Mánudagur 20. janúar 2025
Síða 2190

Afar góð þátttaka

Hópurinn sem stóð fyrir heilsufarsmælingum á Vestfjörðum.

Aðalverkefni SÍBS – Líf og heilsu vorið 2017 voru heilsufarsmælingar á Vestfjörðum og komu mælingarnar í kjölfar samskonar mælinga á Vesturlandi. Markhópur SÍBS – Lífs og heilsu er almenningur, einkum þeir sem ekki eru þegar undir eftirliti læknis vegna lífsstílstengdra sjúkdóma. Mældur var blóðþrýstingur, púls, súrefnismettun, blóðfita og blóðsykur og spurt var um búsetu, aldur, lyfjanotkun, hæð, þyngd, sjúkdóma og ættarsögu. Þetta kemur fram í framkvæmdaskýrslu verkefnisins.

Af þeim 574 einstaklingum sem ekki voru að taka lyf við háum blóðþrýstingi mældust 84 með efri mörk blóðþrýstings 160 mmHg eða hærra. Af þessum 84 voru 51 einstaklingur 65 ára eða yngri en 50 ára. Til að setja þetta í samhengi, þá má spara samfélaginu um 75 milljónir króna ef hægt er að fresta dauða eða óvinnufærni um 10 ára hjá einum einstaklingi, mælt í vergri landsframleiðslu á mann.

Stefanía Kristinsdóttir, kynningar og fræðslustjóri SÍBS segir að þrátt fyrir að fresta hafi þurft mælingum vegna veðurs hafi það ekki komið niður á þátttöku sem hafi víða verið afar góð, til dæmis voru 58% íbúa Drangsnes mældir í þessari umferð. Stefanía segir ennfremur að náðst hafi til fjölda einstaklinga sem voru ómeðvitaðir um háþrýsting eða of há gildi blóðfitu eða blóðsykurs, einstaklinga sem fengur í kjölfarið ráðgjöf frá hjúkrunarfræðingum heilsugæslunnar.

 

 

Stöðvi útgáfu laxeldisleyfa

Erfðanefnd­ land­búnaðar­ins hefur þung­ar áhyggj­ur af stöðu ís­lenskra laxa­stofna vegna mögu­legra áhrifa lax­eld­is í sjókví­um með stofni af er­lend­um upp­runa. Nefndin ráðleggur stjórnvöldum að stöðva útgáfu leyfa til laxeldis í sjókvíum a.m.k. þar til nánari  þekkingar hefur verið aflað á umhverfisáhrifum núverandi eldis í sjó að meðtöldu því sem þegar hefur verið leyft. Forgangsaðgerðir í þessu skyni eru vöktun á hlutdeild eldislaxa í laxám á og við fiskeldissvæði ásamt vöktun á erfðablöndun.

Með hliðsjón af al­mennri stöðu þekk­ing­ar um áhrif eld­islaxa á villta laxa­stofna og varúðarreglu sam­kvæmt 9. grein nátt­úru­vernd­ar­laga þá leggst nefnd­in gegn notk­un á frjó­um, norsk­um eld­islaxi í sjókvía­eldi við Íslands­strend­ur. Nefnd­in tel­ur að eldi á frjó­um laxi í sjókví­um geti valdið óaft­ur­kræf­um breyt­ing­um á erfðasam­setn­ingu ís­lenskra laxa­stofna með ófyr­ir­séðum af­leiðing­um.

Að mati nefnd­arinnar getur óbreytt stefna ekki samrýmst mark­miðum laga um fisk­eldi, laga um nátt­úru­vernd og samn­ings Sam­einuðu þjóðanna um líf­fræðilega fjöl­breytni sem legg­ur áherslu á að vernda líf­ríki á öll­um skipu­lags­stig­um þess, þar með talið þeirra erfðaauðlinda sem líf­ríkið býr yfir.
Erfðanefnd­ar land­búnaðar­ins hef­ur það að meg­in­hlut­verk að vinna að varðveislu og sjálf­bærri nýt­ingu erfðaauðlinda í land­búnaði.

Nauðsynlegt og eðlilegt að sveitarfélögin fái skipulagsvaldið

Ísafjarðarbær telur að skipulagsvald yfir strandsvæðum ætti að fela sveitarfélögum og skilja það þannig frá skipulagsvaldi yfir hafsvæðum sem ætti að vera á hendi ríkisvaldsins. Slíkt fyrirkomulag er í eðlilegu og nauðsynlegu samhengi við skipulagsvald sveitarfélaga og styrkir um leið staðbundna sjálfbæra samfélagsþróun, náttúruvernd, atvinnulíf, og atvinnuþróun. Þetta kemur fram í umsögn bæjarstjórnar um frumvarp umhverfisráðherra um skipulag á haf- og strandsvæðum.

Að mati bæjarstjórnar, fer forgörðum kjörið tækifæri til valdeflingar sveitafélaga og eflingu þátttökulýðræði verði frumvarpð að lögum í óbreyttri mynd.

Víða um heim eru strandsvæðin innan einnar sjómílu utan við grunnlínu á skipulagsvaldi sveitarfélaga – þannig er það í Noregi. Í Svíþjóð og Finnlandi eru skipulagsmörk sveitarfélaga 12 sjómílur utan grunnlínu. Að auki miðast vatnatilskipun Evrópusambandsins við eina sjómílu utan við grunnlínu.  Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar sér tæpast ástöðu til þess fyrir Íslendinga að halda í flókna og svifaseina miðstýringu að svo miklu leyti sem hægt er að greiða úr málum með skipulagsvaldi sveitarfélaga og því íbúalýðræði sem því fylgir. Að mati bæjastjórnar má gera ráð fyrir að skipulagsmál yrðu skilvirkari, heildstæðari og einfaldari ef skipulagsvald á strandssvæðum yrði fært til sveitarfélaga.

Lágmarksbreytingar til þess að frumvarpið geti orðið að lögum í sátt telur bæjarstjórn að séu eftirfarandi:

  • Að kveðið yrði á um að stefnt skuli að tilraunum með að færa vald yfir strandsvæðaskipulagi til sveitarfélaga, jafnvel þó að á öðrum stöðum verði svæðisráð rekin samhliða. Sveitarfélög á Austfjörðum og Vestfjörðum liggja sennilega best við þessari tilraun þar sem mikil umræða hefur farið fram á þeim svæðum um þessi mál og góð reynsla komin á skipulagsferli og áætlanir.
  • Að í svæðisráði sem kveðið er á um í frumvarpinu hafi aðliggjandi sveitarfélög aukið vægi í svæðisráðinu auk þess sem sveitarfélögin hafi neitunarvald líkt og fulltrúar þeirra fimm ráðuneyta sem koma að svæðisráðinu.
  • Í fumvarpinu kemur fram: „ Við vinnslu frumvarpsins kom skýrt fram að brýnt væri að vinna sem fyrst strandsvæðisskipulag fyrir Vestfirði sökum mikillar eftirspurnar þar.“ Mikil eftirspurn og áform eru um laxeldi á Austfjörðum og því mikilvægt að farið verið strax í samskonar vinnu á Austfjörðum og kveðið er á um í frumvarpinu að verði á Vestfjörðum.“

Minningarmót um Inga Magnfreðsson

Ingi (lengst til hægri) með félögum sínum í golfklúbbnum.

Golfklúbbur Ísafjarðar ætlar í samstarfi við Kristján Andra Guðjónsson og Hótel Ísafjörð að halda minningarmót um Inga Magnfreðsson sem féll frá í desember í fyrra. Ingi var einn af þeim sem barðist fyrir því að fá golfvöll í Tungudal og var óþreytandi við að vinna óeigingjarnt starf fyrir klúbbinn. Í tilkynningu frá Golfklúbbi Ísafjarðar segir að gaman væri að sem flestir kylfingar sjái sér fært að taka þátt í mótinu og heiðra minningu fallins félaga sem kvaddi allt of fljótt.

Mótið verður haldið mánudaginn 5. júní, annan í hvítasunnu, og hefst klukkan 09:00. Leikinn verður höggleikur með og án forgjafar og vegleg verðlaun í boði. Skráning á golf.is

Eftir mót verður verðlaunaafhending og síðan ætlar Hótel Ísafjörður að grilla ofan í mannskapinn.

Leikjasalur að pólskri fyrirmynd

Sólin opnar á morgun kl. 12.

Nýr leikjasalur fyrir börn opnar formlega Bolungarvík á morgun laugardag kl. 12. Leikjasalurinn kallast Sólin og er hannaður að pólskri fyrirmynd. Þar geta foreldrar komið saman með börn sín um helgar og einnig er hægt að leigja salinn undir afmæli. Leikjasalurinn er fyrir öll börn og eru foreldrar hvattir til mæta á opnunina og kynna sér þessa skemmtilegu nýjung. Sólin er til húsa við Aðalstræti 9 í Bolungarvík, beint á móti Ráðhúsi Bolungarvíkur. Nánari upplýsingar má nálgast á Facebook síðu Sólarinnar.

 

Þykir vænt um neikvæð viðbrögð

Árni Gunnarsson, forstjóri Air Iceland Connect, sem áður hét Flugfélag Íslands segist skilja óánægju fólks með nafnabreytinguna. „Ég skil það mjög vel og þykir að mörgu leyti vænt um slík viðbrögð því við erum þá fyrirtæki sem skiptir máli og fólki finnst skipta máli það sem við erum að gera,“ sagði Árni í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Hann sagði ástæðu fyrir nýju nafni vera markaðslega, áfangastaðir Air Iceland Connect væru ekki lengur aðeins innalands. Af ellefu flugleiðum séu fjórar innanlands og sjö á erlendum vettvangi.

„Við töldum að það væri erfitt að byggja upp tvö vörumerki samhliða heldur að vörumerkið sem við erum að nota verði að standa eitt og gilda á öllum vettvöngum, hvort sem er innanlands eða utan.“

Sýslumaður hætti við lokun í Bolungarvík

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga (FV) mótmælir harðlega ákvörðun Sýslumannsins á Vestfjörðum um lokun útibús embættisins í Bolungarvík og lýsir yfir miklum vonbrigðum með þróun opinberra starfa í Bolungarvík og víðar á Vestfjörðum.

Í ályktun stjórnar FV segir að þessi ákvörðun sé svik við starfsemi hinnar nýju þjónustumiðstöðvar í Bolungarvík. Góð sátt var um þjónustumiðstöðina sem sett var á laggirnar sumarið 2016, eftir að mikil áföll dundu á opinberri þjónustu í Bolungarvík með fyrirhugaðri lokun á póst- og bankaþjónustu ásamt því að sýslumannsembættið í Bolungarvík hafði verði lagt niður stuttu áður.

„Það er ótrúleg staðreynd að aðeins nokkrum mánuðum eftir að sýslumannsembættið á Vestfjörðum tók þátt í að opna þjónustumiðstöðina með pompi og prakt, skuli embættinu hafa snúist hugur og kjósa að leggja niður útibúið í núverandi mynd. Hafa ber í huga að farið var í stofnun á þjónustumiðstöðvar með tilheyrandi kostnaði með breytingum á húsnæði, en með stuðningi og velvilja stjórnvalda og í trausti þess að þátttakendur í verkefninu væru þar af fullum heilindum,“ segir í ályktuninni.

Stjórn FV hafnar algjörlega þeim rökum sýslumanns að þessi aðgerð sé nauðsynleg til að draga úr kostnaði. Stjórnin segir að húsnæði sýslumanns í Bolungarvík sé eitt hagkvæmasta skrifstofuhúsnæði á landinu og hentar vel til starfseminnar í Bolungarvík. „Það er óásættanlegt að íbúar Bolungarvíkur skulu einir bera kostnað af framúrkeyrslu embættisins og er í algjöru ósamræmi við fyrri yfirlýsingar embættisins og innanríkisráðherra þegar breytingar voru gerðar á sýslumannsembættunum á landinu gengu í gegn á sínum tíma.“

Stjórn FV krefst þess að Sýslumaðurinn á Vestfjörðum dragi til baka ákvörðun um að loka skrifstofunni í Bolungarvík. Jafnframt hvetur stjórn FV að stjórnvöld standi við þau loforð sem gefin voru við breytingu umdæmismarka sýslumannsembætta með lögum um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði.

Á það er minnt að ítrekað var í umræðu um málið á Alþingi og á fundum innanríkisráðuneytisins í héraði, að skoðaður yrði flutningur verkefna frá ráðuneytum til sýslumannsembætta og þar með aukið fjármagn til reksturs embættanna. Stjórn FV bendir á orð þáverandi innanríkisráðherra þegar Sýslumannsembættið á Vestfjörðum var stofnað um að „embættin verða í kjölfar breytinganna öflugri og betur í stakk búin til að taka við verkefnum og tækifæri skapast til að flytja verkefni úr miðlægri stjórnsýslu til þeirra“.

„Reynslan sýnir að hér var um innantóm loforð að ræða og stjórn FV lýsir hér áhyggjum af þróun mála til framtíðar m.a. starfsemi útibús sýslumanns Vestfjarða á Hólmavík. Jafnframt hvetur FV, sýslumann til að leita frekar leiða til að fjölga verkefnum í útibúinu í Bolungarvík og efla frekar starfsemi þess í samræmi við vilja ráðherra á sínum tíma og tryggja þjónustu við íbúa í byggðalaginu,“ segir í ályktun stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga.

 

 

Annað strandveiðitímabilið hafið

Annað strandveiðitímabil ársins hófst í gær. Vegna veðurs voru fáir bátar á sjó á Vestfjörðum og ekki er róið í dag, en strandveiðar eru óheimilar frá föstudegi til sunnudags. Í júní má veiða 1.023 tonn á svæði A. Í maí gátu bátar á svæði A, sem nær frá Arnarstapa til Súðavíkur, róið í 13 daga og veiðarnar voru stöðvaðar 23. maí. Þá var búið að veiða 907 tonn sem er 50 tonnum meira en mánaðarúthlutunin segir til um. Alls voru 193 bátar á veiðum á svæði A og meðalafli á bát 4,7 tonn.

Langflestir bátar eru gerðir út á svæði A, en alls eru 471 á veiðum á strandveiðisvæðunum fjórum.

Fasteignamat hækkar um 13,8%

Reykhólar. Mynd: Árni Geirsson.

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 13,8% frá yfirstandandi ári og verður 7.288 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2018 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag. Fasteignamatið hækkar á 98,3% eigna en lækkar á 1,7% eigna frá fyrra ári. Þetta kemur fram í nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands fyrir árið 2018.

8,6% hækkun á Vestfjörðum

Samanlagt mat íbúða (130.346) á öllu landinu hækkar samtals um 15,5% frá árinu 2017 og verður alls 4.980 milljarðar króna. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matsverð íbúða í sérbýli meira en íbúðir í fjölbýli.  Húsavík sker sig úr öðrum bæjum. Þar hækkar íbúðamatið um 42,2%.

Einnig hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis um 9,1% á landinu öllu; eða um 10,6% á höfuðborgarsvæðinu en um 5,7% á landsbyggðinni. Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 14,5%,  um 12,5% á Suðurnesjum, um 14% á Vesturlandi, 8,6% á Vestfjörðum, 12,2% á Norðurlandi vestra, 12,4% á Norðurlandi eystra, 6,4% á Austurlandi og um 12,9% á Suðurlandi. Fasteignamat hækkar mest í Kjósarhreppi eða um 41,3%, um 27,5% í Norðurþingi, um 25,9% í Reykhólahreppi og  25,2% í Skorradalshreppi.

Meðalhækkun á höfuðborgarsvæðinu er 16,5%

Meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er 16,5% og hækka flest svæði innan þess um 15-20%. Svipaða hækkun má sjá í nágrannasveitarfélögum, þannig hækkar matssvæðið Njarðvík um 18,6%, Keflavík um 18,3%, Grindavík um 19,1%, Akranes um 18,8%, Hveragerði um 17,9% og Selfoss um 17,5%.

Fasteignamatið byggist á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2017. Það tekur gildi 31. desember 2017 og gildir fyrir árið 2018. Frestur til að gera athugasemdir við nýtt fasteignamat er til 30. desember 2017.

Tveir leikir fyrir austan

Meistaraflokkur Vestra heldur austur á land um helgina og mætir Hugin á Fellavelli á Seyðisfirði á morgun. Huginn er í níunda sæti deildarinnar og eftir fjórar umferðir og hefur ekki náð að sigra leik til þessa. Vestri er aftur á móti í þriðja sæti deildarinnar, hefur sigrað þrjá leiki og tapað einum. Leikurinn á morgun hefst kl. 14.

Á þriðjudag kl. 18 leika Vestramenn á ný eystra og þá gegn Sindra á Höfn í Hornafirði. Sindramenn eru í tíunda sæti deildarinnar  og líkt og Huginn hefur liðið ekki sigrað leik.

Nýjustu fréttir