Þriðjudagur 3. september 2024
Síða 2193

Sætabrauð úr Gamla fæst í Reykjavík

Gamla bakaríið á Ísafirði Mynd af facebook síðu bakarísins

Sælkerar sem eiga rætur sínar að rekja til Ísafjarðar og nágrennis en eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu geta heldur betur tekið gleði sína. Í dag var gjört kunnugt að valdar vörur úr Gamla bakaríinu á Ísafirði verða til sölu í versluninni Rangá í Skipasundi í Reykjavík. Vörurnar koma á þriðjudögum og föstudögum. Verslunin Rangá er við Skipasund 56 og er búin að vera starfandi hátt í 85 ár, þar af tæp 45 ár í sömu fjölskyldu og er í dag rekin af Kristbjörgu Agnarsdóttir og fjölskyldu en fjölskyldan á rætur að rekja til Selárdals í Arnarfirði. Sérstaða Rangár er sala á vestfirskum harðfiski, lambakjöti frá Kópaskeri, vestfirskum hnoðmör og nú einnig brauði og sætabrauði frá Ísafirði.

smari@bb.is

Uppbygging í fiskeldi krefst nýbygginga

Ef mikil fjárfesting í fiskeldi verður að veruleika er fyrirliggjandi að fjölga þarf nýbyggingum í Ísafjarðarbæ – bæði varanlegu húsnæði og skammtímahúsnæði fyrir farandverkafólk. Þetta kemur fram í skýrslu Reykjavík Economics um íbúðamarkaðinn í Ísafjarðarbæ sem unnin var að beiðni sveitarfélagsins. Langvarandi fækkun íbúa er flestum kunn en í skýrslunni er bent á að breytingar á aldursdreifingu íbúa hafi verið sérstaklega óhagfelld. Stórfelld uppbygging í fiskeldi gæti orðið til þess að breyta horfum í lýðfræði sveitarfélagsins.

Það liggur fyrir að sveitarfélagið þarf líklega að byggja sjálft, eða í samvinnu við einkaaðila, húsnæði fyrir aldraða og öryrkja. Það húsnæði sem losnar gæti nýst aðfluttum eða í útleigu til ferðamanna, en ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem hefur verið í örustum vexti í sveitarfélaginu.

Í skýrslunni kemur fram að það sem einkennir húsnæðismarkaðinn í Ísafjarðarbæ er að fjöldamargar íbúðir eru í eigu aðila sem ekki eiga lögheimili í sveitarfélaginu, samtals 224 íbúðir. Flestar eru íbúðirnar á Flateyri eða 67.

smari@bb.is

Vinnustofa um sjálfbærar breytingar strandsvæða

Háskólasetur Vestfjarða er staðsett í Vestrahúsinu.

Í dag hefst vinnustofa í Háskólasetri Vestfjarða sem ber titilinn „Sustainability Transitions in the Coastal Zone“ sem gæti útlagst sem; sjálfbærar breytingar strandsvæða.Vinnustofan er styrkt af Regional Studies Association og er samstarfsverkefni Háskólasetursins, Southern Connecticut State háskólans í Bandaríkjunum og John Moors háskólanum í Liverpool í Bretlandi. Vinnustofan sem fram fer hér á Ísafirði er sú fyrsta af fjórum sem verða haldnar næstu tvö árin. Markmið vinnustofanna er að koma á fót rannsóknarneti á milli þessara þriggja stofnanna. Þátttakendur munu greina og ræða möguleg rannsóknarverkefni sem snúa að margskonar breytingum sem tengjast sjálfbærni strandsvæða. Meðal umræðuefna eru sjávareldi, ferðamennska og sjávarútvegur.

Fólki utan Háskólasetursins er boðið að taka þátt í vinnustofunni, leggja til hugmyndir og ræða möguleg rannsóknarefni sem fyrirhugað rannsóknarnet gæti fengist við. Þessi opni hluti vinnustofunnar fer fram föstudaginn 20. janúar milli klukkan 13:30 og16:00 í stofu 3 í Háskólasetrinu. Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu vinnustofunnar á heimasíðu Regional Studies Association.

annska@bb.is

Ofurkælingarbúnaður 3X seldur til Noregs

Skaginn3X og Grieg Seafood í Alta í Noregi undirrituðu á dögunum samning um innleiðingu Grieg Seafood á SUB CHILLING kerfi sem Skaginn3X hefur þróað á undanförnum árum, svokallaðri ofurkælingu.

Grieg Seafood er fyrsta laxeldisfyrirtækið í Noregi sem tekur kerfið í notkun en sams konar kerfi hefur verið notað með framúrskarandi árangri hjá Arnarlaxi á Bíldudal síðan á árinu 2015, að því er fram kemur í tilkynningu um málið frá Skaginn3X.

„Við hjá Grieg Seafood viljum vera brautryðjendur nýrrar tækni og þessi fjárfesting okkar í SUB CHILL­ING kerfi fellur vel að þeirri stefnu okkar að bjóða viðskiptavinum okkar bestu mögulegu gæði um leið og við minnkum umhverfisáhrifin sem tengjast flutningum,“ segir Stine Torheim, verksmiðjustjóri hjá Grieg Seafood.

Grieg Seafood er eitt stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi og með rúmlega 60 þúsund tonna ársframleiðslu.

smari@bb.is

Vestfirsk fiskneysla í Vísindaportinu

Í Vísindaporti vikunnar hjá Háskólasetri Vestfjarða mun Jennifer Smith, MSc í haf- og strandsvæðastjórnun, fjalla um rannsókn sína á vestfirskri fiskneyslu, aðgengi að fiski og gildi staðbundinna fiskiklasa. Staðbundnir matarklasar (ens. Local food networks (LFN)) eru að koma fram að nýju hvarvetna um hinn iðnvædda heim sem leið til að vinna gegn neikvæðum áhrifum hins iðnvædda matvælakverfis og til að auka sjálfsstjórn samfélaga yfir eigin matarforða. Í meistararannsókn sinni, sem unnin var 2013-2014, greindi Jennifer núverandi grenndarkerfi fyrir fisk sem eru þegar til staðar í vestfirskum sjávarbyggðum og kostina sem gætu fylgt því ef verslanir hefðu aukinn aðgang að þeim fiski sem kemur að landi á svæðinu.

Könnun á fiskneyslu var lögð fyrir á Patreksfirði og Ísafirði til að skoða m.a. fiskneyslu íbúa og hvort þeir væru almennt sáttir við aðgengi að ferskum fiski. Niðurstöðurnar benda til þess að svarendur kjósi frekar staðbundinn fisk og að menningarleg tengsl við fiskneyslu séu áfram sterk meðal íbúa. Fiskneyslan fellur að stóru leyti inn í gjafakerfi sem byggir á persónulegum tengslum við fiskiðnaðinn. Einstaklingar, sem skortir persónuleg tengsl og aðgengi að  sérhæfðari verslunum (t.a.m. fiskverslun eða fiskborði verslana), þurfa að treysta á að nálgast vörur frá stærri aðilum sem hannaðar eru fyrir alþjóðlega matvælakerfið.

Jennifer vann rannsókn sína undir handleiðslu Dr. Catherine Chambers, fagstjóra haf-og strandsvæðastjórnunar Háskólaseturs Vestfjarða, og saman skrifuðu þær grein um efnið sem birtist í bandaríska vísindatímaritinu Environment, Space, Place.

Jennifer Smith er bandarísk að uppruna.  Hún lauk meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða árið 2014 og hefur verið búsett á Ísafirði síðan. Hún starfar við SIT vettvangsskólann, School for International Training, ásamt því að vinna verkefni á vegum Háskólasetursins. Jennifer stefnir á doktorsnám og hefur augastað á rannsóknum á félagshagsfræðilegum áhrifum fiskeldis á íslensk samfélög.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 og er öllum opið. Fyrirlestur Jennifer fer fram á ensku.

annska@bb.is

Óheppilegt að burðarþolsmat liggur ekki fyrir

Staðsetningar eldiskvía Arnarlax eru skyggðar með grænu.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar gerir ekki athugasemd við tillögu að matsáætlun Arnarlax á 10 þúsund tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Hinsvegar þá ítrekar nefndin enn og aftur að afleitt sé að enga stefnumörkun stjórnvalda er að finna um sjókvíaeldi á Vestfjörðum, fremur en annars staðar á landinu. Nefndin segir óheppilegt er að veita leyfi þar sem burðarþol Ísafjarðardjúps liggur ekki fyrir og samlegðaráhrif eldis á svæðinu gagnvart lífríkinu eru ekki ljós. Því verður að telja það forgangsatriði að klára rannsóknir á burðarþoli Ísafjarðardjúps.

Að frumkvæði sveitarfélaga á Vestfjörðum og Fjórðungssambands Vestfjarða var unnin nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð og nefndin segir það slæmt að ríkisvaldið hafi ekki séð ástæðu til að láta samsvarandi vinnu fara fram á strandsvæði Ísafjarðardjúps.

Skipulags- og mannvirkjanefnd  ítrekar einnig þá skoðun að æskilegt er að sveitarfélög ráði skipulagi strandsjávar út að 1 sjómílu frá grunnlínu.

smari@bb.is

Velkomin til Tortóla norðursins

Skattamál í Súðavík hafa verið talsvert í umræðunni að undanförnu eftir að sveitarstjórinn Pétur Markan vakti á þeim athygli á hreppsnefndarfundi fyrr í mánuðinum og var í kjölfarið skrifað um málið á vef Bæjarins besta og í fleiri fréttamiðlum. Bæjarbúar hafa lítið tjáð sig um málið opinberlega, en einhverjir hafa nú brugðið á það ráð í skjóli nætur að koma fyrir handgerðum skiltum við bæjarmörkin hvoru megin. Við merki Súðavíkur við utanvert þorpið, má sjá skilti þar sem á stendur: „Velkomin í skattaparadís.“ Við bæjarmörkin innanverð má sjá skilti þar sem á stendur „Velkomin til Tortóla norðursins.“ Bæði skiltin prýða svo myndir af sveitarstjóranum. Ekki er vitað hverjir voru þarna að verki.

annska@bb.is

Kalt í dag en rignir á morgun

Það verður hægviðri og þurrt í veðri að mestu á Vestfjörðum frameftir degi, en norðaustan 3-8 m/s og dálítil snjókoma í kvöld. Kalt verður í veðri með frosti á bilinu 3 til 8 stig. Ekki varir þessi kuldi þó lengi þar sem veðurspá Veðurstofu Íslands fyrir svæðið á morgun kveður á um suðaustan 8-15 m/s og rigningu með hita á bilinu 2 til 7 stig.

Á vegum á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja.

annska@bb.is

Áreiðanlegt að einkahlutafélögin valdi tekjumissi

Gísli Halldór Halldórsson.

„Ég tel áreiðanlegt að fyrirkomulagið með einkahlutafélög valdi tekjumissi hjá sveitarfélögum. Fyrst og fremst er þar um að ræða mikil áhrif af hinu lagalega fyrirkomulagi, þrátt fyrir að uppfylltar séu allar lagaskyldur og skattar taldir fram með bestu samvisku,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Nokkur umræða hefur spunnist um skattgreiðslur einkahlutafélaga og skarðan hlut sveitarfélaga eftir bókun Péturs G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps. Í bókuninni  leiddi hann líkum að því Súðavíkurhreppur tapi skatttekjum vegna einkaneyslu sem eigendur einkahlutafélaga taki í gegnum fyrirtæki sín.

Gísli Halldór segir að eitthvað hljóti að vera um að heimildir séu misnotaðar. „Ég hef engar talnalegar upplýsingar um það en geri þó ekki ráð fyrir að stærstu upphæðirnar liggi í slíkri misnotkun eða skattsvikum.“

Ýmsir hafa gert athugasemdir við áhrif af einkahlutafélögum á skatttekjur sveitarfélaga í gegnum árinu, þ.e.a.s. áhrifin af þeirri breytingu sem gerð var á skattalögum í upphafi aldarinnar að einstaklingur í atvinnurekstri getur stofnað einkahlutafélag sem tekur við öllum eignum og skuldum.

Gísli Halldór bendir á að Reykjavíkurborg gerði árið 2001 útreikninga sem bentu til að sveitarfélögin yrðu af tekjum sem svarar til 2,7 milljarða á núgildandi verðlagi. „Ég veit ekki hvernig það myndi reiknast í dag. Þetta getur svo orðið hlutfallslega meira í sveitarfélögum sem reiða sig mikið á einstaklingsrekstur  eins og líklega er algengast í smærri sveitarfélögum.“

Hann segir að margir kannist eflaust við að fólk með stöndug fyrirtæki reikni sér fáránlega lág laun. Gísli Halldór leggur áherslu á að eftirlit með skattgreiðslum sé verkefni skattayfirvalda, sveitarfélögin hafi enga aðkomu að slíku eftirliti.

Rekstri margra sveitarfélaga verður að mati Gísla Halldórs stefnt í hættu ef ríkið gerir ekki úrbætur á tekjustofnum sveitarfélaga. Hann nefnir sem dæmi að sveitarfélögin hafa byggt upp leikskólana og grunnskólana á undanförnum áratugum án þess að fá til þess neina tekjustofna frá ríkinu. „Nú er einmitt orðin brýn þörf á að tryggja börnum leikskólapláss frá lokum fæðingarorlofs og það verður ekki gert með góðu móti nema til komi nýir tekjustofnar, að öðrum kosti yrði rekstri fjölmargra sveitarfélaga stefnt í hættu við fjölgun leikskólaplássa,“ segir Gísli Halldór.

smari@bb.is

Að líkamna huglæga upplifun

Jónas Sen og Sigríður Soffía í hlutverkum sínum.

Það er ekki á hverjum degi sem Ísfirðingum og nærsveitungum er boðið upp á samtímadansverk í fremsta flokki. Og þeir sem voru orðnir óþreyjufullir í biðinni, þurfa ekki að örvænta því í fyrstu viku febrúar verður dansleikhúsverkið FUBAR sýnt í Edinborgarhúsinu. Verkið er unnið út frá tíma, segir í kynningu og ennfremur:

„Hvernig klukkutími getur liðið eins og mínúta þegar þú upplifir eitthvað frábært og hvernig tíminn virðist stoppa þegar upplifunin er hræðileg. Dansarinn líkamnar huglæga upplifun.“

Verkið er eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur og Jónas Sen tónskáld frumsemur tónlistina við verkið. Tónlist og dans hafa fæðst saman í spunum á vinnuferlinu þar sem listamennirnir vinna báðir útfrá sama efninu og þannig myndast djúp tenging tónlistar og hreyfinga.

Verkið er dansleikhúsverk þar sem ekki einungis er dansað heldur er texti, söngur, vélmennadans, lifandi hljóðfæraleikur og búningar úr smiðju tískuhönnuðarins Hildar Yeoman áberandi.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir