Síða 2186

Fyrsta sprenging í september

Athafnasvæði Dýrafjarðarganga. Myndin tengist fréttinni ekki.

Von­ast er til að spreng­ing­ar hefj­ist í Dýra­fjarðargöng­um í byrj­un sept­em­ber. For­sker­ing, þar sem sprengd­ur er skurður inn í fjallið, hófst  17. júlí. Eysteinn Jóhann Dofrason, tæknifræðingur hjá Suðurverki, segir í samtali við mbl.is að vinnubúðir á svæðinu séu komnar upp og í vik­unni verður klárað að setja upp verk­stæði, steypu­stöð og geymsl­ur á svæðinu. Um fjörtíu manns eru að störf­um á staðnum.

Byrjað verður að sprengja Arn­ar­fjarðarmeg­in og grafn­ir þaðan um 4 kíló­metr­ar. Það sem upp á vant­ar á 5.300 metra löng göng­in verður grafið úr Dýraf­irði. Við bæt­ast 300 metra veg­skál­ar þannig að heild­ar­lengd gang­anna verður 5,6 kíló­metr­ar.

smari@bb.is

Meiri og verðmætari afli

Fiskafli íslenskra skipa í júlí var 73.473 tonn sem er 3% meira en í júlí 2016. Botnfiskaflinn nam tæpum 30 þúsund tonnum og jókst um 6%, þar af veiddust tæp  17 þúsund tonn af þorski sem er 22% aukning samanborið við júlí 2016. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 39 þúsund tonnum í júlí og dróst saman um 2% samanborið við sama mánuð í fyrra.  Af uppsjávartegundum veiddist mest að makríl eða rúm 28 þúsund tonn. Flatfiskaflinn var tæp 3.200 tonn og jókst um 35% á milli ára. Af flatfisktegundum veiddist mest af grálúðu í júlí eða rúm 2.300 tonn. Skel- og krabbadýraafli var 1.632 tonn samanborið við 1.238 tonn í júlí 2016.

Heildarafli á 12 mánaða tímabili frá ágúst 2016 til júlí 2017 var 1.120 þúsund tonn sem er 8% meira en yfir sama tímabil ári fyrr.

Verðmæti afla í júlí metið á föstu verðlagi var 6,3% meira en í júlí 2016.

smari@bb.is

Sjálfsmyndin og tungumálin

Isabel Alejandra Díaz

2016 var viðburðarríkt. Kastljósviðtalið sem Helgi Seljan tók við mig vakti mikla athygli bæði hér á landi og í El Salvador. Ég sagði frá uppvexti mínum sem einkenndist af óvissu í yfir 10 ár, vegna þess að ég óttaðist að verða send úr landi þar sem að ég fékk ekkert varanlegt dvalarleyfi. Ég hef alltaf verið full þakklætis fyrir hvernig var tekið á móti okkur fjölskyldunni á Íslandi en það jókst vegna þeirra viðbragða sem að ég fékk í kjölfar viðtalsins. Ég upplifði svo mikinn kærleik frá Ísfirðingum en líka landsmönnum öllum. Á sama tíma var ég að útskrifast úr menntaskóla og við það fann ég líka fyrir dapurleika, því tilhugsunin um að yfirgefa Skutulsfjörð var mér nánast óbærileg. Sú tilfinning varð fljótt hluti af stórum tilfinningarússíbana þegar að afrekin mín vöktu athygli út fyrir landsteinana. Tvær þjóðir fylgdust með með mér og ég var komin í sviðsljósið. Það reyndist alltof mikið fyrir mig enda átti þetta sér stað á mjög stuttum tíma. Ég var á athyglisverðum stað þar sem að ég var að reyna af öllu hjarta að sameina þessa tvo ólíku heima sem að minn raunveruleiki samanstendur af. Foreldrar mínir hafa alltaf lagt mikla áherslu á að við börnin séum meðvituð og stolt af rómanska-ameríska bakgrunni okkar, sem að við erum. Ég veit að ræturnar mínar eru í El Salvador en hins vegar  hef ég blómstrað á Íslandi. Það er málið.

Að tengja við ræturnar

Það var á þessum tímamótum að ég fékk skilaboð alla leið frá Englandi en mér til mikillar undrunar hafði Anna Hildur Hildibransdóttir séð viðtalið við mig í Kastljósinu. Hún deildi með mér hugmynd sinni um að setja upp námskeið fyrir tví- og fjöltyngd börn til að efla málvitund þeirra. Það var hugsað fyrir bæði íslensk börn sem að hafa fæðst eða flutt erlendis og börn af erlendum uppruna sem að hafa sest að hér á landi. Þetta var hugmynd sem var byggð á hennar reynslu sem móðir og amma tvítyngdra barna. Boðað var til fundar á Ísafirði síðastliðið sumar þar sem yfir 20 manns komu saman til að ræða framkvæmd verkefnisins og ákveðið að fara af stað með vikunámskeið sumarið 2017 undir heitinu Tungumálatöfrar. Þegar ég sat þarna, á meðal fólks með skýrar og áhugaverðar hugmyndir, athugasemdir og ráðleggingar, varð ég óörugg með mig sjálfa. Ég var ekki viss um hvað ég gæti lagt af mörkum sem manneskja af erlendu bergi brotin því ég átti erfitt með að tilheyra báðum heimunum mínum. Ég vissi samt að á þessum fundi var eitthvað stórt að fæðast sem að ég vildi vera partur af. Ég treysti fundarmönnum fyrir vangaveltum mínum sem voru fullar efassemdar um sjálfa mig í tengslum við verkefnið en kvaddi samt full vonar um að ég fengi að vera með að ári.

Síðastliðið ár hefur haldið áfram að gefa. Ég hef fengið að taka þátt í ýmsu sem að hefur verið mjög þroskandi. Heimsóknin á Bessastaði var mér mjög mikilvæg en þarna var það í fyrsta skipti sem að ég upplifði mikla viðurkenningu frá báðum löndunum mínum. Mér á vinstri hlið var sjálfur forseti lýðveldisins og á þeirri hægri var skipaður sendiherra El Salvador, sem að hafði treyst mér til að vera annar fulltrúi Mið-Ameríska ríkisins á Bessastöðum. Núna í vor var mér líka boðið á leiðtoganámskeið í Svíþjóð á vegum Soroptimistasambands Íslands. Leiðbeinendurnir voru konur í hátt settum stöðum sem að kenndu okkur að efla leiðtogahæfileika okkar og hafa betri sýn á það sem að við stefndum að í framtíðinni. Einn fyrirlesturinn var um fjölmenningu og fjöltyngi, þar sem farið var vítt og breitt út í alla þættina svo ég hlustaði af miklum áhuga. Við lærðum svo mikið á svo stuttum tíma að það var ekki fyrr en að ég var komin heim sem að allt fór að smella saman fyrir mér. Ég var allt í einu komin með skýra hugmynd að því sem að ég vildi gera á komandi árum og var full tilhlökkunar fyrir Tungumálatöfra. Ég skildi betur hversu mikilvægt verkefnið Tungumálatöfrar er og hvernig þátttaka mín í því var að hjálpa mér að tengja við mínar eigin rætur.

Tungumálaskrúðganga verður árleg

Námskeiðið sem að fram fór aðra vikuna í ágúst uppfyllti allt og meira en það sem að ég hafði ímyndað mér. Mér fannst algjörlega magnað að sjá 15 börn á aldrinum 5 – 8 ára ná svo vel saman. Þau fengu rými til sköpunar og tjáningar en náðu líka að koma saman í hóp. Þau komu vel fram við hvort annað, hjálpuðust að, hugguðu hvort annað og skiptust á hugmyndum. Ég var stundum alveg agndofa. Ég tók eftir því að ég og íslensku börnin sem búsett eru erlendis áttum það sameiginlegt að eiga erfitt með þýðingar í kollinum. Ég sá að þau vildu tjá sig en náðu ekki að finna réttu orðin á íslensku. Þetta var í fyrsta sinn sem ég varð vitni að manneskju lenda í því sem að gerist hjá mér á hverjum einasta degi. Mér þótti það svo merkilegt. Í mínu tilfelli er það náttúrulega spænskan sem að flækist fyrir mér. En þetta er einmitt gott dæmi um þörfina fyrir þetta námskeið. Ég áttaði mig á því þarna að það hefði komið sér vel fyrir mig að hafa haft aðgang að námskeiði sem þessu þegar ég var barn.

Það sem að heillaði mig hvað mest var að heyra þau tala um heimalandið sitt og sjá hve stolt þau voru af því. Að sjá sakleysið og einlægnina í augum þeirra. Ég tók eftir því að kennararnir voru meðal annars mjög hvetjandi þegar kom að því að ræða heimaland og tungumál hvers og eins. Þarna erum við að skapa öruggan vettvang fyrir börnin þar sem að þau geta verið frjáls og talað um sig og sinn bakgrunn án þess að mæta mótlæti. Með þessu móti eru þau viljug til þess að deila með okkur sínum siðum, hefðum og menningu. Það er mikilvægt fyrir þau að varðveita bakgrunninn sinn og rækta tungumálin sem þeim eru gefin. Tungumálin eru hluti af sjálfsmynd okkar og það styrkir sjálfsmyndina að geta verið stoltur af því hvaðan maður er og að maður geti talað fleiri en eitt mál. Það er gott að geta fagnað fjölbreytileikanum en viðurkenna líka á sama tíma að í grunninn erum við öll eins.

Það er greinilega eftirspurn eftir verkefni sem þessu. Áhuginn sem að það vakti var hreint út sagt stórkostlegur. Á fundi sem haldinn var um framtíð verkefnisins var skipuð verkstjórn sem í sitja; Anna Hildur Hildibrandsdóttir, Herdís Hübner, Matthildur Helgadóttir Jónudóttir, Svava Rán Valgeirsdóttir og ég. Ég er spennt yfir að fá að vinna með þessum fyrirmyndarkonum og vonast til þess að geta lært heilmikið af þeim. Markmiðið er nú að þróa verkefnið áfram og þar sem að málefnið er vítt er einn af mínum draumum að geta snert ýmsa nauðsynlega þætti varðandi fjölmenningu. Ég er meyr en um leið glöð að saga mín skuli hafa verið hvatning fyrir þessa góðu hugmynd. Ég ætla að leggja mitt af mörkum til að reynsla mín sem tvítyngdur innflytjandi geti nýst. Ég veit núna að það hjálpar mér í mínu ferli og að um leið geti það hjálpað öðrum. við að styrkja sjálfsmynd sína.

Ég hlakka til að vinna að þróun hugmyndarinnar og búa til spennandi námskeið þar sem við bjóðum börnum að styrkja sjálfsmynd sína í málörvandi umhverfi. Einnig hlakka ég til að vinna að því að Tungumálaskrúðgangan verði árlegur viðburður á Ísafirði þar sem við fögnum fjölbreytileikanum og framlagi íslenskra útlendinga og útlenskra Íslendinga.

Isabel Alejandra Díaz, háskólanemi og verkefnastjóri Tungumálatöfra.

Íbúarnir njóti sanngirni

Bolungarvíkurhöfn.

Bæjarráð Bolungarvíkurkaupstaðar skorar á sjávarútvegsráðherra að horfa til íbúa á norðanverðum Vestfjörðum þegar ákvarðanir eru teknar um framtíð fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Í bókun bæjarráðs segir að hagsmunir íbúa á svæðinu eiga að njóta sanngirni í ákvörðunum þar sem hagræn áhrif hljóta að skipta máli þegar framtíð fiskeldis á svæðinu er ákveðin.

„Það er fyrirsjáanlegt að hagræn áhrif fiskeldis mun hafa mikil og jákvæð áhrif á byggðina við Ísafjarðardjúp auk þess að þjóðarbúið allt mun njóta góðs af fiskeldinu til lengri tíma litið.

Það er ófrávíkjanleg krafa okkar að hagsmunir samfélagsins séu hafðir til hliðsjónar í þeirri stóru ákvörðun um leyfisveitingar fiskeldis í Ísafjarðardjúpi sem nú er framundan,“ segir í bókuninni.

smari@bb.is

Bjart með köflum

Það er dáindisgott veður í dag á Vestfjörðum en þokan lá þó yfir snemma í morgun, að minnsta kosti í Önundarfirði. Hér má sjá nokkrar myndir úr vefmyndavélum Snerpu hér á norðanverðum kjálkanum.

Arnarfjörður
Súgandafjörður skartar sínu fegursta
Dýrafjörður bjartur og fagur
Þokan á undanhaldi í Önundarfirði

Landið allt samkvæmt veðurfræðingum

Norðlæg átt 5-10, en heldur hvassari norðvestlæg átt við norðausturströndina fram eftir degi. Rigning eða súld norðaustantil, en hægari vindur sunnan heiða og síðdegisskúrir. Norðlæg átt 5-13 á morgun, en 10-18 suðaustanlands seinnipartinn. Rigning með köflum austantil, en bjart að mestu sunnan- og vestanlands. Hiti 8 til 18 stig að deginum, hlýjast á Suðurlandi.

Norðan og norðvestan strekkingur eða allhvass vindur á suðausturlandi síðdegis á fimmtudag og fram undir hádegi á föstudaginn. Vindur getur náð meiru en 25 m/s í hviðum við fjöll. Slíkt er varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

bryndis@bb.is

Listamannaspjall í Hömrum

Gestavinnustofur ArtsIceland á Ísafirði bjóða til listamannaspjalls í Hömrum í kvöld.

Í sumar hafa fjölmargir listamenn dvalið í vinnustofunum sem starfræktar eru á tveimur stöðum í bænum, við Aðalstrætið og á Engi og er óhætt að segja að þeir hafi sett svip sinn á bæinn og mannlífið. Áður en gestir vinnustofanna halda aftur til síns heima eða til móts við frekari ævintýri annarsstaðar bjóða þeir gestum að njóta afraksturs vinnu sinnar á Ísafirði með uppákomu sem þessari.

Það er fjölbreyttur og hæfileikum hlaðinn hópurinn sem kemur fram að þessu sinni. Tónlistarhjónin Ásdís Valdimarsdóttir og Michael Stirling laða fram tóna á strengi sína. Rithöfundurinn, sagnfræðingurinn og skáldið Þórunn Jarla Erlu- og Valdimarsdóttir les upp úr óútkomnum verkum og hollenski tónlistarmaðurinn Lucas Kloosterboer flytur nokkur verka sinna.

Spjallið fer fram á íslensku og ensku. Í lokin verður hægt að spyrja listamennina út í verk þeirra. Ókeypis er á viðburðinn sem hefst klukkan 20 og er hann öllum opinn.

Um listamennina:

Ásdís Valdimarsdóttir er ættuð af Vestfjörðum og Snæfellsnesi en ólst upp í stórri fjölskyldu í Reykjavík. Hún lauk meistaragráðu frá Juilliard skólanum í New York og síðar einleikaraprófi í Þýskalandi árið 1987. Ásdís hefur ferðast mikið um heiminn og komið fram í 6 heimsálfum. Hér á landi er Ásdís sennilega þekktust fyrir að hafa verið meðlimur hins heimsfræga Chilingirian strengjakvartetts í um 8 ár; hún lék hér heima ásamt kvartettinum á Listahátíð 1998. Hún hefur komið fram í ýmsum frægum tónlistarsölum heims: Carnegie Hall í New York, Concertgebouw í Amsterdam og Wigmore Hall í London. Hún hefur verið leiðari víóluhópsins í Deutsche Kammerphilharmonie og unnið þar með ýmsum vel þekktum tónlistarmönnum, m.a. Claudio Abbado, Gidon Kremer, Andras Schiff og Isabellu Van Keulen. Ásdís hefur komið fram á fjölmörgum alþjóðlegum tónlistarhátíðum, m.a. á Berliner Festspiele, Marlboro Music Festival í Bandaríkjunum og Kuhmo hátíðinni í Finnlandi.

Ásdís er nú búsett í Amsterdam ásamt manni sínum Michael Strirling og tveimur börnum. Auk þess að leika kammertónlist víða um heim, kennir hún við Konunglega Tónlistarháskólann í Haag og á ‘International Masterclasses’ í Apeldoorn, Hollandi.

Michael Stirling fæddist í London og nam hann sellóleik við Guildhall School of Music hjá Leonard Stehn og Raphael Wallfisch. Hann hélt svo áfram námi við Banff Centre í Kanada og hjá Lawrence Lesser í New England Conservatory í Boston. Frá árinu 1989 til 1997 var Michael sellóleikari hjá Ensemble Modern í Frankfurt, ásamt því að vera í átta ár, hluti af strengjasextettinum Raphael Ensemble í London sem gerðu marga hljómdiska fyrir Hyperion. Árið 1997 gekk hann til liðs við Brindisi kvartettinn í London, þar sem hann bjó og starfaði í níu ár. Á þeim tíma spilaði hann með fjölmörgum kammersveitum, jafnframt því sem hann var gesta-leiðari ýmissa sinfónía, líkt og London Symphony Orchestra og Royal Philharmonic Orchestra, svo dæmi séu tekin.
Michael fluttist til Amsterdam árið 2004 og gerðist fyrsti sellóleikari hinnar hollensku Radio Philharminic Orchestra. Síðustu ár hefur hann verið reglulegur gestur hjá hinum ýmsu fílharmóníusveitum og sinfóníum víða um heim. Michael er einnig hluti af Nieuw Amsterdams Peil og strengjatríóinu The Quimias, ásamt því sem hann spilar mikið af kammertónlist yfirleitt. Hann hefur spilað inn á upptöku hjá RCA, ásamt Marcus Stenz og Ensemble Modern, sellókonserta Hindemith Kammermusic no.3 sem fékk þýsku gagnrýnendaverðlaunin.

Lucas Kloosterboer kemur frá Utrecht í Hollandi þar sem hann nam tónlist við HKU listaháskólann. Hann staðsetur sig nú við ytri mörk jazztónlistar, þar sem hann stöðugt kannar og leitar töfranna sem hið nýja og óþekkta færir. Innan þess heims finnur hann sterka tengingu rafheimsins, hinnar hollensku tungu og tónlistarspuna.
Meðal þess sem hann hefur verið að fást við er að taka þátt í líflegri, frjálsri, spunasenunni í Amsterdam sem básúnuleikari. Hann skapaði nýverið risa-frjálsan-spunajazz blandaðan mæltu máli-og óperu-gjörningi sem útskriftartónleika sína. Nú kannar hann ofan í dýpri lög spuna með hinu talaða orði og raftónlist og hefur hann unnið að því í dvöl sinni á Ísafirði.

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir er Hún lærði sagnfræði í Lundi í Svíþjóð 1973–1974 og sögu og myndlist við Instituto Allende í Mexíkó árið 1977–1978. Þórunn lauk cand. mag-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1983 og hefur síðan fengist við ritstörf. Eftir hana liggja á þriðja tug bóka – skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur og sagnfræðirit, auk fjölda greina og þátta fyrir útvarp og sjónvarp. Barnævisöguna Sól í Norðurmýri og nóvelluna Dag kvennanna skrifaði Þórunn í félagi við Megas.

Þórunn var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2000 fyrir Stúlku með fingur sem einnig hlaut Menningarverðlaun DV. Þá hafa bækur hennar, Snorri á Húsafelli. Saga frá 18. öld, Kalt er annars blóð, Mörg eru ljónsins eyru og Upp á Sigurhæðir. Saga Matthíasar Jochumssonar allar verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sú síðasttalda var auk þess tilnefnd til verðlauna Hagþenkis og fékk viðurkenningu Félags bókasafns- og upplýsingafræða fyrir bestu frumsömdu fræðibók ársins. Þá hlaut Þórunn Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, árið 2013 fyrir Stúlku með maga.

bryndis@bb.is

Safna fyrir efnalítil börn

Mynd: Hjálparstarf kirkjunnar.

Hjálp­ar­starf kirkj­unn­ar hef­ur hafið fjár­söfn­un til stuðnings við efna­litl­ar fjöl­skyld­ur í upp­hafi skóla­árs. Skólataska, vetr­arfatnaður, skór og stíg­vél, allt kost­ar þetta pen­inga svo ekki sé minnst á út­gjöld  vegna íþrótta- og tóm­stund­a­starfs sem falla til á haust­in sem og kostnað vegna náms­gagna þar sem greiða þarf fyr­ir þau, seg­ir í til­kynn­ingu frá Hjálp­ar­starfi kirkj­unn­ar.

„For­eldr­ar grunn­skóla­barna sem búa við kröpp kjör leita um þess­ar mund­ir stuðnings hjá Hjálp­ar­starf­inu til að geta út­búið börn­in í skól­ann. Í fyrra­haust fengu for­eldr­ar um 200 barna aðstoð hjá okk­ur og við bú­umst við svipuðum fjölda um­sókna um stuðning nú.

Efna­leysi á ekki að hindra börn í námi eða í íþrótta- og frí­stund­a­starfi með jafn­öldr­um sín­um.  Öll börn eiga að geta hlakkað til að byrja í skóla!“ seg­ir enn frem­ur í til­kynn­ingu frá Hjálp­ar­starfi kirkj­unn­ar.

Hjálp­ar­starf kirkj­unn­ar hef­ur stofnað val­greiðslu­kröfu með skýr­ing­unni Styrk­ur í heima­banka lands­manna að upp­hæð 2.600 krón­ur en einnig er hægt að senda sms í síma­núm­erið 1900 með text­an­um Styrk­ur og þá gjald­fær­ast 1.300 krón­ur af næsta sím­reikn­ingi, seg­ir í til­kynn­ingu.

smari@bb.is

Yngri flokkarnir gerðu víðreist

Þessar pæjur gerðu góða ferð norður á Siglufjörð.

Fótboltakrakkar í Vestra höfðu í nógu að snúast um síðustu helgi. Yngstu iðkendurnir í 8.flokki fóru á Arionbankamót Víkings í Reykjavík og sömuleiðis 7. fl. drengja. Vestri hefur sent lið á þetta mót undanfarin ár með góðum árangri.  Stelpurnar í sjötta og sjöunda flokki fóru svo á Pæjumótið á Siglufirði og kepptu þar í frábæru veðri við góðar aðstæður, en mikil vakning er í knattspyrnuiðkun í hjá yngstu stúlknaflokkunum. Strákarnir í 6. flokki fóru á Króksmótið á Sauðárkróki. Eitt lið Vestra gerðu sér lítið fyrir og vann sína deild á Króksmótinu með gullmarki í framlengingu í hreinum úrslitaleik. Hin liðin stóðu sig einnig vel og enduðu í 4 og 5 sæti eftir úrslitakeppnir. En það er ekki nóg að standa sig vel innan vallar og strákarnir stóðu klárir á því og uppskáru háttvísisverðlaun KSÍ fyrir frábæra hegðun og framkomu á mótinu.

smari@bb.is

Hlaupa í nafni Birkis Snæs

Það verður margt um manninn í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardag.

Öflugur hlaupahópur sem er mest megnis að vestan tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn. Hlaupahópurinn hleypur í nafni Birkis Snæs Þórissonar, ungs Ísfirðings, og safnar áheitum fyrir Krabbameinsfélagið Sigurvon. Fyrir rúmu ári síðan, þegar Birkir Snær var fimm mánaða gamall, greindist hann með sjaldgæft krabbamein. Hann hóf meðferð í júní í fyrra og hefur ferlið verið strembið, en mjakast hægt og örugglega í átt að bata. Krabbameinsfélagið Sigurvon á Ísafirði hefur staðið þétt við bakið á fjölskyldu Birkis Snæs og hefur sannað enn einu sinni hversu mikilvæg stoð félagið er fyrir krabbameinsveika og fjölskyldur þeirra.

Birkir Snær verður með öfluga sveit í Reykjavíkurmaraþoninu.

Markmiðið var að safna 500 þúsund krónum og hefur söfnunin gengið vonum framar. Þegar þetta er skrifað hafa safnast 800 þúsund krónur og hlaupahópurinn er hvergi nærri hættur og setur nú markið á eina milljón króna.

Sigurvon ætlar að vera með hvatningabás í hlaupinu og hvetja sitt fólk dyggilega áfram með tónlist og kúabjöllum og með stuðningi góðra fyrirtækja verður hlaupurum Sigurvonar boðið upp á ýmislegt góðgæti.

Hér er hægt heita á hlaupahópinn.

smari@bb.is

Krakkarnir í Vesturbyggð hafa áhrif um allan heim

Í febrúar sögðum við frá verkefninu „Seyoum is my brother“ en það eru samtökin „One Day Seyoum“ sem standa fyrir þessu verkefni. Seyoum er blaðamaður frá Eritreu sem, ásamt 10 öðrum blaðamönnum, var hnepptur í varðhald árið 2001 og ekki hefur heyrst frá þeim síðan. Eiginkona Seyoum var komin 7 mánuði á leið þegar þetta átti sér stað. Rut Einarsdóttir vakti athygli nemandi á ástandi mannréttindamála í Eritreu og frá Seyoum og í kjölfarið tóku krakkarnir sig til að gerðu bæði myndbönd og teikningar með skilaboðum til Seyoums.

Stofnandi samtakanna, Vanessa Berhe, var svo snortin af samtakamætti krakkanna að hún fann sig knúna til þess að koma alla leið á Patreksfjörð að hitta þau.

„Vanessa kom á Patreksfjörð til þess að segja nemendum Patreksskóla frá því hvernig það sem þau gerðu snerti fólk um allan heim. Hún segir að margir fjölskyldumeðlimir hennar, hún sjálf meðtalin, hafi tárast þegar þau sáu myndirnar og myndböndin frá nemendunum. Hún minntist á að það að ungir nemendur í þorpi í landi langt frá Eritreu skyldu láta sig þetta varða og standa með þeim væri ekki bara ómetanlegt fyrir fjölskylduna, heldur sýndi það líka yfirvöldum þar í landi að þau geta ekki komist upp með það hvernig þau hafi hagað sér mikið lengur, þar sem heimurinn væri loksins farinn að taka eftir þeim, og mótmæla gjörðum þeirra.“ Segir Rut sem tók á móti Vanessu ásamt nemendum sem voru áhugasamir um samtökin og Vanessu.

Vanessa kom á vegum samtakanna Ung Vest sem stofnuð voru núna í sumar, með aðstoð frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Samtökin voru stofnuð með það að leiðarljósi að veita stuðning við ungt fólk á Sunnanverðum Vestfjörðum, og stuðla að valdeflingu ungs fólks í gegnum námskeið, vinnusmiðjur og í gegnum ýmis verkefni. Hægt er að sjá Facebook síðu samtakanna hér.

Hér má svo horfa á myndaband með kveðjum frá krökkunum.

 

bryndis@bb.is

 

Nýjustu fréttir