Sunnudagur 19. janúar 2025
Síða 2196

Súgfirsku vinnuærnar teknar til starfa

Hér má sjá Laufeyju og Stroku með lömbin sín. Einungis eitt hefur fengið nafn og það er hún Líf Laufeyjardóttir (svartflekkótt) .

Á Suðureyri eru ærnar Laufey og Stroka ásamt lömbum sínum mættar til starfa í beitarhólf þar sem sumarstarf þeirra verður fólgið í að eyða óæskilegum gróðri inn í þorpinu. Þær stöllur og afkomendur þeirra voru ekkert að tvínóna við hlutina og tóku strax til við gróðureyðinguna og er von á einni á með lömb til viðbótar í vinnuflokkinn. Það er Kristján Bjarni Karlsson, bóndi á Bæ, sem leggur verkefninu lið með láni á kindum. Verkefnið var fyrst tekið til prufu síðasta sumar er ærnar Ljúfa og Svarta-Hvönn voru í hólfinu ásamt lömbum sínum. Verkefnið tókst með ágætum og voru þau sérlega dugleg að ráða örlögum skógarkerfilsins og lúpínunnar, einnig unnu þær ágætlega á Spánarkerflinum en hann var þó ekki alveg eins vinsæll.

Ralf Trylla, umhverfisfulltrúi Ísafjarðarbæjar hefur lengi viljað prófa þessa aðferð og var hann lengi að finna heppilega girðingu sem gæti haldið aftur af hinu stundum útsjónarsama og gróðursólgna íslenska sauðfé. Girðingin hélt vel og er nú komin upp að nýju. Ralf segir þessa lífrænu leið geta verið afar heppilega, ekki séu kindurnar einungis að sporna við vexti og dreifingu óæskilegs gróðurs, þær séu einnig að bera á lífrænan áburð þar sem þær koma.

Vestri og Völsungur leika á Torfnesi

Frá leik Vestra fyrr í sumar.

Þriðji heimaleikur tímabilsins verður á Torfnesvelli á morgun þegar Vestri og Völsungur mætast í fjórðu umferð 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Vestri tapaði um síðustu helgi fyrir Knattspyrnufélagi Vesturbæjar eftir að hafa unnið fyrstu tvo leiki tímabilsins. Á morgun gefst liðinu tækifæri til að komast á sigurbrautina á ný með dyggum stuðningi stuðningsmanna. Völsungur er í áttunda sæti deildarinnar, hefur sigrað einn leik og tapað tveimur. Vestri erí þriðja sæti eftir tvoi sigurleiki og fyrrnefndan tapleik fyrir Knattspyrnufélagi Reykjavíkur.

 

Leikurinn hefst á morgun, laugardag, kl. 14.

Gerræðislegt inngrip að taka Baldur

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Það er gerræðislegt inngrip hjá stjórnvöldum að leggja niður ferðir Baldurs yfir Breiðafjörð í maí. Breiðafjarðarferjan Baldur hefur leyst Herjólf af á meðan skipið er í slipp. Jóhann Svavarsson, hótelstjóri á Hotel West á Patreksfirði segir þessa ákvörðun Vegagerðarinnar vera mikið inngrip í ferðaþjónustu á jaðarsvæðum.

Í samtali við fréttastofu RÚV segir Jóhann verulegt um afpantanir vegna þessa.

„Fólk var búið að bóka gistingu hjá okkur, fólk sem var að keyra fyrir Snæfellsnes og taka Baldur yfir og gista hjá okkur, fara á Látrabjarg og keyra svo malarveginn suður úr. Þetta fólk annaðhvort hætti við eða keyrði fram og til baka, útlendingar mjög óánægðir með þetta, við fengum alveg helling af kvörtunum að þetta væri svo langt að þeir hefðu aldrei farið út í þetta ef þeir hefðu áttað sig á því, þannig að það er bara verulegt af afbókunum út af þessu hjá okkur,“ segir Jóhann.

„Fráleitt er allt tal um að hægja á leyfisveitingum“

Sjókvíar í Arnarfirði.

 

„Fráleitt er allt tal um að hægja á leyfisveitingum með pólitískum eða stjórnsýslulegum tilskipunum, í blóra við gildandi lög. Enda er vandséð hvernig unnt er að hægja á þegar fyrir liggur að útgáfa leyfa undanfarin ár hafa verið nær engin“. Þannig er komist að orði í ályktun aukaaðalfundar Landssambands fiskeldisstöðva.

Á ályktunum fundarins er ekki minnst á nýlegt lúsasmit í Arnarfirði sem krefst lyfjameðhöndlunar eins og fjölmiðlar hafa fjallað um ítarlega.

Í ályktun fundarins segir að fiskeldi er orðin öflug atvinnugrein á Íslandi sem miklar vonir eru bundnar við. „Um fiskeldið gilda skýr lög og reglur en þrátt fyrir verulegar fjárfestingar í greininni hefur uppbygging hennar verið hæg. Einungis er unnt að stunda fiskeldi í sjó við lítinn hluta strandlengjunnar. Óhætt er því að segja að beitt er ítrustu varúðarnálgun við leyfisveitingar. Frá því að ný lög um fiskeldi tóku gildi í ársbyrjun 2015 hefur einvörðungu verið veitt eitt leyfi til fiskeldis í sjó og var þar um að ræða stækkun á áður út gefnu leyfi.“

Forsetafrúin á Ísafirði

Eliza Jean Reid forsetafrú heimsótti í dag Grunnskólann á Ísafirði og leikskóladeildina Tanga sem ætluð er 5 ára börnum í Skutulsfirði. Nemendur 8. bekkjar lásu ljóð á nokkrum tungumálum, en mikið er þar um tvítyngd börn þar sem þriðjungur árgangsins á annað eða bæði foreldri af erlendum uppruna. Á Tanga tóku kennarar og nemendur á móti Elizu með söng og fengu krakkarnir tækifæri til að spjalla við forsetafrúna.

Meðfylgjandi myndir tók Arna Ýr Kristinsdóttir þegar Eliza heimsótti börnin á Tanga.

Flugfélag Íslands yfirgefur íslenskuna

Flugfélag Íslands mun frá og með deginum í dag taka upp nýtt nafn, Air Iceland Connect. Mun flugfélagið, sem hefur hingað til heitið Air Iceland á ensku, hætta að nota nafnið Flugfélag Íslands.

Ástæður fyrir nafnbreytingunni eru nokkrar að því er segir í tilkynningu frá flugfélaginu. Aukin umsvif á erlendum mörkuðum, fjölgun erlendra ferðamanna sem nýta sér þjónustu flugfélagsins og aukið samstarf við Icelandair.

Þá hefur tvöfalt nafnakerfi félagsins „þýtt talsverðan kostnaðarauka og valdið einhverjum farþegum óþægindum og orsakað misskilning.“

„Við höfum notað nafnið Air Iceland um árabil en með því að bæta við orðinu Connect, eða tengja, sýnum við tengingu við íslenska náttúru og áfangastaði, tengingu við okkar erlenda áfangastaði á borð við Grænland, Skotland og Norður-Írland og aðgreinum okkur aðeins frá Icelandair,“ er haft eftir Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.

Svartfuglseggin komin

Sælkerar á Ísafirði og nágrenni geta tekið gleði sína því Kári Jóhannsson fisksali hefur fengið sendingu af svartfuglseggjum. „Þau eru úr Látrabjargi. Ég kaupi þau af björgunarsveitunum fyrir vestan og þannig er maður líka að styðja gott málefni,“ segir Kári.

Nokkuð er um liðið síðan hætt var að fara í björgin á Hornströndum, en þau sáu Ísfirðingum fyrir eggjum alla tíð. „Þeir segja mér gömlu mennirnir að það voru upp undir 10 þúsund egg sem bara voru seld á Ísafirði. En í þá gömlu góðu daga voru svartfuglseggin á sama verði og hænsnaegg en það er nú heldur breytt,“ segir Kári.

Markar upphaf framkvæmda við Dýrafjarðargöng

Í síðustu viku var fyrsta skóflustunga tekin að lagningu 11 kV háspennustrengs frá spennistöðinni á Skeiði í Dýrafirði inn að gangamunna Dýrafjaðrarganga. Til að byrja með mun strengurinn þjóna verktökum við Dýrafjarðagöng. Það má segja að lagning strengsins marki upphaf framkvæmda við Dýrjafarðargöng og tengdra framkvæmda.

Um er að ræða 11.5 km langan jarðstreng sem sinnir mikilvægu hlutverki vegna vinnubúða og framkvæmda í Dýrafjarðargöngum. Eftir að framkvæmdum við göngin lýkur verður strengurinn nýttur til að flytja raforku frá Mjólká að Þingeyri.

Í sömu framkvæmd verður sá hluti einfasa loftlínu, sem liggur frá Hvammi að Dýrafjarðarbrú fjarlægður, og nýr rafstrengur mun leysa loftlínuna af hólmi. Þá mun Neyðarlínan leggja ljósleiðara meðfram jarðstrengnum og því mun  íbúum á þessu svæði gefast kostur á tengingu við ljósleiðara innan tíðar.

Gámþjónusta Vestfjarða sér um framkvæmd verksins og Tækniþjónusta Vestfjarða mun sinna eftirliti.

Áætluð verklok eru í ágústmánuði á þessu ári.

Fyndnin tekur völdin í Bolungarvík

Sveppi og Villi í banastuði.

Gleðin verður við völd í Bolungarvík á morgun, uppstigningadag er þrír af fyndnari mönnum landsins troða þar upp. Á vaðið ríða þeir Sveppi og Villi sem verða með fjölskylduskemmtun í Félagsheimilinu í Bolungarvík klukkan 13. Þá Sveppa og Villa þarf vart að kynna enda hafa þeir um árabili verið í hópi vinsælustu skemmtikrafta landsins og hafa þeir verið með eindæmum afkastamiklir þar sem þegar hafa þeir gert yfir 100 sjónvarpsþætti, 4 gríðarvinsælar kvikmyndir, metsölu- og verðlaunabækur og óteljandi framkomur á allskonar skemmtunum. Að sýningu lokinni býðst gestum upp á að spjalla við Sveppa og Villa ásamt því að fá mynd af sér með þeim drengjum.

Grínistinn Pétur Jóhann.

Um kvöldið verður svo skemmtikrafturinn Pétur Jóhann með uppistandssýninguna Pétur Jóhann óheflaður. Þar mun hann vera með brot af sínu besta efni til þessa sem og glænýtt efni og gætu Tong, Gunnþór, kötturinn og mögulega svínamaðurinn sett svip sinn á kvöldið. Húsið opnar klukkan 20 og sýning hefst klukkan 21.

Frítt í Funa á laugardag

Ísafjarðarbær og Kubbur ehf. ætla að enda grænu vikuna sem nú fer fram í sveitarfélaginu á því að bjóða einstaklingum upp á gjaldfrjálsa sorpförgun í Funa laugardaginn 27. maí á milli klukkan 12 og 16. Með þessu er verið að bjóða fólki upp á allsherjar tiltekt og hreinsun í geymslum og bílskúrum. Farmar af byggingarúrgangi eru þó ekki gjaldfrjálsir og ekki gildir gjaldfrelsi fyrir fyrirtæki. Á Suðureyri, Þingeyri og Flateyri má nýta ferðir ruslabílsins til að skila umframsorpi á meðan að pláss leyfir. Brotajárn, spilliefni, raftæki og garðaúrgang má koma með án endurgjalds allt árið um kring en gæta þarf vel að flokkun.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir