Þriðjudagur 21. janúar 2025
Síða 2188

Ferðablaðið Vestfirðir komið á stjá

Vestfirðir, okkar eina sanna ferðablað flýgur nú um sveitir og er fagurt sem aldrei fyrr. Stútfullt blað af fallegum myndum og skemmtilegum og fjölbreyttum fróðleik. Ýtarlegt viðtal við húsráðendur í Breiðuvík, fróðleg grein um einleikjahátíðina Act alone, allt um hlaupahátíðina og um safnið á Nauteyri um Stein Steinar. Nokkrir vel valdir Vestfirðingar segja frá sínum uppáhaldsstöðum og spennandi ferðaþjónustufyrirtæki láta ljós sitt skína. Sauðfjársetrið og Skóbúðin, víkingar og kappar, blaðið er sneisafullt af lesefni.

Ritstjóri blaðsins að þessu sinni er Anna Sigríður Ólafsdóttir og í ritstjórnargrein sinni fjallar hún um mikilvægi fjölbreytts mannlífs, fegurð náttúrunnar og þá skoðun sína að aukning ferðamanna til landsins sé varanleg breyting en ekki bara einhver bóla. Njótið náttúrunnar og lesturins, njótið frelsisins til að ferðast og njótið vestfirska sumarsins.

Þetta er 23. árgangur Vestfjarða og blaðinu hefur nú verið dreift á allar helstu upplýsingamiðstöðvar Vesturlands og Vestfjarða. Hér má nálgast vefútgáfu blaðsins.

bryndis@bb.is

Vestfirðir 23. árg.

Baráttukonan Karitas

Karitas Skarphéðinsdóttir. Mynd: RUV.is

Í sarpi RÚV má nú nálgast þátt um vestfirsku baráttukonuna Karitas Skarphéðinsdóttur.

Þátturinn er hluti af þáttaröðinni „Útvarp sem skapandi miðill, þættir af mannabyggð og snortinni náttúru“. Í þessum þætti er fjallað um vestfirsku verkalýðsbaráttukonuna Karítas Skarphéðinsdóttur. Rætt er við Sigurð Pétursson sagnfræðing, Jón Ólaf Bjarnason, systurson Karítasar og Helgu Þórsdóttur, safnvörð og sérfræðing á Byggðasafni  Vestfjarða. Leiknar eru upptökur af viðtölum sem Hallfreður Örn Eiríksson þjóðháttafræðingur tók við Karítas á árunum 1966-1969. Spilað er brot úr „Internationale“, baráttusöng verkalýðsins og laginu „Í fögrum dal“, úr leikritinu Pilti og stúlku, í flutningi Gunnars Guðbjörnssonar og Jónasar Ingimundarsonar. Umsjónarmaður er Margrét Sveinbjörnsdóttir og lesari er Þórður Kristjánsson.

Sýning um Karítas hefur nú verið opnuð á Byggðasafni Vestfjarða í Neðstakaupstað á Ísafirði. Yfirskrift sýningarinnar er „Ég var aldrei barn“ og er hún hluti af nýrri grunnsýningu safnsins.

Karitas er mörgum hugleikin en í bókaspjalli Bókasafnsins á Ísafirði var í byrjun mars fjallað um Karitas. Í frétt um spjallið á bb.is segir:

„Karítas var fædd í Æðey en ólst upp á ýmsum bæjum við Ísafjarðardjúp. „Karítas er má segja táknmynd staðar og hugmyndafræðilegs samtíma, hún er líkami konu sem ekki var ætlað sjálfsyfirráð. Þannig var hún seld fyrir húsbyggingu aðeins 16 ára gömul, smábóndinn Skarphéðinn ekki svo aumur að hann gæti ekki selt stúlkuna. Karítas átti þó eftir að verða áberandi í samfélaginu, kona sem markaði spor í samtímann og þar af leiðandi hefur töluvert verið um hana skrifað sem og sagðar um hana sögur í margvíslegu samhengi.“

bryndis@bb.is

Neyðarkall frá Háskólasetri

SIT hópurinn síðasta sumar í heimsókn á Melrakkasetrinu

Enn er eftir að finna húsaskjól fyrir nokkra háskólanema sem koma í vettvangsnám til Ísafjarðar frá 18. júní – 5. júlí. Á heimasíðu háskólasetursins kemur fram að góð reynsla sé af móttöku slíkra nema á Ísafirði og nágrenni en frá árinu 2012 hefur Háskólasetrið haft milligöngu um heimagistingu fyrir hópa á vegum SIT skólans, School for International Training (SIT) í Vermont í Bandaríkjunum.

Nemendahópurinn mun sitja námskeið um endurnýjanlegra orku og umhverfishagfræði sem nefnist Iceland: Renewable Energy, Technology, and Resource Economics. Námskeiðið stendur yfir í samtals sjö vikur og hefur verið í boði frá því 2007. Síðastliðið haust hleypti SIT Study Abroad nýrri vettvangsbraut af stokkunum í samvinnu við Háskólasetrið. Viðfangsefnið er lofslagsmál á Norðurslóðum og nefnist námsbrautin Iceland and Greenland: Climate Change and the Arctic. Gisting hjá fjölskyldum er einnig í boði fyrir þessa nemendur.

Frá lokahófi sumarnemanna og íslensku fjölskyldanna þeirra árið 2015. Mynd. uw.is

Markmiðið með heimagistingu er að gefa ungmennunum tækifæri til taka þátt í lífi fjölskyldu og kynnast þannig íslenskri menningu og tungu. Nemendurnir hafa í gegnum tíðina gist hjá fjölskyldum ýmist á Ísafirði, í Hnífsdal eða í Bolungarvík.

Áhugasamir skuli setja sig í samband við Pernillu Rein í síma 820 7579 en nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Háskólasetursins

bryndis@bb.is

Pólitíkusar komnir á stjá

Guðjón Brjánsson.

Nú eru þingið komið í sumarfrí og þá má búast við að þingmenn láti á sér kræla innan um kjósendur. Guðjón Brjánsson þingmaður Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi er nú ásamt fríðu föruneyti á ferð um sína fornu heimaslóð en hann var um árabil forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, eða forvera hennar.

Með Guðjóni er í för formaður Samfylkingar Logi Einarsson og varaformaður Heiða Björg Hilmarsdóttir. Þau hafa í dag ferðast víða um og heimsótt fyrirtæki og stofnanir en kl. 17:00 í dag verður opinn fundur í Rögnvaldarsal þar sem þau vilja ræða framtíð Vestfjarða og gefst fundarmönnum færi á að ræða málin og spyrja gestina frétta af þingstörfum.

bryndis@bb.is

Sjómannadagur framundan

Mynd: Sæbjörg Flateyri

Sjómannadagurinn er næsta sunnudag og víða verður mikið um dýrðir. Á Patreksfirði er hefð fyrir miklum hátíðarhöldum og á því verður engin undantekning að þessu sinni. Á dagskránni má sjá Stebba og Eyfa, Hreim og Matta, Skímó og Sirkus Íslands og er þá fátt eitt talið en nánari dagskrá má nálgast á facebook síðu Sjómannadagsráðs.

Bolvíkingar eru líka vanir að gera sér glaðan dag og hefja dagskrána á Þuríðardeginum á morgun og enda á sunnudag með kaffisölu Kvennadeildar Landsbjargar í Félagsheimilinu.  Þar á milli má heyra í Hirti Trausta og Maríu Ólafs, skella sér í hátíðarsiglingu eða fylgjast með leikhópnum Lottu. Margt fleira er í boði en dagskrána má nálgast á heimasíðu Bolungarvíkurkaupstaðar.

Á Flateyri dorga bæði ungir og gamlir, skella sér í reiptog, koddaslag og flekahlaup en dagskráin hefst á föstudegi með Pub Quiz á Vagninum og endar á siglingu um fjörðinn kl. 13:00 á sunnudaginn. Þar á milli má til dæmis á laugardagskvöld skella sér á dansleik í Samkomuhúsinu þar sem F1 rauður ætla að trylla lýðinn á dansgólfinu og fá sér kaffi og með‘í yfir miðjan daginn hjá Kvenfélaginu Brynju. Allt um sjómannadaginn á Flateyri má sjá á facebooksíðu dagsins.

bryndis@bb.is

Framlög til Hendingar samþykkt í bæjarstjórn

Örlygshöfn.

Á fundi bæjarstjórna þann 1. júní var samþykktur viðauki við fjárhagsáætlun vegna samnings við Hestamannafélagið Hendingu um byggingu reiðskemmu. Um er að ræða 15.000.000 kr. innborgun hlutafjár en Ísafjarðarbær verður 49% eigandi skemmunnar, fyrirhugað er að greiða 15.000.000 til viðbótar á árinu 2018.

Til viðbótar var samþykkt 20.000.000 kr. framlag vegna bóta fyrir aðstöðumissi og 8.100.000 kr. vegna framkvæmda og er það styrkur til Hendingar. Á móti mun Ísafjarðarbær fá bætur frá Vegagerðinni kr. 20.000.000 kr.

Viðaukinn var samþykktur með 6 atkvæðum en bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

Á sama fundi var Sigurður Jón Hreinsson tilnefndur stjórnarmaður í óstofnuðu einkahlutafélagi um byggingu reiðskemmu.

Göngugarpar á Ströndum

Reynir Traustason og Halldóra Jónsdóttir á toppi varnargarðsins á Flateyri

Hinn Flateyrski fréttahaukur og göngugarpur Reynir Traustason er nú aftur mættur á Norðurfjörð til sumardvalar. Þar verður hann og kona hans Halldóra Jónsdóttir skálaverðir í skála Ferðafélagsins og saman standa þau fyrir hinum ýmsum uppákomum sem flestar felast í hressilegri hreyfingu ganglima um fjöll og firnindi.

Reynir hefur á undanförnum árum vakið athygli á nauðsyn hreyfingar og hefur sjálfur gengið á Úlfarsfell nákvæmlega þúsund sinnum. Og honum til heiðurs, og öðrum göngugörpum sem hafa gengið oftar enn hundrað sinnum á Úlfarsfell, var efnt til skemmtigöngu á Úlfarsfell þann 31. maí og var takmarkið að ná 1000 göngufélögum á fellið. Skemmtikraftar voru fluttir með þyrlu á svæðið, en á stokk stigu til dæmis Raggi Bjarna og Bjartmar Guðlaugsson.Takmarkið náðist og gott betur því meira en 2000 sálir tóku þátt.

Reynir Traustason og Raggi Bjarna glaðbeittir á toppi Úlfarsfells

Nú eru Reynir og Halldóra sem sagt komin vestur á Strandir og taka þar á móti gönguhópum og skipuleggja göngur. Eða eins og Reynir segir í færslu sinni á Facebook í dag

„En ég er sem sagt farinn í fámennasta hrepp landsins þar sem einstök náttúrufegurð kallast á við fallegt mannlíf og sagan er á hverju strái. Það eru allir velkomnir til að kynna sér endimörk heilsársbyggðar á Ströndum.“

Bryndis@bb.is

Slydda og snjókoma til fjalla

Vetur konungur er heldur þaulsætin þetta árið og nær væri að hann legðist í sumarhíði og hleypti sumrinu að. Á Vestfjörðum er spáð norðan 5-10 og skýjað með köflum en líkur á rigningu eða slyddu til fjalla í kvöld og á morgun. Hiti 4 til 7 stig en 0 til 4 stig í nótt.

Búast má við slyddu eða jafnvel snjókomu á fjallvegum N-til á landinu fram eftir degi. Akstursskilyrði geta spillst og ökumönnum eindregið ráðlagt að búa sig miðað við aðstæður.

bryndis@bb.is

Sumaropnun sundlauga

Sundlaugin á Suðureyri

Þó gráni í fjöll segir dagatalið að það sé komið sumar og opnunartími sundlauga tekur sem betur fer mið af dagatalinu.

Hjá Ísafjarðarbæ eru opnunartímar sundstaða með þessum hætti:

Sundhöll Ísafjarðar
Virkir dagar 10.00 – 21.00
Helgar 10.00 – 17.00
Rauðir dagar 10.00 – 17.00

Flateyrarlaug
Virkir dagar 10.00 – 20.00
Helgar 11.00 – 17.00
Rauðir dagar 11.00 – 17.00

Suðureyrarlaug
Allir dagar í sumar 11.00 – 19.00

Á Suðureyri hefur reyndar ekki tekist að manna sundlaugina, þangað til það tekst opnar laugin kl. 15:00 en ekki 11:00 eins og til stóð.

Í Bolungarvík er mönnum slétt sama um árstíðir og þar er Musteri vatns og velllíðunar opið frá 6:15 – 21:00 alla virka daga og um helgar 10:00 18:00, allan ársins hring.

Á Tálknafirði er komin sumaropnun og þar er sundlaugin opin alla daga frá kl. 9:00 – 21:00

Á Patreksfirði er sundlaugin opin 8:00- 21:30 á virkum dögum en frá 10:00 – 18:00 um helgar.

Nýjustu fréttir