Eins og greint var frá fyrir helgi hefst innan skamms lyfjameðhöndlun vegna laxalúsar í Arnarfirði. Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, segir þetta slæm tíðindi en þau komi engan veginn á óvart. „Þetta sýnir fram á það sem við höfum alltaf haldið fram. Þegar menn fara í svona umfangsmikið eldi þá koma upp þessar lúsasýkingar,“ segir hann.
Laxalús þrífst illa við lágt hitastig og í tilkynningu Matvælastofnunar um viðbrögð vegna laxalúsar í Arnarfirði segir að hiti sjávar í firðinum hafi verið óvenjulegur í vetur og sem dæmi var meðalhiti sjávar í Arnarfirði 3,5°C í febrúar á þessu ári en 1,5°C á sama tíma í fyrra.
Jón Helgi segir að hærra hitastig geti vissulega haft einhver áhrif en hann telur ekki að þetta verði einstakur atburður vegna hærri hita sjávar. „Við höfum ekki hitt nokkurn erlendan lúsasérfræðing sem heldur öðru fram en að lúsasýkingar fylgi umfangsmiklu eldi.“
Hann segir það algjörlega ljóst að verði af stórfelldum laxeldisáformum í Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði muni lúsin fylgja í kjölfarið með verulega neikvæðum afleiðingum fyrir náttúrulega stofna.
Á landsþingi Slysavarnafélagins Landsbjargar sem fór fram á Akureyri um helgina var kjörin ný stjórn félagsins. Sjálfkjörinn formaður var Smári Sigurðsson sem gegnt hefur formennskunni síðustu tvö ár. Meðal þeirra sem sitja í hinni nýju stjórn er Ísfirðingurinn Auður Yngvadóttir sem starfað hefur með Björgunarfélagi Ísafjarðar um árabil og setið í stjórn Landsbjargar. Valur S. Valgeirsson, formaður björgunarsveitarinnar Bjargar á Suðureyri var einnig endurkjörin í stjórn Landsbjargar.
Fjölmenni var á landsþinginu og sóttu það um sex hundruð félagar Slysavarnafélagsins Landsbjargar, þar sem auk hefðbundinna þingstarfa fóru fram björgunarleikar félagsins þar sem att er kappi í gamni og alvöru í ýmsum björgunarstörfum. Má nefna fjallabjörgun, skyndihjálp og að bakka á gömlum traktor með kerru í eftirdragi. Forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson heimsótti óvænt þingið og ávarpaði gesti. Ræddi hann um mikilvægi sjálfboðaliða Slysavarnafélagsins Landsbjargar í störfum sínum og kraftinn þegar til þeirra væri leitað.
Ísland er með næstbesta heilbrigðiskerfi í heimi, samkvæmt umfangsmikilli rannsókn á heilbrigðiskerfum heimsins. Niðurstöður voru birtar í The Lancet, einu virtasta og elsta læknatímariti heims, fyrir helgi.Um er að ræða útreikning á heilbrigðisvísitölu sem er reiknuð út frá aðgengi og gæðum heilbrigðisþjónustu með tilliti til dánartíðni af viðráðanlegum sjúkdómum. Heilbrigðisvísitala Íslands reiknast sem 94 af 100 mögulegum og er það rétt á eftir Andorra sem trónir á toppnum með 95 af 100. Sviss er í þriðja sæti með 92 og Noregur og Sví- þjóð saman í fjórða með 90 stig.
Heilbrigðisvísitala er reiknuð út frá aðgengi og gæðum heilbrigðisþjónustu með tilliti til dánartíðni af viðráðanlegum sjúkdómum. Rannsóknin tekur til 195 landa og skoðaðar eru upplýsingar frá árunum 1990 til 2015.
Verslunin Samkaup hefur í gegnum árin stutt dyggilega við bakið á körfboltanum á Ísafirði. Á föstudag opnaði Samkaup nýja og glæsilega verslun á Ísafirði undir merkjum Nettó. Í tilefni þess handsöluðu þeir Ómar Valdimarsson forstjóri Samkaupa og Ingi Björn Guðnason, ritari körfuknattleiksdeildar Vestra endurnýjaðan samstarfssamning milli Nettó og Körfuknattleiksdeildarinnar.
Samstarf Vestra og Samkaupa verið afar gott í gegnum árin og hefur yngri flokkastarfið á Ísafirði og nágrenni einkum notið góðs af því. Sú áhersla fyrirtækisins að leggja yngri flokkum sérstaklega lið birtist vel á föstudag því krakkar sem heimsóttu verslunina fengu körfubolta að gjöf frá Nettó.
Körfuknattleiksdeild Vestra er í skýjunum sinni með endurnýjun samningsins og hlakkar til áframhaldandi samstarfs á næstu árum við Nettó. „Slíkir bakhjarlar skipta sköpum fyrir starf deildarinnar,“ segir í tilkynningu.
Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt 48 ára gamlan karlmann í níu mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum þegar hann í apríl 2014 bað stjúpdóttur sína og vinkonu hennar um að sýna á sér brjóstin þegar hann tók mynd af þeim þar sem þær í heitum potti fyrir utan heimili þeirra og klæddar í bikiní. Maðurinn var einnig dæmdur fyrir líkamsáras gegn þáverandi unnusti sinni og auk þess fyrir umferðarlagabrot. Hann játaði bæði þau brot en neitaði kynferðisbrotinu og því að hafa brotið gegn barnaverndarlögum.
Við skýrslutöku lýsti stjúpdóttir mannsins því þannig að hún hefði verið í heitum potti með vinkonu sinni þegar hann hefði staðið á svölunum og ætlað að taka af þeim mynd. Hafi „hann beðið þær um að „fara upp“ þannig að brjóstin á þeim sæjust á myndinni.
Að mati Héraðsdóms kom ekkert fram sem rýrði framburð stúlkanna og framburður ákærða metinn óstöðugur og ekki hægt að byggja dóm á honum. Maðurinn á að baki langan sakaferil sem nær til ársins 1993.
Vestri lék fyrsta útileik tímabilsins í gær þegar liðið lék við Knattspyrnufélag Vesturbæjar (KV) á KR-vellinum í Vesturbæ Reykjavíkur. Vestri hafði sigrað báða leiki sína í deildinni en KV var án sigurs, höfðu unnið einn leik og gert eitt jafntefli. Leikurinn var í rólegri kantinum og markalaust í hálfleik. Á 83. mínútu dró til tíðinda þegar KV fékk vítaspyrnu sem Jón Kári Ívarsson skoraði úr. Fleiri urðu mörkin ekki og KV sigraði 1-0.
Vestri er í þriðja sæti deildarinnar með sex stig.
Næsti leikur Vestra er við Völsung frá Húsavík á laugardaginn. Leikið verður á Torfnesvelli á Ísafirði.
Undir hinum fagra Breiðadalsstiga í Önundarfirði stendur bærinn Neðri Breiðadalur og þar var á laugardaginn opnað lítið kaffihús. Húsfreyjan Guðrún Hanna Óskarsdóttir áformar að bjóða upp á sitthvað þjóðlegt með kaffinu, til dæmis hinar frægu og gómsætu vestfirsku hveitikökur.
Húsbóndinn á bænum, Halldór Mikkaelsson, lagðist í berjatínslu á liðnu hausti og fyrir utan hina hefðbundnu rabarbarasultu með pönnsunum býður Gunna upp á bragðgóðan og meinhollan berjarjóma, bruggaðan úr berjum bóndans og væntanlega vestfirskum Örnurjóma. Rúgbrauð og kanilsnúðar leynast sömuleiðis á matseðlinum.
Neðri Breiðadalur er vel í sveit sett, stendur rétt við gatnamótin til Flateyrar og býður upp á ægifagurt útsýni yfir allan Önundarfjörð. Sólin skín þar lengur menn eiga að venjast, hér á milli fjallana.
Laugardaginn 20. maí var formleg opnun á nýju húsnæði Húsasmiðjunnar á Ísafirði að Æðartanga 2-4 en vikuna á undan stóðu starfsmenn í ströngu við að flytja allar lagerinn milli húsa. Nýja húsnæðið er rúmgott og bjart, 1150 fermetrar og nú er er hægt að versla allt á sama stað, timbrið, verkfærin, blómin og naglana. Að sögn þeirra Húsasmiðjumanna mun á nýjum stað verða meira úrval og aukin þjónusta.
Haraldur Júlíusson rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar á Ísafirði var kampakátur á móttöku sem haldin var fyrir fagmenn föstudaginn 19. maí og sagði þar í ræðu sinni að starfsmannahópur fyrirtækisins á Ísafirði væri einstakur og allir unnið sem einn maður við flutningana og uppsetningu á nýrri verslun.
Arna Lára Jónsdóttir formaður bæjarráðs sagði í ræðu sinni við sama tækifæri að þessi aukna þjónusta og fjárfesting Húsasmiðjunnar á svæðinu væri í takt við þá tilfinningu að nú hefðum við náð viðspyrnu og leiðin væri upp á við.
Dansnemendur sem stundað hafa nám við Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar í vetur héldu í vikunni vorsýningu sína í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Þar tóku yfir 130 börn þátt í glæsilegri sýningu sem unnin var af kennara þeirra Hennu-Riikku Nurmi í samstarfi við nemendurna. Sýningin var tvískipt þar sem annars vegar komu fram yngri nemendur skólans sem og þeir nemendur sem tekið hafa dans sem val í frístund við Grunnskólann á Ísafirði í vetur, og sýningu eldri nemenda, sem sumir hverjir hafa stundað dansnám í áratug þrátt fyrir að vera enn ungir að árum. Fjölmargir komu og báru verkin augun og telur Henna að um 400 manns hafi séð sýningarnar. Viðbrögðin létu ekki á sér standa á samfélagsmiðlum þar sem sýningin var lofuð í hástert.
12 ár með hléi
Henna segir glatt yfir danslífinu á Ísafirði meðal yngri kynslóðarinnar. Í vetur hafa yfir 100 nemendur stundað nám við skólann þar sem kenndur er ballett, nútímadans, jazzdans og skapandi dans með yngri hópunum. Í vetur hafa svo bæst við um 30 nemendur sem tekið hafa dans-vinnusmiðjur í frístundinni við G.Í. Henna, sem er finnsk, kom fyrst til Ísafjarðar árið 2005 og tók þá til við að kenna við Listaskólann og vorið eftir bauð hún upp á fyrstu vorsýningu nemenda í Edinborgarsal, sem þá var enn á framkvæmdastigi. Ef undan eru skilin tvö ár er Henna fór á heimaslóðir í Finnlandi hefur hún verið búsett á Ísafirði og dansvætt komandi kynslóðir Ísfirðinga. Hún hefur unnið hreint ótrúlegt starf við innleiðingu á danslistinni á litlu samfélagi á hjara veraldar, en hún er eini starfandi danskennari Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar.
Strákunum fjölgar
Dansinn hefur verið vinsæll meðal stúlkna allt frá upphafi en síðustu ár hefur strákunum fjölgað, sem Henna segir afar ánægjulega þróun: „Þeir eru að fatta að þetta snýst ekki bara um ballett – að dansinn geti í raun verið skemmtilegur. Hann hentar til dæmis vel strákum sem kannski vilja ekki fara í hóp- eða keppnisíþróttir,“ segir Henna og bætir við að nú séu farnir að koma til hennar strákar sem vilji vera eins og Michael Jackson. Strákarnir vöktu til að mynda verðskuldaða athygli á vorsýningunni þar sem einn hópurinn hafði sýndi dansmyndband, sem þeir unnu mikið til sjálfir.
Eldri nemendur aðstoða þá yngri
Undirbúningur fyrir vorsýninguna er langur og strangur. Henna segir að hugmyndirnar byrji að vakna fyrir jól og strax í janúar er byrjað að æfa hjá eldri hópunum og fyrir páskafrí séu allir dansar tilbúnir. Hún segir reynsluna afskaplega góða og drjúga fyrir krakkana þar sem þau eru ekki einvörðungu að læra að dansa, heldur einnig læra að vinna í leikhúsi. Eldri nemendurnir taki til að mynda fullan þátt í undirbúa sýningarnar sem og að aðstoða með þau yngri á meðan á sýningum stendur. En líkt og vera vill á litlum stað þarf fólk að búa yfir talverðri fjölhæfni til að láta hlutina ganga upp og var Henna að þessu sinni að keyra hljóð og ljós sýninganna fram í sal á meðan að á þeim stóð.
Áhugasvið krakkanna ræður söguþræði
Þeir sem séð hafa nemendasýningarnar vita að þar ótrúlegt þrekvirki unnið og svo ekki sé minnst á hversu skemmtilegar sýningarnar eru iðulega og listilega tengdar saman þar sem allir fá að spreyta sig. Henna segist hlusta eftir hvar áhugasvið nemendanna liggi þegar hún gerir söguþráð verkanna og á sýningunni í ár var að finna strákakvöld og náttfatapartý, lítil tröll, tölvuleiki, ástarsögu, fréttatíma og hinna ýmsu veralda verur. Þá sýndu elstu nemendurnir balletinn Coppélia sem í fyrri hluta verksins var trútt upprunalegu dansverki Arthur Saint-Léon með tónlist Léo Delibes, en í seinni hlutanum fór verkið í óvæntar áttir með sköpunargleðina að leiðarljósi.
Allir leggjast á eitt
Henna segir það óneitanlega vera mikla vinnu að setja upp vorsýninguna og við bætist að á vorin taki eldri dansnemendur einnig próf með prófdómara – svo álagið sé talvert þær síðustu vikur sem skólinn starfar. Henna segist þó ekki fyrir nokkra muni vilja hætta við sýninguna þó hún sé á svipuðum tíma og prófin. Hún sé einfaldlega of mikilvæg til þess og geri svo mikið fyrir nemendurna sem finnst mikið til þess koma að fá að setja upp sýningu í Edinborgarhúsinu. Hún segir líka að svona sé ekki gert án aðstoðar frá foreldrum og fólkinu í samfélaginu og það séu allir boðnir og búnir að hjálpa til, lána leikmuni, útbúa búninga eða aðstoða með einum eða öðrum hætti og vill hún skila kæru þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt.
Frá þriggja ára upp í tvítugt
–Það er samt ekki annað hægt en að spyrja Hennu hvort þetta sé ekki of mikið fyrir eina manneskju?
„Ég hugsa það stundum og sér í lagi þegar kemur fram á vorið. Þá kemur stundum í kollinn spurningin: Mun ég lifa þetta af? En svo fer undirbúningurinn fyrir sýningarnar á fullt og þá fer maður bara á einhverskonar sjálfsstýringu. Svo við lok sýningar þegar allir eru búnir að standa sig svo vel og koma fram og hneigja sig – þá er svo gaman og þá veit ég að þetta er allt þess virði.“
Nemendur sem stunda nám við skólann eru frá þriggja ára aldri og upp í tvítugt og eru elstu nemendurnir til dæmis í dansinum fimm sinnum í viku. Ekki er dansskóla sem þennan að finna á landsbyggðinni, ef Akureyri er undan skilin og segir Henna nemendafjölda hljóta að vera met miðað við höfðatölu.
Vinna með vestfirska draugasögu
Henna er einnig að vinna að eigin verki um þessar mundir sem hún vinnur með finnsku listakonunum Marjo Lahti og Johanna Eränkö. Þar sameinast dans, leiklist og tónlist í einu verki, Undir yfirborði, þar sem unnið er með vestfirska draugasögu, einnig verða á hverjum stað sem verkið verður sýnt unnið með lókal listamönnum sem koma með sitt innlegg í sýninguna. Verkið verður frumsýnt í Helsinki í ágúst og verður það sýnt á Ísafirði undir lok september, en einnig er ráðgert að sýna það á Nordic Fringe listahátíðinni í Gautaborg og á fleiri stöðum.
Matvælastofnun hefur samþykkt umsókn um lyfjameðhöndlun til varnar laxalús í sjókvíum í einni eldisstöð í Arnarfirði. Þetta kemur fram á vefsíðu Mast í dag. Þar segir að meira hafi verið af laxalús að undanförnu en í hefðbundnu árferði í kjölfar mikilla hlýinda í vetur og miða aðgerðirnar að því að fyrirbyggja uppsöfnun laxalúsar í sumar. Einnig segir að þetta sé í fyrsta sinn frá því á níunda áratugnum sem gripið hefur verið til lyfjameðhöndlunar gegn laxalús á Íslandi. Lyfjagöfin fer þannig fram að kvíunum er lokað með dúk og fiskurinn baðaður upp úr lyfjalausn.
Lúsatalningar einnar sjókvíaeldisstöðvar í Arnarfirði nú í vor sýndu aukið magn af laxalús. Í vetur hafa aðstæður í sjó verið óvenjulegar vegna mikilla hlýinda. Á vef Mast segir að meðalhiti sjávar í Arnarfirði var 3,5°C í febrúar á þessu ári en 1,5°C á sama tíma í fyrra.
Matvælastofnun fór í eftirlit á stöðinni eftir að stofnuninni bárust þessar upplýsingar, ásamt beiðni stöðvarinnar um að fá að meðhöndla fiskinn í stöðinni gegn laxalús. Stofnunin mat ástandið þannig að tilefni væri til að grípa inn í og fyrirbyggja að smitið nái að magnast upp með hækkandi sumarhita
Arnarlax hf. er eina fyrirtækið með sjókvíar í Arnarfirði. Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, vildi ekki tjá sig um lyfjameðhöndlunina þegar eftir því var falast. Í vetur þegar rætt var við Víking um laxalús í Arnarfirði sagði hann að lúsin væri á undanhaldi og taldi að ekki væri þörf á að hafa áhyggjur af henni.