Mánudagur 20. janúar 2025
Síða 2191

Bjart framundan í efnahagslífinu

Ferðaþjónustan dregur vagninn í auknum útflutningstekjum.

Samkvæmt hagspá hagfræðideildar Landsbankans er bjart framundan í íslensku efnahagslífi og líklegt að áframhald verði á þeim lífskjarabata sem verið hefur síðustu ár. Hagfræðideildin spáir 6,7% hagvexti á þessu ári sem kemur þá í kjölfar 7,2% hagvaxtar á síðasta ári. Á næstu tveimur árum er hins vegar gert ráð fyrir að nokkuð dragi úr vextinum en að hann verði góður í samanburði við helstu viðskiptalönd. Þrátt fyrir töluverða spennu í hagkerfinu og mikinn vöxt eru horfur um verðbólguþróun næstu árin góðar.

Í spánni er gert ráð fyrir að megindrifkraftar hagvaxtar á næstu árum verði útflutningur, einkaneysla og fjármunamyndun en að hið fyrstnefnda verði þó veigamest a.m.k. á þessu ári. Gert er ráð fyrir að vöxtur útflutnings verði 10% á þessu ári, borinn af vexti ferðaþjónustu. Áhrif vaxtar í ferðaþjónustu á þessu ári á hagvöxt verða því töluvert mikil. Vöxtur einkaneyslu verður 6,7% á þessu ári og jákvæður bæði árin 2018 og 2019 en vöxturinn á spátímabilinu er studdur af forsendunni um áframhaldandi vöxt kaupmáttar. Gert er ráð fyrir að verðbólgan fari lítillega yfir verðbólgumarkmið á fjórða ársfjórðungi þessa árs og fyrsta ársfjórðungi næsta árs en að öðru leyti verði hún undir verðbólgumarkmiðinu á spátímabilinu. Ein af lykilforsendum hagstæðrar verðbólguspár er forsendan um frekari styrkingu krónunnar á næstu árum en sú forsenda styðst við væntingar um áframhald á verulegum afgangi á vöru- og þjónustuviðskiptum.

Pakkað í vörn

Eins og dyggir lesendur Bæjarins besta hafa tekið eftir þá hefur blaðið verið frekar metnaðarlaust frá áramótum en í þessu eins og flestu öðru þarf að sníða sér stakk eftir vexti. Blaðið í gær var síðasta blað fyrir sumarfrí en það mun að öllum líkindum koma í breyttri mynd þegar líða tekur að hausti. Útburðarkostnaður hækkar um þriðjung frá 1. júní fyrir blað í þessu broti  og við því verður væntanlega brugðist með breyttu broti. Vefurinn heldur sínu striki enda afar vinsæll og samfélaginu mikil nauðsyn.

Jón Hallfreð Engilbertsson og Anna Sigríður Ólafsdóttir létu af störfum um mánamótin og þá mun nú ýmsum bregða við. Halli hefur um árabil brotið um blaðið, prentað grafljóð, hannað auglýsingar, pantað reikninga, umslög og afgreiðsluseðla, skorið pappír o.fl. o.fl fyrir viðskiptavini okkar.

Annska hætti einnig um mánamótin eins og áður segir, en menning og listir hafa verið hennar ær og kýr. Bæði eru þau miklir gleðigjafar og eru kvödd með söknuði og þakklæti.

Útgáfa Bæjarins besta og bb.is er til sölu og því verða ekki teknar neinar stórar ákvarðanir um reksturinn, en prentþjónustan sem Halli hefur sinnt er ekki lengur í boði.

Við höfum því pakkað í vörn, í bili, en sóknin er undirbúin og við munum vinna leikinn.

Bryndís Sigurðardóttir, ritstjóri

Rífleg verðhækkun hjá Orkubúinu

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur staðfest breytingar á gjaldskrá Orkubús Vestfjarða fyrir hitaveitur, bæði rafkyntar hitaveitur og jarðvarmaveitur.  Hækkanirnar taka gildi frá og með deginum í dag. Hækkunin nemur 7% á alla taxta hitaveitunnar að undanskildum taxta fyrir rúmmetragjald hitaveitu á Reykhólum sem hækkar um 2,5%.

Á vef Orkubúsins kemur fram að verðskrá hitaveitunnar hefur verið óbreytt frá 1. september 2015 og það tekið fram að hækkunin hafi ekki áhrif á viðskiptavini sem eru með beina rafhitun. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 3% frá því í september 2015 og hækkun Orkubúsins, að undanskilinni 2,5% hækkun á Reykhólum, því ríflega tvöfalt hærri en almenn verðlagsþróun í landinu,

Í janúar 2017 hækkaði Orkubúið gjaldskrá fyrir dreifingu og sölu á raforku og var hækkunin 7% fyrir dreifingu og 4% fyrir sölu. Áhrif þeirrar hækkunar á heildarorkukostnað heimila var minnst hjá heimilum í þéttbýli sem nota fjarvarma til upphitunar, eða 2,1%. Hækkun hjá þeim sem nota rafmagn til upphitunar var 4,5% í þéttbýli en 5% í dreifbýli.

 

Gera úttekt á stöðu sjávarútvegsins

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra og Páll Magnússon, formaður atvinnuveganefndar Alþingis hafa ákveðið að nauðsynlegt sé að fram fari úttekt á rekstrarstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi. Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að einkum verði horft til þess hvaða áhrif styrking krónunnar hafi haft á stöðu fyrirtækjanna en einnig verði litið til afleiðinga sjómannaverkfallsins fyrir einstakar greinar.

Sérstaklega verði horft til þeirra litlu og meðalstóru fyrirtækja sem til viðbótar við fyrrgreindan vanda standa nú frammi fyrir því að ekki verður framlengdur sá skuldatengdi afsláttur á veiðigjöldum sem þau hafa notið síðustu fimm ár. Á grundvelli niðurstaðna úttektarinnar verður tekin ákvörðun um hvort staðan kalli á sérstakar ráðstafanir, og þá hverjar.

Úttektin verður framkvæmd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og stefnt er að því að henni verði lokið um miðjan september.

Matthías skoraði þrennu

Matthías hefur verið óstöðvandi fyrir framan markið.

Ísfirski knattspyrnumaðurinn Matthías Vilhjálmsson gerði sig lítið fyrir og skoraði þrjú mörk í sigri Rosenborgar á Levanger í norsku bikarkeppninni. Rosenborg komst áfram í bikarnum með 4-2 útisigri en Levanger leikur 1. deildinni í Noregi.

Samkeppnin er mikil í liði Rosenborgar og ekki minnkaði hún þegar danski landsliðsmaðurinn Nicklas Bendtner gekk í raðir meistaranna. Matthías lætur sér fátt um finnast og er búinn að skora sex mörk í síðustu fjórum leikjum í deild og bikar.

Hér má sjá mörk Matthíasar í leiknum.

Vatnslaust á Ísafirði í kvöld

Skrúfað verður fyrir kalt vatn á Ísafirði kl. 22 í kvöld vegna endurnýjunar lagna í Urðarvegsbrekku. Vatnsleysið mun standa í allt kvöld og jafnvel fram á nótt og eru íbúar beðnir um að gera viðeigandi ráðstafanir. Vatnslaust verður á öllum Ísafirði nema hluta efri bæjar, en erfitt er að tilgreina nákvæmlega hvaða hluta.

Einnig má búast við minni vatnsþrýstingi á Eyrinni á Ísafirði meðan framkvæmdir í Urðarvegsbrekku standa yfir.

Lokunin hefur ekki áhrif í Hnífsdal.

Ísafjarðarbær biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem vatnsleysið óhjákvæmilega veldur.

 

„Framúrskarandi árangur“

Súðavíkurhreppur verður neyddur til sameiningar verði tillögurnar að veruleika. Mynd: Mats Wibe Lund.

Ársreikningur Súðavíkurhrepps og stofnana var lagður fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn í gær. Afgangur af rekstri Súðavíkurhrepps var 23 milljónir kr. sem er umtalsvert meira en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, eða heilum 7 milljónum kr. Veltufé frá rekstri segir til um getu sveitarfélagsins til fjárfestinga og á þeim vígstöðvum er staða hreppsins mun betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Veltufé frá rekstri var 50 milljónir kr. árið 2016 en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir 27 milljóna kr.

Handbært fé sveitarfélagsins við lok ársins var 104 milljónir kr. en áætlun gerði ráð fyrir 77 milljónum kr.

Í bókun sveitarstjórnar segir að rekstarárangurinn á síðasta ári hafi verið framúrskarandi og að reksturinn hafi tekið miklum framförum á kjörtimabilinu. Það sjáist meðal annars á þróun á handbæru fé og veltufé frá rekstri. Árið 2013 var handbært fé Súðavíkurhrepps 24 milljónir kr. en var 104 milljónir kr. á síðasta ári. Veltfé frá rekstri hefur sömuleiðis aukist, en það var 15 milljónir kr. árið 2013  samanborið við 41 milljón kr. á síðasta ári.

„Sjálfstæði sveitarsfélaga er öðru fremur bundið í fjárhagslega sjálfbærni. Með öguðum rekstri og betri afkomu síðastliðinna ára hefur sveitarstjórn treyst sveitarfélagið betur í sessi, og eflt það til að takast á við verkefni framtíðarinnar,“ segir í bókun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps.

Gistinóttum á hótelum fjölgar um 41%

Gistinætur á hótelum í apríl voru 292.100 sem er 25% aukning miðað við apríl 2016. Gistinætur erlendra gesta voru 84% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 26% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 21%. Flestar gistinætur á hótelum í apríl voru á höfuðborgarsvæðinu eða 181.900 sem er 16% aukning miðað við apríl 2016 og voru það 62% allra gistinátta. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar um gistinætur fyrir aprílmánuð, sem ná yfir hótel sem opin eru allt árið. Í þeim tölum eru gististaðir á Vesturlandi og Vestfjörðum taldir saman og voru gistinæturnar 11.231 sem er 41% aukning frá því í apríl á síðasta ári er þær voru 7.993.

Á tólf mánaða tímabili frá maí 2016 til apríl 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum 4.122.000 sem er 32% aukning miðað við sama tímabil árið áður. Heldur meiri er fjölgunin á Vesturlandi og Vestfjörðum, eða 41%, en síðasta árið voru þær 182.903. Langflestar gistinæturnar eru skráðar vegna heimsókna erlendra gesta og voru Bandaríkjamenn fjölmennasti hópurinn á landsvísu og þar á eftir Bretar.

Níu af tíu með hjálm

VÍS hefur síðustu sex ár gert könnun á hjálmanotkun hjólreiðamanna, á sama tíma og Hjólað í vinnuna átakið hefur staðið yfir. Töluverð breyting hefur orðið á hjálmanotkun hjólreiðafólks á þessum sex árum. Í ár var hjálmanotkun könnuð hjá 1.304 hjólreiðarmönnum og voru 89% þeirra með hjálm. Það hlutfall var einungis 74% fyrir sex árum.

Öll árin hafa kannanirnar verið gerðar á fjórum mismunandi stöðum; Í Vesturbænum, á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, í Fossvoginum og við Geldingarnes. Sama fylgni hefur verið öll árin, en eftir því sem nær dregur miðbænum er hjálmanotkunin minni. Í ár var hún mest við Geldinganesið eða 94%, en minnst í Vesturbænum eða 77%. Hjálmanotkun er einnig betri á öllum stöðum á morgnana, að meðaltali 92%, á móti 84% seinni partinn.

Flest árin hefur sýnileikafatnaður jafnframt verið skoðaður. Í ár voru 32% hjólreiðamanna í slíkum fatnaði og hefur það hlutfall verið svipað öll árin.

Mikilvægt að hafa hjálma rétt stillta 

Ekki er nægjanlegt að hafa bara einhvern hjálm, stilltan eftir hentugleika, á höfðinu. Hjálmurinn þarf að vera ætlaður fyrir hjólreiðar, vera innan þess líftíma sem framleiðandi gefur upp og rétt stilltur. Rétt stilltur hjálmur situr beint ofan á höfðinu, eyrun í miðju V forminu og einungis einn til tveir fingur komast undir hökubandið.

Erlendar rannsóknir sýna að hjálmurinn ver höfuð einstaklinga í allt að 75% tilfella  fyrir alvarlegum höfuðáverkum. Það er því til mikils að vinna að nota þetta sjálfsagða öryggistæki.

Arkiteó hannar stækkun leikskólans

Jón Páll (t.v.) og Einar Ólafsson arkitekt handsala samninginn. Einar sér um fullnaðarhönnun byggingarnnar ásamt því að vera samræmingarhönnuður og hönnunarstjóri verksins.

Bolungarvíkurkaupstaður hefur samið við Arkiteó ehf. um hönnun á breytingum á leikskólanum Glaðheimum. Breyta á núverandi húsnæði auk þess að byggja 290 m² nýbyggingu. Þegar framkvæmdum lýkur er gert ráð fyrir að hinn nýji leikskóli geti tekið 70 börn í vistun og mun leikskóladeildinni í Lambhaga verða lokað á sama tíma. Við undirskrift samnings við Arkiteó sagði Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri að nýr og endurbættur leikskóli Glaðaheima verði bylting í leikskólamálum Bolvíkinga og muni bæta aðbúnað fyrir börn og starfsfólk. „Fyrir er í Bolungarvík afar gott starf innan leikskólans og með þessari framkvæmd skapast tækifæri til að sækja fram í þjónustu við barnafjölskyldur,“ sagði Jón Páll.

Aðaluppdráttum á að skila í ágúst 2017 og fullkláruðum gögnum í nóvember 2017.

Arkiteó var stofnað árið 2004 til að koma á fót hönnunarhverfri teiknistofu. Arkiteó hefur unnið til margra verðlauna á sínu sviði og leitast við að færa alþjóðlegar hugmyndir og sjónarmið í hönnun til Íslands með samvinnu við fagmenn og listamenn um allan heim. Á sama tíma hefur stofan ávallt sótt innblástur í íslenskan menningararf.

 

 

Nýjustu fréttir