Mánudagur 2. september 2024
Síða 22

Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson með tónleika í Steinshúsi

Ólöf Arn­alds og Skúli Sverrisson verða með tónleika í Steinshúsi sunnudaginn 11. ágúst kl. 15. Ókeypis aðgangur.
Ólöf Arn­alds hóf sól­ó­feril sinn með hinni róm­uðu „Við og við.“ Á erlendri grundu var „Við og við“ valin ein af bestu plöt­u­m árs­ins af Paste Mag­azine og eMusic valdi hana eina af bestu plötum fyrsta ára­tug­ar­ins. Ólöf hefur síðan gefið út plöt­urnar Inn­undir skinni, Sudden Elevation og Palme. Hún hefur leikið á tón­leikum víðs­vegar um Evr­ópu, Banda­ríkin og Ástr­alíu og komið fram í útvarpi og sjón­varpi. Fjöldi erlendra miðla hafa fjallað um Ólöf­u og verk henn­ar. Mætti þar nefna The New York Times, The Guar­di­an, Vanity Fair, Paste, BBC, KEXP og Uncut. Fimmta hljómplatan með lögum og ljóðum Ólafar er væntanleg vorið 2025. Ólöf hefur tvisvar unnið til Íslensku tónlistarverðlaunanna og verið tilnefnd til Norrænu Tónlistarverðlaunanna fyrir verk sín. Ólöf samdi nýja tónlist ásamt Skúla Sverrissyni við leikritið „Saknaðarilmur“ sem frumsýnt var á síðasta leikári Þjóðleikhússins og hlutu þau Grímuverðlaunin 2024 fyrir.
Skúli Sverrisson á að baki einstakan feril sem tónskáld, upptökustjóri og spunatónlistarmaður með breiðum hópi alþjóðlegra listamanna. Má þar nefna Blonde Redhead, Lou Reed, Allan Holdsworth, David Sylvian, Davíð Þór Jónsson, Trio Mediæval, Arve Henriksen, Báru Gísladóttur og Bill Frisell. Þá var hann náinn samstarfsmaður Laurie Anderson um árabil. Skúli hefur leikið á yfir 200 útgáfum. Hann hefur unnið til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir verk sín alls sjö sinnum og tvisvar verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Skúli hefur samið nýja tónlist fyrir Víking Heiðar Ólafsson, Sinfóníuhljómsveit Íslands og við dansverk Ernu Ómarsdóttur. Á sviði kvikmyndatónlistar hefur Skúli m.a. unnið að gerð tónlistar Hildar Guðnadóttur, Jóhanns Jóhannssonar og Ryuichi Sakamoto.

Act Alone í tuttugu ár: Heiður þeim sem heiður ber

Það er angurvær tími sem nú fer í hönd. Daginn styttir og kvöldin lengjast. Kyrrð vestfirskra fjarða verður áþreifanleg og dulúð birtunnar magnast þegar sólin sest á sjóinn og varpar rauðum bjarma um himininn. Þetta er umgjörð Act Alone – einleikjahátíðarinnar sem haldin verður 7.-10. ágúst á Suðureyri við Súgandafjörð. 20 ár gera Actið eina lífsseigustu listahátíð á landsbyggðinni.

Einleikjahátíðin Act Alone fór fyrst fram á Ísafirði í júní 2004 og hefur verið árviss viðburður síðan. Kóvíd-fárið setti að vísu hátíðina í uppnám, en í staðinn var farið í heimsóknir í alla grunnskóla á Vestfjörðum með einleiki, þegar tækifæri gáfust. Þannig hefur þráðurinn aldrei slitnað. Fyrstu árin var hátíðin haldin á Ísafirði en teygði sig einnig til Þingeyrar, Bolungarvíkur, Haukadals í Dýrafirði og að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Árið 2009 varð önnur helgi ágústmánaðar tími einleikara og frá árinu 2012 fékk hátíðin fast aðsetur á Suðureyri við Súgandafjörð í samstarfi við einstaklinga og fyrirtæki á staðnum.

Act Alone hátíðin hefur þroskast og stækkað frá fyrstu árum. Fjölbreytni og margbreytileiki listalífsins endurspeglast vel í hátíðinni. Í tuttugu ár hafa rúmlega tvö hundruð listamenn komið fram á hátíðinni, innlendir og erlendir, úr ótal listgreinum: leikarar og dansarar, ljóðskáld og rithöfundar, myndlistarmenn og hönnuðir, söngvaskáld, trúðar og látbraðgsleikarar, uppistandarar og fjöllistamenn. Eitt eiga þeir sameiginlegt: Þeir standa einir á sviðinu. Þannig miðla þeir list sinni til áhorfenda, áheyrenda, njótenda.

Og Vestfirðingar hafa tekið listinni fagnandi. Heimamenn og aðkomumenn, börn, unglingar og fullorðnir, gestir og gangandi, fjölmenna á hvert einasta atriði, hvort heldur er í Félagsheimili Súgfirðinga, úti á götum Suðureyrar, inni í Þurrkveri, í eða við kirkjuna. Allt þorpið er undir. Námskeið, leiksmiðjur, uppákomur, götuleikhús, leikrit, dansverk, upplestur, tónleikar – allt er ókeypis. Þannig hefur það alltaf verið á Act Alone. En að baki stendur fjárstuðningur fyrirtækja á Suðureyri og annarsstaðar á Vestfjörðum og víðar auk framlags Ísafjarðarbæjar og opinberra sjóða. Ekkert af þessu myndi þó duga ef ekki kæmi til framlag sjálfboðaliða og ekki síst ódrepandi elja og þrautseigja frumkvöðlanna.

Listahjónin Elfar Logi Hannesson og Marsibil Kristjánsdóttir hafa undirbúið, stýrt og stjórnað Act Alone frá upphafi. Í þeim hjónum sameinast listataugin frá Bíldudal og Þingeyri og ekki síður hin vestfirska framtaksemi og þrautseigja. Fólk sem lætur ekki mótbyr eða straumköst bera sig af leið, en halda ótrauð áfram lífinu og listinni. Þau vita sem er að ekkert markvert verður til nema fyrir þrotlausa vinnu, sem aldrei verður metin til fjár. Vestfirðingar standa í þakkarskuld við þau listahjón. Framlag þeirra til lista og menningar í Ísafjarðarbæ er einstætt. Act Alone – listahátíðin á Suðureyri er rauðasta rósin í þeim vendi.

Njótum og sjáumst á Actinu á lognværu ágústkvöldi á Suðureyri – enn eina ferðina – þar sem einleikurinn lifir góðu lífi í ljúfu samræmi við stórgert umhverfi og fjölskrúðugt mannlíf.

Sigurður Pétursson

Höfundur er sagnfræðingur og stjórnarmaður í Act Alone.

Skúli mennski og Stefán Ingvar á ferð um Vestfirði

Grínistin Stefán Ingvar og tónlistmaðurinn Skúli mennski taka höndum saman og fara um Vestfirði með söng og glens.

Þeir bjóða upp á einstaka kvöldstund þar sem Stefán flytur uppistand og Skúli tónlist.

Stefán Ingvar er grínisti og pistlahöfundur, einna þekktastur fyrir bakþanka sína í Fréttablaðinu sem hafa oft á tíðum verið umdeildir. Hann er einn meðlima uppistandshópsins VHS, en Skúla mennska ætti ekki að þurfa að kynna fyrir Vestfirðingum.

Þeir verða á eftirtöldum stö0ðum:

Bragginn, Hólmavík 15 ágúst
Dunhagi, Tálknafjörður 16. ágúst
Verbúðin, Bolgunarvík 17. ágúst

Snjallræði 2024

Í Snjallræði er meðal annars leitað lausna til að sporna gegn matarsóun.

Snjallræði er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík. Bakhjarlar eru: Marel, Vísindagarðar og Reykjavíkurborg.

Markmið Snjallræðis, sem nú er haldið í sjötta sinn, er að styðja við nýsköpunarteymi sem vilja láta gott af sér leiða og jafnframt styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Þungamiðja Snjallræðis eru vinnustofur á sviði nýsköpunar og hönnunarhugsunar sem haldnar eru í samstarfi við MITdesignX.

Teymin taka þátt í fjórum tveggja daga vinnustofum hér á landi á  vegum MIT designX. Vinnustofurnar fara fram á fjögurra vikna fresti en þess á milli njóta teymin handleiðslu færustu sérfræðinga hér á landi við að þróa lausnirnar áfram.

Vinnustofurnar eru þemaskiptar og taka á mismunandi þáttum í þróunarferlinu, allt frá þarfa- og hagaðilagreiningu, hönnun á sjálfbæru viðskiptamódeli og fjárhagsáætlunum yfir í tengslamyndun og framkomu.

Allar upplysingar eru á vefsíðu verkefnisins.

Slitlag endurnýjað í Reykhólahreppi

Ljósmynd af vefsíðu Reykhólahrepps

Nú er búið er að leggja nýtt slitlag á meirihluta vegarins í Reykhólasveit sem skemmdist í vor.

Slitlagið er komið frá Bæ að vegamótum Reykhólavegar, en eftir eru kaflar frá Bæ að vegamótum á Oddamel, þ.e. vegarins norður yfir Þröskulda. Einnig eru eftir nokkrir kaflar á Reykhólavegi.

Veðurfar hefur sett strik í reikninginn hjá verktökunum, tafir hafa orðið vegna rigninga, en ekki er hægt að leggja út olíumöl ef mikil úrkoma er. Þess vegna er erfitt að segja hvenær þessu verki muni ljúka en það er Borgarverk í Borgarnesi sem annast endurnýjun slitlagsins.

Hafnarstræti á Ísafirði lokað 7.-16. ágúst

Lokað verður fyrir bílaumferð í Hafnarstræti á Ísafirði, frá gatnamótum Hafnarstrætis og Austurvegar að gatnamótum Hafnarstrætis og Silfurgötu, frá miðvikudeginum 7. ágúst til föstudagsins 16. ágúst.

Lokunin nær einnig yfir bílastæði við götuna. Lokað verður á milli kl. 08:00 og 19:00 á hverjum degi á þessu tímabili. 

Ástæða lokunarinnar eru glerskipti Hafnarstrætismegin í Stjórnsýsluhúsinu. Því miður er ekki hægt að fara í þessa framkvæmd án þess að loka fyrir umferðina.

Verktaki mun reyna að ljúka verkinu eins fljótt og mögulegt er og opna götuna og bílastæðin á kvöldin, ef aðstæður leyfa.

Snæfjallastrandarvegur lokaður

Snjóalög utan við Lónseyri í júní 2020. Mynd: Jón Halldórsson.

Það fór eins og Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn varaði við í gærkvöldi að færð gæti spillst í Kaldalóni. Vegagerðin var að tilkynna að Snæfjallastrandarvegur væri lokaður þar sem vegurinn er í sundur á nokkrum stöðum vegna vatnaskemmda.

Opið er hins vegar norður í Árneshrepp og verður áfram unnið að viðgerðum í Veiðileysufirði, vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát og tillitssemi.

Mennt er máttur í sjávarútvegi – Skóli sjávarútvegs og siglinga

Skipstjórnarnám á sér langa sögu á Íslandi. Frá 1891 til 2003 var skipstjórnarnámið í sjálfstæðum skóla. Saga skipstjórnarnáms á Íslandi hefst með stofnun Stýrimannaskólans í Reykjavík 1891 sem var hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Bygging Sjómannaskólans í Reykjavík var vígð 4. júní 1944 og var hluti af lýðveldisstofnuninni nokkrum dögum síðar. Sjómannaskólinn, byggingin, er helsta einkenni höfuðborgarinnar og eign sjómannastéttarinnar. Við undirbúning byggingarinnar á kreppuárunum var tekið fram að skólinn skyldi vera djarfmannleg auglýsing um þýðingu hinnar íslensku sjómannastéttar fyrir samfélagið.  Sá andi og metnaður sem lá að baki byggingu skólans fyrir 80 árum virðist gjörsamlega á bak og burt. Í dag er námið í Tækniskóla Íslands og hluti af framhaldsskólanámi sem þar er boðið upp á.

Að undanförnu hefur komið fram vaxandi óánægja með nám í skipstjórn í Tækniskólanum á meðal starfandi skipstjórnarmanna, nemenda, kennara og útgerða. Þessa óánægju ber að taka alvarlega.

Félag skipstjórnarmanna hefur vísað til ofangreindrar óánægju og lagt fram skýrar tillögur um framtíð skipstjórnarnáms á Íslandi sem fela í sér að stórefla nám í skipstjórn og sjávarútvegstengdum greinum og leggur til að stofnaður verði skóli sjávarútvegs og siglinga. Skóli sjávarútvegs og siglinga yrði í húsi Sjómannaskólans sem yrði mennta- og þekkingarsetur sjávarútvegs á Íslandi.

Menntun skipstjórnarmanna er að hluta til starfsnám sem verður að byggja á góðri sjómennsku. Sjómennska er reynslufag sem ekki verður lært í framhaldsskóla á aldrinum 16-19 ára. Mikilvægt er því að í skipstjórnarnámið sæki eldri nemendur sem hafa verið nokkur ár til sjós og öðlast þar góða sjóreynslu og eru tilbúnir að námi loknu að takast á við þá miklu ábyrgð sem skipstjórn fylgir. Einungis góður sjómaður getur orðið góður skipstjóri.

Sérskóli tengdur atvinnugreininni er mun líklegri til að ná til eldri nemenda en skóli sem tekur á móti 16 ára nemendum eftir grunnskóla. Hér er um að ræða nám sem menntar fólk til að stjórna verðmætustu atvinnutækjum samfélagsins í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Verðmætasköpun atvinnugreinarinnar hefur verið og er ein helsta undirstaða velmegunar í íslensku samfélagi.

Mikilvægt er að sjávarútvegur, ein helsta atvinnugrein þjóðarinnar, eigi sitt menntasetur. Án aðgerða gæti framtíðin orðið sú að farið verði að manna fiskiskipflotann með erlendum verktökum. Viljum við það?

Til samanburðar má benda á að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri er menntasetur landbúnaðarins og bænda í landinu. Íslenskir sjómenn og sjávarútvegur þurfa slíkt menntasetur. Í tillögum Félags skipstjórnarmanna er gert ráð fyrir námi í skipstjórn, vélstjórn, fisktækni, fiskeldi, slysavörnum, þróun veiðarfæra og nýsköpun í samvinnu við fyrirtæki innan greinarinnar.

Ég skora á menntamálaráðherra og alla þá sem láta sig menntun í þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar varða, og þá sérstaklega útgerðarmenn, að taka tillögur Félags skipstjórnarmanna til alvarlegrar skoðunar.

Við þurfum að hefja umræðu um þetta mikilvæga mál. Með samvinnu getur orðið til skóli sem tryggir orðstír greinarinnar og þeirra sem innan hennar starfa. Sjávarútvegur á Íslandi dafnar einungis með vel menntuðum starfsmönnum. Mennt er máttur í sjávarútvegi.

Eyjólfur Ármannsson

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi og varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar.

Vestfirski fornminjadagurinn:

laugardaginn 10. ágúst kl. 10:00-12:00 við skála Hallvarðs í botni Súgandafjarðar

*Saga Hallvarðs súganda og skálinn hans

Eyþór Eðvarðsson frá Fornminjafélagi Súgandafjarðar fer yfir nýjar upplýsingar frá Noregi um hver hann var, hvaðan hann kom og hvers vegna hann kom til Íslands. Sagt verður frá sögunni á bak við skálann, sem er byggður eftir fornleifarannsókn á skála sem var við Hrafnseyri við landnám.

  • Áhugaverðustu fornleifarannsóknir Vestfjarða

Margrét H. Hallmundsdóttir fornleifafræðingur mun segja frá mjög áhugaverðum fornleifarannsóknum á Vestfjörðum, m.a. stórmerkilegu og mjög sjaldgæfu bátskumli sem fannst í Hringsdal.

  • Baskavígin á Fjallaskaga

Elfar Logi listamaður mun segja frá Baskavígunum og fara sérstaklega yfir það sem gerðist á Fjallaskaga í Dýrafirði. Hörmuleg saga sem of lítið hefur verið fjallað um.

  • Vopn og vopnaburður á landnámsöld

Atli Freyr Guðmundsson fornleifafræðingur og áhugamaður um skylmingar verður með erindi um vopn og vopnaburð landnámsmanna. Hann mætir með alvæpni.

  • Fornleifar við sjávarsíðuna

Lísebet Guðmundsdóttir fornleifafræðingur og minjavörður okkar Vestfirðinga mun segja frá fornleifarannsóknum á Ströndum sem hún vann að og þýðingu þeirra.

  • Saga muna á Byggðasafni Vestfjarða

Jóna Símona Bjarnadóttir forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða mun sýna og segja frá nokkrum áhugaverðum hlutum í eigu Byggðasafnsins.  Allir munir eiga sögu, sumir mjög áhugaverða.

  • Söngur við langeldinn

Hægt verður að mæta fyrr til að skoða skálann og fá leiðsögn. Fjölmargir mæta í fatnaði frá landnámsöld og öll sem geta eru hvött til að gera það líka .

Öll velkomin inn á meðan húsrúm leyfir.

Vestfirski fornminjadagurinn er í góðu samstarfi við Act alone hátíðina sem er á Suðureyri á sama tíma.

Kertafleyting: aldrei aftur Hirosima og Nagasaki

Frá kertafleytingu á Ísafirði árið 2019.

Fyrir 79 árum, 6. og 9. ágúst 1945, vörpuðu Bandaríkjamenn kjarnorkusprengjum á borgirnar Hírósíma og Nagasaki í Japan. Frá árinu 1985 hafa Íslendingar minnst fórnarlamba þessara skelfilegu árása með kertafleytingu og áréttað kröfuna um heim án kjarnorkuvopna.

Vestfirðir eru þar engin undantekning og verður fórnarlambanna minnst á Ísafirði klukkan 22:30 á Nagasaki-daginn 9. ágúst.
Komið verður saman á Ísafirði við Neðstakaupstað á Suðurtanga þar sem Eiríkur Örn Norðdalh flytur ávarp. Mun fólk sameinast í yfirlýsingunni Aldrei aftur Hirósíma og Nagasaki!

-Nánar tiltekið hittumst við í fjörunni við Suðurtanga 2 (sirka hér: https://www.google.com/…/data=!3m7!1e1!3m5…

Kerti verður til sölu á staðnum og rennur féið til Samstarfshóps friðarhreyfinga. Borga má í reiðufé á staðnum en einnig verður millifærsla möguleg.

Vonast er til að sjá sem flesta segir í tilkynningu frá aðstandendum kertafleytingarinnar.

Nýjustu fréttir