Þriðjudagur 18. mars 2025
Síða 2177

Óbreyttir stýrivextir

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum verða því 4,5% áfram.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu nefndarinnar sem birtist rétt í þessu:

„Útlit er fyrir að hagvöxtur í ár verði hraður eins og á síðasta ári en nokkru hægari en spáð var í maíhefti Peningamála. Hagvöxturinn er einkum drifinn af vexti ferðaþjónustu og einkaneyslu auk þess sem útlit er fyrir slökun í aðhaldi opinberra fjármála í ár,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

„Verðbólga var lítillega minni á öðrum fjórðungi ársins en spáð var í maí. Hún mældist 1,8% í júlí og hafði aukist úr 1,5% í júní. Undirliggjandi verðbólga virðist hins vegar hafa haldið áfram að minnka. Gengi krónunnar hefur lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar en það er þó enn tæplega 8% hærra en á sama tíma í fyrra.

Gagnstæðir kraftar hafa sem fyrr áhrif á verðbólguhorfur, þar sem hækkun gengis krónunnar undanfarið ár og lítil alþjóðleg verðbólga vega á móti verðbólguþrýstingi af innlendum rótum. Hefur bilið á milli verðþróunar innlendra þátta, einkum húsnæðiskostnaðar, og erlendra þátta haldið áfram að aukast síðustu mánuði, sem eykur óvissu um verðbólguhorfur til næsta árs.

Frá síðasta fundi peningastefnunefndar hafa skammtíma verðbólguvæntingar hækkað lítillega sem líklega endurspeglar að hluta áhrif lækkunar á gengi krónunnar að undanförnu. Verðbólguvæntingar til langs tíma hafa hins vegar lítið breyst sé miðað við nýlega könnun Seðlabankans á verðbólguvæntingum markaðsaðila. Lengri tíma verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur þó hækkað undanfarna daga en það sem af er þessum ársfjórðungi er það í ágætu samræmi við verðbólgumarkmið bankans.

Spenna í þjóðarbúskapnum kallar á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma. Hræringar hafa verið á gjaldeyrismarkaði og vísbendingar eru um að breytingar gætu verið framundan í utanríkisviðskiptum og á húsnæðismarkaði. Of snemmt er að fullyrða um umfang og afleiðingar þeirra.

Raunvextir bankans hafa lækkað lítillega frá síðasta fundi nefndarinnar en virðast við núverandi aðstæður samrýmast því sem þarf til að verðbólga verði að jafnaði við markmið. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.“

smari@bb.is

Margréti og Sigurlaugi er þakkað

Sigurlaugur Baldursson og Margrét Rakel Hauksdóttir

Björgunarfélag Ísafjarðar afhenti á dögunum þeim hjónum Margréti Rakel Hauksdóttur og Sigurlaugi Baldurssyni þakkarskjöld og risaneyðarkall fyrir stuðning og aðstoð sem þau hafa veitt Björgunarfélaginu. Margrét og Sigurlaug reka kranaþjónustuna Laugi ehf og Bílaverkstæði SB ehf og hafa verið ósínk á tæki, tól og tíma þegar Björgunarfélagið þarf á að halda og segir Teitur Magnússon björgunarfélagsmaður að félagið reyni eftir fremsta megni að þakka fyrir það sem þeim er gefið, hvort sem um er að ræða vinnuframlag eða peningagjafir.

„Þau hafa í fjölda ára, lagt okkur til kranabíla og körfubíla hvort sem við þurfum á því að halda í fjáröflunum eða útköllum. Svo reka þau Bílaverkstæði sem við þurfum oft á að halda og þau eru boðin og búin að lána okkur aðstöðu til viðgerðar.Við létum útbúa þennan skjöld í tengslum við byggingu æfingaturnsins en án þeirra aðstoðar værum við sennilega enn á byrjunarreit byggingarinnar.“ bætir Teitur við.

bryndis@bb.is

 

Íslenskt lambakjöt

Matvælastofnun hefur borist umsókn frá markaðsráði kindakjöts í Reykjavík þar sem sótt er um vernd fyrir afurðarheitið „íslenskt lambakjöt“ (e. „Icelandic Lamb“). Um er að ræða umsókn um vernd afurðarheitis skv. lögum nr. 130/2014 um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

Sótt er um vernd sem vísar til uppruna sbr. 4.gr. laga nr. 130/2014. Skv. 2. mgr. 15.gr. sömu laga er heimilt að andmæla þessu afurðarheiti og afurðarlýsingu áður en endanleg ákvörðun er tekin um skráningu.

Andmælum skal skilað skriflega til Matvælastofnunar á netfangið mast@mast.is.

bryndis@bb.is

Plastlaus september

Plast safnast saman í náttúrunni þar sem það brotnar hægt niður .

Plastlaus september er árvekniátak, sem hefst þann 1. september 2017. Tilgangur verkefnisins er að vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun og þann plastúrgang sem fellur til dagsdaglega og leita leiða til að minnka plastnotkun. Gríðarlegt magn af einnota plasti endar í landfyllingum og í hafinu sem er mikið áhyggjuefni. Allt plast sem hefur verið framleitt er enn til, það brotnar niður í smærri einingar en eyðist ekki.

Plast er eingöngu hægt að endurvinna í annað plast af lélegri gæðum. Allt plast sem við notum og fer ekki til endurvinnslu, safnast fyrir á urðunarstöðum eða í náttúrunni og veldur þar skaða um ókomna tíð.  Plast endar allt of oft í náttúrunni, og þá sérstaklega í ám, vötnum og sjó. Plast dregur til sín ýmis mengunarefni og þegar það endar í vef lífvera geta efnin þar með endað í fæðu okkar. Mjúkplast inniheldur stundum hormónaraskandi efni (t.d. þalöt) sem eru skaðleg mannfólki.

Plastlaus september hvetur til minni kaupa á einnota plasti í september, hægt er að skrá þátttöku sína á vef átaksins og velja hvort taka skuli þátt í einn dag, eina viku, heilan mánuð eða til frambúðar.

Á vef átaksins er verkefnalisti með leiðbeiningum.

Það eru sjö konur sem standa að verkefninu, þær eru með ólíkan bakgrunn, menntun og reynslu en fyrirmynd átaksins kemur frá Ástralíu en þar var plastlaus júlí.

bryndis@bb.is

Glæsileg fjallahjólabraut

Áhugasamir og ofurhugaðir fjallareiðhjólakappar hafa í síðan í fyrrasumar unnið að gerð fjallahjólabrautar á hálsinum milli Dagverðardals og Tungudals. Að sögn Ólivers Hilmarssonar fjallahjólakappa voru fyrir pallar sem settir voru upp fyrir nokkrum árum en nú hefur fleirum verið bætt við og stígurinn stikaður. „Þetta er skemmtilegur 7 km stígur sem við erum smátt og smátt að endurbæta, þarna er hægt að setja upp fjallahjólakeppni og við stefnum á að gera það.“  Segir Óliver.

Á facebook síðu brautarinnar má sjá nokkur myndbönd sem virka ansi áhættusöm.

bryndis@bb.is

Enn er boðað vatnsleysi

Bæjarbúar á Ísafirði eru orðnir langþreyttir á ítrekuðu vatnsleysi í sumar og í gær þegar það virðist hafa verið vatnslaust í 5 –  6 klukkutíma var mörgum nóg boðið. „Hér er ekki hægt að sinna gestum og bjóða upp á mat“ sagði afar ósáttur veitingamaður í gær. Ísafjarðarbær hafði auglýst vatnsleysi frá kl. 15:00 og í hámark 2 klukkustundir en kl. 18:00 voru veitingahús ennþá vatnslaus.

Nú er á facebook síðu bæjarins þessi tilkynning

Vegna viðgerða þarf að taka vatn af efri bænum á Ísafirði og öllum Hnífsdal klukkan 22 í kvöld og fram á nótt. Nokkur hús munu sleppa við vatnstruflanir, en almennt mun verða vatnslaust á Engjavegi, Seljalandsvegi, Hjallavegi, Hlíðarvegi, Urðarvegi, Miðtúni, Sætúni, Stakkanesi og í öllum götum í Hnífsdal. Þá verða vatnstruflanir á Hlíf, Sólborg, Menntaskólanum, Orkubúinu og í íþróttahúsinu á Torfnesi.

Í gær varð óvænt vatnsleysi víða á Eyrinni á Ísafirði í á aðra klukkustund. Hreinn og klár misskilningur olli því óþarfa vatnsleysi og er beðist velvirðingar á þessum mistökum.
Tíðar vatnstruflanir í sumar eru eðlilega farnar að hafa áhrif á skap íbúa, en nú hlýtur að fara að sjá fyrir endann á þeim. Í sumum tilfellum hafa þær verið óhjákvæmilegar, en ofan á hefur bæst alls konar óheppni og í einhverjum tilfellum klaufaskapur sem hefur bætt gráu ofan á svart.

 Marzellíus Sveinbjörnsson bæjarfulltrúi slær á létta strengi á facebook síðu sinni og eggjar bæjaryfirvöld til að teikna upp allar lagnir og skrá hnit á brunnum, svo ekki þurfi að slá upp miðilsfundi í hvert sinn sem lagnir bila og bera við misskilningi og óheppni þegar íbúar fá ekki vatn.

bryndis@bb.is

Hvalur í hverri ferð

Hnúfubakurinn hefur verið í liði með ferðaþjónustufyrirtækinu Amazing Westfjords í sumar og skemmt gestum í hverri einustu ferð. Ragnar Ágúst Kristinsson eigandi og stofnandi fyrirtækisins er mjög ánægður með þetta fyrsta sumar á Ölveri ÍS 38 og stefnir á að vera með norðurljósaferðir þegar fer að dimma fyrir alvöru.

„Við vorum með daglegar ferðir í júli og framan af í ágúst en nú er farið að síga á seinnihlutann og við söfnum saman í ferðir í ágúst og september† segir Ragnar og er spenntur fyrir framhaldinu og býst við góðum viðtökum næsta sumar.

Það eru tveir í áhöfn Ölvers og pláss fyrir allt að 34 farþega. Ferðirnar sem þeir hafa farið sumar eru þrjár til fjórar klukkustundir og gestir jafnt íslenskir sem erlendir.

Myndbandið sem fylgir fréttinni er tekið af Ragnari Hanssyni í einni af ferðum Ölvers í sumar. Tónlistin er eftir Billiantinus.

bryndis@bb.is

 

Dópaður og án ökuréttinda í hraðakstri

Einn ökumaður var kærður í liðinni viku fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Sá hafði verið stöðvaður við umferðareftirlit á Vestfjarðarvegi, í Arnkötludal. Lögreglan hafði auk þess mælt hraða bifreiðarinnar yfir hámarkshraða. Þá kom í ljós að ökumaðurinn hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Við leit í bifreið mannsins fundust kannabisefni sem voru haldlögð.

Alls voru 26 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum,

Lögreglunni bárust alls þrjár tilkynningar um að ekið hafi verið á búfé í umdæminu nýliðna viku. Atvikin urðu við Arnarnes, í Hestfirði og Álftafirði.

Skráningarplötur voru teknar af þremur ökutækjum í Bolungarvík. En viðkomandi ökutæki höfðu ekki verið færð til lögbundinnar skoðunar. Bifreiðaeigendur eru hvattir til að sinna þessum þætti í tíma svo ekki komi til gjalds og eða þess óhagræðis að ökutæki séu tekin úr umferð með þessum hætti.

Tilkynnt var um 6 umferðaróhöpp í liðinni viku. Í tveimur tilvikum var um bílveltu að ræða. Slys á ökumönnum og farþegum urðu ekki alvarleg í þessum tilvikum en tjón á ökutækjum töluvert.

Í vikunni lagði lögreglan hald á eitt skotvopn og skotfæri. Umráðamaður þessa hafði farið óvarlega með vopnið og varsla þessara hluta ekki lögum samkvæmt.

30 metrar í gangagröft

Í lok síðustu viku voru 30 metrar í að hinn eiginlega gangagröftur Dýrafjarðarganga hæfist. Nýja steypustöðin er komin í gang og flutningur á sementi og fylliefnum hafinn. Vinna við geymslur og verkstæði gengur vel, þar er búið að steypa gólf og verið að leggja dúk yfir stálgrindur. Uppmokstur úr forskeringunni er notaður til að stækka palla.

bryndis@bb.is

Smábátaeigendur kalla eftir meiri línuívilnun

Frá Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Landsamband smábátaeigenda ályktaði á fundi sínum í síðasta mánuði um auknar línuívilnanir til handa smábátum undir 30 brúttótonn. Á vef samtakanna kemur fram að línuveiðar séu umhverfisvænar og að ívilnun ætti að vera bundin við stærð báta en ekki hvort línunni sé beitt eða meðhöndluð í landi.

Eftirfarandi samþykkt var birt á vef samtakanna í gær:

 Stjórn LS ítrekar fyrri ályktanir um línuívilnun fyrir alla dagróðrabáta minni en 30 brúttótonn.

 Línuveiðar dagróðrabáta eru afar umhverfisvænar og skila fiski í hæsta gæðaflokki til áframhaldandi meðhöndlunar í landi.  

 Auknar línuveiðar auka þannig gott orðspor íslensks sjávarútvegsí umgengni um náttúruna og ferskleika aflans.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir