Sunnudagur 19. janúar 2025
Síða 2198

Mikil hætta á grjóthruni úr Kubba

Göngustígur ofan varnargarðs við rætur Kubba í Skutulsfirði verður lokaður næstu tvær vikur eða svo, sem og framkvæmdasvæðið allt. Hafin er grjóthreinsun ofar í fjallinu og er mjög mikilvægt að fólk virði lokanir sem settar hafa verið upp, enda er hætta á grjóthruni mjög mikil meðan á hreinsuninni stendur.

Undirbúningur fyrir uppsetningu stoðvirkja í hlíðum Kubba hófst í fyrra með umdeildri veglagningu upp fjallið. Uppsetning stoðvirkjanna hefst í sumar og verkið er á hendi ÍAV.

Heildarlengd stoðvirkjanna er um 1.992 metrar, dreift á 29 línur og bora þarf 1.400 holur fyrir bergfestur og moka fyrir 700 undirstöðum sem halda uppi grindunum.

Verklok eru áætluð í september 2018.

Mun ódýrara að byggja á gervigrasvellinum

Kostnaður við jarðvinnu og grundun fyrir fjölnotahús á Torfnesi getur numið tæpum 100 milljónum króna. Skipulags- mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar vinnur að nýju deiliskipulagi á Torfnesi og þar er til umfjöllunar staðsetning fyrir fjölnotahús. Verkfræðistofna Verkís var fengin til að meta kostnað við grundun lóðanna og voru tvær staðsetningar skoðaðar. Annars vegar á gervigrasvellinum og hins vegar milli grasvallar og íþróttahússins. Niðurstaða Verkís er að kostnaður við grundun milli grasvallar og íþróttahúss er 90 milljónum króna dýrari en á gervigrasvellinum.

Í minnisblaði Verkís kemur að nokkur þekking er á jarðvegi og undirlagi á svæðinu. Árið 1998 gerði Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen, nú Verkís, jarðvegsrannsóknir á Torfnesi vegna fyrirhugaðra framkvæmda við leik- og grunnskóla á svæðinu. Rannsóknin fól meðal annars fram með jarðvegsborunum og jafnframt voru teknar sex gryfjur á svæðinu með beltagröfu. Niðurstaða rannsóknarinnar var að á svæðinu milli grasvallar og íþrótthússins er efsti metrinn sæmilega þéttur, en þar undir er fast undirstaða á þriggja til fjögurra metra dýpi.

Förgun á rusli dýrasti þátturinn

Miðað við stærð hússins má gera ráð fyrir að fjarlægja þurfi allt að 12 þúsund rúmmetra af svæðinu milli grasvallar og íþrótthússins. Á þessu svæði er stór fráveituútrás sem þyrfti að færa til, þá þarf að færa grasvöll til um 9 metra vegna brunavarna. Jafnframt mun frjálsíþróttasvæðið fara undir húsið og  um 20 metrar af hlaupabrautinni. Svæðið milli vallanna er of lítið fyrir þessa aðstöðu og því þyrfti að finna því annan stað. Í minnisblaði Verkís kemur fram að svæðið var áður ruslahaugar og kostnaður við að fjarlægja rusl er verulegur og mikil óvissa í magni. Ef miðað er við að ruslið sé að meðaltali einn metri að þykkt þá er magnið 3700 rúmmetrar. Gjaldskrá Funa gerir ráð fyrir rúmmetragjaldi 9470 kr/m³ eða förgunarkostnaði upp á 35 milljónir króna. Kostnaður við endurbyggingu frjálsíþróttasvæðis er áætlaður 25 milljónir króna.. Áætlaður kostnaður við færslu á grasvelli og girðingu er 4 milljónir króna og kostnaður við færslu á fráveiturás er áætlaður 4 milljónir króna.

Heildarkostnaður við grundun milli grasvallar og íþróttahúss, ásamt því að færa grasvöllinn og endurgera frjálsíþróttaaðstöðu er því áætlaður 94 milljónir króna.

Óverulegur kostnaður

Grundun á gervigrasvellinum er mun ódýrari og í rannsókninni frá 1998 kemur fram að byggja megi hlutfallslega létta byggingu beint á fyllinguna eftir að fyllingin hefur verið þjöppuð rækilega með þungum valtara. Frá vallarhúsi liggur fráveitulögn út í sjó. Þar sem eingöngu er um að ræða fráveitu frá einu húsi ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að lögnin verði þar áfram, hins vegar þarf að endurskoða staðsetningu brunna. Kostnaður við grundun húss á þessum stað er því óverulegur eða að hámarki 5 milljónir króna.

 

 

 

Stelpur og tækni í Háskólasetrinu

Um 30 stelpur úr 9. bekk í grunnskólum á Ísafirði, Bolungarvík og Súðavík kynna sér í dag fjölbreytt tæknileg viðfangsefni og starfsmöguleika í tæknifyrirtækjum viðburðinum Stelpum og tækni í Háskólasetri Vestfjarða. Viðburðurinn Stelpur og tækni er nú haldinn í fjórða sinn í samstarfi Háskólans í Reykjavík, SKÝ og Samtaka iðnaðarins. Markmiðið er að vekja áhuga stelpna á fjölbreyttum möguleikum í tækninámi og störfum, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tæknigeiranum og brjóta niður staðalímyndir. Grunnskólastelpur Í Reykjavík, á Akureyri og í Fjarðabyggð hafa einnig fengið að kynnast tæknigeiranum á Stelpum og tækni í sinni heimabyggð, á vegum HR.

Á Ísafirði fara stelpurnar í vinnusmiðju í umsjá /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR. Síðan fara stelpurnar í heimsókn í tæknifyrirtækið 3X þar sem þeim verður veitt innsýn í í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi.

„Girls in ICT Day“ er haldinn víða um Evrópu í apríl á hverju ári í tengslum við Digital Agenda-áætlunina. HR hefur haldið utan um daginn hér á landi frá upphafi. Stelpur og tækni er styrkt af Jafnréttissjóði og Framkvæmdasjóði jafnréttismála.

annska@bb.is

Heiðra íslenska langömmu með listgjörningi

Fjöllistahópurinn frá Kanada

Kanadískur fjöllistahópur hefur dvalið í gestavinnustofum ArtsIceland á Ísafirði frá því í byrjun maímánaðar og fá Ísfirðingar og nágrannar að njóta afraksturs vinnu þeirra í vikunni. Annars vegar verður boðið upp á listamannaspjall í hádeginu á miðvikudag í Edinborgarsal og einnig verða þau með tónleika og gjörning á sama stað á föstudagskvöld. Hópinn skipa listakonan Jasa Baka sem vinnur þvert á listgreinar, sellóleikarinn og fjöllistakonan Tyr Jami, tónlistarmaðurinn Justin Guzzwell, hljóðlistamaðurinn Eric Shaw og Frances Adair Mckenzie sem sérhæfir sig í nýjum miðlum. Þá eru hér kvikmyndagerðarkonan Catherine Legault sem vinur heimildarmynd um verkefnið og móðir systranna Jösu og Tyr, listakonan Debora Alanna.

Samstarf hópsins hófst í kringum upptökur frá langömmu þeirra Jösu og Tyr og ömmu Deboru, Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem fluttist frá Vestmannaeyjum til Kanada árið 1924. Hún náði háum aldri og lést árið 1994, þá 103 ára. Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar söng hún vísur og þjóðlög, eftir minni, inn á kassettur sem hún sendi til dóttur sinnar Jónu sem bjó í Montreal og átti hún að spila þær fyrir barnabörnin.

Samstarfsverkefni þeirra, New spring in the Dead of winter, er því í raun samstarf fjögurra kynslóða kvenna sem hófst á Íslandi árið 1924. Verkefnið tengir listamenn úr ýmsum áttum sem ekki eru tengdir því fjölskylduböndum sem saman skapa vel ígrundað og töfrandi form sagnamennsku. Sjónheimur Zuzu Knew (Jasa Baka) og tónlist Syngja sem þau Tyr og Justin skipa eru innblásin af persónugerðri náttúru og dulúðlegum erkitýpum.

Tónlistin og hið sjónræna flýtur á milli þess sem er hér og handanheima. Í tónlistinni mætast nútímaheimur raftónlistarinnar, klassískur sellóleikur, hljóðgervlar og raddir. Lifandi myndmáli er varpað er á senuna á meðan á tónleikum stendur og leika búningar Zuzu þar einnig stórt hlutverk. Í heiminum sem þau skapa er ekki að finna skýra línu sem skilur að hvar raunveruleikinn endar og fantasían hefst.

Í listamannaspjallinu sem verður sem áður segir í menningarmiðstöðinni Edinborg munu listamennirnir segja frá verkefnum sínum og flytja nokkur tóndæmi. Listamannaspjallið hefst klukkan 12:10 og verður hægt að kaupa sér súpu og kaffi til að njóta á meðan á því stendur.

Á tónleikunum á föstudagskvöldið, sem hefjast klukkan 20 í Edinborgarsal, má njóta ævintýraheims fjöllistahópsins. Syngja hefur komið fram víða um heim á hinum ýmsu hátíðum og eftir að Ísafjarðardvölinni lýkur koma þau fram í Eldheimum í Vestmannaeyjum og í Mengi í Reykjavík.

annska@bb.is

Fullt hús á forritunarnámskeiði

Krakkarnir voru greinilega afar áhugasamir.

Um helgina voru haldin forritunarnámskeið fyrir börn í Fab Lab smiðjunni á Ísafirði. Það voru hugsjónasamtökin Kóder sem stóðu fyrir námskeiðunum þar sem annars vegar var boðið upp á svokallað Scratch námskeið fyrir krakka á aldrinum 6-10 ára og Python námskeið fyrir krakka á aldrinum 10-14 ára. Vel var mætt á námskeiðin. Þátttakendur voru 40 talsins og komust færri að en vildu. Það var mikill áhugi fyrir forrituninni hjá krökkunum, sem stóðu sig með prýði að sögn Kóderfólks, en kennari á námskeiðinu var nýkosinn formaður Kóder, Eyþór Máni Einarsson.

Í skoðun er að bjóða aftur upp á forritunarnámskeið í sumar og einnig að vera með kennaranámskeið.

Kóder vinna að því að gera forritun aðgengilega fyrir börn og unglinga úr öllum þjóðfélagsstigum. Þau vilja opna nýjar dyr innan tölvuheimsins með því að kynna forritun fyrir börnum og unglingum. Þar sem með henni geta þau stað þess að vera einungis neytendur á afþreyingarefni og tölvuleikjum eflt eigin rökvísi, sköpunargáfu og læra vandamálagreiningu frá unga aldri.

annska@bb.is

Stefnir á aukið fiskeldi í Skutulsfirði

Sjókvíar Hábrúnar í Skutulsfirði.

Hábrún ehf. í Hnífsdal áformar aukið fiskeldi í Skutulsfirði. Fyrirtækið hefur verið með leyfi fyrir 200 tonna framleiðslu á regnbogasilungi og þorski frá árinu 2002. Nú stefnir Hábrún á að auka framleiðsluna í 1000 tonn á ári. Þar sem eldið fer yfir 200 tonn þarf fyrirtækið að tilkynna það til Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Fyrirrennari Hábrúnar, fyrirtækið Álfsfell ehf., sendi tilkynningu um aukið fiskeldi til Skipulagsstofnunar árið 2009. Skipulagsstofnun úrskurðaði sama ár að aukið fiskeldi þyrfti að fara í umhverfismat.

Að mati stjórnenda Hábrúnar byggðist ákvörðun Skipulagsstofnunar á varkárni vegna lífrænna efna, uppsöfnunar þeirra og dreifingar. Í tilkynningu Hábrúanar til Skipulagsstofnunar segir forsendurnar frá 2009 hafi breyst umtalsvert. Til að mynda voru á þeim tíma tvö fyrirtæki með eldisleyfi á svæðinu en nú hefur það breyst þar sem Hábrún ræður nú yfir báðum leyfunum. Álfsfell stundaði fyrst og fremst þorskeldi þar sem fóðrað var með miklu magni af síld, loðnu og makríl svo uppsöfnun lífrænna leifa var meiri í eldi á regnbogasilungi sem Hábrún ætlar að leggja megin þungann á. Þá segir í tilkynningunni að með árunum hafi stöðugt orðið skýrara að áhrif fiskeldis á botndýralíf séu staðbundin og afturkræf.

Kerecis fær viðurkenningu Vaxtarsprotans

Ísfirska nýsköpunarfyrirtækið Kerecis er eitt fjögurra fyrirtækja sem fá viðurkenningu Vaxtarsprotans í ár. Viðurkenningin er fyrir að sýna mestan hlutfallslegan vöxt á síðasta ári. Tilgangur Vaxtarsprotans er að vekja athygli á góðum árangri  sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingastarfi þessara fyrirtækja. Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknamiðstöðvar Íslands.

Viðurkenningunum er skipt í tvo flokka, annars vegar fyrirtæki sem velta á milli 10-100 milljónum og hins vegar fyrirtæki sem velta á milli 100-1000 milljónum. Kerecis fær viðurkenningu í fyrrnefnda flokknum ásamt fyrirtækinu TeqHire. Í flokki stærri fyrirtækja fá Valka og Kvikna viðurkenningu Vaxtarsprotans.

Viðurkenningar Vaxtarsprotans verða afhentar á morgun í Grasagarðinum í Reykjavík. Tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri  sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingastarfi þessara fyrirtækja.

Auk þess verður veitt sérstök viðurkenning til sprotafyrirtækis sem náð hefur þeim áfanga á síðasta ári að velta meira en einum milljarði króna og tekur þar með sæti í úrvalsdeild íslenskra hátæknifyrirtækja.

Það fyrirtæki sem sýnir mestan hlutfallslegan vöxt milli áranna 2015 og 2016 auk þess að uppfylla önnur viðmið dómnefndar hlýtur nafnbótina Vaxtarsproti ársins. Fyrirtækið fær til varðveislu farandgrip og verðlaunaskjöld til eignar.

Tveir stútar undir stýri

Lögreglan á Vestfjörðum kærði 24 ökumenn í síðustu viku fyrir að aka yfir löglegum hámarkshraða. Flestir voru þessir ökumenn stöðvaðir í Strandasýslu og á Djúpvegi. Lögreglan stöðvaði ökumann í Bolungarvík á fimmtudag í síðustu viku og er hann grunaður um ölvun við akstur. Aðfaranótt föstudag stöðvaði lögreglan okumann í Bolungarvík. Hann er grunaður um ölvun við akstur og að hafa fyrr um kvöldið ekið utan í grindverk og mannlausa bifreið á Ísafirði

Tilkynnt var um umferðarslys um miðjan dag þann 16. maí í Reykjafirði á Ströndum. Lögregla og sjúkraflutningamenn fóru á vettvang frá Hólmavík. Þá tóku björgunarsveitarmenn í Strandasól þátt í aðgerðum. Jeppabifreið hafði runnið út af veginum og oltið nokkrar veltur. Ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, slapp án alvarlegra meiðsla enda spenntur í öryggisbelti.

Síðasti dagur strandveiða

Fiskistofa hefur tilkynnt að strandveiðar verði óheimilar á svæði A frá og með 23. maí til mánaðamóta.  Veiðidagar í maí á svæðinu verða því alls 13 í ár eða þremur fleiri en í fyrra. Að loknum 11. degi strandveiða á svæði A voru 157 tonn óveidd af 852 tonna leyfilegum afla. Mestur afli var mánudaginn 8. maí 109 tonn. Fjögur strandveiðisvæði eru á landinu og Fiskistofa hefur gefið út leyfi til 467 báta. Tæplega helmingur þeirra, eða 195 bátar, eru á svæði A.

Strandveiðisjómenn, rétt eins og aðrir sjómenn, harma hlutinn sinn, en sterk króna veldur sögulega lágu fiskverði. Landssamband smábátaeigenda hefur sagt fiskverð í upphafi strandveiði 2017 vera ígildi hamfara.

Línurit: Landssamband smábátaeigenda.

Einsdæmi í sögu Golfklúbbsins

Efstu kylfingar á mótinu í gær. F.v Anna Guðrún, Shiran, Víðir Gauti og Janusz Pawel.

Golfvöllurinn í Tungudal opnaði formlega föstudaginn 5.maí , mánuði fyrr en í fyrrasumar. Maí er ekki á enda en Golfklúbbur Ísafjarðar hefur haldið þrjú mót sem er líklega einsdæmi í sögu klúbbsins. Í gær fór fram mót í blíðaskaparverðir og vallaraðstæður eins og þær gerast bestar. Tuttugu og sjö kylfingar tókur þátt í mótinu. Shiran Þórisson sigraði mótið og hlaut hann 37 punkta. Í öðru sæti var Víðir Gauti Arnarson, einnig með 37 punkta. Í þriðja sæti var Anna Guðrún Sigurðadóttir og hlaut hún 35 punkta. Nándarverðlaun fyrir að vera næstur holu á 7/16 braut.

Janusz Pawel Duszak fékk nándarverðlaun fyrir að vera næstur holu á 7/16 braut, en hann náði að vera 98 cm frá holunni.

Næsta vormót Golfklúbss Ísafjarðar  verður sunnudaginn 28.maí kl. 10.

Nýjustu fréttir