Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 22

Fulltrúar Byggðastofnunar heimsóttu Vestfirði

Frá heimsókn í Vesturbyggð. Frá vinstri, aftari röð: Arnar Már Elíasson, Reinhard Reynisson, Tryggvi B. Bjarnason, Páll Vilhjálmsson, Elfar Steinn Karlsson og Geir Gestsson. Fremri röð frá vinstri: Sigríður Elín Þórðardóttir, Gerður Björk Sveinsdóttir, Gunnþórunn Bender og Jenný Lára Magnadóttir.

Arnar Már Elíasson forstjóri, Sigríður Elín Þórðardóttir forstöðumaður þróunarsviðs og Reinhard Reynisson sérfræðingur byrjuðu á því að heimsækja sveitarstjórn Reykhólahrepps þriðjudaginn 24. október þar sem ýmis mál bar á góma, þar á meðal húsnæðismál, aðgengi að heitu vatni, almenningssamgöngur, verslun í dreifbýli og fleira.

Seinna í sömu viku samþykkti stjórn stofnunarinnar svo að hefja aðildaviðræður við sveitarfélagið að verkefninu Brothættar byggðir.

Á miðvikudag kom þríeykið til fundar í Vesturbyggð og hitti á fjölmennan hóp sveitarstjórnarfólks.  Þar kom Aflamark Byggðastofnunar sérstaklega til umræðu auk óstaðbundinna starfa, ýmissa styrkja úr byggðaáætlun og lánveitinga.

Á fimmtudag mætti stjórn Byggðastofnunar til stjórnarfundar í húsakynnum Vestfjarðastofu á Ísafirði auk þess að funda þar með fulltrúum stofunnar, þeim Sigríði Ó. Kristjánsdóttur framkvæmdastjóra og Aðalsteini Óskarssyni sviðsstjóra byggðamála, um málefni Vestfjarða.

Á föstudag áttu svo Arnar Már og Sigríður Elín góðan fund með Braga Þór Thoroddsen, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps. 

Til umræðu voru  lánveitingar, styrkveitingar, gangnagerð, húsnæðisvandi og fjölmenning auk annars.

Fuglainflúensa í hröfnum og öðrum villtum fuglum

Bráðabirgðaniðurstöður úr sýnum úr villtum fuglum gefa til kynna sýkingu með fuglainflúensuveirum. Samhliða hafa í auknum mæli borist tilkynningar til Matvælastofnunar um veika eða dauða villta fugla.

Almenningi er ráðlagt að handsama ekki villtan fugl sem er hættur að forða sér í burtu, heldur skal tilkynna slíkan fund til Matvælastofnunar og fylgjast með fuglinum. Allir sem halda alifugla og aðra villta fugla skulu viðhafa ýtrustu smitvarnir til að koma í veg fyrir smit frá villtum fuglum í eigin fugla.

Sýni hafa verið tekin úr tveimur hröfnum, sem fundust annars vegar á Laugarvatni og hins vegar í Öræfum. Þá hefur verið tekið sýni úr hettumáfum á Húsavík. Annar hrafnanna fannst veikur og drapst svo, hinn hrafninn virtist vera heilbrigður en gat ekki flogið. Hann var tekin til aðhlynningar en um síðustu helgi, tveimur vikum eftir að hann fannst, var hann aflífaður þar sem ástandi hans hrakaði mikið.

Hettumáfarnir fundust dauðir á Húsavík. Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum greindi fuglainflúensuveirur í þessum sýnum.

Almenningi er ráðlagt að koma ekki mjög nálægt eða handleika villtan fugl sem virðist ekki geta bjargað sér, nema með góðum sóttvörnum svo sem með því að nota einnota hanska og veiruhelda grímu. Það á líka við um fugl sem er einungis með væg einkenni eða virkar jafnvel heilbrigður að öðru leyti.

Matvælastofnun mun upplýsa um leið og staðfesting liggur fyrir um gerð veiranna sem hafa fundist nú í haust. Nánari greining á þeim getur síðan gefið vísbendingu um uppruna veiranna.

Matvælastofnun ítrekar beiðni til almennings um að tilkynna til stofnunarinnar um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum. 

Hætta að sekta fyrir notkun nagla­dekkja

Í grein á heimasíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda er sagt frá því að lögreglan á Suðurlandi sé EKKI að sekta ökumenn bifreiða, sem eru komnar á nagladekk, þótt slík dekk séu almennt aðeins leyfð frá 1. nóvember til 15. apríl.

Veturinn er hins vegar byrjaður að gera vart við sig og hitastig oft á tíðum undir frostmarki á nóttunni og viðbúið að frost og hálka séu byrjuð að láta á sér kræla þetta árið.

Lögreglan hefur fengið mikið af fyrirspurnum um nagladekk frá ökumönnum og því er það undirstrikað að ökumenn bifreiða, sem eru búnar nagladekkjum, eiga ekki sekt yfir höfði sér.

Fjölmenni í messu og kaffi Bolvíkingafélagsins

Bolvíkingafélagið í Reykjavík stóð fyrir veglegu kaffihlaðborði í safnaðarheimili Bústaðakirkju á sunnudaginn. Á annað hundrað manns mættu fyrst í messu og svo í kaffið á eftir. Nýkjörin stjórn félagsins stóð fyrir samkomunni og Kristján B. Ólafsson, formaður félagsins kynnti starfið framundan. Næst á dagskránni er að halda jólahlaðborð í Skíðaskálanum í Hveradölum í nóvember næstkomandi. Verður það betur auglýst þegar nær dregur.

Það voru aldeilis ekki skornar við nögl veitingarnar sem kaffinefndin bauð upp á og að gömlum og góðum sið var sungið yfir kaffinu kunnugleg lög sem Bolvíkingar gjarnan syngja þeir þeir koma saman. Það var prestsonurinn Þorgils Þorbergsson sem stjórnaði söngnum.

Ólafur Kristjánsson fyrrv. bæjarstjóri fremst með söngblöðin.

Kaffinefndin.

Fjölmennt var í kaffinu.

Kaffihlaðborðið.

Þarna hittust þrír samstarfsmenn á Alþingi um árabil. F.v. Kristján Möller, Sigrún Þórisdóttir, Einar K. Guðfinnsson og Kristinn H. Gunnarsson.

Frá messunni.

Myndir: Kristján B. Ólafsson.

Ísafjarðarbær: hækkar kostnað við snjómokstur um 25 m.kr.

Snjómokstur á Ísafirði. Mynd: isafjordur.is

Bæjarráð leggur til að hækka fjárveitingu í fjárhagsáætlun ársins til snjómoksturs um 25 m.kr.

Fram kemur í skýringum að kostnaðurinn frá janúar til maí hafi verið 65 m.kr. og að gildandi áætlun hafi verið vanáætluð um 15 m.kr. á þessu tímabili.

Ólíklegt er talið að ekki snjói fyrir áramót og er því óskað eftir 10 m.kr. til að geta brugðist við snjókomu á haustmánuðum.

Kostnaðinum er mætt með lækkun á handbæru fé.

Framlög til HSV lækkuð um 20 m.kr.

Bæjarráð leggur einng fram tillögu um breytingar á fjárveitingu til íþróttamála. Framlag til HSV er lækkað um 20 m.kr. þar sem um áramótin var samningur við HSV endurnýjaður og við það lækkaði styrkur til þeirra sem nemur rekstri skrifstofu og íþróttaskóla, en á móti hækka þrír liðir um sömu fjárhæð.

Íþróttaskólinn var rekinn á vormánuðum og nam kostnaðurinn 5,7 m.kr. Kostnaður vegna íþróttasvæðið hækkar um 8,5 m.kr. og er það einkum vegna snjómoksturs og loks lækka styrkir nefna um 6 m.kr., þar af 1,8 m.kr. vegna golfsvalla og 1,2 m.kr. vegna skíðasvæðis. Liðurinn aðrar hátíðir hækkar um 1 m.kr.

Galleri Úthverfa: Inês Quente – For Every Light Its Place    

10.10 – 27.10 2024.

Fimmtudaginn 10. október kl. 16 opnar portúgalska listakonan Inês Quente sýningu í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið FOR EFRY LIGHT ITS PLACE og stendur til sunnudagsins 27. október. Listamaðurinn verður viðstaddur opnun sýningarinnar þar sem boðið verður uppá léttar veitingar og spjall. 

Fyrir hvert ljós sinn stað

Inês Quente snýr nú aftur til eyju íss og elda og heldur áfram verkefni sínu Day Dream, sem hófst

árið 2023 og notar Ísland sem rannóknarstað til að rannska samband manns, náttúru og hinna.

For Every Light Its Place miðar að því að skapa rými fyrir íhugun og hugleiðingu um

eðli staðarins, með áherslu á umbreytingar hringrása og stökkbreytinga í

landslagi og fylgjast af athygli með íbúum svæðisins og þeirra vistmenningarlegu tengingar.                                                                                                                                                                            

Byggt á þeirri forsendu að allt hafi sinn stað, sitt hlutverk í vistkerfi svæðis, að

allt sé samofið og samtengt og í stöðugri umbreytingu, leitast verkefnið við að bjóða upp á aðra

sýn á náttúruna, með minni afskiptasemi og lífrænni nálgun, leyfa staðnum að tala fyrir sig, hugsa fyrir sig.

Sýningin er staðbundin innsetning, unnin fyrir Gallerí Úthverfu á Ísafirði sem er lítill bær umkringdur vestfirskum fjöllum. For Every Light Its Place verður að ljósmyndalífrænni frásögn sem talar inn í umræðuna um fortíð, nútíð og framtíð svæðisins.

Inês Quente (1992, Avintes, Portúgal) er myndlistarmaður sem býr og starfar í Gaia

og Porto. Hún er með meistaragráðu í heimildarmyndagerð frá the University for the Creative Arts

(Bretland, 2017) og gráðu í myndlist frá myndlistardeild Háskólans í Porto

(PT, 2015). Sem stendur nýtur hún stuðnings Goethe Institut með styrk frá Culture Moves Europe.

Verk hennar hafa verið sýnd reglulega síðan 2013, bæði hérlendis og erlendis.

Hún tók þátt í gestavinnustofum ArtsIceland (2023) og Grão (PT, 2023).

Útflutningstekjur laxeldis aldrei meiri

Á fyrstu átta mánuðum ársins námu útflutningsverðmæti eldisafurða tæpum 31 milljarði króna. Það er um 22% aukning frá sama tímabili í fyrra, þá hvort tveggja á breytilegu og föstu gengi. Þessa aukningu má að langstærstum hluta rekja til laxeldis. Þannig er útflutningsverðmæti lax komið í rúma 25 milljarða króna, sem er um þriðjungs aukning á milli ára og met á tilgreindu tímabili. 

Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Sjókvíaeldi meginstoðin í dag

Sú aukning sem orðið hefur í útflutningsverðmæti eldislax á árinu má vafalaust að langmestu leyti rekja til sjókvíaeldis en þó má reikna með að útflutningur frá landeldi sé farinn að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan, þá hefur meginþorri framleiðslunnar á laxi hér á landi farið fram í sjó á undanförnum árum, eða sem nemur um 95% af allri framleiðslunni. Uppbygging í sjókvíaeldi er vel á veg komin, þó enn sé einungis helmingur framleiðsluheimilda í nýtingu. Það mun því áfram vera hryggjarstykkið í framleiðslu á laxi á allra næstu árum segir í fréttabréfinu.

Meiri fjölbreytni styrkir efnahagslífið

Þá segir að aukin umsvif í fiskeldi hér á landi séu jafnframt afar jákvæð fyrir þær sakir að fjölbreytileiki atvinnulífsins eykst. Það er afar mikilvægt eins og endurspeglast vel í nýlegri fréttatilkynningu lánshæfismatsfyrirtækisins Moody’s í tengslum við hækkun fyrirtækisins á lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins. Þar var einmitt vísað til þess að einkunnin gæti verið hækkuð frekar ef áframhaldandi aukinn fjölbreytileiki efnahagslífsins myndi draga úr sveiflum í hagvexti.

„Án nokkurs vafa er hér verið að vísa meðal annars til aukinna umsvifa fiskeldis hér á landi, þó fyrirtækið tilgreinir enga atvinnugrein sérstaklega í þessu sambandi. Fiskeldi er ein þeirra útflutningsgreina sem hefur verið í hvað mestum vexti á undanförnum árum og horfur eru á enn frekari vexti á komandi árum. Það sem stendur lánshæfismati ríkissjóðs einmitt einna helst fyrir þrifum er smæð og einsleitni hagkerfisins, sem lengi vel hefur hvílt á fremur fáum stoðum.“

Skógur ehf: hagnaður 1.848 m.kr.

Kerecis, Ísafirði.

Einkahlutafélagið Skógur ehf á Ísafirði skilaði 1.848 m.kr. hagnaði á árinu 2023. Söluhagnaður af hlutabréfum varð 1.829 m.kr. Ekki kemur fram í hvaða félögum selt var en telja má víst að um sé að ræða hagnað af sölu hlutabréfa í Kerecis.

Eignir félagsins voru í árslok 2.293 m.kr. og skuldir aðeins 8 m.kr. Helstu eignir voru markaðsverðbréf að fjárhæð 835 m.kr. og handbært fé 958 m.kr.

Greiddur var 36 m.kr. arður á árinu 2023 og er lagt til að af afkomu 2023 verði greiddur arður á árinu svo sem lög leyfa.

Eigendur eru að jöfnu Gísli Jón Hjaltason og Anna Kristín Ásgeirsdóttir.

Þetta er allt að koma…

Eyjólfur Ármannsson, alþm.

„Þetta er allt að koma“ eru einkunnarorð ríkisstjórnarinnar varðandi viðvarandi verðbólgu og þá óboðlegu vaxtakúgun sem almenningur hefur þurft að þola undanfarin ár. Ísland er með hæstu stýrivexti í hinum vestræna heimi. Aðeins fjögur lönd í Evrópu eru með hærri stýrivexti en Ísland: Rússland, Úkraína, Hvíta-Rússland og Tyrkland.

Ríkisstjórnin heldur áfram að hella olíu á eldinn með óábyrgri fjárlagagerð á meðan Seðlabankinn sér um að valda gjaldþroti heimila landsins. Hvað segja talsmenn þessarar ríkisstjórnar þegar þeir standa á sviðinni jörð þar sem allir málaflokkar liggja í rústum? „Þetta er allt að koma“. Yfir 9% stýrivextir í heilt ár og „Þetta er allt að koma“.

Nýjustu tölur sýna 20,1% aukningu í alvarlegum vanskilum heimila, „Þetta er allt að koma“. Kjör öryrkja hafa versnað um 11%, fjöldi aldraðra á biðlistum eftir hjúkrunarrýmum hefur aukist um 30% og biðtími eftir aðgerðum hefur lengst um 19%. Neyðarástand hefur ríkt á bráðamóttöku Landspítalans, hlutfall nemenda með ófullnægjandi lesskilning hefur hækkað um 34%, fátækt íslenskra barna hefur aukist um 44% og vaxtagjöld ríkissjóðs eru nú um 300.000 krónur á hvern Íslending á ári. Allt þetta hefur ríkisstjórnin afrekað á aðeins nokkrum árum.

Þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar segja: „Þetta er allt að koma“ ættum við undirbúa okkur fyrir það versta, því ekkert gott er í vændum.

Þann 3. október sl. birti Morgunblaðið grein eftir Svandísi Svavarsdóttur, ráðherra Vinstrihreyfingarinnar-grænt framboð, þar sem hún hrósar ríkisstjórninni fyrir að lækka vexti úr 9,25% í 9,00%. Eftir heilt ár með 9,25% vöxtum telja sumir það mikið afrek að ná þeim niður um 0,25%. Kosningar færast nær og það er skiljanlega áhyggjuefni fyrir ríkisstjórnarflokkana þar sem stjórnartíð þeirra hefur, vægt til orða tekið, verið hörmung.

Áhugavert verður að fylgjast með þeim reyna að sannfæra þjóðina um að allt sé á réttri leið. Hvað segir maður við þjóðfélag sem hefur þurft að kljást við himinháa stýrivexti nánast allt kjörtímabilið? „Okkur tókst að lækka stýrivexti um 0,25% og nú eru þeir aðeins 9,00%. Og þetta er allt að koma!“

Í grein sinni talar Svandís um hvernig „stjórnmál snúast um almannahagsmuni“ og mikilvægi þess að vernda heimili landsins og millistéttina. Svandís Svavarsdóttir var ráðherra í svokallaðri „velferðarstjórn“ undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur, sem komst til valda í kjölfar Hrunsins. Sú ríkisstjórn reisti útgjaldborg í kringum heimili landsins á meðan skjaldborg var reist um bankakerfi og fjármagnsöfl, allt á kostnað almennings. Heimilum landsins og millistéttinni var fórnað á blóðugu altari verðtryggingarinna og einnar mestu eignatilfærslu í sögunni frá milli- og lágtekjufólki. Talað var um skjaldborg en verkin leiddu til stórkostlegrar útgjaldaaukningar og gjaldþrotaborgar fyrir heimilin í landinu. Þetta var sami leikurinn og núverandi ríkisstjórn hefur leikið með þátttöku Svandísar, sem hefur setið í ráðherrastóli síðan 2017. Nú þegar kosningar nálgast hefur hún skyndilega áhyggjur af heimilum landsins og millistéttinni. Ég hefði ekki vitað af þessum áhyggjum ráðherra VG nema hún hefði lýst þeim í grein sinni. Verkin við völdin sýna annað. Öll þau ár sem hún hefur verið ráðherra hefur hún aldrei látið í ljós slíkar áhyggjur með gjörðum sínum. Þvert á móti benda aðgerðir hennar til þess að hana skipti engu máli um heimili landsins og millistéttina. Það er vanvirðing gagnvart kjósendum að ætlast til þess að við kyngjum þessu svona blöffi. Verk ríkissjórnarinnar í efnahagsmálum og málefnum heimilanna og þeirra tekjuminni tala sínu máli.

Eyjólfur Ármannsson

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.

Jón Jónsson: ósannindi sveitarstjóra Strandabyggðar

Jón Jónsson.

Jón Jónsson fyrrv. sveitarstjórnarmaður í Strandabyggð segir viðbrögð Þorgeirs Pálssonar, sveitarstjóra í Strandabyggð í Bæjarins besta við niðurstöðum KPMG vera til marks um að hann misskilji skýslu KPMG algerlega og svo segi í ofanálag ósatt um fundargerð sveitarstjórnar frá 2021. Þar komi nákvæmlega ekkert fram um styrkveitingar og greiðslur upp á 61 milljón til Jóns Jónssonar. Hins vegar sé þar að finna upplýsingar um kostnað við samstarf Strandabyggðar og Strandagaldurs um rekstur Upplýsingamiðstöðvar í áratug og annan stuðning sveitarfélagsins við Strandagaldur og Sauðfjársetrið.

Í færslu á Facebook fer Jón yfir þessi mál frá sínum sjónarhóli og segir þar: „Það vekur athygli að Þorgeir segir ekki aðeins ósatt um greiðslur á milljónatugum til mín persónulega, heldur segir hann líka að þær upplýsingar séu komnar frá skrifstofustjóra og sveitarstjórninni sem þá sat. Það er ekki satt, Salbjörg skrifstofustjóri og fulltrúar í gömlu hreppsnefndinni eru vandað og heiðarlegt fólk sem hefur aldrei sakað mig um sjálftöku fjármuna úr sveitarsjóði. Stundum er rétt að hafa staðreyndirnar með.“

Jón fer svo yfir málavöxtu á umræddu tímabili:

Í skýrslunni eru upplýsingar um tímalínuna um setu í hreppsnefnd og stjórnum menningarstofnana sem afsanna þessar lygar. Ég ætla að setja tímalínuna hér fram með aðeins aðgengilegri og nákvæmari hætti: 

# 2000-2007 – sat í stjórn Strandagaldurs

# 2002-2007 – sat í stjórn Félags áhugamanna um Sauðfjársetur á Ströndum

# júní 2010 – júní 2014 – sat í sveitarstjórn Strandabyggðar eftir listakjör

# maí 2018 – maí 2022 – 4. varamaður í sveitarstjórn Strandabyggðar eftir persónukjör, sat sex sveitarstjórnarfundi sem slíkur

# ágúst 2019 – janúar 2020 og maí 2021 – maí 2022 – aðalmaður í sveitarstjórn Strandabyggðar vegna forfalla

# nóv 2018 – maí 2024 – aftur í stjórn Strandagaldurs, eftir að Sigurður Atlason féll frá allt of snemma.

Sat alls ekki beggja vegna borðs

Jón segir: „Það kemur skýrt fram í skýrslunni að ég sat alls ekki beggja vegna borðs, í langflestum af þeim tilvikum sem eru samt tekin til skoðunar. Það á eingöngu við um tímann í hreppsnefnd 2019-2022 og setuna í stjórn Strandagaldurs á sama tíma. Þrátt fyrir það sýndi ég bæði þá og áður þá fagmennsku að víkja ávallt af fundum og tók aldrei þátt í umræðum um stuðning við þessar stofnanir. Það á sér sögulegar skýringar, vegna þess að ég kom þeim á laggirnar með mörgu öðru góðu fólki á sínum tíma. Eins var kona mín framkvæmdastjóri Sauðfjárseturins 1. jan. 2012 til 30. sept. 2024.

Það kemur líka skýrt fram að ég sjálfur og fyrirtæki í minni eigu hafa aðeins fengið einn styrk frá sveitarfélaginu síðustu áratugi, 80 þús í ljósmyndaverkefni vorið 2018. Þá var ég ekki í hreppsnefnd.

Ég er mjög ánægður með niðurstöðu skýrslu KPMG, en á þó eftir að spyrja nánar út í þessa áherslu þeirra á stuðning við Sauðfjársetrið og Strandagaldur í gegnum tíðina í skýrslunni, jafnvel á tímabilum þar sem ég var hvorki í stjórn þeirra né í sveitarstjórn.“

Þá birtir Jón tvö skjöl um aðkomu hans annars vegar að sauðfjársetrinu á Ströndum og hins vegar að Strandagaldri.

Nýjustu fréttir