Síða 2180

Guðbrandur á Bassastöðum sigraði hrútaþuklið

Sigurvegarar í flokki vanra þuklara.

Hið árlega Íslandsmót í hrútadómum fór fram á Sævangi í Steingrímsfirði um helgina. Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum var hlutskarpastur hrútaþuklara. Í öðru sæti í flokki vanra þuklara varð Árný Huld Haraldsdóttir á Bakka í Geiradal og í þriðja sæti varð Ragnar Bragason á Heydalsá.
Í óvana flokknum sigraði borgarbarnið Jón Kristófer Fasth. Í öðru sæti varð Sigríður Övarsdóttir og í þriðja sæti varð Elín Þóra Stefánsdóttir í Bolungarvík.

Vinninga í hrútaþuklinu gáfu Sauðfjársæðingastöð Vesturlands, Hótel Djúpavík, Hólmadrangur, Bleksmiðjan (sem gaf sigurvegara í flokki vanra inneign í húðflúr) Norðursalt, Skógrækt ríkisins (sem gaf trjáplöntur), Matthías Lýðsson, Klúkubúið, Sauðfjársetur á Ströndum og Náttúrubarnaskólinn.

Sauðfé verði fækkað um fimmtung

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Stefnt er að því að fækka sauðfé um allt að 20% hér á landi til lengri tíma í því skyni að draga úr framleiðslu á lambakjöti. Þetta kemur fram í hugmyndum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þess að leysa vanda sauðfjárbænda, en þær voru kynntar atvinnuveganefnd Alþingis í dag. Ráðherra sagði samtali við fréttastofu RÚV að leysa þurfi vanda sauðfjárbænda með langtímaaðgerðum til að koma í veg fyrir að þetta verði endurtekið efni. Það verði meðal annars gert með uppkaupum ríkisins á ærgildum til þess að fækka fé og draga úr framleiðslu.

Sauðfjárbændur sjá fram á verulegan tekjumissi í haust eftir að afurðastöðvar boðuðu þriðjungs lækkun á afurðaverði sem kemur ofan í 10 prósenta lækkun í fyrra.

Landssamtök sauðfjárbænda meta samanlagðan tekjumissi bænda í ár og í fyrra upp á 2,4 milljarða kr.

Ferðamenn eru helsta ógnin

Refaljósmyndarar í Hornvík.

Óheft ferðamennska er helsta ógn Hornstrandafriðlandsins. Þetta segir Jón Smári Jónsson, landvörður Umhverfisstofnunar í friðlandinu á Hornströndum. Ítarlegt viðtal er við hann á vef Umhverfisstofnunar. Þrátt fyrir að Umhverfisstofnun beri ábyrgð á friðlandinu leggur hann áherslu á að stofnunin geri ein og sér ekki allt og mikilvægt sé að ná sátt og samstöðu við aðra aðila.

„Hornstrandir eru stórt svæði, landverðir „týnast“ auðveldlega inni á þessum 600 ferkílómetrum og þótt við leggjum mikla áherslu á að eiga gott samtal við landeigendur og Ísafjarðarbæ sem fer með skipulagsvald svæðisins þá þarf að nást sátt með þeim sem nýta svæðin, til dæmis ferðaþjónustunni, en nýting getur aldrei verið ofar í forgangsröðunni en þau verndargildi sem lagt er upp með. Ef maður horfir til þeirra gesta sem sækja svæðið þá eru ferðamenn í raun helsta ógnin,“ segir Jón Smári og tiltekur bæði sjónrænan ágang stórra hópa sem og álag á lífríkið.

„Þarna er mjög viðkvæmt lífríki, refurinn er friðaður og okkur Íslendingum ber skylda að vernda dýrastofna sem hér eru stórt hlutfall af heimsstofni. Skandínavíski refurinn er í útrýmingarhættu fyrir utan Svalbarða og Ísland hýsir um 90% heildarstofnsins. Þegar eitt land býr yfir svo háu hlutfalli stofns ber því að sjá refnum fyrir griðlandi og Hornstandir eru mikilvægur hluti þess. Óheft ferðamennska getur í þessu tilliti verið mikil ógn, ekki síst ef gestir eru að koma á fengi- eða grenjatíma refsins.“

Hann dendir á að aukningu ljósmyndaferða til Hornstranda til að mynda refinn. „Jafnvel til að mynda yrðlinga. Það hugnast okkur ekki, enda stangast svoleiðis ferðir við á við lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þar sem segir að óþarfa umgangur sé óheimill við greni.  Það er á gráu svæði að selja svona ferðir,“ segir Jón Smári sem leggur þó áherslu á að langflestir ferðamenn hegði sér yfirleitt vel og almenn umgengni sé að hans mati á mikilli uppleið.

Réttað fjórðu helgina í september

Fyrri leitir í Ísafjarðarbæ verða dagana helgina 23. – 24. september og seinni leitir helgina 7. -8. október 2017. Fjallskilanefnd Ísafjarðarbæjar mælist til að fé úr seinni leitum verði ekki sleppt í haga fyrr en eftir 15. október. Fjallskilanefnd hefur ákveðið réttardaga árið 2018 og verða fyrr leitir helgina 22. – 23. september og seinni leitir 6. – 7. október.

Fá skuldir ekki niðurfelldar

Birnir ehf. er stærsti eigandi rækjuverksmiðjunnar Kampa.

Samkomulag náðist ekki á milli Byggðastofnunar og Birnis ehf. í Bolungarvík um niðurfellingu skulda félagsins við stofnunina. Héraðsdómur Norðurlands vestra komst að þessari niðurstöðu í lok maí en dómurinn var birtur í gær. Deilan varðaði kaup Birnis á aflaheimildum í úthafsrækju árið 2010. Skömmu eftir kaupin voru veiðar á útafsrækju gerðar frjálsar og urðu aflaheimildirnar því verðlausar. Forsvarsmenn Birnis töldu að í kjölfarið hefði náðst samkomulag um að skuld félagsins við Byggðastofnun hefði verið færð niður um 81 milljón en stofnunin neitaði því. Framburður vitna var á mismunandi vegu. Taldi dómurinn að Birni hefði ekki tekist að sanna að munnlegt samkomulag hefði náðst. Var kröfu um greiðslu upp á 81 milljón því hafnað.

Stofnanaofbeldi

Kristinn Bergsveinsson

Aðalskipulag Reykhólahrepps, áður svæðisskipulag, hefur verið í fullu gildi frá árinu 1998. Vegagerðin lét gera umhverfismat á fimm leiðum. Niðurstaðan var að sú leið sem valin var væri best fyrir öryggi vegfarenda og ódýrust, hvort tveggja eru atriði sem lög um samgöngur leggja mikla áherslu. Varðandi snjómokstur og hálkuvarnir lofar Vegagerðin að áfram verði þjónusta á leiðinni Djúpidalur-Gufudalur, auk tengivega. Vegagerðin og margir ráðandi aðilar hafa margsinnis lýst því yfir að jarðgangaleið komi ekki til greina, engar rannsóknir hafa verið gerðar í þá átt.

Í desember sl. eftir að umhverfismatsferli var lokið taldi vegamálastjóri að stutt væri í að sótt væri um framkvæmdaleyfi og verkið boðið út. Skipulagsstofnun skila ekki neikvæðri umsögn sinni fyrr en á vordögum. Sú neitun hafði ekkert gildi og lýsti vegamálastjóri yfir að sótt yrði um framkvæmdaleyfi til Reykhólahrepps. En Adam var ekki lengi í paradís. Forstjóri Skipulagsstofnunar kom fram hvað eftir annað í útvarpi og á ruv.is með áróður gegn ákvörðun Vegagerðarinnar og fullyrti að gera þyrfti nýtt aðalskipulag og deiliskipulag án nokkurra raka.

Skipulagsstofnun neitaði að samþykkja aðalskipulag fyrir 10 árum, það var kært og ráðherra staðfesti skipulagið. Síðan hefur stofnunin staðið vörð gegn vegabótum á svæðinu og reynt allt mögulegt til að tefja og koma í veg fyrir að farið sé að lögum. Slík hegðun kallar á nýtt orð og það er stofnanaofbeldi.

Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal

Teigsskógur: Skýrist seinnipart 2018

Séð út með Þorskafirði.

 

Tafir á vegagerð í Gufudalssveit voru á dagskrá fundar umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis fyrir helgi. „Það var farið yfir stöðuna og hvenær mætti vænta þess að eitthvað færi að hreyfast þarna,“ sagði Valgerður Gunnarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, í samtali við blaðamann Morgunblaðsins. Í viðtalinu segir hún að fram hefði komið á fundinum að Vegagerðin gerði ráð fyrir að það gæti legið fyrir seinnipart næsta árs hvort og þá hvenær yrði hægt að hefja framkvæmdir. „Það sem helst er athugavert, að mínu mati, er þessi gríðarmikla töf. Vestfirðingar eru ekki öfundsverðir af vegakerfi sínu. Við erum öll sammála um að eitthvað verði að fara að gerast í þessum málum,“ sagði Valgerður.

Gæsaveiðin hafin

Fuglaveiðimenn tóku gleði sína í gær þegar gæsaveiðitímabilið hófst. Heimilt er að veiða grágæsir og heiðargæsir og 1. september hefst veiðitímabil anda.

Umhverfisstofnun minnir veiðimenn á að óheimilt er að skjóta fugla í sárum og ófleyga fugla. Í upphafi veiðitímabilsins má búast við að rekast á ófleyga unga, sérstaklega á svæðum þar sem varp hefur farið seint af stað. Einnig er ástæða til að minna sérstaklega á alfriðun blesgæsarinnar en hún hefur verið friðuð síðan 2006. Þá mega veiðar á helsingja í Austur– og Vestur–Skaftafellssýslum ekki hefjast fyrr en 25. september.

Hrun í útflutningstekjum sjávarútvegs

Verðmæti út­fluttra sjáv­ar­af­urða hrundi á fyrri helm­ingi árs­ins 2017 miðað við sama tíma í fyrra. Nam verðmætið 21,9 pró­sent lægra en árið á und­an en mest­ur var sam­drátt­ur­inn í út­flutn­ingi á fersk­um fiski og fryst­um flök­um. Hag­stofa Íslands ­birti fyrir helgi yf­ir­lit yfir vöru­skipti við út­lönd á fyrri helm­ingi árs­ins. Sjáv­ar­af­urðir voru rúm­lega þriðjung­ur alls út­flutn­ings, eða 38 pró­sent.

Fallbarátta framundan

Mynd úr safni.

Framundan er hörð fallbarátta hjá Vestra eftir niðurlægjandi tap fyrir Sindra á Torfnesvelli á laugardaginn. Sindri hefur setið í botnsæti 2. deildarinnar í nærri því allt sumar og ekki unnið leik, þangað til liðið kom vestur til Ísafjarðar. Akil De Freitas skoraði fyrsta mark Hornfirðinganna á 17. mínútu og bætti við öðru stutt eftir leikhlé (mín. 47). Mate Paponja bætti við þriðja marki gestanna á 71. mínútu og til að bíta höfuðið af skömminni misnotuðu Vestramenn víti undir lok leiks.

Vestri er í níunda sæti deildarinnar með 20 stig og einungis þrjú stig niður í fallsæti.

Nýjustu fréttir