Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 2177

Þokubakkar

Það er þokuloft yfir Ísafjarðarbæ en veðurspámenn segja að í dag verði hæg breytileg átt og bjartviðri, en sums staðar þokubakkar í nótt. Hiti 10 til 16 stig að deginum.

Á landinu öllu er firleitt hægur vindur og skýjað með köflum, en sums staðar þokuloft við ströndina. SA 5-13 seinnipartinn á morgun, hvassast við V-ströndina, og fer að rigna þar undir kvöld. Hiti 8 til 18 stig að deginum, hlýjast í innsveitum.

bryndis@bb.is

Dísa leitar að sandi í Fossfirði

Orkustofnun hefur veitt Björgun ehf. í Reykjavík, leyfi til ársloka til tilraunatöku á möl og sandi af hafsbotni, þ.e. á svæði út af mynni Fossár í botni Fossfjarðar við Arnarfjörð. Leyfið tekur til tilraunatöku með sanddæluskipi á allt að 300 rúmmetrum af möl og sandi, þ.e. til töku sex sýna, allt að 50 rúmmetrum hvert sýni.

Í leyfinu kemur fram að vegna framkvæmda við Dýrafjarðargöng, auk annarra fyrirhugaðra verkefna á Vestfjörðum, leitar Björgun ehf. að möl og sandi sem uppfyllir efniseiginleika til notkunar í steinsteypu og fyllingar.. Með tilraunatökunni á að afla sýna til að rannsaka efniseiginleika malar og sands í botni Fossfjarðar, með tilliti til notkunarkrafna í Dýrafjarðargöngum.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framangreindrar tilraunatöku, er það niðurstaða stofnunarinnar að tilraunataka á möl og sandi af hafsbotni í Fossfirði við Arnarfjörð sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Fyrir liggur áætlun um tilraunatöku á sex sýnum, en á þeim verða gerðar ýmsar greiningar og steypuprófanir á viðurkenndum rannsóknastofum. Orkustofnun hefur einnig farið yfir áhrif tilraunatöku á nýtingu og aðra starfsemi í nágrenni tilraunatökusvæðis, s.s. hlunninda af æðarvarpi, fiskeldis í sjókvíum, kræklingaræktar, beltisþararæktunar, leyfissvæðis til töku kalkþörungasets og neðansjávarlagna. Vegna hlunninda af æðarvarpi taldi Orkustofnun nauðsynlegt að leyfið tæki ekki gildi fyrr en 15. júlí 2017.

Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vesturbyggðar.

 

smari@bb.is

Háafell segir sig úr úr Landssambandi fiskeldisstöðva

Kristján G. Jóakimsson

Háafell ehf., dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf., hefur sagt sig úr Landssambandi fiskeldisstöðva (LF). Ástæða úrsagnarinnar er nýbirt skýrsla starfshóps um stefnumótun í fiskeldi þar sem lagt er til að áhættumat Hafrannsóknastofnunar verði leiðbeinandi í skipulagngingu á fiskeldi á Íslandi. Í áhættumatinu er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi þar sem Háafell hefur áformað 7.000 tonna laxeldi frá því 2011. Í yfirlýsingu á vefsíðu HG segir að fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva hafi athugasemdalaust skrifað undir skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi þar sem áform um uppbyggingu laxeldis í Ísafjarðardjúpi eru slegin út af borðinu.

Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri Háafells, hefur setið í stjórn LF. Í yfirlýsingunni segir að Háafell hafði samþykkt í stjórn LF að skrifað yrði undir stefnumótunarskýrsluna með því skilyrði að lögð yrði fram bókun þar sem athugasemdir fyrirtækisins kæmu fram. Athugasemdirnar lúta m.a. að mótvægisaðgerðum vegna erfðablöndunar, að tekið verði tillit til samfélagslegra, efnahagslegrar og byggðalegrar þýðingar í stefnumótunarskýrslunni. „Fyrir því var vilji innan stjórnar LF en á ögurstundu þegar skrifa átti undir dró LF bókun sína til baka og var skrifað undir athugasemdalaust. LF eru sameiginleg hagsmunasamtök fiskeldisfyrirtækja á Íslandi sem hafa með þeirri ákvörðun sinni  að skrifa undir skýrsluna án athugasemda, sýnt að þau starfi ekki í þágu allra aðildarfélaga sinna. Þegar ákvarðanir og vinnubrögð LF ganga í berhögg við stefnu, sýn og hagsmuni aðildarfélags er vandséð að þau eigi samleið mikið lengur. Eftir mikla ígrundun er það því niðurstaða Háafells að segja sig frá samstarfi við LF.“

Í yfirlýsingunni er eftirfarandi haft eftir Kristjáni:

„Það er augljóst að með þessu er ekkert tillit tekið til þeirrar vönduðu og miklu vinnu sem við höfum lagt í á undanförnum árum. Því síður eru hagsmunir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum nokkurs metnir. Og það er í raun sorglegt að fólk sem vill bjarga sér sjálft sé svipt þeim möguleika, svo aðrir geti skarað eld að eigin köku.“

Laxeldi í Djúpinu verði bannað

Eldislaxinn er drjúg tekjulind fyrir ríkissjóð.

Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi leggur til að áhættumat Hafrannsóknastofnunar verði grunnur að útgáfu rekstrarleyfa í fiskeldi og heimiluðu framleiðslumagni á frjóum fiski. Í áhættumatinu, sem var birt fyrr í sumar, er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Skýrsla starfshópsins var gerð opinber í dag og þar er lagt til að áhættumat Hafrannsóknastnunar verði bundið í lög. Starfshópurinn leggur einnig til að gefin verði út reglugerð sem kveður á um skyldu til notkunar ófrjórra laxa í sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi, en slíkt eldi er enn sem komið er óraunhæft vegna mikils framleiðslukostnaðar.

Lagt er til að þeir sem ala fisk í sjókvíum greiði auðlindagjald, allt að 15 krónur á hvert framleitt kíló af eldislaxi í sjó. Þá segir að auðlindagjald gæti skilað rúmlega einum milljarði króna ef framleitt magn af frjóum laxi fer yfir 67.000 tonn. Stærstur hluti auðlindagjalds eigi að renna til uppbygginga innviða á þeim landsvæðum sem nýtast við eflingu sjókvíaeldis.

Vel heppnað sumarnámskeið Vestra

Mynd af vef Vestra

Það var mikil stemming á seinna sumarnámskeiði Kkd. Vestra sem fram fór á Torfnesi í síðustu viku en fyrra námskeiðið var haldið í byrjun júlí. Námskeiðin voru ætluð krökkum á leið í 1.-4. bekk og voru hátt í 20 krakkar skráðir til leiks á seinna námskeiðið

Yngvi Páll Gunnlaugsson, yfirþjálfari, stýrði æfingum og var hann afar sáttur við frammistöðu síns fólks. Flestir í hópnum æfðu körfubolta með félaginu síðastliðinn vetur og eru nú vel undirbúnir fyrir æfingar á komandi tímabili. Yngvi grillaði fyrir krakkana í lok síðustu æfingarinnar á föstudag með dyggri aðstoð frá Rósu, starfsmanni íþróttahússins.

bryndis@bb.is

Færri en 30% styðja ríkisstjórnina

Stuðning­ur við rík­is­stjórn­ina mæld­ist 27,2% í nýrri könn­un MMR á fylgi stjórn­mála­flokk­anna. Í júlí var rík­is­stjórn­in með 34,1% fylgi. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn mæld­ist með mest fylgi ís­lenskra flokka eða 24,5% og dalar um 5% frá því í júlí. Vinstri græn eru næst stærsti flokkurinn með 20% fylgi og standa í stað milli kannana. Könn­un­in var gerð dag­ana 15. til 18. ág­úst 2017 og alls svörðu 955 ein­stak­ling­ar, 18 ára og eldri, könn­un­inni.

Fylgi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar mæld­ist nú 10,6% og mæld­ist 10,6% í síðustu könn­un.
Fylgi Fram­sókn­ar­flokks­ins mæld­ist nú 10,1% og mæld­ist 9,6% í síðustu könn­un.
Fylgi Flokk fólks­ins mæld­ist nú 6,7% og mæld­ist 6,1% í síðustu könn­un.
Fylgi Viðreisn­ar mæld­ist nú 6,0% og mæld­ist 4,7% í síðustu könn­un.
Fylgi Bjartr­ar framtíðar mæld­ist nú 3,6% og mæld­ist 2,4% í síðustu könn­un.
Fylgi annarra flokka mæld­ist 4,6% sam­an­lagt.

„Vestfirðir gagntóku mig“

Hluti nemenda, kennara og starfsfólks íslenskunámskeiðanna samankominn í portinu á Vestrahúsinu þar sem Háskólasetrið er til húsa.

Ellefu ár eru síðan íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða hófu göngu sína og eru þau löngu orðin rótgróinn liður í starfsemi Háskólasetursins og mannlífi Vestfjarða, einkum á síðsumrum. Á þessum áratug hafa hátt í þúsund nemendur sótt námskeiðin og nú í ágúst sátu tæplega sjötíu nemendur yfir íslenskubókunum, bæði á Ísafirði og á Núpi í Dýrafirði.

Á vef Háskólasetursins er ítarlegt viðtal við þau Inga Björn Guðnason, verkefnastjóra íslenskunámskeiðanna, Gísla Hvanndal, íslenskukennara, og Stéphanie Klebetsanis frá Sviss, nema á námskeiðinu. Hún var að koma vestur annað árið í röð, er þýðandi sem lifir og hrærist í tungumálum. móðurmálið er franska en hún talar einnig reiprennandi þýsku og ensku, smá í ítölsku og lærir nú íslensku af kappi.

Hún kolféll fyrir Íslandi eftir óvissuferð til Reykjavíkur 2015 og þegar heim var komið fór hún á stúfana og leitaði að íslenskunámskeiði og úr varð að hún fór á byrjendanámskeið Háskólasetursins í fyrra og í sumar sótti hún framhaldsnámskeið. „Vestfirðir gagntóku mig. Námskeiðið var vel skipulagt, það var krefjandi en einnig skemmtilegt. Og ég hitti ótrúlegt fólk sem ég hef haldið góðu sambandi við. Það gat því miður ekki komið aftur í ár en ég veit að viljinn var fyrir hendi. Íbúarnir hér eru almennt mjög vingjarnlegir og opnir og greinilega vanir erlendum nemendum og útlendingum. Þrátt fyrir smæð sína býður Ísafjörður upp á ótrúlegt úrval af menningarviðburðum. Maður þarf eiginlega að leggja hart að sér til að láta sér leiðast,“ segir Stéphanie í viðtalinu.

Fjölgun veiðidaga skilaði ekki auknum afla

Grásleppuvertíðinni lauk 14. ágúst þegar bátar í innanverðum Breiðafirði drógu upp.  Vertíðin var óvenjulöng að þessu sinni alls 46 samfelldir dagar sem hver bátur mátti vera að, en undanfarin fjögur ár hafa dagar verið 32. Fjölgun veiðidaga leiddi þó ekki til aukningar afla milli ára.  Alls veiddust  4.542 tonn af heilli grásleppu, sem jafngildir milli 8.600 og 8.700 tunnum af hrognum.  Veiðin á árinu 2016 skilaði 5.425 tonnum þannig að samdrátturinn varð um 16%.

Eftir að veiði á hvern dag hafði aukist 5 ár í röð, brá nú svo við að hún minnkaði um rúman þriðjung. Á vef Landssambands smábátaeigenda segir að fara þurfi allt aftur til vertíðarinnar 2012 til að finna lakari veiði á hvern úthaldsdag heldur en á síðustu vertíð.

Þátttaka í veiðunum var framar vonum, þar sem í upphafi vertíðar leit út fyrir að fáir ætluðu til veiða.  Helsta ástæða þess var óánægja með verð sem kaupendur buðu. Eftir samstillt átak veiðimanna tóku kaupendur við sér og verð hækkuðu.

Alls stunduðu 250 bátar grásleppuveiðar á síðustu vertíð sem eru 5 fleiri en á árinu 2016. Munar þar mestu um mikla fjölgun í innanverðum Breiðafirði, en á B-svæðinu öllu fjölgaði um 22 báta milli ára.

Veiði á vertíðinni var víðast hvar lakari en í fyrra. Mestu sveiflurnar voru á veiðisvæði D, sem eru Strandir og Húnaflói, þar náði veiðin ekki helming þess sem hún var í fyrra.  Í Breiðafirði jókst veiðin hins vegar um 82%.

Þungar áhyggjur af stöðu sauðfjárbænda á Vestfjörðum

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir þungum áhyggjum vegna verðlækkunar á afurðarverði til sauðfjárbænda. Í bókun bæjarráðs segir að sauðfjárbúskapur sé mikilvæg atvinnugrein í sveitarfélaginu svo og á Vestfjörðum öllum og að vestfirsk samfélög þoli ekki hinn umfangsmikla niðurskurð afurðarverðs án þess að þau skaðist efnahags- og félagslega.

Bæjarráð Vesturbyggð tekur heils hugar undir yfirlýsingu landssamtaka sauðfjárbænda frá 11. ágúst og treystir því að stjórnvöld muni grípa til allra mögulegra aðgerða til aðstoðar sauðfjárbændum og sveitarfélögum til að komast yfir þá erfiðleika sem nú blasa við.

Í yfirlýsingu Landssamtaka sauðfjárbænda segir að bændur horfa fram á þriðjungs lækkun á afurðaverði í haust, í kjölfar nærri 10% lækkunar á síðasta ári. Þessar lækkanir munu koma harkalega niður á sveitum landsins og landssamtökin benda á að þær bitna sérstaklega á yngri bændum. „Bændur hafa þegar lagt út í nánast allan kostnað við lambakjötsframleiðslu haustsins og lækkun á afurðaverði er því hrein og klár launalækkun. Þessi launalækkun er 1.800 milljónir króna fyrir stéttina í heild ef hún gengur eftir sem horfir og bætist þá við 600 milljónir sem bændur tóku á sig í fyrra,“ segir í yfirlýsingunni.

smari@bb.is

Njótið veðursins

Veður­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands mæl­ir með því að fólk sunn­an- og vest­an­til á land­inu reyni að njóta veðurs­ins sem í boði er þar sem á föstu­dag og yfir helg­ina breyt­ist veðrið tals­vert mikið með suðaust­lægri átt og rign­ingu – fyrst og fremst sunnan- og vestanlands, en væta ætti einnig að ná til Vestfjarða um helgina.

„Á meðan verður yf­ir­leitt þurrt á Norðaust­ur­landi og ágætt veður þar. Síðan er út­lit fyr­ir að það snú­ist til norðlægr­ar átt­ar og fari að rigna fyr­ir norðan og þá kóln­ar nokkuð hratt,“ seg­ir í hug­leiðing­um veður­fræðings á vef Veður­stofu Íslands.

Veður­horf­ur næstu daga

Breyti­leg átt 3-8, en aust­an 5-10 m/​s allra syðst. Yf­ir­leitt létt­skýjað eða bjartviðri, en víða þoku­loft við strönd­ina norðan- og aust­an­lands fram eft­ir degi. Hiti 8 til 19 stig að deg­in­um, hlýj­ast í upp­sveit­um SV-til.

Á fimmtu­dag:
Aust­an 5-10 m/​s með suður­strönd­inni, ann­ars hæg breyti­leg átt. Sums staðar skýjað við sjáv­ar­síðuna, en ann­ars létt­skýjað. Hiti 8 til 18 stig, hlýj­ast á V-landi, en sval­ast á Aust­fjörðum.

Á föstu­dag:
Hæg breyti­leg átt og bjart með köfl­um A-til, en suðaust­an 5-10 og dá­lít­il væta V-lands. Hiti víða 10 til 16 stig.

Á laug­ar­dag:
Suðaust­an kaldi og rign­ing en yf­ir­leitt þurrt NA-lands. Held­ur sval­ara sunn­an- og vest­an­lands.

Á sunnu­dag:
Aust­læg átt, held­ur kóln­andi veður og víða rign­ing með köfl­um.

Á mánu­dag og þriðju­dag:
Útlit fyr­ir norðlæga átt með rign­ingu og svölu veðri fyr­ir norðan, en lengst af þurrt og milt syðra.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir