Síða 2185

Fiskeldismálin verða erfið

Páll er formaður atvinnuveganefndar.

Fiskeldismál verða með viðkvæmari og erfiðari málum sem Alþingi fær til úrlausnar á haustþingi að sögn Páls Magnússonar, formanns atvinnuveganefndar. Páll, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, segir í Morgunblaðinu í dag að málið sé erfitt og segir margskonar sjónarmið uppi innan stjórnmálaflokkanna um málið og þau fari ekki endilega eftir flokkslínum. Á næstu dögum skilar starfshópur um stefnumótun í fiskeldi skýrslu sem verður kynnt í ríkisstjórn og eins í atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun mæta á fund atvinnuveganefndar á mánudaginn kemur til að ræða stöðu sauðfjárbænda. Stefnumótun í fiskeldi er ekki á dagskrá fundarins. Páll kveðst ekki vita hvort ráðherrann muni nota tækifærið til að kynna fiskeldisskýrsluna á fundinum, enda sé ekki ljóst hvort skýrslan verði tilbúin þá.

smari@bb.is

Umsögn um tvöföldun Arctic Sea Farm

Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar þann 14. ágúst var tekin fyrir beiðni Matvælastofnunar um umsögn sveitarfélagsins vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar Arctic Sea Farm (Dýrfiskur) í Dýrafirði. Fyrirtækið hefur sótt um tvöföldun rekstrarleyfis, úr 2.000 tonnum í 4.000 tonn af laxi eða regnbogasilungi.

Í bréfi Matvælastofnunar kemur fram að framkvæmdin sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í júlí 2015 úrskurðaði Skipulagsstofnun að aukið eldi í Dýrafirði hjá Arctic Sea Farm væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum, Landsamband veiðifélaga kærði þá ákvörðun en Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála staðfesti ákvörðun Skipulagsstofnunar.

bryndis@bb.is

Býður sjómanninn velkominn til Bolungarvíkur

Um fátt hefur verið meira rætt síðasta sólarhringinn en umdeilt veggmálverk sem prýddi Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu í Reykjavík. Málverkið, sem fæstir vissu að væri umdeilt fyrr en á allra síðustu dögum, var málað á vegginn árið 2015 fyrir atbeina Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar. „Sjómaðurinn á heima í Bolungarvík,“ skrifar Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, á Facebook. Jón Páll skrifar að fáir staðir á landinu eigi sjómönnum eins mikið að þakka og Bolungarvík og „það er það síðasta sem við myndum gera er að mála yfir listaverk þeim til heiðurs.“

Hann bendir á að á Ráðhúsinu sé fínasti veggur sem listamennirnir gætu spreytt sig, en til skamms tíma var hann nýttur til að lista upp allar þær opinberu stofnanir sem þar voru til hús. „En þess þarf ekki lengur. Þær eru allar farnar úr bænum. Ég veit að sjómenn í Bolungarvík og samfélagið allt mundi taka vel á móti þessu verkefni,“ skrifar Jón Páll.

smari@bb.is

 

Nýjungar á nýju starfsári

Innritun nýrra nemenda við Tónlistarskóla Ísafjarðar hófst í gær. Starfið í skólanum er fjölbreytt sem  fyrr. Boðið er upp á kennslu á fjölda hljóðfæra, söngnám og tónfræðagreinar, auk forskóla , kóra, lúðrasveita, strengjasveita og hljómsveitarsamspils í rytmískri deild. Á skólaárinu sem nú fer í hönd verður einnig boðið upp á ýmsar nýjungar í skólastarfinu og má þar nefna unglingasöngdeild og nám í raftónlist fyrir unglinga. Þetta eykur enn frekar við fjölbreytt námsframboð skólans og er spennandi valkostur fyrir unglinga. Vakin er athygli á því að hægt er að sækja sérstaklega um nám í hljómsveitarsamspili og raftónlist þó nemandinn sé ekki skráður í annað hljóðfæranám við skólann en hljóðfæranemendum skólans býðst að taka þátt í námskeiðunum endurgjaldslaust.

Tónlistarskólinn hefur átt því láni að fagna í gegnum tíðina að við hann hafa starfað vel menntaðir og metnaðarfullir kennarar sem bera hag nemenda og skólans fyrir brjósti. Andri Pétur Þrastarson bætist nú í hóp þeirra en hann mun leiða kennslu í raftónlist við skólann.

Skrifstofa skólans að Austurvegi 11 er opin frá kl. 10.30 til 14.30 en þar eru veittar allar upplýsingar um námið.

smari@bb.is

Skaginn 3X opnar útibú í Noregi

Ísfirðingarnir Ragnar Guðmundsson (t.v) og Arnar Albertsson á Agua Nor sýningunni sem fer fram í Noregi þessa dagana.

Tæknifyrirtækið Skaginn 3X hefur tilkynnt um opnun skrifstofu í Noregi. Fyrirtækið hefur verið að hasla sér völl í Noregi síðustu misserin með ofurkælingartækni sína og gert stóra sölusamninga við norsk laxasláturhús. Fyrstu starfsmenn útibúsins verða ráðnir til starfa á þessu ári. Í fréttatilkynningu kemur fram að mikill áhugi sé á vörulínum Skagans 3X í Noregi, bæði hjá hefðbundnum sjávarútvegsfyrirtækum sem og hjá laxeldisfyrirtækjum.

smari@bb.is

Menntamálaráðherra á Ísafirði

Elfa S. Hermannsdóttir, forstöðukona Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Kristján Þór Júlíusson í veðurblíðunni á Ísafirði.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, heimsótti Ísafjörð í vikunni og kynnti sér starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða auk þess að taka þátt í námskeiði kennara um Biophiliu menntaverkefnið sem fór fram í Grunnskólanum á Ísafirði. Ísafjörður skartaði sínu fegursta á þessum degi, og á vef ráðuneytisins er haft eftir ráðherranum að það sé regla fremur en undantekning.

smari@bb.is

Breyta skipulaginu áður en ákvörðun liggur fyrir

Teigsskógur í Þorskafirði.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur ekki myndað sér ákveðna skoðun á því hvort best sé að nýr vegur í Gufudalssveit liggi um Teigsskóg líkt og Vegagerðin sækist eftir. Í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati Vegagerðarinnar fyrir nýjan Vestfjarðaveg í Gufudalssveit er mælt með að vegurinn liggi í jarðgöngum undir Hjallaháls í stað þess að leggja nýjan veg um Teigsskóg. Áður en Vegagerðin sækir um framkvæmdaleyfi fyrir veglagningunni hjá Reykhólahreppi  þarf að breyta aðalskipulagi. Vilberg Þráinsson, oddviti Reykhólahrepps, segir í samtali við blaðamann mbl.is að sveitarstjórnin hafi ekki myndað sér skoðun á hvaða veglína verði fyrir valinu, það gerist ekki fyrr en aðalskipulaginu verði breytt.

„Við erum búin að vera að safna að okk­ur upp­lýs­ing­um síðustu mánuði og erum að tala við alla aðila sem koma að þessu máli. Við höf­um ráðið mann sem held­ur utan um þess­ar upp­lýs­ing­ar. Við reyn­um að vinna þetta eins vel og við get­um svo við get­um rök­stutt þá ákvörðun sem við tök­um,“ segir Vilberg.

smari@bb.is

Mikill gönguáhugi

Á Kofra. Mynd: Einar Skúlason

Góð þátttaka hefur verið í skipulagðar göngur Ferðafélags Ísfirðinga í sumar. Um síðustu helgi gengu tæplega 30 manns frá Flæðareyri yfir í Grunnavík undir leiðsögn hins glögga og fróða Smára Haraldssonar.

Mynd: Ó. Smári Kristinsson
Staður í Grunnavík. Mynd. Ó. Smári Kristinsson

Næsta laugardag á svo að ganga úr Hjarðardal í Dýrafirði um Mjódal inn af Bjarnadal og að Kirkjubóli í Bjarnadal í Önundarfirði. Fararstjóri í þeirri göngu er Emil Ingi Emilsson.

Um Verslunarmannahelgina var árleg gönguhátíð í Súðavík og að sögn göngustjóra hátíðarinnar var gríðargóð þátttaka eða um 400 manns sem mættu í viðburðina en um 130 sem tóku þátt í göngum. Það voru fjölbreyttar göngur í boði þá helgina, frá Skötufirði og í Heydal í Mjóafirði, Sauratindar-Skák-Sauradalur, Seljalandsdalur-Þjófaskörð-Syðridalur og að venju var gengið á Kofra.

Feðginin Gyða og Barði. Mynd: Einar Skúlason
Guðbjartur með Álftafjarðarbotn í baksýn. Mynd: Einar Skúlason

Nálgast má allar upplýsingar um ferðir Ferðafélags Ísfirðinga á Facebook síðu þess.

bryndis@bb.is

Laun sauðfjárbænda lækki um helming

Ef fram fer sem horfir lækka laun sauðfjárbænda um 56 prósent milli ára og nánst öll sauðfjárbú á landinu verða rekin með tapi. Þetta kemur fram í bréfi Oddnýjar Steinunnar Valsdóttur, formanns Landssamtaka sauðfjárbæna, til alþingismanna. Í bréfinu vísar hún til útreikninga sem Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarains vann fyrir samtökin.

Samkvæmt úttektinni þýðir boðuð lækkun afurðaverðs um 35% að framlegð af meðalkind lækki um 4.130 kr. frá því sem var í fyrra. Afkoma greinarinnar í heild fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta verði neikvæð um 1.463 milljónir kr. á þessu ári, en var jákvæð um 531 milljón í fyrra. Það þýðir að afkoman versnar um tæpa tvo milljarða.

Í lok bréfsins segir: „Ástæður þessarar miklu yfirvofandi lækkunar á afurðaverði til sauðfjárbænda tengjast þannig ekki með beinum hætti nýgerðum búvörusamningum og helgast að mestu af einstaklega óhagstæðum ytri aðstæðum sem bændur ráða ekki við. Þessi forsendubrestur mun koma harðast niður á þeim sveitum þar sem sauðfjárrækt er hryggjastykkið í atvinnulífi og byggðafestu. Afleiðingarnar gætu orðið fjöldagjaldþrot til sveita með tilheyrandi byggðaröskun. Þessi staða er grafalvarleg eins og bændur hafa ítrekað bent á. Margra mánaða viðræður við stjórnvöld hafa hins vegar litlu skilað. Landssamtök sauðfjárbænda telja því einsýnt að bændur og Alþingi taki höndum saman og bregðist við þessum bráðavanda án tafar.“

smari@bb.is

Fjölbreyttur nemendahópur tíunda árið í röð

Hluti nemenda, kennara og starfsfólks íslenskunámskeiðanna samankominn í portinu á Vestrahúsinu þar sem Háskólasetrið er til húsa.

Íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða fyrir útlendinga standa nú yfir og eru þátttakendur í ár hátt í 70 talsins. Þetta er tíunda árið í röð sem Háskólasetrið býður upp á slík námskeið og eru þau fyrir löngu orðin rótgróinn liður í starfsemi setursins.

Boðið er upp á þrjú byrjendanámskeið, tvö á Núpi í Dýrafirði og eitt á Ísafirði auk nokkurra námskeiða fyrir lengra komna, en þau námskeið fara einungis fram á Ísafirði. Nemendahópurinn er fjölbreyttur, skiptinemar og nemendur sem eru að hefja fullt nám við háskóla á Íslandi eru áberandi en einnig eru einstaklingar sem hafa brennandi áhuga á íslensku og Íslandi og koma gagngert á námskeið til að viðhalda kunnáttu og þekkingu sinni á landi, þjóð og íslenskri tungu.

Námskeiðin eru byggð upp með hefðbundinni bekkjarkennslu á morgnana en eftir hádegið er kennslan brotin upp með valnámskeiðum þar sem boðið er upp á margt skrýtið og skemmtilegt s.s. kórsöng, búðarrall, rímnahefð og íslensk blótsyrði. Lögð er áhersla á að nemendur kynnist íslensku samfélagi og læri að bjarga sér á tungumálinu.

Síðasti kennsludagur námskeiðanna er á föstudaginn og þá halda erlendu nemendurnir hver í sína áttina, ýmist heim á leið eða í frekar nám á Íslandi.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir