Mánudagur 20. janúar 2025
Síða 2189

Enginn virti stöðvunarskyldu !

Stöðvunarskylda á Bakkavegi. Mynd: Tindar

Björgunarsveitin Tindar í Hnífsdal tók sig til í lok maí og gerð litla umferðakönnun í Hnífsdal. Frá klukkan 7:00- 8:30 fylgdust þeir með gatnamótum Bakkavegs og Garðavegs en stöðvunarskylda er á Bakkavegi. Á þessum 30 mínútum óku 21 ökumaður yfir gatnamótin og enginn þeirra virti stöðvunarskyldu. Þetta kemur fram á facebooksíðu björgunarsveitarinnar.

Mynd: Tindar

Sekt fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu er sú sama og að fara yfir á rauðu ljósi 15.000 kr og 2 punktar í ökuferilskránna, Svo ekki sé minnst á hættuna fyrir gangandi vegfarendur og þó nokkuð er af börnum á leið í strætó á þessum tíma.

Mikið um að vera hjá eldri borgurum Ísafjarðar og nágrennis

Þann 15. júní ætla eldri borgarar í Félagi eldri borgara á Ísafirði og nágrenni að safnast saman í langferðabíl og heimsækja granna okkar á suðurfjörðum Vestfjarða. Komið verður við á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði en í Flókalundi verður snæddur kvöldverður. Það eru þær Árný (456-3769) og Valdís (456-3549) sem taka við skráningum en skráningarfrestur er til 11. júní.

Að sögn þeirra Árnýjar og Valdísar er starfið í félaginu, sem telur rúmlega 300 félagsmenn,  blómlegt og fjölbreytt. Boccia, bingó, félagsvist og sundleikfimi á veturna og púttað og ferðast á sumrin. Undanfarin tvö ár hafa sumarferðirnar verið á erlenda grund en nú hefur verið tekin ákvörðun um að fara annað hvert ár innanlands.

Félagið hefur aðsetur í Naust og nýir félagar eru ætíð velkomnir segja þær stöllur og best að hringja í síma félagsins 891 6161 til að skrá sig í félagið.

Í september stendur svo til að fara suður og sjá Ellý í Borgarleikhúsinu.

Innan félagsins er rekið Íþróttafélagið Kubbur og framundan hjá þeim er að fara á Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði síðustu helgina í júní, þar munu félagsmenn Kubbs keppa í Boccía, pútti og golfi. Það eru tæplega 30 félagsmenn sem munu bæði sjá og sigra í Hveragerði.

Þátttakendur í golfi á Landsmóti UMFÍ 50+ sem haldið var á Ísafirði í fyrra.

 

Lambi lógað eftir að það lenti í minkaboga

Lóga þurfti lambi sem lærbrotnaði eftir að hafa stigið í minkaboga við bæinn Svarthamar í Álftafirði. „Það getur enginn losað sig úr þessu. Þessir bogar valda mikilli hættu bæði fyrir skepnur og börn,“ segir Guðmundur Halldórsson, bóndi á Svarthamri í samtali við fréttavef RÚV. Guðmundur kveðst ekki vita hver setti minkabogann upp við bæinn en vonar að viðkomandi gefi sig fram. Hann segir minka ekki hafa verið til vandræða á svæðinu og óttast að það af öðrum ástæðum en þörf sem fólk eltist við þá.

Samkvæmt lögum er notkun á slíkum bogum leyfileg en óhætt er að segja að bogarnir eru umdeildir. Formaður Dýraverndunarsambands Íslands segir í frétt RÚV að fráleitt sé að taka eina dýrategund út fyrir sviga og leyfa á henni pyntingar.

„Það er eins og löggjafinn hafi tekið minkinn út fyrir sviga. Það má drekkja honum einum dýra. Samkvæmt lögum er það annars dýraníð að drekkja dýrum, en ekki þegar minkurinn á í hlut,“ segir hún og nefnir að eigandi hunds sem drekkti honum hafi hlotið dóm fyrir athæfið.

Dýraverndunarsambandið er afar ósátt við að minkabogarnir séu leyfilegir og kallar eftir mannúðlegri aðferðum við skipulagðar veiðar af þessu tagi.

Björgunarvesti fyrir veiðimenn

F.v. Rúnar Hólm, Guðrún Rósinbergsdóttir, Ólafur Kristjánsson og Helgi Hjartarson.

Það er ekki óalgeng sjón að sumarlagi að sjá börn og fullorðna kasta spúni af Hnífsdalsbryggju. Nú geta veiðimenn, bæði ungir og aldnir, gengið að því vísu að á bryggjunni eru til staðar björgunarvesti fyrir veiðimenn. Það er Slysavarnardeildin í Hnífsdal sem stendur fyrir þessu og eru vestin geymd í sérstöku kari. Hugmyndina að karinu og björgunarvestum á Hnífsdalsbryggju átti Páll heitinn Hólm, en hann var um árabil formaður Slysavarnardeildarinnar í Hnífsdal, og er karið sett upp í minningu hans. Það voru mæðginin Guðrún Rósinbergsdóttir, eiginkona Páls, og sonur þeirra, Rúnar Hólm, sem lögðu lokahönd á uppsetningu karsins.

Fyrirtækin Hraðfrystihúsið Gunnvör, Borgarplast og Kubbur styrktu verkið oLg vill Slysavarnardeildin koma á framfæri þakklæti til þeirra.

Andri Rúnar sjóðheitur

Andri Rúnar fagnar marki með stæl en hann jafnaði markamet í efstu deild í sumar. Mynd: Fótbolti.net.

Bolvíski knattspyrnumaðurinn Andri Rúnar Bjarnason er um þessar mundir heitasti framherjinn í úrvalsdeildinni. Andri Már leikur með Grindavík og er hann búinn að skora sex mörk í jafnmörgum leikjum. Hann byrjaði á að skora sigurmark gegn Víkingi og fylgdi því eftir með þrennu gegn ÍA og svo sigurmarki gegn Val. Í gær skoraði hann enn eitt sigurmarkið og kom það í útileik gegn KR.

Í fjórum sigurleikjum Grindavíkur hefur þessi öflugi framherji verið í aðalhlutverki og skorað sex af tíu mörkum liðsins.

Andri Rúnar, sem er fæddur árið 1990, lék með BÍ/Bolungarvík frá 2009 til 2014 þegar hann gekk til liðs við Víking og í haust gekk hann í raðir Grindvíkinga.

Blindrahundur sigraði á Skjaldborg

Tinna Guðmundsdóttir framleiðandi Blindrahunds og Kristján Loðmfjörð leikstjóri taka við verðlaunum á Skjaldborgarhátíðinni.

Blindrahundur eftir Kristján Loðmfjörð hlaut bæði áhorfendaverðlaun og dómnefndarverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar á Patreksfirði sem lauk á sunnudag. Myndin fjallar um myndlistarmanninn Birgi Andrésson.

Birgir lést árið 2007 aðeins 52 ára. Með báða foreldra blinda ólst Birgir upp við afar sérstakar aðstæður á Blindraheimilinu við Hamrahlíð í Reykjavík. Tilveran í samfélagi blindra átti eftir að vera Birgi mikill efniviður í listsköpun síðar meir. Með listinni leitaðist Birgir við að varpa ljósi á hið „sérkennilega“ í íslenskri menningu og sögu. Heimildamyndin Blindrahundur leitast hins vegar við að varpa ljósi á sérkennilegt lífshlaup Birgis og hvernig maðurinn og verkin endurspeglast hvort í öðru.

Betri fjarskipti með nýjum endurvarpa

Um helgina var talstöðvarendurvarpi á Drangajökli endurnýjaður. Það voru félagar úr björgunarsveitunum á Ísafirði, Bolungarvík, Suðureyri og Hólmavík sem lögðu á jökulinn á vélsleðum og jeppum á sunnudag, en endurvarpinn er í umsjá sveitanna. Á vef Björgunarfélags Ísafjarðar segir að ferðin hafi gengið vel og veður ágætt þrátt fyrir dimma þoku á köflum. Endurvarpinn er við Hrolleifsborg.

Eldri endurvarpinn hafði verið óvirkur um nokkurt skeið og með nýjum endurvarpa hafa VHF fjarskipti bæst til muna.

Fiskverð veldur fækkun strandveiðibáta

Fyrsta tímabili strandveiða 2017 lauk um mánaðamótin og á vef Landssambands smábátaeigenda er að finna samantekt um hvernig gekk.

Alls voru 471 bátar á veiðum í maí samanborið 547 í fyrra. Það er svipaður fjöldi og í sama mánuði 2015, en langtum færri en á metárinu 2012 þegar 586 bátar voru á strandveiðum.

Fækkunin á sér nokkrar skýringar. Sú sem vegur langþyngst er það sem fæst fyrir þorskinn. Verð nú er það lægsta í krónum talið frá upphafi strandveiða. Það dregur úr arðsemi veiðanna og um leið úr áhuga og getu til að stunda þær.

Meðalverð á fiskmörkuðum fyrir hvert kíló af óslægðum þorski sem veiddur var handfæri í maí var 195 krónur en 248 krónur á sama tíma í fyrra.

Verðþróun á þorski í maí frá 2010 og segir það allt sem segja þarf um þá erfiðleika sem nú herja á undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar – sjávarútveginn. Mismunur á kílóverði við upphaf strandveiða 2010 til dagsins í dag er 116 krónur. Tölur frá LS.

Jafntefli fyrir austan

Frá leik Vestra fyrr í sumar.

Huginn og Vestri gerðu 1-1 jafntefli á Fellavelli á Seyðisfirði á laugardag. Giles Mbang Ondo kom Vestra yfir á 63. mínútu en Gonzalo Leon jafnaði fyrir Seyðfirðinga þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Ondo er óðum að komast í leikform, en þetta var fyrsti leikurinn hans í byrjunarliði Vestra og var honum skipt út af á 86. mínútu.

Eftir leiki helgarinnar er Vestri í þriðja sæti 2. deildar Íslandsmótsins með 10 stig. Vestri leikur við Sindra á Höfn í Hornafirði í dag og hefst leikurinn kl. 18.

Kuldalegt fram eftir viku

Hitastigið á hádegi á morgun.

Vinnuvikan byrjar heldur kuldalega á Vestfjörðum en kjálkinn sleppur þó ívið betur en Norður- og Norðausturland þar sem búast má við slyddu og snjókum til fjalla með tilheyrandi hálki á fjallvegum.

Búast má við áframhaldandi norðanátt og kulda fram eftir viku en á föstudag er útlit fyrir að kuldinn hörfi í bili. Sjómannadagshelgin lítur nokkuð vel út með hæglætisveðri og hækkandi hitastigi um allt land.

Nýjustu fréttir