Síða 22

Styrkir til íslenskukennslu fyrir útlendinga

Mennta- og barnamálaráðuneyti hefur úthlutað styrkjum til íslenskukennslu fyrir útlendinga á árinu 2025. Alls barst 21 umsókn frá fyrirtækjum og stofnunum til þessara verkefna og fengu allar styrk.

Ráðuneytið hækkaði upphæð til úthlutunar um rúmlega 33 m.kr. frá fyrra ári og úthlutaði alls 294,4 m.kr. til íslenskukennslu á árinu.

Samtals fengu fyrirtæki og stofnanir styrki til þess að halda 858 námskeið fyrir 10.028 nemendur á árinu 2025 sem er fjölgun frá árinu 2024 þegar styrkt voru 794 námskeið fyrir 9332 nemendur.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða fær 6,452,000 kr til að halda 19 námskeið.

Furðuverur í myrkrinu

Furðuverur í myrkrinu er verkefni barna á aldrinum 4 – 8 ára í leik- og grunnskólum Ísafjarðarbæjar.

Þar fræðast börnin um furðuverur í þjóðsögum og munnmælum og gera af þeim myndir sem eru sameinaðar í myndböndum/hreyfimyndum og þeim varpað á glugga og veggi í opinberu rými víðsvegar um bæjarfélagið á dimmasta tíma ársins.

Haustið 2024 teiknuðu börn í leik- og grunnskólunum á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri auk leikskólans Tanga á Ísafirði myndir af furðuverum undir handleiðslu myndlistarmannanna Nínu Ivanovu og Gunnars Jónssonar.

Rætt var um furðuverur sem birtast í íslenskum þjóðsögum og munnmælum en einnig komu draugar og óútskýrt fyrirbæri við sögu og leitað eftir sögum úr menningarheimum þeirra barna sem eiga sér uppruna í öðrum löndum.

Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen raðaði teikningunum saman í hreyfimyndir sem nú birtast í gluggum og á veggjum í opbinberu rými.

Myndirnar verða til sýnis í glugga Úthverfu, Aðalstræti 22 á Ísafirði til 24. mars.

Þátttakendur í verkefninu voru:
Grunnskólinn á Þingeyri
Leikskólinn Laufás á Þingeyri
Grunnskólinn á Suðureyri
Leikskólinn Tjarnarbær á Suðureyri
Grunnskóli Önundarfjarðar
Leikskólinn Grænigarður á Flateyri
Leiskólinn Tangi í Ísafirði
Verkefnið var styrkt af Barnamenningarsjóði 2024

Ísafjörður: stækka spennistöð á Skeiði

Yfirlitsmynd af stækkun byggingarreitsins.

Orkubú Vestfjarða og Landsnet hafa sótt um stækkun á byggingarreit við Skeiði 7 á Ísafirði vegna áforma um nýjan rafstreng Landsnets og viðbyggingu við spennistöð undir nýjan spenni.

Er það vegna vegna fyrirhugaðs rafstrengs til Súðavíkur, sem verður lagður og tekin í notkun árið 2027. Í spennistöðinni eru fyrir tveir spennar og vegna nýja rafstrengsins þarf að bæta við þriðja spenninum. Byggja þarf viðbyggingu norðan megin við húsið.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Tunguskeið er stærð á núverandi byggingarreit 22 m x 30 m. Reiturinn er því
sem næst full nýttur. Til þess að koma fyrir nýju spennahólfi við spennistöðina þarf að stækka
byggingarreitinn um 52 fermetra (5,2 m x 10 m).

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til að erindið verði grenndarkynnt fyrir aðliggjandi lóðarhöfum við Skeiði 5 og Skeiði 4 á Ísafirði og Vegagerðinni m.t.t. veghelgunarsvæðis.

Goðdalur : friðlýsing fyrirhuguð

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár 2025-2029. Í þingsályktunardrögunum er lagt til að sex svæði fari á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár út frá verndun vistgerða, fuglategunda og jarðminja, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. 

Eitt þessara svæða er á Vestfjörðum. Það er Goðdalur í Bjarnarfirði á Ströndum. Um það segir í drögunum:

„Svæðið sem lagt er til að friðlýsa er 0.23 km² og er í sveitarfélaginu Kaldrananeshreppi. Svæðið er tilnefnt á framkvæmdaáætlun vegna móahveravistar, mýrahverarvistar og jarðhitalækja. Verndargildi móahverarvistar er metið mjög hátt og er vistgerðin á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Verndargildi mýrahveravistar er metið mjög hátt. Verndargildi jarðhitalækja er metið hátt. Markmið friðlýsingar er að tryggja vernd þessara vistgerða og þar með viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðisins.

Svæðið liggur í afskekktum dal inn af Bjarnarfirði og rennur Goðdalsá eftir dalnum. Mýrlent er og flatlendi með aflíðandi hlíðum. Jarðhitalækir seytla um grýttar hlíðar og um flata upp af Goðdalsá. Mýrahveravist einkennir jarðhitagróðurinn en þar sem er þurrara er móahveravist einkennandi vistgerð.“

Þá segir að svæðið sé mjög viðkvæmt og flokkast ekki sem ferðamannastaður og gæti þurft að setja hóflega stýringu um svæðið s.s. með fræðsluskilti til að fyrirbyggja traðk. Svæðið fellur undir ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga um sérstaka vernd vistkerfa og jarðminja.

Vesturbyggð: styrkir sögutengd bingóspjöld

Sýnishorn af bingóspjaldi.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt 150 þús. kr. styrk til að hanna og prenta bingóspjöld með gripum sem tengjast sögu á sunnanverðum Vestfjörðum.

Hugmyndin er að sækja innblástur í gripi sem tengjast sögu Sunnanverðra Vestfjarða og hvetja þannig börn og fullorðna, sem og erlenda ferðamenn, til þess að skoða umhverfið hér, fá áhuga á sögunni, því hvernig lífið var hér á árum áður, þjóðsögum og fleiru.
Bingóspjöldin verða prentuð á góðan en umhverfisvænan pappír þannig að þau séu eiguleg en verði ekki hent í ruslið eftir notkun. Þannig geta bingóspjöldin t.d. orðið að eigulegri minningu frá heimsókn ferðamanna á Sunnanverða Vestfirði.
Áætlað er að bingóspjöldin verði prentuð á fjórum tungumálum: íslensku, ensku, frönsku og spænsku. Áætlað er að prenta 4 mismunadi bingóspjöld, tvö sett fyrir yngri börn (150 stk.) og 2 sett fyrir eldri börn og fullorðna (200 stk.).

Bingóspjöldin verða ekki seld heldur verða gefins.

Umsjónaraðilar verkefnisins eru Camille Jeanne Salmon og Birta Ósmann Þórhallsdóttir. Camille er
hugmyndasmiður bingóspjaldanna og mun sjá um hönnun og textagerð en Birta mun sjá um að teikna upp gripina og prentun á bingóspjöldunum. Prentun mun fara fram á prentverkstæði Skriðu á Patreksfirði.

Arctic Fish: 2024 besta árið í sögu fyrirtækisins

Arctic Fish hefur birt upplýsingar um afkomu sína á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og samantekt yfir árið í heild. Árið 2024 í heild sinni var það besta í sögu Arctic Fish með en framlegð rekstrarins (operational EBIT) var 15,1 milljón Evra (1,42 Evra pr.kg) eða 2,2 milljarðar króna. Rekstrarafkoma ársins, að meðtöldum vaxtagreiðslum og tekjuskatti, var 2,6 milljónir Evra eða hagnaður um tæpar 400 milljónir króna.

Heildartekjur ársins voru nærri 12 milljarðar króna og slátrað var 10.667 tonnum af laxi. Eigið fé var í árslok um 13 milljarðar króna og nam um 35,4% af bókfærðum eignum.

Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að slátra um 15 þúsund tonnum af eldislaxi, sem er aukning um 40% frá síðasta ári.

Arctic Fish hefur framleiðsluleyfi fyrir 29.800 tonnum af eldislaxi í fimm fjörðum á Vestfjörðum og þar af eru 27.000 tonn af frjóum laxi. Stefnt er að því að framleiðslan verði 25 þúsund tonn árið 2029.

Suðurtangi: 7 umsóknir um 4 lóðir

Teikning af lóðunum fjórum sem eru samliggjandi á Suðurtanga.

Fimm umsóknir bárust um fjórar lóðir á Suðurtanga og auk þess fer Eimskip fram á að tvær lóðanna verði teknar að lista yfir lausar lóðir vegna hagsmuna fyrirtækisins sem þurfi stærra svæði en það hefur nú. Auglýstar voru lóðirnar Hrafnatangi 4 og 6 og Æðartangi 9 og 11.

Bendir Eimskip á að vikulegar skipaviðkomur eru á vegum fyrirtækisins á Ísafirði og að þeirri starfsemi fylgja þung og fyrirferðarmikil tæki. „Með öryggissjónarmið fyrirtækisins í huga er rökrétt að horfa í nálægð við fyrirhugað gámasvæði á syðsta hluta tangans“ segir í bréfi Eimskips til bæjaryfirvald sem vill að lóðirnar Hrafnatangi 6 og Æðartangi 11 verði ekki úthlutað.

Gatnagerðargjöld fyrir lóðirnar eru frá 41 m.kr. upp í 70 m.kr. eða samtals 220 m.kr. fyrir allar lóðirnar fjórar.

Umsóknir bárust frá þremur fyrirtækjum. Ísinn ehf sótti um tvær lóðir, Hrafnatanga 4 og Hrafnatanga 6. Nora Seafood ehf sótti um Hrafnatanga 6 og Vestfirskir verktakar ehf sóttu um lóðirnar Æðartangi 9 og Æðartangi 11.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fól bæjarstjóra að vera í sambandi við Eimskip en að öðru leyti voru umsókninar lagðar fram til kynningar.

Scale AQ: nýtt þjónustufyrirtæki á Ísafirði

Magnús Þó Heimisson. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Scale AQ Iceland er nýtt fyrirtæki sem hefur hafið starfsemi á Vestfjörðum. Það selur fóðurpramma og búnað til fiskeldis og þjónustar laxeldisfyrirtækin í fjórðungnum.

Frá áramótum er Magnús Þór Heimisson starfsmaður fyrirtækisins á Vestfjörðum. Auk þess er Scale AQ með starfsemi á Austfjörðum og í Reykjavík.

Magnús Þór segir að Scale AQ hafi einmitt selt á dögunum til Arctic Fish nýjan fóðurpramma og annan búnað til eldisins í Tálknafirði. Það er fjárfesting sem nemur um 1,3 milljarði króna. Á Vestfjörðum séu 7 fóðurpramma frá Scale AQ.

Hann var áður verkstjóri hjá vélsmiðjunni Þrym og þar áður yfirvélstjóri á Stefnir IS. Að sögn Magnúsar Þórs hefur verið meira en í nógu að snúast síðan hann hóf störf og ekki gefist tími til þess að koma sé almennilega fyrir í aðstöðu fyrirtækisins á Ísafirði. Í dag er ferðinni heitið vestur í Arnarfjörð til þess að fylgjast með og yfirfara búnað.

Scale AQ er norskt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Þrándheimi en stofnað var sérstakt félag á Íslandi um stafsemina hér á landi.

Frá Noregi.

Orkuáætlun með þátttöku almennings til að byggja upp seiglu á Vestfjörðum

Brianna Cunliffe útskrifaðist úr umhverfisfræði og stjórnmálafræði frá Bowdoin háskólanum árið 2022.

Brianna Marie Cunliffe, meistaranemi á fyrsta ári í Sjávarbyggðafræði hjá Háskólasetri Vestfjarða hefur hlotið 350.000 kr. rannsóknarstyrk frá Byggðastofnun fyrir lokaverkefnið sitt sem heitir “Orkuáætlun með þátttöku almennings til að byggja upp seiglu á Vestfjörðum”

Rannsókn hennar snýst um að þróa byggðamiðaðar lausnir varðandi seiglu í orkumálum. Hún segir að þátttaka almennings sé mikilvæg í þessu samhengi og getur hún leitt til áhrifaríkra og framsýnna lausna og komið í veg fyrir kostnaðarsamar tafir eða árekstra. Markmið rannsóknarinnar er að tengja saman gildi, forgangsröðun og þekkingu hagsmunaaðila á Vestfjörðum með aðferðum sem byggja á þátttöku þeirra. Með því að þróa stefnumótandi framtíðarsýn sem almenningur tekur þátt í mun Brianna kanna kosti þess að færa umræðu og ákvarðanatöku í orkumálum nær samfélaginu.

Brianna vill vinna náið með heimamönnum og mun skipuleggja vinnustofur með hagsmunaaðilum. Í þeim verða kannaðar mismunandi leiðir í orkumálum og fjallað um helstu áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir.

Hún leggur áherslu á að vinna verkefnið á Vestfjörðum: „Þessi styrkur skiptir mig miklu máli þar sem hann gefur mér betri möguleika á að einbeita mér að verkefninu. Hann gerir mér kleift að skapa hlýlegt og opið umhverfi fyrir þátttakendur, draga úr hindrunum fyrir þátttöku og að ég get unnið þetta verkefni á Vestfjörðum.” – segir Brianna. Hún nefnir einnig að það að vera á staðnum í persónu er grundvallaratriði til að byggja upp traust og öðlast heildrænan skilning og að það opni líka dyr að frekari tengslum við starfsemi Byggðastofnunar og samstarfsaðila hennar víða um svæðið. Það stuðli í kjölfarið að því að verkefnið nýtist samfélaginu enn betur.

“Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna með Byggðastofnun strax á fyrstu stigum rannsóknarinnar, svo hægt sé að tryggja að verkefnið mætir þörfum samfélagsins.“ – bætir Brianna við.

Ástand djúpkarfa á Íslandsmiðum

Nýliðun karfastofna í heimshöfunum er mjög sveiflugjörn og gjarnan langt milli þess sem sterkir árgangar sjást. Jafnframt eru karfategundir hægvaxta og seinkynþroska. Því er mikilvægt að veiðihlutfall sé lágt því þannig má draga úr sveiflum í veiðum og halda hrygningarstofni yfir varúðarmörkum.

Djúpkarfastofninn við Ísland er metinn undir varúðarmörkum og að það eru orðin meira en 15 ár síðan vart var við þokkalega nýliðun í djúpkarfastofninum. Mælingar Hafrannsóknastofnunar sýna því langvarandi brest í nýliðun sem á komandi árum mun leiða til enn frekari minnkunar hrygningarstofns djúpkarfa. Mun það ástand vara þar til nýliðun batnar. Allar veiðar munu því hafa neikvæð áhrif á stofninn.

Þann 21. nóvember 2024 gaf þáverandi matvælaráðherra út 3.800 tonna aflamark fyrir djúpkarfa fyrir fiskveiðiárið 2024/2025 en í júlí 2024 hafði þáverandi matvælaráðherra farið að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og ekki úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2024/2025.

Ástæða fyrir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um ekkert aflamark (0 tonna ráðgjöf) fiskveiðiárin 2023/2024 og 2024/2025 er slæmt ástand stofnsins sem er metinn undir varúðarmörkum og nýliðun síðustu 15 ár eða svo hefur verið lítil sem engin.

Þetta er staðfest bæði með gögnum úr stofnmælingum og úr afla fiskiskipa.

Nýjustu fréttir