Mánudagur 20. janúar 2025
Síða 2193

Segir lokun sýsluskrifstofunnar svik við Bolvíkinga

Bæjarráð Bolungarvíkur mótmælir harðlega ákvörðun Sýslumannsins á Vestfjörðum um að flytja starfsemi embættisins frá Bolungarvík.

Í reglugerð um umdæmi sýslumanna er kveðið á um að útibú skuli vera frá Sýslumanninum á Vestfjörðum í Bolungarvík og á Hólmavík, sýsluskrifstofa á Ísafirði en aðalskrifstofa embættisins á Patrekfriði.  Í fréttatilkynningu frá Jónasi Guðmundssyni sýslumanni kom fram að embættið hefur ritað dómsmálaráðherra bréf þar sem óskað er eftir að reglugerðinni verði breytt þannig að aðeins sé gert ráð fyrir einni starfsstöð á norðanverðum Vestfjörðum og lagt til að hún verði á Ísafirði.

Í bókun bæjarráðs segir að þessi ósk sýslumanns sé fordæmalaus og  með henni ætli embættið að fá leyi ráðherra til að hætta alfarið þjónustu við íbúa í Bolungarvík.

„Með þessu er meðal annars verið að leggja niður þjónustu Tryggingarstofnunar, en þeir sem nýta sér þjónustuna hennar eru fyrst og fremst eldri borgara og öryrkjar sem treysta á góða og öfluga þjónustu í heimabyggð,“ segir í bókuninni.

Bæjarráð segir þessa ákvörðun Sýslumannsins á Vestfjörðum vera svik við nýlega þjónustumiðstöð í Bolungarvík. Í bókuninni segir: „Góð sátt var um þjónustumiðstöðina sem sett var á laggirnar sumarið 2016 eftir að mikil áföll dundu á opinberri þjónustu í Bolungarvík með fyrirhugaðri lokun á póst- og bankaþjónustu ásamt því að sýslumannsembættið í Bolungarvík var lagt niður stuttu áður. Það er ótrúleg staðreynd að aðeins nokkrum mánuðum eftir að sýslumannsembættið á Vestfjörðum tók þátt í að opna þjónustumiðstöðina með pompi og prakt skuli embættinu hafa snúist hugur og kjósa að loka útibúinu.“

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu er það lokun skrifstofunnar hörmuð „en eilífar kröfur um hagræðingu kalli á þessa aðgerð, sem auk fjárhagslegs sparnaðar ætti að leiða til aukinna samlegðaráhrifa á skrifstofunni á Ísafirði,“ eins og það er orðað.

Bæjarráð hafnar algjörlega þeim rökum sýslumanns að þessi aðgerð sé nauðsynleg til að draga úr kostnaði. Húsnæðið í Bolungarvík er sagt eitt hagkvæmasta skrifstofuhúsnæði á landinu og henti vel til starfseminnar hér í Bolungarvík.

„Það er óásættanlegt að íbúar Bolungarvíkur skulu einir bera kostnað af framúrkeyslu embættisins og er í algjöru ósamræmi við fyrri yfirlýsingar embættisins og ráðherra þegar breytingar voru gerðar á sýslumannsembættunum á landinu. En fram kom hjá innanríkisráðherra þegar Sýslumannsembættið á Vestfjörðum var stofnað að „embættin verða í kjölfar breytinganna öflugri og betur í stakk búin til að taka við verkefnum og tækifæri skapast til að flytja verkefni úr miðlægri stjórnsýslu til þeirra“.

Körfuboltabúðirnar settar í gær

Þátttakendur í búðunum í fyrra. Von er á enn fleiri í ár.

Í gær voru níundu körfuboltabúðir Vestra settar. Lengst af voru búiðirnar haldnar undir merkjum KFÍ, en eftir að KFÍ sameinaðist öðrum íþróttafélögum á Ísafirði og Vestri var stofnaður eru búðirnar haldnar undir merkjum Vestra.

Búðirnar í ár eru þær níundu í röðinni og jafnframt þær fjölmennestu en stöðug fjölgun hefur verið í búðunum ár frá ári. Von er á hátt í 160 krökkum á aldrinum 10-16 ára víðsvegar að af landinu. Alls koma í búðirnar krakkar úr 16 körfuknattleiksfélögum og eru kynjahlutföll nánast jöfn því tæplega helmingur þátttakenda eru stúlkur.

Sem fyrr er lögð rík áhersla á að fá hæfustu þjálfara sem völ er á. Tíu aðalþjálfarar munu starfa í búðunum sem allir eru í fremstu röð en þeim til halds og traust verða sjö aðstoðarþjálfarar. Yfirþjálfari búðanna í ár er Ingi Þór Steinþórsson, yfirþjálfari Snæfells.

Mýraboltinn, Vasulka og FM Belfast á Skjaldborg

Skrúðgangan á Skjaldborgarhátíðinni er með þeim hressari. Mynd af fésbókarsíðu hátíðarinnar.

10 ár eru liðin frá því er heimildarmyndahátíðin Skjaldborg var fyrst haldin á Patreksfirði. Áhugi kvikmyndargerðarfólks á hátíðinni aldrei verið meiri en í ár og fleiri myndir bárust en nokkurn tímann fyrr. Eftir það vandasama verk skipuleggjenda við að velja og hafna stendur eftir stórglæsileg dagskrá sem gestir hátíðarinnar geta notið um komandi helgi.

Það er fjölbreytt flóra mynda sem sýnd verður á hátíðinni í ár, allt frá fullbúnum heimildarmyndum í fullri lengd yfir í verk í vinnslu. Meðal þeirra mynda sem sýndar verða á hátíðinni í ár er Goðsögnin FC Kareoki eftir Herbert Sveinbjörnsson. Myndin fjallar um mýrarboltaliðið FC Kareoki sem sigraði Evrópumeistaramótið í íþróttinni árið 2014 – sjálfum sér og öðrum að óvörum og ákváðu í framhaldinu að fara til Finnlands að freista þess að verða heimsmeistarar. Einnig verður sýnd mynd Marine Ottogalli Sveinn á Múla, Íslendingurinn sem varð bensínlaus. Þar segir af Sveini, sem afgreitt hefur bensín á Innri-Múla á Barðaströnd í 50 ár. Bensínstöðin samtvinnast vel við áhugamálið hans en það er að hitta nýtt fólk á hverjum degi og spjalla. Í myndinni segir af því er Olís ákveður að hætta rekstri á Innri-Múla og hvernig Sveinn heldur áfram með líf sitt í sauðfjárbúskapnum með sonum sínum. Önnur mynd með vestfirska tengingu er myndin Vopnafjörður, sem er eftir tengdadóttur Önundarfjarðar Körnu Sigurðardóttur. Af öðrum áhugaverðum verkum má nefna myndina Blindrahund eftir Kristján Lomfjörð, sem fjallar um myndlistarmanninn Birgi Andrésson sem lést árið 2007 aðeins 52 ára. Með báða foreldra blinda ólst Birgir upp við afar sérstakar aðstæður á Blindraheimilinu við Hamrahlíð.

Heiðursgestir Skjaldborgar í ár eru myndlistarmennirnir Steina og Woody Vasulka sem eru alþjóðlegir frumkvöðlar á sviði vídeólistar og geta gestir hátíðarinnar geta notið verka þeirra og þekkingar með ýmsum hætti. Sýndar verða nokkrar af myndum þeirra og í Í kjölfar þeirra verður svokallað masterclass þar sem Hrafnhildur Gunnarsdóttir, kvikmyndagerðarkona, mun ræða við hjónin um ævistarf þeirra. Hrafnhildur sýnir einnig heimildarmynd sína The Vasulka Effect sem enn er á vinnslustigi og segir frá verkinu. Þá verða í Húsinu eða House of Creativity, sem er glænýtt listamannarými á Patreksfirði, sýnd nokkur verk eftir Steinu og Woody meðan á hátíðinni stendur.

Það verður ýmislegt annað við að vera á hátíðinni og ber þar hæst rjúkandi heitt lokahóf í Félagsheimili Patreksfjarðar á sunnudagskvöldið þar sem stuðpinnarnir í FM BELFAST trylla lýðinn. Skrúðganga verður úr Skjaldborgarbíó eftir að sjálfur Einarinn, verðlaunagripur hátíðarinnar, hefur verið afhentur fyrir bestu myndina þessu sinni. Allir velkomnir á dansleikinn á meðan húsrúm leyfir.

annska@bb.is

Tekjur aukast og skuldir lækka

Afkoma hafnarsjóðs Ísafjarðarbæjar batnaði á síðasta ári.

Hafnarsjóður Ísafjarðarbæjar skilaði 93 milljóna kr. rekstarafgangi á síðasta ári. Ársreikningur hafnanna var lagður fram til kynnngar á fundi hafnarstjórnar í dag. Það er óhætt að segja að staða hafnarinnar er sterk. Skuldir lækka á milli ára, tekjur aukast og sömu sögu má segja um afgang af rekstrinum.

Tekjur hafnarinnar á síðasta ári voru 286 milljónir kr. og jukust um 23 milljónir kr. frá fyrra ári. Afgangur af rekstrinum var 93 milljónir kr. en árið 2015 var rekstarafgangurinn 88 milljónir kr.

Höfnin skuldar 193 milljónir kr. og lækkuðu skuldir um 55 milljónir kr. milli ára.

Leikjanámskeiðin hefjast í næstu viku

Frá leikjanámskeiðinu í fyrra.

HSV býður líkt og undanfarin ár upp á íþrótta- og leikjanámskeið á Ísafirði í júnímánuði. Leikjanámskeiðið er ætlað börnum sem eru að ljúka 1.-4. bekk í grunnskóla og er það með fjölbreyttu sniði þar sem meðal annars verður farið verður í leiki, fjöruferðir, hjólaferðir, fjallgöngur, sund og þá verða ýmsar íþróttagreinar reyndar. Námskeiðið er virka daga frá kl.9-12 og er mæting við Íþróttahúsið á Torfnesi, einnig geta börnin fengið vistun frá kl.8:30 án skipulagðrar dagskrár.

Í heildina verða kennd þrjú vikulöng námskeið og er hægt að velja hversu mörg námskeið verða tekin. Fyrsta námskeiðið hefst 6.júní og því síðasta lýkur þann þrítugasta. Skráning fer fram í gegnum heimasíðuna www.hsv.is

annska@bb.is

Útskriftarnemar G.Í. fóru í góða vorferð

Nemendur í 10.bekk Grunnskólans á Ísafirði sem innan fárra daga ljúka göngu sinni við skólann héldu á sunnudag í síðustu viku í vorferðalag sitt ásamt fríðu föruneyti foreldra og kennara. Farið var í Skagafjörð og gist að Bakkaflöt. Þar biðu hópsins alls konar ævintýri, byrjað var á að fara í þrautabraut þar sem færi gafst að gera sig bæði blautan og skítugan sem var vel þegið eftir langa keyrslu í rútunni. Eftir þrautabrautina skelltu margir sér til sunds í ánni og þótti heimamönnum það hraustlega gert, enda vatnið jökulkalt.
Næstu dagar einkenndust af miklu fjöri og þéttri dagskrá. Hópurinn fór í loftbolta og litbolta, sem og flúðasiglingu á Vestari Jökulsá. Þau heimsóttu Grettislaug, hittu Drangeyjarjarlinn Jón Eiríksson, heimsóttu Samgönguminjasafnið að Stóragerði í Óslandshlíð og fóru í sundlaugina á Hofsósi þar sem útsýni er með eindæmum fagurt. Er í þessu ótalið veitingastaðaheimsóknir, leikir og kvöldvökur sem nemendur framkvæmdu af stakri snilld.

Hópurinn kom til baka síðla dags á miðvikudag, þreyttur en sæll eftir vel heppnaða ferð.

Á sjöunda hundrað heilsufarsmældir

Hópurinn sem stóð fyrir heilsufarsmælingum á Vestfjörðum.

Heilsufarsmælingar á vegum SÍBS og Hjartaheillar í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða fóru fram á norðanverðum Vestfjörðum í síðust viku. Hafði teymið sem vestur kom í nægu að snúast við að kanna heilsufar heimamanna en 634 voru mældir á heimsóknarstöðunum: Bolungarvík, Ísafirði, Suðureyri, Súðavík, Þingeyri og Flateyri. Mælingarnar náðu til helstu áhættuþátta lífsstílssjúkdóma þar sem mældur var blóðþrýstingur, blóðsykur, blóðfita, súrefnismettun og styrkur auk þess sem boðið var upp á öndunarmælingu. Einnig svöruðu þeir þátttakendum sem vildu lýðheilsukönnun. Boðið var upp á fræðslu um lífsstílstengda sjúkdóma og var hjúkrunarfræðingur frá HVEST með hópnum í för til að veita ráðgjöf og eftirfylgd.

Það var ánægt teymi sem hélt aftur suður á bóginn eftir vel heppnaða Vestfjarðaheimsókn. Á meðfylgjandi mynd sem birtist á Fésbókarsíðu SÍBS má sjá hópinn sem sá um framkvæmdina ásamt Anette Hansen hjúkrunarfræðingi frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða eftir að mælingum lauk á Flateyri.

annska@bb.is

Lokahátíð Tónlistarskólans

Lokahátíð og skólaslit Tónlistarskóla Ísafjarðar verða í Ísafjarðarkirkju í kvöld. Boðið verður upp á fjölbreytt tónlistaratriði og ávörp, þar verða skírteini afhent og veittar viðurkenningar og verðlaun fyrir skólaárið sem nú er að ljúka. Að sögn Ingunnar Óskar Sturludóttur, skólastjóra T.Í. hefur skólastarfið í vetur gengið prýðilega, það hafi verið skemmtilegt og uppskeran góð. Í skólann á Ísafirði og í útibúum hans á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri stunduðu 226 nemendur nám í einkanámi, forskóla og kór en auk þeirra sóttu 47 leikskólabörn tónlistartíma. Þar að auki eru 25 manns í lúðrasveit skólans.
Starfsemi Tónlistarskóla Ísafjarðar hefur sannarlega sett svip sinn á menningarlífið þennan veturinn sem svo oft áður. Fjölmargir tónleikar hafa verið haldnir á vegum skólans og hafa nemendur hans komið fram víða. Dagur tónlistarskólanna var haldinn hátíðlegur með stórtónleikum í Ísafjarðarkirkju og eru þeir tónleikar jafnan stærsti viðburður skólaársins – þar sem allir nemendur skólans komu fram.

„Nemendur skólans eru til fyrirmyndar, duglegir og áhugasamir upp til hópa. Það er gaman að geta glatt aðra með tónlistarflutningi og það hafa nemendur sannarlega gert á þessu skólaári og gert víðreist bæði innan og utan Ísafjarðar. Það er skólanum afar mikilvægt hversu vel heimamenn sækja tónleika skólans og sýna starfi hans mikinn velvilja og því hlökkum við til að sjá sem flesta í Ísafjarðarkirkju í kvöld,“ segir Ingunn.

Sigríður Ragnarsdóttir skólastjóri lætur nú af störfum við skólann eftir 45 ára gjöfult starf. Störf hennar við skólann hafa verið einkar farsæl, skólanum og samfélaginu öllu til heilla. Ingunn segir mikla eftirsjá vera að Sigríði með sína miklu reynslu og skörpu sýn á skóla- og samfélagsmál: „Það er einnig gott til þess að hugsa að framtíðarstjórnendur Tónlistarskólans muni geta leitað til hennar um ráðgjöf í síbreytilegu skólaumhverfi 21. aldarinnar.“

Allir eru velkomnir á lokahátíðina sem hefst klukkan 20 og vonast T.Í.-fólk til að sjá sem flesta, nemendur, sem og alla velunnara skólans.

annska@bb.is

Þingeyri taki þátt í Brothættum byggðum

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur lýst yfir áhuga á samstarfi við Byggðastofnun um þátttöku Þingeyrar í verkefninu Brothættar byggðir. Verkefnið er sértækt verkfæri Byggðastofnunar til að aðstoða byggðarlög sem standa höllum fæti. Byggðastofnun vinnur nú að gerð áætlunar um rekstur og framkvæmd verkefnisins á næstu misserum.

Til að meta hvar þörfin er mest styðst stofnunin við útreikning á mælikvörðum sem lýst er í verkefnisáætlun og taka þeir meðal annars til lýðfræðilegra þátta, landfræðilegrar stöðu og stöðu í atvinnulífi. Í bréfi Byggðastofnunar til Ísafjarðarbæjar kemur fram að Þingeyri er eitt þeirra byggðarlaga sem skora hæst samkvæmt ofangreindum mælikvörðum.

Húsnæðisliðurinn heldur verðbólgunni uppi

Verðbólga í þessum mánuði mældist minni en markaðsaðilar höfðu spáð, samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,2% í maí sem þýðir að ársverðbólga minnkaði á milli mánaða úr 1,9% í 1,7%. Greiningaraðilar höfðu hins vegar flestir spáð 0,3% til 0,4% hækkun neysluvísitölu. Sem áður er það húsnæðisliður vísitölunnar sem heldur uppi verðbólgunni en ef litið er fram hjá honum mældist 2,6% verðhjöðnun síðasta árið.
Greiningardeild Arion banka bendir á að innlendar vörur og þjónusta hafi hækkað sáralítið undanfarna 12 mánuði, og þá helst opinber þjónusta. Þrátt fyrir að launakostnaður hafi hækkað nokkuð í maí sökum kjarasamningsbundinna hækkana, telur Arion banki að innlendur verðbólguþrýstingur verði áfram óverulegur næstu mánuði sökum aukinnar samkeppni og áframhaldandi gengisstyrkingar.

Nýjustu fréttir