Þriðjudagur 3. september 2024
Síða 2194

6 nemendur við Finnbogastaðaskóla

Síðasta vor var sagt frá því að líkur væru á að skólahald í Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi legðist af, er útlit var fyrir um hríð að einungis eitt barn myndi stunda nám við skólann komandi starfsár. Í ágústmánuði taldist þó tryggt að af skólahaldi yrði og voru þá fjögur börn skráð til náms við skólann. Máltækið segir að það sé lengi von á einum og jafnvel tveimur líkt og í þessu tilfelli, en sex nemendur stunda nú nám við skólann. Jón G. Guðbjörnsson greinir á Litlahjalla frá þeim miklu breytingunum sem urðu á Finnbogastaðaskóla á síðasta ári er allt starfsfólk skólans hætti:

Elísa Ösp Valgeirsdóttir hætti sem skólastjóri í lok október, en hún var búin að vera skólastjóri frá árinu 2010. Einnig hætti Vígdís Grímsdóttir sem kennari, hún var búin að vera kennari við skólann frá 2012. Þá hætti Hrefna Þorvaldsdóttir sem matráður um áramótin, en hún var búin að vera matráður við skólann í um 25 ár meira og minna. Í haust tók Helga Garðarsdóttir við sem skólastjóri og nýr kennari við skólann er Selma Kaldalóns og maður hennar Björn A Guðbjörnsson, og er hann matráður við skólann. Selma og Björn komu með tvö börn sem eru á skólaskyldum aldri. Nú eru sex börn við nám í Finnbogastaðaskóla.  Allt þetta nýja starfsfólk kemur af höfuðborgarsvæðinu segir í frétt Jóns.

annska@bb.is

Gunnar á þing fyrir Evu

 

Gunnar Ingiberg Guðmundsson, sjómaður á Ísafirði, hefur tekið sæti sem varamaður á Alþingi í fjarveru Evu Pandóru Baldursdóttur, þingmanns Pírata í Norðvesturkjördæmi. Þetta kemur fram á vef Alþingis. Eins og kunnugt er eignaðist Eva Pandóra dóttur stuttu fyrir kosningar og hefur verið í fæðingarorlofi.

smari@bb.is

Ekki kunnugt um bærinn verði af skatttekjum

Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra í Bolungarvík, er ekki kunnugt um að bæjarsjóður verði af tekjum vegna skattgreiðslna einkahlutafélaga – en þær  renna í ríkissjóð en ekki til sveitarfélaga . Bókun Péturs G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, við afgreiðslu á fjárhagsáætlun hefur vakið athygli. Útsvarstekjur sveitarfélagsins minnkuðu umtalsvert milli ára og Pétur telur líklegustu skýringuna vera að einkahlutafélögum sem eigendur taka sína einkaneyslu í gegn hefur fjölgað í sveitarfélaginu. Jón Páll segir að hann hafi ekki ástæðu til annars en að fyrirtæki og einstaklingar fari eftir lögum og reglum en telur að það væri fagnaðarefni ef sveitarfélög fengu aukinn hlut í heildarskattheimtu ríkisins. „Sveitarfélögin eru mörg hver mikið skuldsett og þurfa sárlega fé í framkvæmdir og uppbyggingu innviða,“ segir hann.

Gagnrýni á skiptingu – eða öllu heldur enga skiptingu – skattgreiðslna einkahlutafélaga milli ríkis og sveitarfélaga er ekki ný af nálinni. Fyrir fjórtán árum ræddi blaðamaður Morgunblaðsins við Einar Pétursson, þáverandi bæjarstjóra Bolungarvíkur. Þá hafði einkahlutfélögum fjölgað um 58% í Bolungarvík frá ársbyrjun 2001. Fjölgun á landinu öllu á sama tímabili var um 30%. Þessi fjölgun einkahlutafélaga hafði í för með sér verulegt tekjutap fyrir sveitarfélagið þar sem stærsti tekjustofn þess sé útsvar og það lækki af þessum völdum.

Lítið hefur breyst í skattaumgjörðinni fyrir utan að tekjuskattur fyrirtækja er hærri í dag (20%) en fyrir hrun, þegar hann hafði verið lækkaður verulega.

smari@bb.is

Samkomulag að nást við hestamenn

Hestamenn stefna á að byggja reiðskemmu á þessu ári. Mynd úr safni.

Ísafjarðarbær og hestamannafélagið Hending hafa gert með sér samingsdrög  vegna greiðslu bóta fyrir aðstöðumissi félagsins vegna framkvæmda við Bolungarvíkurgöng. Bæjastjórn Ísafjarðarbæjar tekur afstöðu til samningsins á morgun. Hending hefur fallist á samingsdrögin og Marinó Hákonarson, formaður Hendingar, segir að þó svo að undirritað samningur liggi ekki fyrir, þá telji hann fullvíst að menn séu landa samningi. „Þetta verður leyst úr þessi. Það er verið að vinna þetta sameiginlega í staðinn fyrir að vera eins og hundar og kettir, það er stóri munurinn. Bærinn settist niður með okkur með fullan vilja til að leysa málið,“ segir Marinó.

Aðspurður hversu miklar bætur Hending fær segir Marinó að það sé hægt að líta á það frá ýmsum hliðum. „Það er hægt að tala um 50 til 60 milljónir, en eftir því hvernig þú setur þetta á vogarskálarnar þá er hægt að fá út hærri eða lægri upphæð. Aðalatriðið er að með samkomulaginu náum við að byggja upp sómasamlega aðstöðu í Engidal sem verður bæði eign Ísafjarðarbæjar og Hendingar. Þó það sé verið að leggja pening í þetta þá er ekki hægt að segja að hestamenn fái þá peninga.“

Samkvæmt samkomulaginu er stefnt að því að reisa reiðskemmu strax á þessu ári.

„Menn eiga að vera stoltir af því að lending sé að nást, bæði bærinn og hestamenn,“ segir Marinó Hákonarson, formaður Hendingar.

smari@bb.is

Fyrsti leikur eftir jólahlé

Meistaraflokkur Vestra á síðustu leiktíð.

 

Meistaraflokkur Vestra í körfubolta leikur sinn fyrsta leik eftir jólahlé á föstudagskvöld þegar Vestri og Ármann etja kappi í íþróttahúsinu á Torfnesi. Vestri er í sjöunda sæti 1. deildarinnar en hefur leikið færri leiki en flestir andstæðingarnir. Hvert stig er dýrmætt eins og staðan er í dag og því baráttan um sæti í úrslitakeppninni er hörð. Liðið var á góðri siglingu fyrir jól og vann þrjá leiki í röð. Á blaði ættu Ármenningar að reiknast sem draumamótherji, en liðið hefur ekki unnið leik í deildinni og situr sem fastast á botni deildarinnar.

smari@bb.is

Æfa danssporin fyrir þorrablótið

 

Á föstudag gengur þorrinn í garð og upphefst þá mikil samkomutíð á Íslandi er landsmenn koma saman og blóta þorra. Algengasta samkomuformið eru þorrablótin sívinsælu þar sem gestir koma saman með misvel lyktandi þjóðlega rétti í trogi. Þá er sungið, gjarnan heimatilbúnar gamanvísur um náungann, og dansað. Nemendur í 10.bekk Grunnskólans á Ísafirði hafa um langa hríð komið saman á þorrablóti og það munu þau gera á bóndadaginn á föstudag, ásamt foreldrum sínum eða forráðamönnum og starfsfólki skólans.

Á þorrablótinu verða gömlu dansarnir stignir undir harmonikkuleik og hafa nemendur verið við æfingar hjá Evu Friðþjófsdóttur danskennara á öllum helstu sporunum. Á meðfylgjandi mynd af heimasíðu Grunnskólans á Ísafirði má sjá 10.bekkingana æfa hringdans og virðast þau klár í slaginn að sýna listir sínar og bjóða mömmu og pabba upp í dans á föstudagskvöldið.

annska@bb.is

Minnast Jóns úr Vör á málþingi

Jón úr Vör

 

Vesturbyggð, Sögufélag Barðastrandarsýslu og Rithöfundasambandið standa fyrir málþingi 21. janúar 2017 í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði í tilefni aldarafmælis þorpsskáldsins Jóns úr Vör. Á þinginu verður ávarp frá Friðbjörgu Matthíasdóttur, bæjarstjóri Vesturbyggðar. Andrea Harðardóttir flytur erindi um skáldið og Úlfar Thoroddsen segir frá umhverfinu á æskuárum skáldsins. Nemendur úr Patreksskóla flytja ljóð Jóns úr Vör og býður Vesturbyggð upp á kaffiveitingar í hléi. Fjallað verður um verkefni Hauks Más Sigurðarsonar um Jón úr Vör og þá les skáldið Eiríkur Örn Norðdahl upp ljóð. Fundarstjóri er Alda Davíðsdóttir

Þann 21.janúar fæddist Jón Jónsson sem síðar varð þekktur sem Jón úr Vör á Vatnseyri við Patreksfjörð. Jón flytur sem ungur maður og ver hann lengstum hluta ævi sinnar í Kópavogi. Æskustöðvarnar höfðu mikil áhrif á hann og fjallar hann um þær í einu af sínu þekktasta verki, Þorpinu. Jón var um dagana rithöfundur, ritstjóri, fornbókasali og bókavörður. Hann var heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands, sem hann tók þátt í að stofna. Jón var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og var meðal annars tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1986 fyrir bók sína Gott er að lifa.

Elfar Logi fjallaði í 2. tbl Bæjarins besta um Jón úr Vör.

annska@bb.is

Engar viðræður fyrr en eftir helgi

Samningafundi sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi lauk nú fyrir stundu og viðræðum verður frestað til mánudags. Tímann þangað til ætlar sjómannaforystan að nota til að kanna baklandið meðal umbjóðenda og ráða ráðum sínum. Sjómenn hafa í tvígang fellt kjarasamning sem forystan hefur samþykkt.

Verkfall sjómanna hefur staðið í rúmar fimm vikur og tap sjómanna og útgerða mikið svo ekki sé minnst á fiskverkafólk, en á annað þúsund starfsmanna í fiskvinnslu hafa fengið uppsagnarbréf frá því að verkfallið hófst.

Fulltrúar beggja málsaðila keyrðu á vegg í þessum viðræðum og það var kominn svolítill hiti í menn. Á ákveðnum málum steytti og því var ákveðið að kæla málið aðeins og byrja aftur eftir helgina,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í dag.

smari@bb.is

Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar valinn

Kristín Þorsteinsdóttir var íþróttamaður Ísafjarðarbæjar á síðasta ári, hér er hún ásamt öðrum íþróttamönnum sem tilnefndir voru

Íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar fór á fundi sínum í gær yfir tilnefningar til íþróttamanns og efnilegasta íþróttamanns Ísafjarðarbæjar árið 2016. Í athöfn í Stjórnsýsluhúsinu næstkomandi sunnudag verður valið kunngjört. Athöfnin hefst klukkan 16 á 4.hæð.

Íþróttafélögin í Ísafjarðarbæ hafa tilnefnt eftirfarandi í valinu um íþróttamann ársins:

Albert Jónsson                     Skíðafélag Ísfirðinga

Anton Helgi Guðjónsson    Golfklúbbur Ísafjarðar

Daniel Osafu-Badu              Knattspyrnudeild Vestra

Haraldur Hannesson           Knattspyrnudeild Harðar

Jens Ingvar Gíslason           Handboltadeild Harðar

Kristín Þorsteinsdóttir        Íþróttafélagið Ívar

Nebojsa Knezevic                Körfuknattleiksdeild Vestra

Tihomir Paunovski               Blakdeild Vestra

Valur Richter                       Skotíþróttafélag Ísafjarðar

 

Í valinu um efnilegasta íþróttamanninn eru eftirtaldir tilnefndir:

Auður Líf Benediktsdóttir    Blakdeild Vestra

Ásgeir Óli Kristjánsson         Golfklúbbur Ísafjarðar

Jón Ómar Gíslason                 Handboltadeild Harðar

Nökkvi Harðarson                  Körfuknattleiksdeild Vestra

Sigurður Hannesson             Skíðafélag Ísfirðinga

Þráinn Ágúst Arnaldsson  Knattspyrnudeild Vestra

Á síðasta ári var það sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir sem hampaði titlinum og var það þriðja árið í röð sem hún var valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar. Þá var Anna María Daníelsdóttir skíðakona valin úr hópi ungra og efnilegra iðkenda sem efnilegasti íþróttamaðurinn.

annska@bb.is

Selja regnbogasilung til Japan

Frystum regnbogasilungi raðað í gám.

Starfsmenn Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf.  og dótturfélagsins Háafells hófu fyrir jól slátrun á fyrsta regnbogasilungnum sem settur var í eldiskvíar Háafells í Álftafirði. Fiskurinn er unninn í Íshúsinu á Ísafirði. Japanskir kaupendur komu í heimsókn fyrir jól til að taka út vöruna og staðfestu kaup en ágætis markaðsaðstæður eru um þessar mundir fyrir regnbogasilung í Asíu. Í dag er unnið að hleðslu fyrstu gámana sem seldir hafa verið til Japans en regnbogasilungur er þar í landi eftirsóttur í m.a. sushi og sashimi rétti.

Háafell er með leyfi fyrir 6.800 tonna eldi á regnbogasilungi en hyggst ekki nýta það. Fyrirtækið stendur nú í gerð umhverfismats á 6.800 tonna laxeldi á sömu staðsetningum í Ísafjarðardjúpi.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir