Mánudagur 2. september 2024
Síða 2195

Éljagangur og kóf

Á Vestfjörðum verður vaxandi suðvestanátt með morgninum og verður vindhraði um 13-20 m/s um hádegi. Það dregur úr vindi er líða tekur á daginn og verður hann orðinn hægari síðla kvölds. Él og frost á bilinu 0 til 5 stig.

Snjóþekja, hálka, snjókoma eða éljagangur er á Vestfjörðum. Þæfingsfærð er á Hálfdáni og Kleifaheiði en unnið er að mokstri. Á vef Vegagerðarinnar er vakin athygli á að undir hádegi fari vindur vaxandi um norðvestanvert landið frá Snæfellsnesi og Borgarfirði norður í Skagafjörð og á Öxnadalsheiði.  Hvasst verður, SV 13-18 m/s og allt að 20-22 m/s á fjallvegum.  Ný lausamjöllin veldur auðveldlega kófi við þessar aðstæður og að auki verður éljagangur á þessum sömu slóðum. Lagast smámsaman í kvöld.

annska@bb.is

Nýr dragnótarbátur til Bolungarvíkur

Mynd: Vigfús Markússon

Útgerðarfélagið Mýrarholt ehf. í Bolungarvík hefur keypt dragnótarbátinn Örn GK. Mýrarholt hefur gert út Ásdísi ÍS í tæp þrjú ár, bæði á rækju og á dragnót. Aflabrögðin á dragnótinni hafa verið með eindæmum góð og á síðasta ári fiskaði Ásdís tæp 1.500 tonn. Frá því er greint í Aflafréttum að um 1.000 þorskígildakvóti hafi verið á Erni og hluti kvótans fylgir með í kaupunum. Mýrarholt er í eigu bræðranna Jóns Þorgeirs og Guðmundar Einarssonar og sona þeirra beggja.

Örn er talsvert stærri en Ásdís, eða 22 m að lengd og átta metra breiður. Báturinn var smíðaður í Póllandi árið 1999 og er sérsmíðaður fyrir dragnótarveiðar. Á vef Aflafrétta er haft eftir Einari Guðmundssyni, skipstjóra á Ásdísi, að afhending Arnar fari fram fljótlega og þá mun báturinn fara í slipp.

smari@bb.is

Neysluvatnið í lagi

Niðurstöður úr seinna sýni sem var tekið úr vatnsveitu Bolungarvíkur gefa til kynna að vatnsveitan sé í lagi og ekki er lengur þörf á vatnssuðu. Á fimmtudag í síðustu viku kom upp bilun í geislunarbúnaði og við sýnatöku kom í ljós saurgerlamengun í vatni. Búnaðurinn var lagaður samdægurs og annað sýni tekið sem eins og fyrr segir reyndist í lagi.

smari@bb.is

Aflasamdráttur á síðasta ári

Afkoma hafnarsjóðs Ísafjarðarbæjar batnaði á síðasta ári.

Afli íslenskra skipa árið 2016 var 1.069 þúsund tonn sem er 247 þúsund tonnum minna en landað var árið 2015. Samdrátt í aflamagni á milli ára má nær eingöngu rekja til minni loðnuafla en ríflega 101 þúsund tonn veiddust af loðnu á síðasta ári samanborið við tæp 353 þúsund tonn árið 2015. Þetta kemur fram í tölum Hagfstofu Íslands. Samdráttur í afla uppsjávartegunda var 32% á milli ára en alls veiddust tæp 576 þúsund tonn af uppsjávartegundum. Botnfiskafli nam 457 þúsund tonnum á síðasta ári sem er 4% aukning miðað við fyrra ár. Að venju er þorskaflinn uppistaðan í botnfiskaflanum en tæp 264 þúsund tonn veiddust af þorski á síðasta ári sem er 8% meira en árið 2015. Flatfiskaflinn var svipaður á milli ára og var tæp 24 þúsund tonnum á síðasta ári. Afli skel- og krabbadýra nam 12,7 þúsund tonnum sem er jafngildir 26% aukningu miðað við árið 2015.

Í desembermánuði var fiskaflinn rúm 59 þúsund tonn sem er 20% meiri afli en í desember 2015. Aukið aflamagn í desember skýrist af auknum uppsjávarafla, en afli uppsjávartegunda, kolmunna og síld, var 15 þúsund tonnum meiri en í desember 2015. Samdráttur varð hinsvegar í öðrum aflategundum, botnfiskafli dróst saman um 14%, flatfiskafli um 41% og skel- og krabbadýraafli um 28%.

Þrátt fyrir aukið aflamagn í desember má gera ráð fyrir að verðmæti aflans í desember hafi dregist saman um 5,5% sem skýrist af aflasamdrætti verðmætari tegunda.

smari@bb.is

Hlutur ríkisins í bensínlítranum aldrei verið meiri

Bensínverð á Íslandi er fjórum krónum hærra núna, um miðjan janúar, en það var í desember. Skýra má stærstan hluta hækkunarinnar með hækkunum opinberra gjalda en hlutur ríkisins í bensínverði hefur aldrei verið meiri en hann er nú 58,22 prósent. Þetta kemur fram í frétt Kjarnans. Hlutur ríkisins mun að öllum líkindum minnka að tiltölu heimsmarkaðsverð á olíu heldur áfram að hækka og krónan að veikjast.

Hækkunin nemur 4,10 krónum á hvern lítra í viðmiðunarverðinu sem stuðst er við í bensínvaktinni og kostar bensínlítrinn nú 194,40 krónur. Mest munar um hækkun opinberra gjalda sem hækkuðu um áramótin í takt við fjárlög ársins 2017.

smari@bb.is

 

Ekki hægt að komast út úr vatnssölusamningi

Ísafjarðarbær getur ekki komist út úr vatnssölusamningi við Köldulind ehf. Fyrirtækið hefur forgangsrétt að umframvatni í Skutulsfirði. Kanadíska fyrirtækið Amel Group hefur lýst áhuga á vatnskaupum á Ísafirði en eins og áður segir er Kaldalind með forgangsrétt að umframvatni. Samningur Kaldalindar gengur úr gildi í september 2017, hafi fyrirtækið ekki nýtt sér forgangsrétt að vatni samkvæmt ákvæðum samningsins.

Í lok október áttu Saleh Saleh, framkvæmdastjóri Amel Group og Johan Gallani hjá Gallani Consultants með þeim Þórdísi Sif Sigurðardóttur, bæjarritara Ísafjarðarbæjar, og Brynjari Þór Jónassyni, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs.

Talsvert umframvatn kemur úr Vestfjarðagöngum og hugmynd kanadíska fyrirtækisins er að tanka því á skip við gömlu bryggjuna á Grænagarði, þar sem sementi var áður skipað upp.

 

smari@bb.is

Gísli fær fjórar stjörnur

Gísli á Uppsölum í meðförum Elfars Loga Hannessonar. Mynd: Davíð Davíðsson

Gísli á Uppsölum, nýjasta verk Kómedíuleikhússins, er nú sýnt í Þjóðleikhúsinu, nánar tiltekið í Kúlunni. Upphaflega stóð til að bjóða þar upp á tvær sýningar á verkinu en hafa undirtektir verið með slíkum hætti að nú eru sex sýningar auglýstar og má Elfar Logi Hannesson, einleikarinn knái, líklega búa sig undir lengri dvöl í borginni hafi dómar gangrýnenda áhrif. Í dag birtist í Morgunblaðinu dómur Þorgeirs Tryggvasonar leikhúsrýnis um sýninguna, sem hann fer um fögrum orðum, jafnframt segir Þorgeir þar framlag Elfars Loga til íslenskrar leiklistar næsta einstakt og verðskuldi alla okkar virðingu, og að sjálfsögðu mun meiri opinberan fjárhagsstuðning en raunin er. Í sýningunni segir Þorgeir meðal annars rétt að staldra við yfirvegaðan og úthugsaðan samleik Elfars Loga við leikmynd og leikmuni. Hægar hreyfingar, varfærnisleg handbrögð og ástúðleg meðhöndlun Gísla á öllu sem hann snertir á sviðinu undirstrika bæði hrumleika hans þegar það á við, en líka afstöðu sjálfsþurftaröreigans til nytjahlutanna og síns þrönga heims. Mjög fallegt, og eiginlega það eina sem hægt er að kalla „rómantískt“ í sýningunni.

Á öðrum stað segir: Þriðja atriðið sem má nefna snýr að færni leikarans sem einleikara; nákvæmni hans með augnaráð og fókus. Trúðleikur er að sönnu í kennsluskrá Kómedíuskólans og Elfar Logi nær áreynslulaust sambandi við salinn þegar hann kærir sig um. En að sjá hann horfa inn á við og teikna upp umhverfi og viðmælendur með augunum er fallegt dæmi um list leikarans.

Það er óhætt að fullyrða að gagnrýnandi Morgunblaðsins hafi verið yfir sig hrifin af Gísla á Uppsölum í meðförum Elfars Loga í leikstjórn Þrastar Leós Gunnarssonar og gefur hann sýningunni fjórar stjörnur. Dóminn í heild sinni má lesa hér. Þar má lesa í niðurlagi:

Það er hlýja og heiðarleiki í túlkun Kómedíuleikhússins á lífi þessa fræga nærsveitunga. Leikhúsaðferðir eru valdar af kostgæfni og þeim beitt af öryggi. Útkoman er falleg og snertir mann. Þannig á það að vera. Við bíðum svo öll spennt eftir að sjá Elfar Loga bregða sér í hlutverk Eiríks Arnar Norðdahl og Helga Björns.

Tvær sýningar verða á Gísla á Uppsölum á miðvikudag og er uppselt á þær báðar. Sýningar verða svo föstudag og sunnudag og eru örfáir miðar eftir á þær.

annska@bb.is

Haukur Vagns tekur við Íslendingabarnum á Pattaya

Haukur Vagns tekur formlega við lyklavöldum úr hendi fyrrum eiganda, Sigurðar Inga.

Bolvíkingurinn Haukur Vagnsson og kona hans Warapon Chanse hafa tekið við rekstri Íslendingabarsins á Pattaya í Tælandi. Staðurinn heitir Viking Bar & Restaurant, en gengur iðulega undir nafninu Íslendingabarinn eða Íslenski pylsubarinn og er til húsa við New Plaza við Moo númer 8, á besta stað í borginni samkvæmt Hauki. Íslendingar sem í auknu mæli heimsækja Pattaya yfir vetrarmánuðina hafa margir fundið sitt athvarf, sinn Staupastein á staðnum, kannski af skiljanlegum ástæðum þar sem þar má fá þjóðarrétt Íslendinga, hinn nýrri, SS pylsu með öllu. Þar má einnig fá bæði Tópas og Opal í fljótandi formi sem einnig hefur vakið lukku meðal gesta að sögn Hauks og ætlar hann að bjóða getum þar upp á ekta Hesteyrarpönnukökur eftir uppskrift móður sinnar Birnu Pálsdóttur. Á staðnum má horfa á fótbolta og handbolta með íslenskum leiklýsingum og var fullt úr úr dyrum er sýnt var frá leikjum íslenska handboltalandsliðsins um helgina.

Haukur segist skora á Vestfirðinga að koma í heimsókn til Pattaya og segir að þau á Íslendingabarnum geti verið gestum innan handar með að bóka viðeigandi húsnæði og bílaleigubíla til að mynda: „Hér er allt mjög ódýrt og mjög gott að vera. Mjög stabíll 30 gráðu hiti.“ Segir Haukur um Pattaya og eru hann og Warapon með í undirbúningi að bjóða upp á golfferðir til staðarins, en Haukur segir vellina sem finna má þar og þjónustan í kringum þá vera í hæsta gæðaflokki.

Haukur segist ætla að dvelja að mestu á Pattaya yfir vetrarmánuðina, en koma reglulega heim til Íslands þar sem hann rekur enn skemmtistaðinn Hendrix, jafnframt því sem hann mun halda áfram að sigla með ferðamenn til Hornstranda á sumrin á bát sínum Hesteyri ÍS:

Íslendingar eru duglegir að koma saman á Pattaya
Haukur og Warapon á Íslendingabarnum á Pattaya. Mynd: Guðmundur Sigurðsson.

 

annska@bb.is

Öll heimagisting leyfisskyld

Komin er út reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í reglugerðinni er heimagisting skilgreind sem gisting á lögheimili einstaklings eða einni annarri fasteign í hans eigu sem hann hefur persónuleg not af.  Einstaklingum er heimilt að leigja út heimili sitt eða aðra fasteign sem viðkomandi hefur til persónulegra nota í allt að 90 daga á ári án þess þurfa að sækja um rekstrarleyfi.

Heimagisting verður valkostur fyrir þá, sem vilja leigja út lögheimili sitt eða aðra fasteign sem það hefur til persónulegra nota  (t.d. sumarbústað) til styttri tíma. Sá sem hyggst leigja út samkvæmt heimagistingu má gera það að hámarki í  90 daga á almanaksárinu.

Heimagisting er starfsleyfisskyld samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Einstaklingar sem ætla að bjóða upp á heimagistingu þurfa að skrá sig hjá Sýslumanni, sem hefur í þessum tilgangi opnað nýjan vef, www.heimagisting.is . Við skráningu ber viðkomandi aðila að staðfesta að til staðar sé starfsleyfi heilbrigðisnefndar.

smari@bb.is

Aukning í virðisaukaskattskyldri veltu

Velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi, fyrir utan ferðaskrifstofur og farþegaflutninga á vegum, í september og október 2016 nam 669 milljörðum króna, sem er 4% aukning miðað við sama tímabil árið 2015. Á síðustu 12 mánuðum er aukningin 5% samanborið við 12 mánuði þar áður er frá greinir á vef Hagstofu Íslands. Velta í allri virðisaukaskattskyldri starfsemi nam 688 milljörðum króna í september og október 2016. Starfsemi tengd farþegaflutningum og ferðaskrifstofum var ekki virðisaukaskattskyld fyrr en í ársbyrjun 2016 og verður að taka tillit til þess þegar velta ársins 2016 er borin saman við fyrri ár.

Við birtingu fréttar hjá Hagstofunni í nóvember var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi í júlí og ágúst 2016 talin vera 749,3 milljarðar sem var 12,9% hækkun frá sömu mánuðum árið 2015. Nú hafa nýrri tölur borist og velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi á þessu tímabili er talin vera 751,2 milljarðar sem er 13,2% hækkun frá sömu mánuðum árið 2015. Í ársbyrjun 2016 tóku einnig gildi breytingar á vörugjöldum sem veldur í kjölfarið hækkun á virðisaukaskattskyldri veltu.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir