Síða 22

Vegakerfið: 290 milljarða kr. viðhaldsskuld

Samtök iðnaðains og félag ráðgjafarverkfræðinga hafa gefið út skýrslu um innviði landsins. Tekur hún til vegakerfis, veitukerfa,flugvalla, hafna, fasteigna og raforkukerfis.

Í inngangi skýrslunnar segir að markmið skýrslunnar sé að kalla fram upplýsta umræðu og nauðsynlegar úrbætur þannig að innviðir landsins geti staðið undir hlutverki sínu og efli samkeppnishæfni. Auka þurfi fjárfestingu og fyrirsjáanleika í opinberum framkvæmdum, einfalda ferli framkvæmda og horfa til fjölbreyttari leiða í uppbyggingu og rekstri innviða.

ástandið óásættanlegt

Ástand einstakra innviða er sagt misjafnt. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni eru vegakerfið og fráveitukerfið í verstu ásigkomulagi, bæði með einkunnina 2, sem þýðir að ástandið er óásættanlegt og þörf á tafarlausum aðgerðum. Mikilvægt er að hafa í huga að vegakerfið er lífæð íslensks samfélags, bæði fyrir atvinnulíf og almennar samgöngur, og ónógt viðhald þess getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélagið í heild.

Um vegakerfið segir að endurstofnvirði þjóðvegir landsins sé 1.200 milljarða króna og að uppsöfnuð viðhaldsskuld sé 200 milljarðar króna. Sveitarfélagavegir eru metnir á 250 – 310 milljarðar króna að endurstofnvirði og uppsöfnuð viðhaldsskuld er 65 – 90 milljarðar króna.

Vegakerfinu er svo lýst í skýrslunni:

Vegakerfi Íslands er tæplega 26 þús. km langt og þar af eru um 8 þús. km með bundnu slitlagi. Vegakerfi landsins er skipt í þjóðvegi, 12.900 km, sem eru á forræði Vegagerðarinnar og sveitarfélagsvegi, 13.100 km, sem eru vegir innan þéttbýlis sem ekki teljast þjóðvegir og eru þeir í umsjá sveitarfélaga. Þjóðvegakerfinu er skipt í vegflokka sem eru; stofnvegir 4.300 km, tengivegir 3.500 km, héraðsvegir 2.600 km, landsvegir 2.000 km og stofnvegir um hálendi 500 km. Á þjóðvegum landsins er bundið slitlag á um 5.900 km en 7.000 km eru malarvegir. Á vegum á forræði sveitarfélaga er bundið slitlag á um 2.500 km en malarvegir eru 10.600 km. Á Íslandi eru um 1.200 brýr og af þeim eru rúmlega helmingur einbreiðar og lengd þeirra um 15 km. Tæpur helmingur eru tvíbreiðar brýr og lengd þeirra um 15 km. Árið 2023 voru 29 brýr á hringveginum einbreiðar og stefnt er að því að engin einbreið brú verði á hringveginum um 2040. Fjöldi jarðganga er 14 og lengd þeirra er um 64 km.

viðhaldsskuld þjóðvega

Um mat á viðhaldskuld þjóðvega er vitnað til mats Vegagerðarinnar á stöðunni:

Vegagerðin hefur áætlað að viðhaldsskuld á öllu vegakerfi Vegagerðarinnar sé varlega metin að minnsta kosti um 200 milljarðar króna. Mikilvægt er að ráðast í uppfærslu á vegakerfinu sjálfu, breikkun brúa, breikkun vega og jarðganga sem er í raun að hluta til endurbygging kerfisins. Með þessu má áætla að
brýr, jarðgöng og uppfærsla á vegakerfinu í rétta vegtegund miðað við þróun umferðar, sé viðhaldsþörfin varlega áætluð tvöföld þessi upphæð.
Til að tryggja viðunandi burðargetu þjóðvega miðað við núverandi mælingar þyrfti að endurnýja 190 km á ári. Þá yrði fjárþörf verkefnisins 10 milljarðar króna á ári. Fjárveitingar síðustu ára hafa legið á bilinu 16–20% af reiknaðri fjárþörf. Árleg viðhaldsþörf bundinna slitlaga er 24 milljarðar króna og árleg viðhaldsþörf
malarslitlaga 3 milljarðar króna. Vegagerðin áætlar að árleg viðhaldsþörf til að uppfæra jarðgöng vegna aukinna alþjóðlegra krafna verði um 1 milljaður króna og árleg viðhaldsþörf brúa verði einnig um 1 milljarður króna á ári.

Suðurtangi: Hrafnatanga 4 var úthlutað 2018

Suðurtangi. Mynd: Ísafjarðarbær.

Á fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðabæjar á mánudaginn kemur fram að  lóðinni við Hrafnatanga 4, Ísafirði hafi verið úthlutað til Sjávareldis ehf. og Hábrúnar ehf. á fundi bæjarstjórnar þann 3. maí 2018.

Úthlutuninni fylgdi eftirfarandi bókun: „Lóðarumsókn falli úr gildi hafi teikningar ekki borist Ísafjarðarbæ innan 12 mánaða og framkvæmdir ekki hafist innan 24 mánaða frá úthlutun.“

Bókað er að haustið 2023 hafi framkvæmdum við uppfyllingu og hafnarkant og hafnarþekju verið lokið og lóðin því tilbúin til uppbyggingar en gögn hafi ekki borist.

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að afturkalla lóðaúthlutun Sjávareldis ehf og Hábrúnar ehf. við Hrafnatanga 4, Ísafirði.

Lóðin við Hrafnatanga 4 á Ísafirði var auglýst á heimasíðu Ísafjarðarbæjar frá 28. janúar 2025 með umsóknarfresti til og með 12. febrúar 2025. Ein umsókn barst og var hún frá Ísnum ehf.

Vegagerðin: ásþunginn hækkaður í 10 tonn

Mynd af dekki þakið olíumöl, eða blæðingu. Myndin var tekin á Bröttubrekku.

Þeim 7 tonna ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á Vestfjarðavegi 60 frá Hringvegi 1 við Dalsmynni að Snæfellsnesvegi 54 við Skógstagl var breytt í morgun og eru nú takmörkuð við 10 tonn frá kl. 8:00 miðvikudaginn 19. febrúar 2025 samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni í gærkvöldi.

Þessi breyting opnar að nýju að nokkru fyrir þungaflutninga frá Vestfjörðum til höfuðbogasvæðisins en bikblæðing hefur verið alvarlegt vandamál.

Byggðakvóti: óbreyttar sérreglur

Smábátar í Flateyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að sömu reglur muni gilda í ár um úthlutun byggðakvóta og voru í gildi á síðasta fiskveiðiári. Sjö bæjarfulltúar Í lista og D lista stóðu að samþykktinni en bæjarfulltrúar B lista sátu hjá.

Íbúasamtök Flateyrar óskuðu eftir því að sett yrði skilyrði um að byggðakvóta Flateyrar yrði landað á Flateyri þótt vinnslan færi fram í öðru byggðalagi, en ekki var orðið við því.

Í bókun frá bæjarfulltrúum Í lista kemur fram að mikilvægt sé að standa vörð um störf í fiskvinnslu í minni byggðarlögum sveitarfélagsins og ef sveigjanleiki í löndun byggðakvóta styddi við vinnslu í minni byggðalögum væri Í listinn fylgjandi því.

Ljósmóðurtaska

Salbjörg Jóhannsdóttir (1896-1991) var ljósmóðir í Snæfjallahreppi frá 1929 þar til hún, níræð að aldri, fluttist frá Lyngholti til Ísafjarðar árið 1987.

Hún gegndi einnig ljósmóðurembætti í Nauteyrarhreppi frá 1944 og í Reykjarfjarðarhreppi 1954 til 1958.

Þegar Salbjörg hóf störf fékk hún tösku sem var farin að láta á sjá árið 1947. Þá fékk hún þessa ljósmóðurtösku sem hún gaf seinna Geir Hlíðberg Guðmundssyni lækni (1953-2010).

Taskan hafði varðveist á heimili Geirs í Garðabæ í meir en tvo áratugi þegar Margrét Guðmundsdóttir geislafræðingur (1953-), ekkja Geirs  Hlíðberg Guðmundssonar afhenti hana Lyngholtssafni haustið 2012.

Af sarpur.is

Þeim fækkar sem fara í ljósabekk

Árið 2024 var hlutfall þeirra sem hafði farið í ljós síðustu 12 mánuði á Íslandi 5% sem er einu prósentustigi lægra en í síðustu könnun sem gerð var 2022.

Þetta sýna nýlegar niðurstöður könnunar á notkun ljósabekkja á Íslandi sem Gallup gerði fyrir samstarfshóp Geislavarna, embættis landlæknis, húðlækna og Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins.

Auk þess fækkar ljósabekkjum á Íslandi samkvæmt síðustu talningu Geislavarna sem gerð var árið 2023. Þá var fjöldi ljósabekkja á Íslandi 86 en til samanburðar var fjöldinn 97 árið 2020.

Embætti landlæknis vekur athygli á því að notkun á ljósabekkjum fylgir aukin hætta á húðkrabbameini.

Styrkir til íslenskukennslu fyrir útlendinga

Mennta- og barnamálaráðuneyti hefur úthlutað styrkjum til íslenskukennslu fyrir útlendinga á árinu 2025. Alls barst 21 umsókn frá fyrirtækjum og stofnunum til þessara verkefna og fengu allar styrk.

Ráðuneytið hækkaði upphæð til úthlutunar um rúmlega 33 m.kr. frá fyrra ári og úthlutaði alls 294,4 m.kr. til íslenskukennslu á árinu.

Samtals fengu fyrirtæki og stofnanir styrki til þess að halda 858 námskeið fyrir 10.028 nemendur á árinu 2025 sem er fjölgun frá árinu 2024 þegar styrkt voru 794 námskeið fyrir 9332 nemendur.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða fær 6,452,000 kr til að halda 19 námskeið.

Furðuverur í myrkrinu

Furðuverur í myrkrinu er verkefni barna á aldrinum 4 – 8 ára í leik- og grunnskólum Ísafjarðarbæjar.

Þar fræðast börnin um furðuverur í þjóðsögum og munnmælum og gera af þeim myndir sem eru sameinaðar í myndböndum/hreyfimyndum og þeim varpað á glugga og veggi í opinberu rými víðsvegar um bæjarfélagið á dimmasta tíma ársins.

Haustið 2024 teiknuðu börn í leik- og grunnskólunum á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri auk leikskólans Tanga á Ísafirði myndir af furðuverum undir handleiðslu myndlistarmannanna Nínu Ivanovu og Gunnars Jónssonar.

Rætt var um furðuverur sem birtast í íslenskum þjóðsögum og munnmælum en einnig komu draugar og óútskýrt fyrirbæri við sögu og leitað eftir sögum úr menningarheimum þeirra barna sem eiga sér uppruna í öðrum löndum.

Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen raðaði teikningunum saman í hreyfimyndir sem nú birtast í gluggum og á veggjum í opbinberu rými.

Myndirnar verða til sýnis í glugga Úthverfu, Aðalstræti 22 á Ísafirði til 24. mars.

Þátttakendur í verkefninu voru:
Grunnskólinn á Þingeyri
Leikskólinn Laufás á Þingeyri
Grunnskólinn á Suðureyri
Leikskólinn Tjarnarbær á Suðureyri
Grunnskóli Önundarfjarðar
Leikskólinn Grænigarður á Flateyri
Leiskólinn Tangi í Ísafirði
Verkefnið var styrkt af Barnamenningarsjóði 2024

Ísafjörður: stækka spennistöð á Skeiði

Yfirlitsmynd af stækkun byggingarreitsins.

Orkubú Vestfjarða og Landsnet hafa sótt um stækkun á byggingarreit við Skeiði 7 á Ísafirði vegna áforma um nýjan rafstreng Landsnets og viðbyggingu við spennistöð undir nýjan spenni.

Er það vegna vegna fyrirhugaðs rafstrengs til Súðavíkur, sem verður lagður og tekin í notkun árið 2027. Í spennistöðinni eru fyrir tveir spennar og vegna nýja rafstrengsins þarf að bæta við þriðja spenninum. Byggja þarf viðbyggingu norðan megin við húsið.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Tunguskeið er stærð á núverandi byggingarreit 22 m x 30 m. Reiturinn er því
sem næst full nýttur. Til þess að koma fyrir nýju spennahólfi við spennistöðina þarf að stækka
byggingarreitinn um 52 fermetra (5,2 m x 10 m).

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til að erindið verði grenndarkynnt fyrir aðliggjandi lóðarhöfum við Skeiði 5 og Skeiði 4 á Ísafirði og Vegagerðinni m.t.t. veghelgunarsvæðis.

Goðdalur : friðlýsing fyrirhuguð

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár 2025-2029. Í þingsályktunardrögunum er lagt til að sex svæði fari á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár út frá verndun vistgerða, fuglategunda og jarðminja, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. 

Eitt þessara svæða er á Vestfjörðum. Það er Goðdalur í Bjarnarfirði á Ströndum. Um það segir í drögunum:

„Svæðið sem lagt er til að friðlýsa er 0.23 km² og er í sveitarfélaginu Kaldrananeshreppi. Svæðið er tilnefnt á framkvæmdaáætlun vegna móahveravistar, mýrahverarvistar og jarðhitalækja. Verndargildi móahverarvistar er metið mjög hátt og er vistgerðin á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Verndargildi mýrahveravistar er metið mjög hátt. Verndargildi jarðhitalækja er metið hátt. Markmið friðlýsingar er að tryggja vernd þessara vistgerða og þar með viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðisins.

Svæðið liggur í afskekktum dal inn af Bjarnarfirði og rennur Goðdalsá eftir dalnum. Mýrlent er og flatlendi með aflíðandi hlíðum. Jarðhitalækir seytla um grýttar hlíðar og um flata upp af Goðdalsá. Mýrahveravist einkennir jarðhitagróðurinn en þar sem er þurrara er móahveravist einkennandi vistgerð.“

Þá segir að svæðið sé mjög viðkvæmt og flokkast ekki sem ferðamannastaður og gæti þurft að setja hóflega stýringu um svæðið s.s. með fræðsluskilti til að fyrirbyggja traðk. Svæðið fellur undir ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga um sérstaka vernd vistkerfa og jarðminja.

Nýjustu fréttir