Sunnudagur 19. janúar 2025
Síða 2195

Eldur kom upp fjölbýlishúsi

Íbúðin er í Hlíðarvegsblokkinni.

Eld­ur kom upp í íbúð fjöl­býl­is­húss á Hlíðarvegi á Ísaf­irði rétt fyrir klukkan þrjú í nótt. Einn var í íbúðinni þegar eld­ur­inn kom upp og komst hann út af sjálfs­dáðum og gera lögreglu viðvart. Greiðlega gekk að slökkva eld­inn með handslökkvitæki, en tölu­verður reyk­ur var þegar lög­regla og slökkvilið komu á vett­vang. Ekki þurfti að rýma íbúðir í fjölbýlishúsinu.

Að sögn varðstjóra í lög­regl­unni á Vest­fjörðum er talið að kviknað hafi í út frá elda­vél en rann­sókn stend­ur yfir. Ein­hverj­ar skemmd­ir urðu á íbúðinni vegna reyks og sóts.

Útibúi sýslumannsins í Bolungarvík lokað

Í hagræðingarskyni hefur verið ákveðið, að sameina starfsemi embættis Sýslumannsins á Vestfjörðum, sem verið hefur í Bolungarvík og á Ísafirði, undir einu þaki frá og með 1. júní nk. Er miðað við að starfsemin verði á skrifstofu embættisins að Hafnarstræti 1 á Ísafirði, en hætt verði að veita þjónustu í  útibúinu í Bolungarvík. Þar hafa verið tveir starfsmenn sem auk almennrar afgreiðslu önnuðust innheimtu vanrækslugjalds á landsvísu. Hafa þeir við þessi tímamót kosið að láta af störfum hjá embættinu.

Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum, kveðst harma að hafa þurft að grípa til þessa úrræðis en eilífar kröfur um hagræðingu kalli á þessa aðgerð, sem auk fjárhagslegs sparnaðar ætti að leiða til aukinna samlegðaráhrifa á skrifstofunni á Ísafirði. Þá sé stöðugt vaxandi samgangur milli staðanna og auðveldara og öruggra að komast á milli auk þess sem bætt tækni auðveldi samskipti við sýslumenn óháð búsetu. Þá megi nefna að þrír Bolvíkingar vinni á skrifstofunni á Ísafirði.

 

Vill Jónas  þakka Bolvíkingum samfylgdina í Ráðhúsinu í Bolungarvík þau 25 ár sem hann bjó í Bolungarvík og starfaði þar sem og þann tíma sem útibúið á jarðhæðinni hefur verið stafrækt og jafnframt bjóða Bolvíkinga velkomna á skrifstofu embættisins á Ísafirði hvenær sem á þarf að halda.

Uppbyggingarsjóður úthlutar 13 milljónum

Ný bæjarstjórn leggur áherslu á gott samstarf milli allra. Mynd: Mats Wibe Lund.

Ellefu menningar- og nýsköpunarverkefni fengu á dögunum styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Um aukaúthlutun var að ræða, en aðalúthlutun sjóðsins var í janúar. Úthlutunarnefnd, sem er skipuð níu manns víðsvegar að úr fjórðungnum, átti ekki auðvelt verk fyrir höndum, því 52 umsóknir bárust. Næsta úthlutun verður svo væntanlega auglýst í nóvember, en það er aðalúthlutun fyrir árið 2018.

Verkefni sem sjóðurinn styrkir eru:

3.500.000 kr.
Félag um lýðháskóla á Flateyri – Runólfur Ágústsson/Óttar Guðjónsson.

3.000.000 kr.
Strandbúnaðarklasi – Smári Haraldsson, f.h. tilvonandi hlutafélags.

2.000.000 kr.
Hrognkelsi – Lífræna lúsaætan – Akvaplan-niva.

1.500.000 kr.
Undirbúningur þörungaseturs Reykhólum – Þörungaverksmiðjan Reykhólum.

500.000 kr.
Þróun gúmmísökka fyrir færaveiðar – Steinþór Bragason.
Sýningin Raddir, Harmónikusafn Ásgeirs S Sigurðssonar – Byggðasafn Vestfjarða.
Gimli: Þjóðmenningarskóli Ströndum norður – Elín Agla Briem.

400.000 kr.
LÚR Listahátíð ungs fólks – Menningarmiðstöðin Edinborg.
Víkingahátíð og viðburðir – Marsibil G Kristjánsdóttir.
Þuríðarskart og seiðkonukrydd – Þuríður sundafyllir ehf.

300.000 kr.
Samtal – fólk og fræði –Fjölmóður – fróðskaparfélag á Ströndum.

Mikill heiður og hvatning fyrir Kerecis

Hluti starfsmanna Kerecis á Ísafirði með Vaxtarsprotann.

Ísfirska nýsköpunarfyrirtækið Kerecis hlaut Vaxtarsprotann nú á dögunum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, afhenti Vaxtarsprotann á þriðjudaginn í Kaffi Flóru í Grasagarðinum í Laugardal. Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Þetta er í 11. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Kerecis sem var stofnað 2009 er dæmi um vaxtarsprota sem byggst hefur upp á nokkrum árum og tekur nú flugið með auknum umsvifum á erlendri grundu en starfsmannafjöldi hefur vaxið úr 18 í 26 og útflutningur nemur yfir 91% af veltu og fyrirtækið jók veltuna um meira en 100% á síðasta ári.

Dóra Hlín Gísladóttir, situr í framkvæmdastjórn Kerecis og hefur starfað hjá fyrirtækinu frá upphafi. Hún segir Vaxtarsprotann mikinn heiður fyrir Kerecis og hvatningu til að sækja enn frekar fram. „Staðan í dag er að við erum í örum vexti með áherslu á sölu og viðskiptaþróun. Við erum reyndar ennþá í talsverðri vöruþróun en þungamiðjan er í sölumálum og viðskiptaþróun,“ segir Dóra Hlín.

Kerecis er lækningavörufyrirtæki sem notar roð til að græða sár og styrkja líkamsvefi, til dæmis við endurgerð á brjóstum og til viðgerðar á kviðslitum. Fyrirtækið hefur verið að hasla sér völl í Bandaríkjunum sem er einn kröfuharðasti markaður í heimi fyrir lækningavörur. Vöxtur í sölu fyrirtækisins kemur fram þremur árum eftir að markaðsleyfi fengust fyrir fyrstu vöru fyrirtækisins sem var til meðhöndlunar á sykursýkissárum. Kerecis er með skráð einkaleyfi í Bandaríkjunum og fleiri löndum og hafa meira en 10 þúsund sjúklingar verið meðhöndlaðir með sáraroði félagins á undanförnum árum.

Hugmyndin að baki notkunar á roði til sárameðferðar kemur frá Guðmundi FertramSigurjónssyni og voru fyrstu verkefnin unnin á Ísafirði þar sem fyrirtækið er enn með aðsetur og framleiðslu en fyrirtækið er einnig með starfsemi í Reykjavík og Arlington í Virginiu í Bandaríkjunum. Læknarnir Baldur Tumi Baldursson og Hilmar Kjartansson eiga einnig stóran þátt í hugmyndinni ásamt Dóru Hlín.

Kerecis vinnur að því að þróa betri meðferðarúrræði við brunasárum og njóta nokkur verkefna fyrirtækisins stuðnings varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna en brunasár eru meðal algengustu slysa og sára í hernaði. Kerecis er í eigu íslenskra, bandarískra, breskra og franskra hluthafa. Um það bil helmingur hluthafa eru upphaflegir stofnendur fyrirtækisins en aðrir hlutir eru í dreifðri eignaraðild.

Hreyfivikan hefst með göngu í Naustahvilft

Árrisulir Ísfirðingar hófu hreyfikuna í fyrra á göngu í Naustahvilft.

Á mánudaginn hefst hreyfivika UMFÍ og stendur hún fram á sunnudag. Héraðssamband Vestfiðinga  og Ísafjarðarbær taka að venju þátt. Frítt er í allar sundlaugar Ísafjarðarbæjar alla daga hreyfivikunnar, farið er í gönguferðir og fjallgöngur, skokk og jóga. Boðið er upp á kynningu á strandblaki, kajakróðri, jóga og ýmislegt fleira. Bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt og auka hreyfingu nú í byrjun sumars.

Fyrsti viðburður hreyfiviku 2017 verður líkt og fyrri ár gönguferð upp í Naustahvilft kl. 6 að morgni mánudags. Safnast verður saman við bílastæðið neðan Hvilftar og gengið upp í rólegheitum. veðurspá mánudagsmorguns hljóðar upp á hæga austlæga átt og 7-10 gráðu hita.

Förguðu rannsóknargögnum í nauðgunarmáli

Kona sem kærði nauðgun til Lögreglunnar á Vestfjörðum í desembermánuði árið 2014 hefur nú höfðað einkaréttarmál vegna málsins, en málið var fellt niður á sínum tíma. Á fréttamiðlinum Vísi má sjá feril málsins rakinn. Þar kemur fram að konan hafi þann 14.september árið 2014 leitað til læknis á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu tveggja manna í samkvæmi í heimahúsi á Ísafirði. Lögregla var kölluð til, en neitaði læknirinn, sem var í afleysingum við stofnunina, að veita upplýsingar um brotaþola og hugsanlega gerendur.

Málið var þann 5.desember sama ár kært til Lögreglunnar á Vestfjörðum. Hinir grunuðu voru þá staddir erlendis og því ekki hægt að yfirheyra þá, þeir voru teknir í fyrstu yfirheyrslu þann 24.febrúar 2015 eftir að þeir komu aftur til Ísafjarðar. Skömmu áður hafði Lögreglan óskað eftir rannsóknargöngum frá Fjórðungssjúkrahúsinu, þaðan sem svarað er þann 18.mars að gögn hafi þegar verið send. Í sumarbyrjun sendir Lögreglan málið til Ríkissaksóknara, sem í júlímánuði óskar þess að málinu sé betur sinnt og krefst þess að fá gögnin afhent. Þann 5.ágúst 2015 er á ný óskað eftir gögnunum frá Fjórðungssjúkrahúsinu og var því þá svarað að þeim hafi verið fargað þremur vikum fyrr.

Þolandinn hefur nú höfðað einkaréttarmál gegn mönnunum tveimur, sem verður að óbreyttu tekið fyrir í næsta mánuði. Fer konan fram á fullar bætur vegna þess tjóns sem hún varð fyrir.

annska@bb.is

Atvinnuleysið 3,2%

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands var atvinnuleysi í aprílmánuði 3,2 prósent. Að jafnaði voru 199.300 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í apríl, sem jafngildir 83,2% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 192.900 starfandi og 6.400 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,5% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 3,2%. Samanburður mælinga fyrir apríl 2016 og 2017 sýnir að þrátt fyrir að fjöldi fólks á vinnumarkaði hafi aukist um 3.500 þá lækkaði atvinnuþátttaka um 0,6 prósentustig. Fjöldi starfandi jókst um 6.600 manns og hlutfall starfandi af mannfjölda um 0,8 prósentustig. Atvinnulausum fækkaði um 3.100 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu lækkaði um 1,6 prósentustig milli ára.

Á vormánuðum eykst venjulega eftirspurn ungs fólks eftir atvinnu og er það vel merkjanlegt í þessari mælingu. Af öllum atvinnulausum í apríl voru 52% á aldrinum 16-24 ára og var atvinnuleysi á meðal þeirra 9,7%.

52 nemendur brautskráðir

Frá útskrift Menntaskólans á Ísafirði á síðasta ári.

Á morgun verða 52 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði. Átta nemendur ljúka réttindum A náms vélstjórnar og sjö nemendur ljúka réttindum B-náms. Einnig verða brautskráðir fimm stálsmiðir og einn sjúkraliði og alls munu 32 nemendur ljúka stúdentsprófi af bóknámsbrautum, starfsbraut og með viðbótarnámi við verknámsbraut. Útskriftarathöfnin hefst kl. 13 í Ísafjarðarkirkju og eru allir velkomnir

Syngja og Zuzu Knew í Edinborg

Í kvöld verður boðið upp á tónleika með hljómsveitinni Syngja í Edinborgarhúsinu einnig verður þar listgjörningur í boði listakvennanna Zuzu Knew, sem er listamannsnafn Jasa Baka og Francis Adar. Þá mun Deborah Alanna lesa upp úr verkum sínum. Fjöllistahópur þessi hefur dvalið í gestavinnustofum Arts Iceland á Ísafirði undanfarinn mánuð og munu þau sýna afrakstur vinnu sinnar í kvöld ásamt eldra efni. Með hópnum eru einnig hljóðlistamaðurinn Eric Shaw og kvikmyndagerðarkonan Catherine Legault sem vinnur heimildarmynd um verkefnið. Dansnemendur frá Listaskóla R.Ó. koma einnig fram á sýningunni.

Samstarf hópsins hófst í kringum upptökur langömmu þeirra Jasa Baka og Tyr og ömmu Deboru, Ingibjargar Guðmundsdóttur sem fluttist frá Vestmannaeyjum til Kanada árið 1924. Hún náði háum aldri og lést árið 1994, þá 103 ára. Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar söng hún vísur og þjóðlög, eftir minni, sem og sínar eigin, inn á kassettur sem hún sendi til dóttur sinnar Jónu sem bjó í Montreal og átti hún að spila þær fyrir barnabörnin.

New spring, samstarfsverkefni hópsins nú, er því í raun samstarf fjögurra kynslóða kvenna sem hófst á Íslandi árið 1924. Verkefnið tengir listamenn úr ýmsum áttum sem ekki eru tengdir því fjölskylduböndum sem saman skapa vel ígrundað og töfrandi form sagnamennsku. Sjónheimur Zuzu Knew og tónlist Syngja eru innblásin af persónugerðri náttúru og dulúðlegum erkitýpum.

Tónlistin og hið sjónræna flýtur á milli þess sem er hér og handanheima. Í tónlistinni mætast nútímaheimur raftónlistarinnar, klassískur sellóleikur, hljóðgervlar og raddir. Lifandi myndmáli er varpað er á senuna á meðan á tónleikum stendur og leika búningar Zuzu þar einnig stórt hlutverk. Í heiminum sem þau skapa er ekki að finna skýra línu sem skilur að hvar raunveruleikinn endar og fantasían hefst.

Ekki þarf að greiða fastan aðgangseyri á tónleikana sem hefjast klukkan 20, heldur borgar hver það sem hann vill og getur.

annska@bb.is

Sala á Páli Pálssyni á lokametrunum

Innan skamms lýkur 45 ára sögu togarans Páls Pálssonar ÍS í útgerðarsögu Hnífsdals og Ísafjarðar. Nýr Páll er væntanlegur á allra næstu misserum. „Skipið hefur verið til sölu í tvö ár. Við erum ekki alveg búnir að ganga frá sölu en við vonumst til að það skýrist mjög fljótlega,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. Hann vill á þessu stigi ekki greina frá væntanlegum kaupanda skipsins. Fyrirtækið hefur fundað með áhöfn Páls og henni kynnt áformin. Einar Valur segir að gangi salan eftir, fari Páll til nýs eiganda um mánaðamótin júní júlí.

Samkvæmt heimildum BB verður Páll seldur til Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum. Vinnslustöðin er með Breka VE, systurskip nýja Páls, í smíðum í Kína.

Nýjustu fréttir