Mánudagur 20. janúar 2025
Síða 2192

Karlakórinn syngur í Guðríðarkirkju

Karlakórinn Ernir syngur á fjórðu og síðustu vortónleikum sínum í Guðríðarkirkju í Reykjavík í kvöld. Áður hafði kórinn haldið vortónleika á Ísafirði, í Bolungarvík og á Þingeyri. Kórinn heldur á næstu dögum til Vesturheims þar sem hann heldur tónleika á Íslendingaslóðum í Gimli og í Winnipeg. Stjórnandi kórsins er Beáta Joó og undirleikari á tónleikunum í kvöld er Pétur Ernir Svavarsson. Þeir Aron Ottó Jóhannsson og Guðni Albert Einarsson syngja einsöng. Tveir dúettar koma fram á tónleikunum, annars vegar þeir Ólafur Halldórsson og Páll Gunnar Loftsson og hins vegar Pétur Ernir Svavarsson og Magni Hreinn Jónsson.

Tónleikarnir hefjast kl. 20.

70% báta fóru yfir hámarkið

Um 70 prósent strandveiðibáta á svæði A veiddu meira en 650 kg hámarkið í slægðum afla sem má landa í hverri veiðiferð. Alls stunduðu 193 bátar strandveiðar á svæði A í mánuðinum og 133 þeirra fóru yfir hámarkið. Svæði A er svæðið frá Arnarstapa vestur til Súðavíkur.

Uppsafnaður umframafli mánaðarins var vissulega mjög misjafn eftir bátum eða frá einu kílói upp í tæplega fimm hundruð kíló. Sá bátur sem veiddi mestan umframafla var Hrólfur SH 79 með 484 kg. Næstur kom Heppinn ÍS 74 með 353 kg. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu.

Fiskistofa minnir á að andvirði alls umframafla á strandveiðum verður innheimt af útgerðunum og rennur til ríkisins í Verkefnasjóð sjávarútvegs. Umframaflinn dregst eftir sem áður frá leyfilegum heildarafla á strandveiðunum svo að minna verður til skiptanna. Það er því hagur allra strandveiðimanna að veiða ekki umfram heimildir. Alls nam umframafli strandveiðibáta á svæði A í maí rúmum 12,2 tonnum.

Í töflunni hér að neðan má sjá þá tíu báta sem fóru mest framúr á svæði A í maímánuði.

Þrír handteknir í fíkniefnamáli

Á þriðjudag framkvæmdi lögreglan á Vestfjörðum húsleit í tveimur íbúðum á Ísafirði og handtók tvo karlmenn og eina konu í tengslum við rannsókn á fíkniefnamáli. Fólkið, sem allt hefur áður komið við sögu lögreglunnar vegna fíkniefnamála, var í haldi lögreglu fram á nótt.

Við húsleit fundust hjá þessum einstaklingum, ætluð fíkniefni og áhöld sem talin eru tengjast fíkniefnameðhöndlun. Talið er að um sé að ræða um 70 grömm af marijúana og um 80 grömm af hvítum efnum, sem lögreglan telur að vera kókaín og amfetamín.

Auk þessa var einn þremenninganna kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Leigugreiðslur bókfærðar sem skuld Norðurtangans

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar

Ísafjarðarbær hefur greitt Norðurtanganum ehf. 2,6 milljónir kr. í leigu fyrir geymsluhúsnæði fyrir Byggðasafn Vestfjarða. Þetta kemur fram í svari Gísla Halldór Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, við fyrirspurn Daníels Jakobssonar, oddvita Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn. Fyrr í vetur sagði Gísli Halldór í grein á BB að bærinn hafi ekki greitt leigu og muni ekki greiða leiga, fyrr en verki húseigandans væri lokið samkvæmt skilalýsingu sem fylgdi leigusamningi.

Gísli Halldór segir í samtali við BB hann hafi beitt ónákvæmu orðalagi. „Þegar Byggðasafnið fer inn í Norðurtangann síðasta sumar byrjaði bærinn að greiða leigu. Þegar í ljós kom að húsnæðið var ekki tilbúið voru greiðslurnar stöðvaðar og við lítum þannig á að Norðurtanginn skuldi okkur þennan pening og upphæðin fari upp í framtíðarleigugreiðslur. Í bókhaldi bæjarins hefur þetta ekki verið bókað sem greidd leiga, heldur skuld Norðutangans við bæinn þar sem húsnæðið var ekki tilbúið. Það getur verið að einhverum finnist ég vera að snúa út úr, en þetta er skýrt í mínum huga þó ég hefði getað orðað þetta betur,“ segir Gísli Halldór.

Byggðasafnið ákvað að rifta leigusamningnum og ætlar ekki inn í Norðurtangann, en Héraðsskjalasafnið og aðrar stofnanir bæjarins ætla með sínar geymslur í húsið. Gísli Halldór segir að bærinn hafi endursamið við eiganda hússins um tæplega helming af því sem áður var rætt um. „Norðurtanginn kom til móts við bæinn og við erum að ljúka samningum og þessar greiðslur sem voru greiddar á síðasta ári fara væntanlega upp í leigu á þessu ári,“ segir Gísli Halldór.

Útibúið lagt niður með táknrænum hætti

Glöggir lesendur sjá að Sparisjóðnum sáluga er enn flíkað á Ráðhúsveggnum.

Sýslumaðurinn á Vestfjörðum ætlar sem kunnugt er að loka skrifstofu embættisins í Bolungarvík. Tveir starfsmenn hafa unnið á skrifstofunni og hafa þeir báðir sagt upp störfum. Bæjarráð Bolungarvíkur hefur mótmælt ákvörðuninni harðlega og sömuleiðis Jón Páll Hreinsson, bæjastjóri Bolungarvíkur. Í dag var útibú sýslumannsins lagt niður með táknrænum hætti þegar bæjarstjórinn fór upp í stiga og pakkaði skilti embættisins á húsvegg Ráðhússins í svartan ruslapoka. Aðstoðarmenn Jóns Páls voru starfsmennirnir tveir sem láta af störfum í dag.

Sýslumaðurinn kominn í svartan ruslapoka.

Verkfallið skýrir minna aflaverðmæti

Afla­verð­mæti íslenskra skipa í febr­úar var 5,8 millj­arðar króna sem er 53,6% minna en í febr­úar 2016. Þetta kemur fram í tölum sem Hag­stofa Íslands birti í gær. Mik­ill sam­dráttur í afla­verð­mæti skýrist af verk­falli sjó­manna í vetur. Verkfallið hófst í desember og eftir harðvítugar deilur var því aflýst þann 19. febrúar.

Á eins árs tíma­bili frá mars 2016 til febr­úar 2017 nam afla­verð­mæti íslenskra skipa rúmum 118 millj­örðum sem er 19,4% minna en á sama tíma­bili ári fyrr, að því er segir í umfjöllun Hag­stofu Íslands.

Mun­ur­inn á verð­mæti á árs­grund­velli, frá mars til febr­ú­ar, er 28 millj­arðar króna.

Stærsti fóðurprammi landsins

Arnarborg er mikil smíði.

Arnarlax hf. á Bíldudal hefur tekið í notkun nýjan fóðurpramma sem getur blásið 720 kílóum af fóðri á mínútu, eða 43 tonnum á klukkustund. Fóðurpramminn er sá stærsti sem er í notkun á landinu. Hann var smíðaður í Eistlandi og kostar 300 milljónir kr.

Pramminn tekur 650 tonn af fóðri, eða álíka og fullfermi hjá meðal frystitogara. Pramminn hefur fengið nafnið Arnarborg en hann verður til sýnis í Tálknafjarðarhöfn á morgun fimmtudag, frá kl. 16-18 og eru allir velkomnir

Prammanum er stjórnað úr landi af sérhæfðu starfsfólki Arnarlax í stjórnstöð á Bíldudal, en starfsfólkið fylgist einnig með ástandi fisks og búnaðar í gegnum fullkomið myndavélakerfi.

Farið er með fóðurprammann að sjókvíunum og hann rækilega festur með ankerum. Slöngur eru lagðar í kvíarnar og fóðrinu blásið úr prammanum.

Í prammanum eru öflugar ljósavélar, góð aðstaða fyrir mannskap og annar tæknibúnaður sem þarf til að sinna nútíma fiskeldi. Farið er út í prammann nánast á hverjum degi til að fylla á fóðurgeymslur, kanna ástand hans og sinna viðhaldi.

„Það er ekki hægt að láta endalaust ljúga að okkur“

Jón Páll Heinsson er áfram bæjarstjóri í Bolungarvík en bæði meiri- og minnihluti höfðu lýst yfir áhuga á áframhaldandi samstarfi við hann.

„Ég man ekki eftir því að embættismaður á Vestfjörðum hafi sent sérstakt bréf til síns ráðuneytis til að fá leyfi til að hætta að þjónusta íbúa,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, um þá ákvörðun Jónasar Guðmundssonar sýslumanns að loka útibúi embættisins í Bolungarvík. Jónas hefur skrifað bréf til innanríkisráðherra þar sem óskað er eftir reglugerðarbreytingu á þá leið að embættinu beri ekki að halda úti starfsemi í Bolungarvík, líkt og núverandi reglugerð kveður á um.

Aðhaldskröfur og niðurskurður eru ástæður lokunarinnar eftir því sem kemur fram í fréttatilkynningu Sýslumannsins á Vestfjörðum. Jón Páll gefur ekki mikið fyrir þær útskýringar og þykir viðbrögð sýslumanns bera vott um uppgjöf. „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem opinber stofnun fer fram úr fjárheimildum. Hvernig væri umhorfs hjá okkur ef viðbrögð stjórnenda stofnananna væru alltaf að loka og hætta að þjónusta íbúana þegar gefur á bátinn.“ spyr Jón Páll.

Hann gagnrýnir ráðuneytið einnig fyrir vanefndir á orðum þáverandi innanríkisráðherra þegar tilkynnt var um stofnun nýrra sýslumannsembætt í júlí 2014. „Þá var mjög skýrt hver markmiðin voru og talað var um að efla embættin og þau yrðu betur í stakk búin til að taka við fleiri verkefnum frá ráðuneytinu og undirstofnunum. Niðurstaðan eftir þrjú ár er að sýslumannsembættið á Vestfjörðum hefur skroppið saman og þjónustan minnkað,“ segir Jón Páll.

Hann segir þetta einstaka mál vera prinsippmál fyrir alla Vestfirðinga. „Við höfum öll heyrt þennan söng áður. Okkur er sagt að það eigi að sameina stofnanir en því fylgir venjulega að ekki standi til að skera niður, minnka þjónustu eða fækka fólki heldur eiga sameiningar að vera tækifæri til að efla stofnanir og sækja fram en því miður er raunin yfirleitt á hinn veginn. Störfum fækkar og þjónustan við íbúana versnar. Það er ekki hægt að láta endalaust ljúga að okkur,“ segir Jón Páll.

Á sýsluskrifstofunni í Bolungarvík voru tveir starfsmenn og eru þeir báðir að hætta störfum í dag. Auglýst hefur verið í eina stöðu í þeirra stað á Ísafirði.

Vettvangsnám í 10 ár

Frá lokahófi sumarnemanna og íslensku fjölskyldanna þeirra árið 2015. Mynd. uw.is

10 ár eru á þessu ári frá því er samstarf hófst á milli Háskólaseturs Vestfjarða og School for International Training eða SIT líkt og hann er betur þekktur sem í daglegu tali. Allar götur síðan hafa árlega komið bandarískir nemendur að sumarlagi í  vettvangsskóla á Vestfjörðum, þar sem þau hafa lagt stund á nám í endurnýjanlegum orkugjöfum og umhverfisstjórnun í sjö vikur að sumarlagi. Á síðasta ári bættist svo við vettvangsnám að vetri þar sem nemendur komu á haustönn til að leggja stund á nám um loftslagsbreytingar á  Norðurslóðum og verður slíkt aftur á döfinni næsta haust og stendur það nám í 15 vikur.

Fjölmargar fjölskyldur á Ísafirði og næsta nágrenni hafa á þessum tíma tekið að sér skiptinema er þau hluta tímans í vettvangsnáminu búa á heimilum gestgjafafjölskylda. Þessi hluti námsins hefur vakið sérstaka ánægju meðal nemendanna sem mörgum hverjum finnst standa upp úr dvölinni á Íslandi. Fjölskyldurnar eru duglegar við að sýna þessum nýjustu fjölskyldumeðlimum það besta sem svæðið býður upp á og oft myndast tengsl sem vara mikið lengur en þær fáu vikur sem nemarnir dvelja á Vestfjörðum og eru dæmi um heimsóknir á báða bóga eftir fyrstu viðkynni. Einhverjir eru í hlutverki gestgjafafjölskylda ár eftir ár, meðan að öðrum hentar það kannski eitt árið en ekki það næsta, vilji fólk slást í hóp gestgjafa er hægt að setja sig í samband við Pernillu Rein hjá Háskólasetri Vestfjarða.

Meira um vettvangsnámið má lesa hér.

annska@bb.is

Gránar í fjöll

Maímánuður hefur verið með mildasta móti á Vestfjörðum. Hlýtt hefur verið í veðri og tíðin almennt fremur góð. Síðustu dagar hafa þó verið helst til blautir. Nú á síðasta degi mánaðarins þegar sumarið sjálft er rétt formlega að hefjast með 1.júní innan nokkurra klukkustunda ber svo við að gránað hefur í fjöll í Skutulsfirði. Veðurspá dagsins frá Veðurstofu Íslands kveður á um norðaustan 10-15 m/s og rigningu, einkum á svæðinu norðanverðu, en dregur úr úrkomu þegar líður á daginn. Á morgun ríkir norðaustanáttin áfram og heldur hvassari eða 13-18 m/s  með rigningu. Hiti verður á bilinu 3 til 10 stig og verður hitastig fremur lágt næstu daga, þó dragi úr úrkomu um helgina.

annska@bb.is

Nýjustu fréttir