Þriðjudagur 21. janúar 2025
Síða 2187

5% hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi

Landsframleiðsla á fyrstu þremur mánuðum ársins jókst að raungildi um 5% frá sama ársfjórðungi í fyrra. Hagvöxtur var því 5% á fyrsta ársfjórðungi. Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofu Íslands.

Þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, jukust um 3,2% á umræddu tímabili. Einkaneysla jókst um 7%, samneysla um 1,8% og fjárfesting um 2,5%. Útflutningur jókst um 5,4% á sama tíma og innflutningur jókst um 3,1%.

Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst saman um 1,9% milli fjórða ársfjórðungs 2016 og fyrsta ársfjórðungs 2017. Einkaneysla jókst um 1,7% og samneysla um 0,3% á meðan fjárfesting dróst saman um 3,8%. Innflutningur jókst um 0,9% en útflutningur dróst saman um 4,4%.

Adam Smári áfram með Vestra

Ingólfur Þorleifsson, formaður körfuknattleiksdeildar Vestra og Adam Smári Ólafsson við undirritun samningsins.

Framherjinn Adam Smári Ólafsson hefur samið við körfuknattleiksdeild Vestra um að leika áfram með liðinu á komandi tímabili. Adam Smári kom til Vestra frá FSu fyrir síðasta tímabil og hefur sýnt og sannað að hann á framtíðina fyrir sér í íþróttinni. Samhliða æfingum, keppni og námi við Menntaskólann á Ísafirði hefur Adam Smári komið að þjálfun 7.-9. flokks stúlkna með góðum árangri.

Adam Smári er ungur og efnilegi leikmaður fæddur árið 1997. Hann var einn af lykilmönnum meistaraflokks í vetur, lék tuttugu og tvo leiki, var í byrjunarliðinu í þeim öllum og skilaði 7,4 stigum og 5,2 fráköstum að meðaltali í leikjunum. Auk þess var Adam máttarstólpi unglingaflokks félagsins og átti nokkra stórleiki á þeim vígstöðvum. Það mæddi því mikið á Adami síðasta vetur enda var hann valinn dugnaðarforkur liðsins á lokahófi þess með eftirfarandi umsögn: „Adam hefur sannarlega unnið fyrir þessum titli í vetur því hann hefur bæði leikið stórt hlutverk í meistaraflokki og unglingaflokki og oft leikið þrjá leiki á helgi án þess að blása úr nös eða kvarta yfir álagi.“

Bolungarvíkurkaupstað afhent málverk af Einari Guðfinnssyni

Einar Guðfinnsson.

Guðmundur Halldórsson skipstjóri í Bolungarvík mun nú á sjómannadaginn afhenda Bolungarvíkurkaupstað að gjöf portrettmálverk sem hann hefur látið mála af móðurbróður sínum, Einari Guðfinnssyni útgerðarmanni og forstjóra. Myndina málaði hinn virti listmálari Karl Jóhann.

Afhendingin fer fram á sama tíma og kaffisala Kvennadeildar Landsbjargar í Bolungarvík, en kaffisalan hefst kl. 15 í Félagsheimilinu í Bolungarvík, en þá fer fram kaffisala kvennadeildar Slysavarnardeildarinnar í Bolungarvík. Málverkinu verður komið fyrir á skrifstofu Bolungarvíkurkaupstaðar í Ráðhúsinu í Bolungarvík.

Einar Guðfinnsson stóð fyrir umfangsmiklum atvinnurekstri í Bolungarvík um áratugaskeið. Hann fæddist í Litlabæ í Skötufirði árið 1898, en fluttist til Bolungarvíkur árið 1924 ásamt Elísabetu Hjaltadóttur eiginkonu sinni.

„Ég erfði ekki fé, ég erfði dyggðir“, sagði Einar og voru það sannarlega orð að sönnu. Hann hófst úr sárri fátækt en varð sakir atorku sinnar einn nafntogaðasti athafnamaður landsins á sinni tíð og naut mikillar virðingar samferðamanna sinna. Er óhætt að segja að hann hafi mótað byggðarlagið sem hann helgaði krafta sína. Auk hins umsvifamikla atvinnurekstrar var hann í forystu sveitarstjórnarinnar um langt árabil sem hreppsnefndarmaður og oddviti sveitarfélagsins. Sem slíkur kom hann að mörgum þeim framfaramálum sem lögðu grunn að vexti Bolungarvíkur.

Útgerð og fiskvinnsla efldist mjög í Bolungarvík undir forystu Einars Guðfinnssonar og var fyrirtæki hans og fjölskyldu hans með þeim stærstu í sjávarútvegi á Íslandi á sinni tíð. Á vegum fyrirtækja hans var stunduð öflug og margháttuð útgerð, fiskvinnsla, rækjuvinnsla, síldar- og loðnuvinnsla, síldarsöltun og umsvifamikill verslunarrekstur og önnur þjónusta, svo nokkuð sé nefnt. Undir hans stjórn og sona hans sem með honum unnu að atvinnurekstrinum, var bryddað upp á margvíslegum nýjungum og sem ruddu nýjar brautir á sviði sjávarútvegsins. Má nefna að hörpudiskvinnsla og veiðar hér við land hófust í Bolungarvík.

Það einkenndi ætíð atvinnurekstur Einars Guðfinnssonar að fyrir honum vakti jafnan að samfélagið í Bolungarvík nyti sem best þeirrar uppbyggingar sem hann stóð fyrir. Í ævisögu hans, sem Ásgeir Jakobsson skráði og út kom árið 1978 sagði hann: „Bolvíkingar hafa valið mig sem sinn fyrsta heiðursborgara og stjórnvöld hafa veitt mér stórriddarakross með stjörnu og þennan virðingarvott samferðarmanna met ég mikils, en mesta gleði veitir mér að ganga um þennan bæ nú og bera hann saman við það þorp sem var. Þá finnst mér ég ekki hafa lifað til einskis.“

Einar Guðfinnsson og Elísabet Hjaltadóttir eignuðust átta börn. Hann  lést árið  1985.

Matthías sá eini í Meistaradeildinni

Útlit er fyrir að einungis einn íslenskur knattspyrnumaður komi við sögu í forkeppni Meistara­deild­ar Evrópu með erlendu liði í sumar. Á vef Morgunblaðsins er greint frá að af þeim liðum sem unnið hafa sér keppnisrétt í Meistaradeildinni eru norsku meistararnir Rosenborg eina liðið með Íslending innanborðs, en Ísfirðingurinn Matthías Vilhjálmsson leikur með Þrándheimsliðinu. Þegar sölugluggi leikmanna opnast um mánaðamótin getur þetta að sjálfsögðu breyst.

Rosenborg hefur keppni í 2. umferð en engar líkur eru á að Matthías myndi mæta sínum gömlu félögum í FH. Bæði liðin eru í efri styrkleika­flokki þegar dregið verður til 2. umferðar og yrðu bæði í neðri flokki fyrir dráttinn til 3. umferðar, komist þau þangað.

 

Söfnun fyrir nýju ómskoðunartæki

Læknar á Hvest og forsvarskonur söfnunarinar með ómskoðunartækið sem er komið til ára sinna.

Nú stendur yfir stór söfnun þar sem margir aðilar ætla að leggjast á eitt og safna fyrir nýju ómskoðunartæki á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Kvenfélagið Sunna reið á vaðið og hefur farið með bréf til félaga og fyrirtækja á Vestfjörðum. Samskotasjóðurinn Stöndum saman Vestfirðir ákvað að stökkva á vagninn og taka þátt í þessari söfnun og því eru fyrirtæki, félög og einstaklingar nú að leggjast á eitt til að gera nýtt ómskoðunartæki að veruleika. Margir hafa velt því fyrir sér hvort ómskoðunartæki séu einungis fyrir ófrískar konur en svo er alls ekki.

„Á síðustu árum hefur átt sér stað ör þróun ómskoðunartækja og eru þau orðin ódýrari, handhægari og fullkomnari. Felst sú framþróun meðal annars í betri upplausn sem gerir læknum kleift að gera betri skil milli hinna mismunandi vefja líkamans ásamt því að kviðarholslíffæri sjást skýrar. Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur ómtækið verið í nánast daglegri notkun við fjöldamörg verkefni. Má þar helst telja til mæðravernd, mat á bráðum og krónískum veikindum, mat á slösuðum einstaklingum, ómstýrðar ástungur í liði, brjóst og kviðhol og margt fleira. Er ómskoðunartækið því ómetanlegt hjálpartæki fyrir starfandi lækna á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða“ er haft eftir Súsönnu Björgu Ástvaldsdóttur, lækni á Hvest, í tilkynningu frá Stöndum saman Vestfirði.

Í dag hafa safnast um 2,5 milljónir kr. en nýtt tæki kostar á bilinu 6-8 milljónir kr.

„Tæki sem þessi kosta þó sitt og er það nokkuð ljóst að enginn getur staðið í þessu einn og sér og því ætlum við að gera þetta saman. Við höfum fulla trú á því að þetta takist vel til og fyrr en seinna verði komið nýtt ómskoðunartæki hér í bæ. Við hvetjum alla sem geta og hafa áhuga á að taka þátt að vera með og minnum á að margt smátt gerir eitt stórt.

Nú sýnum við það í verki hvað við erum samstíga þegar kemur að því að hjálpa okkur sjálf,“ segir í tilkynningu Stöndum saman Vestfirðir

Hægt er að leggja inn hjá Kvenfélaginu Sunnu 0556-14-402000 kt. 470510-2260

Einnig er hægt að leggja inn hjá Stöndum saman Vestfirðir 0156-26-216  kt. 410216-0190

Rökrétt að auka fiskeldi í Skutulsfirði

Sjókvíar Hábrúnar í Skutulsfirði.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tekur vel í áform Hábrúnar ehf. um aukið fiskeldi í Skutulsfirði. Fyrirtækið áformar að auka eldi á regnbogasilungi úr 200 tonnum í 1.000 tonn. Í umsögn nefndarinnar segir að áform Hábrúnar sé rökrétt framhald á góðum árangri við eldi regnbogasilungs og áframeldis á þorski í firðinum. Í umsögninni er tekið fram að eldi á þessu svæði hafi verið án áfalla frá upphafi, síðustu 20 ár, og á þeim tíma hafi ekki sloppið fiskur úr kvíum. Eldissvæðið er utan siglingaleiðar og hefur það ekki haft áhrif á siglingar skipa, legu skemmtiferðaskipa á firðinum né heldur aðrar sjávarnytjar á svæðinu.

Skipulags- og mannvirkjanefnd að stækkað eldi Hábrúnar þurfi ekki að fara í umhverfismat miðað við þær forsendur sem gefnar eru upp í skýrslu fyrirtækisins til Skipulagsstofnunar og með tilliti til staðsetningar, umfangs og afturkræfi eldisins. Nefndin bendir á að komi til aukningar í firðinum með gæti þurft að huga að sammögnunaráhrifum. Nefndin vísar jafnframt til skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá 2017 um burðarþol Ísafjarðardjúps og að aukið eldi verði að rúmast innan þess.

Nendin tekur fram í umsögninni að hún telji að skipulagsvald yfir strandsvæðum eigi að fela sveitarfélögum og skilja það þannig frá skipulagsvaldi yfir hafsvæðum sem ætti að vera á hendi ríkisvaldsins. Að frumkvæði sveitarfélaga á Vestfjörðum og Fjórðungssambands Vestfirðinga var unnin nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð og nefndin segir það mjög miður að ríkisvaldið hafi ekki séð ástæðu til að samsvarandi vinna hafi farið fram á strandsvæði Ísafjarðardjúps.

Framkvæmdir í fullum gangi

Frá uppsetningu á snjósöfnunargrind ofan Patreksfjarðar.

Framkvæmdir fyrir ofan Brellur á Patreksfirði eru í fullum gangi þar sem setja á tvær 120 m langar snjósöfnunargrindur og fimm vindkljúfa til að minnka snjósöfnun á upptakasvæðum og draga úr hengjumyndun við upptakasvæðin.

Á vef Framkvæmdasýslu ríkisins er greint frá að búið er að setja aðra snjósöfnunargrindina niður og ná bergfestur hennar 3 metra niður í jörðu. Bergfesturnar eru festar með þar til gerðri steypu. Togpróf var gert til að kanna hvort steypan standist ekki ákveðið álag eða 40 kN. Ekkert gaf eftir í togprófinu og steypan stóðst mun meira álag en til var ætlast.

Plastmengun í forgrunni á degi hafsins

Plast í hafi er vaxandi vandamál.

Alþjóðlegur dagur hafsins er í dag en hann er haldinn 8. júní ár hvert. Yfirskrift dagsins í ár er „Okkar höf, okkar framtíð“. Á vef Umhverfisstofnunar segir að í ár verði sjónum sérstaklega beint að plastmengun í hafi og mögulegum leiðum til að draga úr henni. Haf þekur um það bil tvo þriðju hluta jarðar og er mikilvægt öllu lífi á jörðinni. Í höfunum myndast mikið af því súrefni sem við öndum að okkur og þau tempra meðal annars loftslag og eru mikilvæg uppspretta fæðu fyrir mannkynið. Höfin eru einnig efnahagslega mikilvæg fyrir lönd þar sem atvinnuvegir byggja á ferðamennsku og fiskveiðum og annarri nýtingu sjávarauðlinda auk þess sem þau eru mikilvæg fyrir alþjóðlega flutninga. Höfin eru hins vegar undir miklu álagi, meðal annars vegna ýmiss konar rusls og mengunarefna sem berast til sjávar og ógna þar lífríki. Ekki síst hafa komið í ljós skaðleg áhrif plasts í hafi sem ekki eyðist heldur brotnar sífellt niður í smærri einingar, auk þess sem skaðleg efni geta loðað við plastagnirnar og þannig dreifst um hafið. Dýr geta flækst í plastúrgangi, s.s. í netum eða plastpokum, en þau taka einnig plast í misgripum fyrir fæðu.

Vegna þessa er mikilvægt að draga úr allri losun mengunarefna og koma í veg fyrir að rusl berist til sjávar. Þar verða allir að taka höndum saman og eitt af því sem allir geta gert er að draga verulega úr notkun plastpoka og plastumbúða.

Íbúaþing í Árneshreppi

Frá Árneshreppi

Íbúaþing verður haldið í Árneshreppi dagana 12. og 13. júní. Þingið verður haldið í félagsheimilinu í Árnesi og er ætlað fyrir íbúa og þá sem eiga rætur eða dvelja hluta úr ári í byggðarlaginu. Hægt er að koma báða dagana eða í styttri tíma, en ekki þarf að skrá þátttöku.

Íbúaþingið er vettvangur til að ræða málefni sem skipta íbúa Árneshrepps máli og leita leiða til að renna styrkari stoðum undir byggðina. Þátttakendur sjálfir móta dagskrána, en m.a. verður rædd endurnýjun umsóknar sveitarfélagsins um þátttöku í verkefninu „Brothættar byggðir“ hjá Byggðastofnun.

Dagskrá íbúaþingsins er svohljóðandi:

Mánudaginn 12. júní kl. 16.30 – 21.30: Hugmyndavinna

Þriðjudaginn 13. júní kl. 13.00 – 16.00: Forgangsröðun

Boðið verður upp á kjötsúpu um kvöldmatarleytið á mánudeginum og kaffiveitingar að þingi loknu á þriðjudeginum.

Það er Ildi ehf. sem heldur utan um skipulagningu fundarins, en fundarstjóri er Sigurborg Kr. Hannesdóttir.

Íbúaþingið er haldið af Árneshreppi, Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Byggðastofnun.

Reykjavíkurborg vill sekta bíla á nagladekkjum

Reykjavíkurborg hefur óskað eftir því við samgönguráðherra að sett verði lög sem heimili sveitarfélögum að sekta þá sem aka á nagladekkjum.  „Þannig að sveitarstjórnum verði í sjálfsvald sett að innheimta gjald af notkun nagladekkja. Það er vitað að nagladekkin valda gríðarlegu tjóni á götunum. Það er vitað að þau slíta götunum eða malbikinu 60 til 100 sinnum meira en venjuleg dekk. Það er áætlað að sá kostnaður hlaupi á 2 til 300 milljónum á hverju ári,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar á vef RÚV.

Hann bendir einnig á að nagladekkin valdi svifryksmengun sem í Reykjavík fer allt of oft yfir heilsuverndarmörk, sérstaklega á veturnar.

Fyrir fimm árum voru 35% bíla í borginni á nöglum en síðasta vetur óku 47% um á nagladekkjum. Hjálmar segir hluta af skýringunni liggja í gífurlegri fjölgun bílaleigubíla en þeir eru allir á nagladekkjum á veturnar. „Ég hef heyrt að tryggingafélögin geri það að skyldu og skilyrði til að tryggja þessa bíla að þeir séu á nagladekkjum á veturna,“ segir Hjálmar.

Hann segir að tillagan hafi ekki verið útfærð, til að mynda hvort sekta eigi alla bíla, hvaðan sem þeir koma af landinu.

Nýjustu fréttir