Margar aðferðir eru þekktar til að minnka hættu á erfðablöndun eldisfisks við villta stofna og að mati Ólafs Sigurgeirssonar, lektors í fiskeldi við Háskólann á Hólum, væri fróðlegt að sjá útkomu áhættumats Hafrannsóknastofnunar ef þeim aðferðum væri bætt inn í reiknilíkanið. Grein eftir Ólaf birtist í Kjarnanum í gær. Það sem helst kemur til greina er útsetning seiða seint um sumar eða að hausti sem og útsetning á stórseiðum (stærri en 500 g).
Ólafur segir að haustseiði eða stærri seiði sem sleppa að hausti til, eftir að náttúruleg ljóslota tekur að styttast og göngur villtra seiða eru afstaðnar, eru talin vera mun minni ógn og afar ólíkleg til að blandast við villta laxastofna samnborið við vorseiði. Samanburður á lífslíkum haustseiða og vorseiða í hafi eru taldar vera 1:39, sumsé að fyrir hvert haustseiði sem lifir þrauka 39 vorseiði.
Á æviskeiði eldisfisks stafar mest hætta af fiski sem sleppur sem seiði og af kynþroska fiski. Ólafur segir að með ljósabúnaði á kvíum megi draga verulega úr kynþroska og bendir á fjölda norskra rannsókna. Hann telur einnig að Hafrannsóknastofnun ofmeti verulega fjölda kynþroska laxa úr síðbúnum strokum en í áhættumatinu segir stofnunin að 15% fiska úr síðubúnu stroki nái kynþroska og leiti upp í ár. „Ekki kemur fram hvernig sú tala er valin eða við hvaða gögn hún styðst. Virðist þar vera um verulegt ofmat að ræða enda væri kynþroski gríðarlegt vandamál í laxeldi ef rétt væri. Það er hinsvegar ekki raunin,“ segir í greininni.
Hann lýkur greininni á þessum orðum:
„Tillögur áhættumatsskýrslunnar eru að banna eldi á kvíum í Ísafjarðardjúpi, Stöðvarfirði og takmarka eldi í Berufirði. Fróðlegt væri að skoða hver útkoma áhættumatslíkansins er ef skilyrði eru sett um að leyfilegur útsetningartími gönguseiða og stórseiða á þessum svæðum sé takmarkaður við lok sumars og haust, í ljósi upplýsinga um að þau eigi sér lítillar lífs von í náttúrunni ef þau sleppa. Jafnframt væri kveðið á um að fullnægjandi lýsing væri í kvíunum til að hindra kynþroska.“
smari@bb.is
Auglýsing