Mánudagur 20. janúar 2025
Síða 2194

Fyrsta sprenging í ágúst

Gangamunni Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði í Arnarfirði.

Framkvæmdastjóri Suðurverks segir að flutningur vinnubúða og uppsetning þeirra í Arnarfirði hefjist fljótlega upp úr næstu helgi. Suðurverk ásamt tékkneska verktakanum Metrostvav grafa göngin. Dofri Eysteinsson, framkvæmdastjóri Suðurverks, segir í samtali við blaðamann Morgunblaðisins að nú sé aðallega unnið að því að fá til landsins tæki til að vinna verkið.

Suðurverk á vinnubúðir í Mjóafirði sem notaðar voru við vegarlagningu þar. Dofri segir að byrjað verði á því að flytja þær í Arnarfjörð. Þá geti menn farið að koma sér fyrir, setja upp verkstæði, sprengiefnageymslu og fleira.

Hann gerir ráð fyrir að fyrstu sprengingar verði ágúst. Tékkneska fyrirtækið mun alfarið sjá um sprengngar en starfsmenn Suðurverks aka frá þeim grjóti og vinna ýmis önnur störf. Tékkarnir verða með sprengigengi við gangagerðina. Byrjað verður að sprengja Arnarfjarðarmegin og grafnir þaðan um 4 kílómetrar og það sem upp á vantar á 5.300 metra löng göngin verður grafið úr Dýrafirði. Við bætast 300 metra vegskálar þannig að heildarlengd ganganna verður 5,6 kílómetrar. Auk þess þarf að leggja vegi beggja vegna ganganna, alls tæpa 8 kílómetra, og tvær brýr.

Stærsti hluti ganganna verður eins og áður segir grafinn Arnarfjarðarmegin og má búast við að vinnubúðirnar verði verulega einangraðar yfir vetrartímann þegar Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði teppast. „Þeir verða að birgja sig vel upp af olíu, sprengiefni, sementi og öllu sem þeir þurfa til að geta haldið áfram,“ segir Dofri.

Uppsetning varnarmannvirkja fer vel af stað

Þyrla flytur búnað á topp fjallsins.

Uppsetning snjósöfnunargrinda og vindkljúfa á Patreksfirði fer vel af stað
Efni í snjósöfnunargrindur, vindkljúfa og vinnubúðir var híft upp með þyrlu á fjallið Brellur ofan byggðarinnar á Patreksfirði í síðustu viku.

Tvæ 120 m langar snjósöfnunargrindur verða settar upp á fjallinu.Til stendur að setja varnirnar upp á næstu sex vikum til að minnka snjósöfnun á upptakasvæðum annars vegar og draga úr hengjumyndun við upptakasvæðin hins vegar.

Það er Köfunarþjónustan ehf. sem vinnur verkið og Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón og eftirlit með verkefninu fyrir hönd Vesturbyggðar. Meðfylgjandi myndir tók verkefnastjóri Framkvæmdasýslunnar á staðnum.

Efni og búnaður bíður flutnings upp á fjallið.
Útsýnið af fjallinu.

Dúxaði með 9,49 í meðaleinkunn

Svanhildur Sævarsdóttir, dúx Menntaskólans á Ísafirði.

Á laugardag voru 52 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Þrjátíu og tveir nemendur luku stúdentsprófi og var dúx skólans Svanhildur Sævarsdóttir með meðaleinkunnina 9,49. Svanhildur hlaut einnig verðlaun Landsbankans fyrir framúrskarandi árangur í sálfræði og uppeldisfræði, verðlaun Hugvísindasviðs HÍ fyrir framúrskarandi árangur í erlendum tungumálum, verðlaun Menntaskólans á Ísafirði fyrir framúrskarandi árangur í íslensku, verðlaun Sögufélags Ísfirðinga fyrir framúrskarandi árangur í sögu, verðlaun Eymundsson fyrir framúrskarandi árangur í ensku, verðlaun Íslandsbanka fyrir framúrskarandi árangur í félagsgreinum og verðlaun Aldarafmælissjóðs Ísafjarðarbæjar fyrir hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi.

Semidúx var Dóróthea Magnúsdóttir með meðaleinkunnina 9,40. Hún hlaut jafnframt verðlaun íslenska stærðfræðingafélagsins fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði og verðlaun Þýska sendiráðsins fyrir framúrskarandi árangur í þýsku.

Stálsmiðir sem útskrifuðust frá MÍ.

Þá luku átta nemendur réttindum A náms vélstjórnar og sjö nemendur réttindum B-náms. Brautskráðir voru fimm stálsmiðir og einn sjúkraliði. Þrjú tónlistaratriði voru í athöfninni sem nýstúdentar sáu um og risu gestir úr sætum eftir einsöng Arons Ottó Jóhannssonar og klöppuðu honum lof í lófa.

Fimm luku vélstjórnarnámi og einn sjúkraliði útskrifaðist.

Um kvöldið var síðan haldinn útskriftarfagnaður þar sem saman voru komnir 370 manns og hefur fagnaðurinn aldrei verið svo fjölmennur. Á fagnaðinn mættu starfsmenn skólans, 10, 20, 30 og 40 ára afmælisárgangar og svo auðvitað útskriftarnemendur og fjölskyldur þeirra. Heiðrún Tryggvadóttir var veislustjóri og var margt til skemmtunar, líkt og skemmtiatriði frá árgöngum, kennurum og útskriftarnemendum. Halldór Smárason sá um tónlist yfir kvöldverðinum og hljómsveitin Húsið á sléttunni lék fyrir dansi að borðhaldi loknu. Fjörið var hvílíkt að varla sást í auðan blett á dansgólfinu frá upphafstónunum að lokalaginu.

Glæsilegur hópur nýstúdenta.

Þetta var síðasti útskriftarfagnaðurinn sem Hugljúf Ólafsdóttir eða Lúlú og hennar fjölskylda sjá um en hún hefur séð um matinn á útskriftarfögnuðum síðustu 19 ára. Veisluborðin svignuðu undan kræsingum og var afar vel látið af matnum. Að borðhaldi loknu var Lúlú og fjölskylda kölluð fram og var risið úr sætum og þeim fagnað. Systur Lúlú, synir og tengdadætur voru öll mætt hingað vestur til að aðstoða við framkvæmdina.

annska@bb.is

Fjölmenni á opnun ÓKE

Ómar Karvel, Emelía og Kristín við sjálfsmyndir sem þau unnu á námskeiðinu.

Þau Ómar Karvel Guðmundsson, Kristín Þorsteinsdóttir og Emelía Arnþórsdóttir opnuðu fyrir helgi sýningu á verkum sínum í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins. Þríeykið sem kallar sig ÓKE-hópinn hefur undanfarna tvo mánuði sótt myndlistarnám hjá myndlistarkonunum Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur og Solveigu Eddu Vilhjálmsdóttur og var afrakstur þeirrar vinnu til sýnis og mætti fjölmenni á opnunina. Það var Fræðslumiðstöð Vestfjarða sem stóð fyrir myndlistarnámskeiðinu sem mældist mjög vel fyrir hjá þátttakendunum.

ÓKE-hópurinn ásamt kennurum sínum Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur og Solveigu Eddu Vilhjálmsdóttur.
Frá opnuninni.

 

Eitt verka á sýningunni.

 

 

 

Vaskur hópur tók til hendinni í Aðalvík

Sjálfboðaliðarnir vösku. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Árla á laugardagsmorgun hélt vaskur hópur hreinsunarfólks í Hornstrandafriðlandið til ruslhreinsunar. Það var varðskipið Þór sem sigldi með hópinn til Aðalvíkur en vegna óhagstæðrar norðaustanáttar var stefnunni breytt þar sem upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir að í ár yrði hreinsað til í Bolungavík á Ströndum sem illfært var að lenda í við slík veðurskilyrði. Það voru rúmlega þrjátíu manns sem tóku þátt í hreinsuninni að þessu sinni, en hafa sjálfboðaliðar verið duglegir við að bjóða fram krafta sína þegar skipulagðar hreinsanir hafa farið fram í friðlandinu, en þessi er sú fjórða í röðinni.

Hluti af ruslinu. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Gauti Geirsson forsprakki hreinsunarferðanna segir að heilt yfir hafi hreinsunin í ár tekist ótrúlega vel þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að fylgja upprunalega planinu á staðsetningu. Í staðinn var hreinsað á Látrum, í Miðvík og á Sæbóli og þá aðallega plastrusl og netadræsur. Í fjörunni á Látrum var tekið talsvert af dekkjum og köplum og öðru slíku sem má tengja við veru Bandaríkjahers á svæðinu í kalda stríðinu.

Gauti segir sérstaklega skemmtilegt að fá nemendur úr Háskólasetri Vestfjarða með á ári hverju, en þeir hafa verið uppí allt að helmingur þátttakenda: „Þetta tengist mikið námi þeirra og þeim finnst líka frábært að geta gefið til baka til samfélagsins sem þau eru að koma inn í, fyrir utan hvað þau eru dugleg.“

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hversu mikið af rusli fór um borð í Þór að hreinsun lokinni, en það voru allavega einhver tonn. Að hreinsun lokinni var skellt upp grilli í Aðalvík og var hópurinn mettaður með dýrindis lambasteik áður haldið var aftur til Ísafjarðar að kvöldi dags.

Landhelgisgæsla Íslands, Ísafjarðarbær, Vesturferðir, Umhverfisstofnun, Borea Adventures, Vesturverk, Aurora Arktika, Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar, Skeljungur og Gámaþjónusta Vestfjarða styrkja hreinsunarátakið í Hornstrandafriðlandinu.

annska@bb.is

Meistari töfranna í Bolungarvík

Töframaðurinn Shin Lim er á leið til Íslands og meðal staða sem hann heimsækir í ferð sinni er Bolungarvík þar sem hann treður upp í félagsheimilinu fimmtudagskvöldið 1.júní. Shin þessi er enginn aukvisi í faginu þar sem hann var krýndur heimsmeistari í töfrum árið 2015. Hann hefur einnig sér til frægðar unnið að hafa platað þá Penn og Teller upp úr skónum með töfrum sínum, en slíkt er ekki á hvers manns færi. Shin Lim hefur á undanförnum árum skipað sér sess sem einn virtasti og besti töframaður heims, hann er þekktur fyrir einstaka færni með spil og ekki síst einstaka nýsköpun á því sviði.

Sýning sem er troðfull af ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum, þar sem áhorfendum gefst kostur á að taka virkan þátt í sýningunni. Þá koma fram á sýningunni töframennirnir: Einar Mikael sem hefur notið ómældra vinsælda meðal yngstu kynslóðarinnar, Daníel Örn og John Tómas.

Sýning hefst kl 19:30 og opnar húsið klukkustund fyrr. Að sýningu lokinni verður gestum boðið upp á myndatöku með töframönnunum og verður hægt að kaupa ýmsan töfravarning eins og galdrabækur og töfrahetjubúninga.

Shin Lim hefur verið að undirbúa sig fyrir Íslandsheimsóknina, meðal annars með spilagaldri sem má sjá hér.

annska@bb.is

Fylgst með glímu Sigga við vistsporið

Skjáskot úr Manninum sem minnkaði vistsporið

Á morgun verður boðið til ókeypis kvikmyndasýningar í Ísafjarðarbíói er þar verður sýnd heimildarmyndin Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt. Myndin fjallar um Sigga og baráttu hans við að lifa sjálfbæru lífi í ósjálfbæru samfélagi. Siggi eða Sigurður Eyberg Jóhannesson var við nám í umhverfis- og auðlindafræðum þar sem hann meðan annars reiknaði út eigin vistspor – og komst hann að því sér til mikillar skelfingar að það var fimmfalt yfir sjálfbærnimörkum. En vistspor hefur verið ein mest notaða mælistika á sjálfbæran lífsstíl síðustu ára. Siggi ákvað að taka sig taki og sjá hvort hann gæti náð vistspori sínu inn fyrir mörk sjálfbærninnar sem er hægara sagt en gert hér á landi. Myndin fylgir Sigga eftir í þeirri viðleitni og fáum við að sjá hvaða verkefni hann glímir við og hvort honum takist ætlunarverkið.

Þrátt fyrir talsvert tæra ímynd Íslands hefur því verið fleygt að Íslendingar séu meðal verri umhverfissóða sem finnast. Þá er spurningarnar: Hvað erum við að gera verra en aðrir þegar kemur að umhverfismálum og hvað skiptir mestu máli í þeim efnum? Telur mikið að flokka rusl eða hætta að nota umbúðir? Eða telur meira að hætta að nota bíl eða borða minna kjöt?

Það er framleiðslufyrirtækið BROS sem stendur að baki myndinni og er það í eigu Sigurðar og bróður hans Magnúsar B. Jóhannessonar. Sýningin í Ísafjarðarbíói hefst klukkan 16 og verða þeir bræður viðstaddir og verða pallborðsumræður að sýningu lokinni þar sem verður leitast við að svara spurningum sem brenna á fólki um eigið vistspor og annarra. Það er Suðupottur sjálfbærra hugmynda, í samstarfi við Ísafjarðarbíó, Gámaþjónustu Vestfjarða, Kubb og Ísafjarðarbæ, sem stendur fyrir sýningunni og eru allir ungir sem aldnir velkomnir.

Hér má sjá brot úr myndinni.

annska@bb.is

Stofna Vestfjarðastofu

Þingfulltrúar á 62. Fjórðungsþingi sem var haldið í Bolungarvík.

Fjórðungsþing Fjórðungssambands Vestfirðinga var haldið í Bolungarvík síðustu viku. Meðal þess samþykkta á þinginu var stofnun Vestfjarðastofu með því að sameina starfsemi Fjórðungssambandsins og Atvinnuþróunarélags Vestfjarða. Pétur G. Markan, formaður Fjórðungssambandsins, segir að með Vestfjarðastofu verði byggðaþróunarmál og atvinnuþróunarmál fjórðungsins komin undir sama hatt. „Að auki er Atvinnuþróunarfélagið hlutafélag sem er ekki heppilegt form þegar sýslað er með opinbert fé,“ segir Pétur.

Innan Fjórðungssambandsins hefur verið rekið byggðaþróunarsvið en atvinnuþróun hefur verið innan vébanda Atvinnuþróunarfélagsins. „Milli þessara mikilvægu og nátengdu málaflokka hefur verið skurður sem við erum að reyna að brúa með Vestfjarðastofu,“ segir Pétur.

Aðspurður um örlög Atvinnuþróunarfélagsins segir Pétur líklegast að Fjórðungssambandið kaupi upp allt hlutafé og það verði lagt niður. „Fjórðungssambandið og Byggðastofnun eru stærstu hluthafarnir svo það ætti að vera tiltölulega auðveld aðgerð.“

Crystal Symphony sleppir Ísafjarðarkomu

Skemmtiferðaskipið Crystal Symphony sem vera átti á Ísafirði í dag lenti í slæmu veðri á ferð sinni frá Nýfundnalandi til Íslands fyrir helgi. Það tafði ferðir skipsins og var því ákveðið að sleppa heimsókn á Ísafjörð að þessu sinni og fer skipið bara til einnar hafnar á Íslandi, Reykjavíkur. Crystal Cruises býður upp á lúxussiglingar þar sem gestir þeirra njóta mikilla vellystinga í skemmtiferðaskipum, snekkjum og fljótabátum. Þó vistarverur Crystal Symphony séu hinar huggulegustu mun skipið í fara í slipp í haust þar sem það verður tekið í gegn og til að mynda herbergin stækkuð.

Crystal Symphony átti að vera sjötta í röð skemmtiferðaskipa sem heimsækja Ísafjörð þetta sumarið og má segja að vertíðin hafi hafist fyrir alvöru á laugardag er tvö skip voru í höfn með um 2900 gesti innanborðs að áhöfnum ótöldum.

annska@bb.is

Háspenna á Torfnesinu

Frá leik Vestra fyrr í sumar.

Það var ekki bjart yfir stuðningsmönnum Vestra í hálfleik í leik liðsins við Völsung á Torfnesvelli á laugardag. Liðið var 0-1 undir og hafði varla ógnað marki mótherjans í þær 45 mínútur sem voru liðnar af leiknum og fékk á sig klaufalegt mark á 24. mínútur. Það dimmdi enn meira yfir stúkunni þegar átta mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Völsungar skoruðu sitt annað mark og vandræðalegt tap á heimavelli blasti við. Ögurstund leiksins var á 57. mínútu þegar Danimir Milkanovic þjálfari skipti Gilles Ondo inn á. Hann átti eftir að gjörbreyta leiknum og styrkleiki hans, tækni og leikskilningur færði spilamennsku Vestra upp á annað og betra plan. Á 69. mínútu krækti hann í víti sem Kevin Alson Schmidt skoraði úr. Á 80. mínútu kom góð fyrirgjöf inn í teig Völsungs sem Ondo skallaði út í teig hvar Nikulás Jónsson kom askvaðandi og smellhitti boltann og jafnaði leikinn með óverjandi skoti – staðan orðin jöfn. Völsungar vörðust fimlega og voru skipulagðir og Vestramenn reyndu allt til að knýja fram sigurmark án þess að komast í afgerandi færi. Nokkuð var um tafir í leiknum og dómarinn bætti fimm mínútum við venjulegan leiktíma. Á 95. mínútu fékk Vestri hornspyrnu og hver annar en Gilles Ondo stangaði boltann í netið og við það sama flautaði dómarinn til leiksloka ótrúlegur sigur Vestra í höfn og kættist þá heldur betur yfir stúkunni.

Vestri er í þriðja sæti deildarinnar með 9 stig, jafnmörg og Afturelding sem er með betra markahlutfall.

Næsti leikur liðsins er á laugardag við Huginn og verður leikið á Seyðisfjarðarvelli.

Nýjustu fréttir