Sunnudagur 19. janúar 2025
Síða 2197

Listamannaspjall og tónleikar

Fjöllistahópurinn frá Kanada

Kanadískur fjöllistahópur hefur dvalið í gestavinnustofum ArtsIceland á Ísafirði frá því í byrjun maímánaðar og fá Ísfirðingar og nágrannar að njóta afraksturs vinnu þeirra í vikunni. Annars vegar verður boðið upp á listamannaspjall í hádeginu í dag í Edinborgarsal og einnig verða þau með tónleika og gjörning á sama stað á föstudagskvöld. Hópinn skipa listakonan Jasa Baka sem vinnur þvert á listgreinar, sellóleikarinn og fjöllistakonan Tyr Jami, tónlistarmaðurinn Justin Guzzwell, hljóðlistamaðurinn Eric Shaw og Frances Adair Mckenzie sem sérhæfir sig í nýjum miðlum. Þá eru hér kvikmyndagerðarkonan Catherine Legault sem vinur heimildarmynd um verkefnið og móðir systranna Jösu og Tyr, listakonan Debora Alanna.

Samstarf hópsins hófst í kringum upptökur frá langömmu þeirra Jösu og Tyr og ömmu Deboru, Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem fluttist frá Vestmannaeyjum til Kanada árið 1924. Hún náði háum aldri og lést árið 1994, þá 103 ára. Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar söng hún vísur og þjóðlög, eftir minni, inn á kassettur sem hún sendi til dóttur sinnar Jónu sem bjó í Montreal og átti hún að spila þær fyrir barnabörnin.

Samstarfsverkefni þeirra, New spring in the Dead of winter, er því í raun samstarf fjögurra kynslóða kvenna sem hófst á Íslandi árið 1924. Verkefnið tengir listamenn úr ýmsum áttum sem ekki eru tengdir því fjölskylduböndum sem saman skapa vel ígrundað og töfrandi form sagnamennsku. Sjónheimur Zuzu Knew (Jasa Baka) og tónlist Syngja sem þau Tyr og Justin skipa eru innblásin af persónugerðri náttúru og dulúðlegum erkitýpum.

Tónlistin og hið sjónræna flýtur á milli þess sem er hér og handanheima. Í tónlistinni mætast nútímaheimur raftónlistarinnar, klassískur sellóleikur, hljóðgervlar og raddir. Lifandi myndmáli er varpað er á senuna á meðan á tónleikum stendur og leika búningar Zuzu þar einnig stórt hlutverk. Í heiminum sem þau skapa er ekki að finna skýra línu sem skilur að hvar raunveruleikinn endar og fantasían hefst.

Í listamannaspjallinu sem verður sem áður segir í menningarmiðstöðinni Edinborg munu listamennirnir segja frá verkefnum sínum og flytja nokkur tóndæmi. Listamannaspjallið hefst klukkan 12.10 og verður hægt að kaupa sér súpu og kaffi til að njóta á meðan á því stendur.

Á tónleikunum á föstudagskvöldið, sem hefjast klukkan 20 í Edinborgarsal, má njóta ævintýraheims fjöllistahópsins. Syngja hefur komið fram víða um heim á hinum ýmsu hátíðum og eftir að Ísafjarðardvölinni lýkur koma þau fram í Eldheimum í Vestmannaeyjum og í Mengi í Reykjavík.

Djúpið viðfangsefni árbókar Ferðafélagsins

Árbók Ferðafélags Íslands kemur nú út í nítugasta sinn. Í ár er Ísafjarðardjúp til umfjöllunar. Um Djúpið hefur verið fjallað einu sinni áður, árið 1949 þegar Jóhann Hjaltason skrifaði um Norður-Ísafjarðarsýslu, þar með talda Jökulfirði og Hornstrandir. Um þau ævintýralönd fjallaði Guðrún Ása Grímsdóttir í árbókinni 1994.

Ísafjarðardjúp með fjörðum sínum og inndölum ásamt Snæfjallaströnd, Bolungarvík, Hnífsdal, Súðavík og Ísafjarðarkaupstað er sannkallað gósenland ferðamannsins. Inn í sérstæða náttúrufegurð Djúpsins fléttast svo áhugaverð menningar- og atvinnusaga.

Höfundur þessarar árbókarinnar er dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir þjóðfræðingur. Hún er þaulkunnug svæðinu og á ættir sínar að rekja til Vestfjarða auk þess að hafa búið á Ísafirði um árabil. Hún er útivistarkona af lífi og sál og kannaði ýmsar gönguleiðir gagngert fyrir árbókina.

Bókin er 272 blaðsíður. Um 170 ljósmyndir og 19 uppdrættir prýða bókina auk rammagreina og yfirlitstaflna. Sem löngum fyrr teiknaði Guðmundur Ó. Ingvarsson kortin og Daníel Bergmann tók flestar ljósmyndirnar en tæplega tveir tugir annarra ljósmyndara eiga einnig myndir í bókinni. Vandaðar atriðisorðaskrár auka verulega notagildi verksins.

Ritstjóri árbókarinnar er Gísli Már Gíslason, og ritnefnd skipa auk hans Daníel Bergmann, Eiríkur Þormóðsson og Guðrún Kvaran en þau hafa öll lagt árbókum Ferðafélagsins lið í áratugi.

Árbækur Ferðafélags Íslands hafa komið út árlega óslitið síðan 1928. Í hverri bók er oftast lýsing á afmörkuðu svæði og sögulegt efni tengt því. Nær nú efni bókanna um landið allt, víða í annað eða jafnvel þriðja sinn. Árbækurnar, 90 að tölu, eru því víðfeðm Íslandslýsing á meira en fimmtán þúsund blaðsíðum. Auk þess er greint frá starfi félagsins og deildanna á landsbyggðinni á síðasta ári.

Hverfandi stuðningur við einkarekstur

Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er andvígur einkarekstri í heilbrigðiskerfinu, samkvæmt nýrri rannsókn Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í heilsufélagsfræði við Háskóla Íslands. Þetta á við hvort sem spurt er um rekstrarform sjúkrahúsa, heilsugæslu eða hjúkrunarheimila.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. 86 prósent vilja að það sé fyrst og fremst hið opinbera sem rekur sjúkrahús, 79 prósent vilja að hið opinbera reki heilsugæslustöðvar og 68 prósent að það reki hjúkrunarheimili. Mjög lítill stuðningur er við að einkaaðilar sjái fyrst og fremst um rekstur heilbrigðisstofnana. Rúmt prósent vill að einkaaðilar sjái um rekstur sjúkrahúsa, tvö prósent að þeir reki heilsugæslustöðvar og þrjú prósent hjúkrunarheimili.

 

Metþátttaka í Körfuboltabúðum Vestra

Nú er tæp vika til stefnu þar til Körfuboltabúðir Vestra verða settar en þær fara fram á Torfnesi á Ísafirði dagana 30. maí-4. júní. Þetta er níunda árið í röð sem búðirnar eru haldnar. Metþátttaka er í stóru búðirnar í ár með hátt í 160 iðkendur á aldrinum 10-16 ára. Meðfram búðunum verður einnig boðið upp á svokallaðar Grunnbúðir sem ætlaðar eru iðkendum í 1.-3. bekk.

Alls koma í búðirnar krakkar úr 16 körfuknattleiksfélögum víðsvegar um land. Flestir eru eðlilega frá Vestra en Breiðablik kemur einnig með myndarlegan hóp, hátt í 30 iðkendur og síðan fylgja Njarðvík, KR og Skallagrímur í kjölfarið. Sérstaka athygli vekur að kynjaskiptingin er því sem næst jöfn í búðunum, rétt tæplega helmingur stúlkur og rétt rúmur helmingur drengir. Sýnir það glögglega að kvennakörfubolti á Íslandi er í mikilli sókn.

Þjálfarateymið í ár er ekki af verri endanum en tíu aðalþjálfarar og sjö aðstoðarþjálfarar eru á leið vestur til að gera búðirnar sem best úr garði. Yfirþjálfari í ár er Ingi Þór Steinþórsson, yfirþjálfari Snæfells og margfaldur Íslandsmeistari. Þjálfararnir koma víðsvegar að úr heiminum, frá Íslandi, Serbíu, Makedóníu, Spáni og Bandaríkjunum.

Það gefur auga leið að mikill undirbúningur býr að baki búðahaldi sem þessu en dagskráin er þéttskipuð frá morgni til kvölds. Æft er í þremur aldurshópum, 3-4 æfingar á dag fyrir hvern hóp, boðið er upp á fjölbreytta fyrirlestra, fimm máltíðir eru framreiddar á dag fyrir iðkendur sem gista á heimavist Menntaskólans og þrjár fyrir aðra þátttakendur. Vegleg kvöldvaka fer fram á laugardeginum og boðið er upp á þjálfaranámskeið.

Hefur ekki áhrif á vottanir Arnarlax

Víkingur Gunnarsson. Mynd: mbl.is / Helgi Bjarnason.

Arnarlax vonast til að geta hafið aflúsun í Arnarfirði í þessari viku. Að sögn Víkings Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Arnarlax, er um að ræða sex kvíar á einni eldisstöð sem er við Hringsdal. Aðspurður hvort að notkun lyfja hafi áhrif á strangar vottanir Whole Foods segir Víkingur svo ekki vera. „Hins vegar munum við ekki senda þeim fisk úr þessum kvíum. Í kvíunum í Hringsdal eru um tólf prósent af okkar framleiðslu og eftir meðferðina stenst fiskurinn ekki kröfur Whole Foods. Við höfum hins vegar nóg af öðrum fiski til þess að standa við framleiðsluskuldbindingar okkar. Whole Foods er að sjálfsögðu kunnugt um aðgerðirnar sem framundan eru,“ segir Víkingur.

Til að byrja með verður aflúsað í einni kví af sex. „Við könnum áhrifin í þeirri fyrstu áður en við höldum áfram, væntanlega í næstu viku.“

Hvað varðar fullyrðingu á vefsíðu Arnarlax um að fyrirtækið beiti ekki lyfjameðhöndlun í baráttu við lús segir Víkingur ekki ástæðu til að fella hana út fyrr en farið verði í aflúsun. „Aðgerðin er hins vegar sértæk og verður vonandi aldrei hluti af framleiðsluferlinu okkar. Mér finnst ekki ósennilegt að við munum orða þetta nákvæmar eða jafnvel fella út það sem segir um aflúsun,“ segir Víkingur.

Á annað þúsund störf innan örfárra ára

Sjókvíar í Tálknafirði.

„Við fiskeldi á Vestfjörðum starfa um 300 manns og fiskeldistengd starfsemi er hafin í flestum af byggðarlögum á Vestfjörðum. Umræðan um fiskeldið er hins vegar enn á þeim nótum, hvort hér verði fiskeldi eða ekki. Slík umræða hljómar ábyggilega undarlega í eyrum þeirra sem vinna og selja hundruð tonna af eldisfiski í hverri viku og starfsmönnum sem þjónusta kvíar, stunda rannsóknir, hreinsa nætur eða sinna yfirstjórn eldisfyrirtækjanna.“ Svo hefst grein um fiskeldi á Vestfjörðum eftir Daníel Jakobsson, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ.

Daníel Jakobsson.

Daníel telur að gangi fyrirætlanir eftir, sem hann segir vel raunhæft, munu á annað þúsund manns starfa við fiskeldi á Vestfjörðum innan örfárra ára.

Hann átelur stjórnvöld og stofnanir ríkisins fyrir að sýna algjöran skort á frumkvæði og krafti til að koma með Vestfirðingum og landsmönnum öllum í að byggja upp atvinnuveg sem innan fárra ára gæti skilað ríkissjóði mörgum milljörðum árlega í skatttekjur.

„Þar ber helst að nefna getuleysi stofnana til að afgreiða leyfi, setningu reglna um umhverfi fiskeldisfyrirtækja og þá augljósu aðgerð að setja landinu stefnu í fiskeldismálum og fylgja henni eftir. Nýir ráðherrar byrja alltaf á byrjunarreit og alltaf þarf að skoða og skoða og skoða, þegar aðgerða er þörf. Í dag virðist manni hið opinbera að mörgu leiti vera áhorfandi á þessa gríðarlegu uppbyggingu sem nú þegar hefur átt sér stað, mun eiga sér stað og hreinlega verður að eiga sér stað. Það er vond nálgun,“ segir Daníel í greininni sem má lesa í heild sinni hér.

Tækifærin sem felast í fiskeldinu

Daníel Jakobsson.

Við fiskeldi á Vestfjörðum starfa um 300 manns og fiskeldistengd starfsemi er hafin í flestum af byggðarlögum á Vestfjörðum. Umræðan um fiskeldið er hins vegar enn á þeim nótum, hvort hér verði fiskeldi eða ekki. Slík umræða hljómar ábyggilega undarlega í eyrum þeirra sem vinna og selja hundruð tonna af eldisfiski í hverri viku og starfsmönnum sem þjónusta kvíar, stunda rannsóknir, hreinsa nætur eða sinna yfirstjórn eldisfyrirtækjanna.

Hugsanlega er umræðan á þessum stað vegna þeirra miklu áforma um aukna uppbyggingu sem enn er í pípunum og sótt er um leyfi fyrir. En það breytir ekki þeirri staðreynd að fiskeldi er nú þegar stór atvinnugrein á Vestfjörðum og hefur nú þegar haft marktækar breytingar, til hins betra fyrir Vestfirði sem búsetukost. Ef fyrirætlanir ganga eftir, sem er vel raunhæft munu á annað þúsund manns hafa vinnu af fiskeldi á Vestfjörðum innan fárra ára.

 Störf í fiskeldi í flestum byggðarlögum á Vestfjörðum

Fiskeldi er hentug atvinnugrein til að byggja upp á Vestfjörðum. Starfsemin er þess eðlis að flestir byggðakjarnar á Vestfjörðum njóta góðs af því nú þegar. Sem dæmi má nefna að ein stærsta og fullkomnasta seiðaeldisstöð heims er risin í Tálknafirði. Í Patreksfirði eru eldiskvíar og ýmis stoðþjónusta. Slátrun og vinnsla er á Bíldudal ásamt höfuðstöðvum Arnarlax og þar eru þjónustubátar við kvíar í Arnarfirði. Kvíar eru í Dýrafirði og á Þingeyri eru staðsettir þjónustubátar og ýmis önnur stoðþjónusta. Nótaþvottastöð, kvíar og vinnsla  eru á Flateyri og við Önundarfjörð og afskurður er unnin á Suðureyri. Vinnsla og höfuðstöðvar Artic Fish eru á Ísafirði auk ýmissa stoðstarfa s.s. í eftirliti og rannsóknum. Í Hnífsdal eru höfuðstöðvar Háafells og þar er líka Sjávareldi ehf sem elur og vinnur silung. Í Bolungarvík er Arnarlax að koma sér upp starfstöð og í Súðavíkurhreppi er slátrun og þar eru kvíar eins og í Strandabyggð.

Í öllum þessum byggðarlögum er því fiskeldið orðið að veruleika. Tekjur af því eru nú þegar verulegar og störf myndast í hverri viku. Það gefur því augaleið að þetta er mikilvæg atvinnugrein, ekki bara fyrir Vestfirðinga heldur líka landið allt.

Hver ræður og hver dregur lappirnar?

Öll sveitarfélög á Vestfjörðum hafa fagnað þessari uppbyggingu og hafa kvatt til þess að uppbyggingin gangi hratt og vel fyrir sig án þess þó að anað sé að neinu eða afsláttur gefin í umhverfislegu tilliti. En staðreyndin er að sveitarfélög hafa lítið um eldi að segja. Þeirra aðkoma er í raun aðeins sem umsagnaraðilar að leyfisumsóknum eða ef úthluta á lóðum. Ríkið og stofnanir hafa miklu meira um uppbygginguna að segja og þar hefur algjörlega skort frumkvæði og kraft til að koma með Vestfirðingum og landsmönnum öllum í að byggja upp atvinnuveg sem innan fárra ára gæti skilað ríkissjóði marga milljarða árlega í skatttekjur beint og óbeint.

Það er því sérstakt fyrir okkur Vestfirðinga að finna ekki meiri stuðning og frumkvæði frá hinu opinbera í að byggja þessa atvinnugrein upp. Um langt árabil hefur íbúum fækkað hérna en nú þegar fyrirtæki eru að hasla sér völl hér sem vilja byggja upp atvinnulífið og skapa störf virðist algjörlega skorta kraft til að koma með okkur í þetta verkefni.

Þar ber helst að nefna getuleysi stofnana til að afgreiða leyfi, setningu reglna um umhverfi fiskeldisfyrirtækja og þá augljósu aðgerð að setja landinu stefnu í fiskeldismálum og fylgja henni eftir. Nýir ráðherrar byrja alltaf á byrjunarreit og alltaf þarf að skoða og skoða og skoða, þegar aðgerða er þörf. Í dag virðist manni hið opinbera að mörgu leiti vera áhorfandi á þessa gríðarlegu uppbyggingu sem nú þegar hefur átt sér stað, mun eiga sér stað og hreinlega verður að eiga sér stað. Það er vond nálgun.

Nútíma fiskirækt. Hvað þarf til?

Sumir virðast efast um að fiskeldi geti gengið á Íslandi. Þær áhyggjur ættu að vera óþarfar. Mikið hefur áunnist á síðast liðnum árum í þróun þessarar atvinnugreinar og önnur lönd og fyrirtækin hér hafa náð að yfirstíga hindranir sem hér voru. Í Færeyjum er fiskeldi orðið stærsta útflutningsgreinin og í norður Noregi er sama upp á teningnum. Þar gengur fiskeldi vel. Það er því ekkert sem ætti að vefjast fyrir okkur í þessu það eru ágætar forsendur fyrir því að hér skapist arðbært fiskeldissamfélag sem fyrirtækin, íbúar og ríkissjóður geti notið góðs af. En til þess þarf ríkið að taka forystu og tryggja að greinin byggist upp á  forsendum samfélagsins og aðila sem þar starfa.

En þetta mun ekki gerast að sjálfu sér. Ef ríkissjóður vill koma með sveitarfélögum á Vestfjörðum í atvinnuuppbyggingu þarf að vinna hratt. Mikilvægast í því er að  tryggja að stofnanir  afgreiði umsóknir innan eðlilegra tímamarka. Það að sum eldisfyrirtækin séu mörg ár að fá niðurstöðu í umsóknir sínar er ótækt. Einnig þarf að styrkja laga og reglugerðaumhverfi fyrirtækjanna. Það á bæði við út frá umhverfissjónarmiðum, skattaumhverfi og leyfismálum.  Leggja þarf fé í rannsóknir svo að hægt sé að taka faglega á þeim umsóknum sem berast. Svo eigum við að læra af nágrannaþjóðum okkar um hvað er gott og hvað má betur fara og í því þarf að fjárfesta.

En meira þarf til. Til að eldisuppbyggingin nýtist sem flestum byggðarlögum þarf að hraða uppbyggingu innviða. Það er skynsamlegt vegna þess að með uppbyggingu greinarinnar munu skatttekjur stóraukast. A.m.k. fjögur sveitarfélög á Vestfjörðum geta t.d. ekki farið í nauðsynlegar hafnarframkvæmdir af því að ríkisjóður er ekki tilbúinn að koma með lögbundin mótframlög sem eru nauðsynlegar til að eldisfyrirtækin geti haldið áfram að vaxa.

Samgöngur, sérstaklega að vetrarlagi eru þannig að þær anna ekki því álagi sem aukið eldi hefur í för með sér og nútímasamfélag kallar á. Ekki heldur er nægjanlegur kraftur settur í að ljúka þeim samgöngubótum sem beðið hefur verið eftir í áratugi. Þ.e. að hægt sé að keyra á bundnu slitlagi á milli allra byggðarlaga á Vestfjörðum og inn á þjóðveg 1. Það er lykilatriði í uppbyggingu Vestfjarða að samgöngur innan svæðisins séu þannig að það verði í raun og veru eitt atvinnusvæði. Það mun styrkja búsetuskilyrði hér meira en nokkur önnur aðgerð. Allar þessar samgöngubætur eru nauðsynlegar og skynsamlegt er að fara í þær strax til að ávinningurinn af þeim skili sér strax.

Vestfirðir eru Fiskeldisfjórðungurinn

Fiskeldi er nú þegar orðin stór atvinnugrein á Vestfjörðum. Hún getur vaxið verulega og breytt búsetuskilyrðum á Vestfjörðum varanlega. Stjórnvöld bera mikla ábyrgð og þurfa að taka forystu í að gera umhverfi greinarinnar skilvirkt og þannig að allir geti við unað. Enginn gerir kröfur um afslátt í umhverfismálum  en það hlýtur að vera sanngjörn krafa að niðurstaða fáist í umsóknir og að þær séu ekki að þvælast á milli stofnanna í mörg ár. Við þurfum að vinna þetta saman og setja kraft í að byggja upp innviði og grípa tækifærið sem felst í fiskeldinu þjóðinni til hagsbóta.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Standa við fullyrðingar um lyfjalaust eldi

Arnarlax ætlar ekki að breyta upplýsingum á vefsíðu sinni um að fyrirtækið gefi hvorki sýklalýf né noti kemískar aðferðir við aflúsun. Í Spegli Ríkisútvarpsins í gær var haft eftir Kristian Matthíassyni, forstjóra Arnarlax, að efnið sem fyrirtækið ætlar að nota við aflúsun sé skordýreitur, en ekki lyf.

Lyfið sem á að nota heitir Alpha Max og er þekkt lúsalyf.

Skjáskot af vefsíðu Arnarlax.

Afurðir Arnarlax eru með vottanir frá hinni kröfuhörðu Whole Foods keðju í Bandaríkjunum. Í stöðlum fyrir vottanir Whole Foods kemur fram að allur lax sem fyrirtækið selur sé algjörlega laus við skordýraeitur. Eða eins og það er orðað á vefsíðu Whole Foods: Our salmon are raised in carefully monitored, low-density pens and tanks without antibiotics, pesticides or added growth hormones [undirstrikun frá blaðamanni].

 

Kjartan Óli og Þorgerður best í vetur

Frá vinstri: Kjartan Óli, Hafsteinn Már, Tihomir, Katla Vigdís og Þorgerður.

Þau Kjartan Óli Kristinsson og Þorgerður Karlsdóttir voru valin bestu leikmenn meistaraflokka blakdeildar Vestra á tímabilinu. Hafsteinn Már Sigurðsson og Katla Vigdís Vernharðsdóttir voru valin efnilegust. Það var Tihomir Paunovski þjálfari sem valdi og tilkynnti niðurstöðurnar á uppskerufögnuði sem blakarar héldu á strandblakvellinum í Tungudal í síðustu viku.

Uppskerufagnaðurinn markaði lok inniblaktímabilsins, en blakarar verða duglegir að nýta strandblakvellina í Tungudal og á Þingeyri í sumar. Farið var í leiki og strandblak í sandinum, grillaðar pylsur og yngriflokkaleikmenn fengu viðurkenningarskjöl.

Tihomir þjálfari er nú farinn í sumarfrí til Makedóníu, en hann stefnir á að koma aftur næsta vetur og halda áfram að þjálfa hjá Vestra.

Of dýrt að leigja erlenda ferju

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Vegagerðin telur að of dýrt hefði verið að leigja bílferju frá útlöndum til að leysa Vestmannaeyjaferjuna Herjólf af á meðan hann er í slipp. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu dag þar sem rætt er við Guðmund, forstöðumann greiningardeildar Vegagerðarinnar. Breiðafjarðarferjan Baldur hefur leyst Herjólf og síðustu vikur hafa engar siglingar verið yfir Breiðafjörð. Þessu hafa íbúar og fyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum mótmælt harðlega.

Í samningum Vegagerðarinnar við Eimskip er kveðið á um að Vegagerðin leigi skip til afleysinga þegar Herjólfur þarf að fara í slipp. Baldur er einnig í eigu Eimskips. Baldur er talsvert minna skip en Herjólfur og hefur auk þess ekki leyfi til að sigla til Þorlákshafnar þegar ófært er í Landeyjahöfn. Það olli erfiðleikum fyrst eftir að Herjólfur sigldi af stað til Danmerkur, vegna óveðurs sem gekk yfir landið.

Áætlað var að Herjólfur hæfi siglingar að nýju um helgina en viðgerðin tók lengri tíma en reiknað var með og því hefur hann ekki siglingar til Eyja fyrr en á föstudaginn. Þá heldur Baldur aftur til Breiðafjarðar.

Nýjustu fréttir