rakatæki sem tryggja sem hagkvæmasta rakastig í grænmetis- og ávaxtadeildinni.

Samkaup er í samstarfi við samtök Coop verslana sem tryggir þeim aðgang að góðum vörum á hagstæðu verði. Áhersla er lögð á góða þjónustu og lágt verð til viðskiptavina enda eru viðskiptavinirnir í gegnum kaupfélögin í raun eigendu.

Á formlegri opnun verslunarinnar í dag verður boðið uppá kaffi og köku og skrifað undir styrktarsaming við körfuknattleiksdeild Vestra. Einnig styrkir Nettó Vinnuver – Starfsendurhæfingu Vestfjarða, Vesturafls og Fjölsmiðjunnar.

Norðmenn flykktust í Fossavatnsgönguna

Fossavatnsganga er fyrir löngu orðin alþjóðlegur viðburður og keppendur frá 24 þjóðum tóku þátt í göngunni í ár. Stjórnendur göngunnar hafa tekið saman tölfræði yfir gönguna. Íslendingar voru að sjálfsögðu fjölmennastir, eða 517. Frá Noregi komu 132 keppendur og Bandaríkjamenn voru einnig áberandi í brautunum en alls komu 90 keppendur frá Bandaríkjunum. Frá Svíþjóð komu 40 keppendur og 36 frá Tékklandi.

Samtals voru skráðir 1069 keppendur í alla greinar Fossavatnsgöngunnar en 852 luku keppni.

639 keppendur voru skráðir til leiks 50 gönguna, en 512 hófu keppni og 495 komust í mark.

Leigjendum fjölgar

 

Hlutfall þeirra sem eru á leigumarkaði er fimm prósentustigum hærra en árið 2008. Þá voru 12 prósent á leigumarkaði en eru 17 prósent nú, segir í niðurstöðum nýrrar viðhorfskönnunar sem Íbúðalánasjóður gerði meðal almennings um stöðu húsnæðismála. 93% landsmanna telja óhagstætt að leigja íbúðarhúsnæði á Íslandi en hlutfallið var rúm 55% árið 2011.

Könnunin leiidi í ljós að fólk gæti lagt meiri pening fyrir en áður. Tæp 62% sögðust nú ná að safna talsverðu eða svolitlu sparifé samanborið við tæp 42% árið 2011, en leigjendur gætu síður safnað en eigendur. Þrátt fyrir að fleiri gætu lagt fyrir væri staðan erfið.

Í könnuninni var fólk spurt spurt hvers vegna það væri að leigja. Nær eingöngu tvær ástæður voru gefnar upp: Fólk hafði ekki efni á að kaupa eða það komst ekki í gegnum greiðslumat. Ástæður sem fólk gaf upp í sambærilegum könnunum sem Íbúðalánasjóður lét gera árin 2011 og 2013 eiga ekki lengur við og heyrðust ekki í könnuninni nú: Að óvissa væri á húsnæðismarkaði eða í þjóðfélaginu, það væri ódýrara að leigja, eða fólk væri búið að tapa miklu fé í núverandi eða fyrra húsnæði.

Bjóða upp á heyrnarmælingar fyrir ungabörn

Heyrnarfræðingar Heyrnar- og talmeinstöðvar Íslands verða staddir á Ísafirði og Bolungarvík dagana 29. og 30. maí og bjóða foreldrum barna sem fædd eru síðustu 6 mánuðina, og ekki hafa verið skimuð á heyrn, að panta tíma fyrir börn sín.

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands er ríkisstofnun sem sinnir greiningu, meðferð og endurhæfingu fólks með heyrnar- og talmein. Á forvarnarsviði annast stöðin m.a. skimun á heyrn allra nýbura sem fæðast á landinu, í samvinnu við LSP í Reykjavík og Sjúkrahúsið á Akureyri. Starfsmenn HTÍ ferðast um landið og mæla heyrn þeirra nýbura sem ekki fæðast á fyrrtöldum fæðingardeildum.

Heyrnarskimun ungbarna er einföld og sársaukalaus mæling sem tekur aðeins örfáar mínútur. Best er að koma með börnin sofandi í vögnum eða burðarrúmum og þau mega ekki vera kvefuð eða með eyrnabólgur.

Foreldrar geta haft samband við Heyrnar-og talmeinastöð til að skrá börn sín í heyrnarskimun.

Verkalýðsfélagið flytur

Verkalýðsfélagið opnar á mánudaginn í Neista.

Verkalýðsfélag Vestfirðinga opnar nýja skrifstofu á mánudaginn í Hafnarstræti 9 (Neista). Verkalýðsfélagið og forverar þess hafa í 30 ár verið til húsa Pólgötu 2. Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður félagsins, segir að húsnæðið hafi verið komið til ára sinna og ekki uppfyllt nútíma kröfur. „Við sáum fram á miklar og dýrar endurbætur og fengum Tækniþjónustu Vestfjarða með okkur í lið að verðmeta breytingarnar. Það kom í ljós að það var hagstæðara fyrir okkur að kaupa nýtt húsnæði. Við verðum núna með gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða en það var farið há okkur verulega að vera ekki með lyftu upp á aðra hæð í Pólgötunni,“ segir Finnbogi.

Verkalýðsfélagið er með Pólgötu 2 í söluferli og Finnbogi segir vonir standa til að það gangi upp.

Fyrsti útileikur Vestra

Vestri á fyrir höndum erfiðan útileik á sunnudag þegar liðið mætir Knattspyrnufélagi Vesturbæjar (KV) á KR vellinum í Reykjavík. Eftir tvær umferðir í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu er Vestri með sex stig, en liðið sigraði fyrstu tvo leikina sem voru báðir á Torfnesi á Ísafirði. Fyrri viðureignin var við Fjarðabyggð og Vestri sigraði leikinn 1-0 og um síðustu helgi mættust Vestri og Magni og heimamenn sigruðu 3-1.

KV byrjaði tímabilið illa, en liðið steinlá á heimavelli fyrir Magna, 3-1. Um síðustu helgi gerðu Vesturbæingarnir 2-2 jafntefli við Hött. Liðið er í 11. og næstneðsta sæti deildarinnar með 1 stig.

Leikurinn á sunnudag hefst kl. 16.

Nýjustu fréttir